Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

föstudagur, október 31, 2003Furðulegt hvað allt fagfólk er alltaf upptekið.

Nú er svo komið að ég þarf að tala við sérfræðing í taugasjúkdómum. Auðvitað er löng bið í að hann hafi tíma handa mér því það er svo rosalega mikið að gera hjá öllum. En ég er hálffúl yfir því að ég komist ekki að hjá honum fyrr en eftir mánuð því ég er ekkert að leika mér að því að verða svona veik.

Ég hef ekki tíma í þetta bull, ég er að reka heimili með þrjú börn og er einnig að sjá um heilt hótel. Ég get ekkert verið að þessu veseni. Ég vil fá tíma núna og redda þessu sem snöggvast svo ég geti farið að gera eitthvað af viti. Það þarf ýmislegt að gera hérna heima eins og niðri á hóteli og það eru takmörk fyrir hvað ég get lagt á elskulegan mann minn. Því ég ætla mér að eiga hann alveg þangað til að ég verð 100 ára og því verð ég að spara hann.

fimmtudagur, október 30, 2003Mér þykir voðalega vænt um að horfa á bæinn minn þegar ég fer út að reykja. Það er rosalega fallegt, sérstaklega á kvöldin. En undanfarið fyllist ég sektarkennd í hvert einasta skipti sem ég horfi niður í bæ frá tröppunum mínum, því ég tek eftir því að bókasafnið er búið að opna aftur. Það var lokað í sumar vegna viðgerða á húsnæðinu en ég fékk þessa æðislegu hugmynd í fyrra að fá mér bókasafnskort, sem mér fannst að allar fyrirmyndarmæður ættu að gera. Sá ég fyrir mér löng og dimm vetrarkvöld þar sem ég og dætur mínar sætum makindarlega í rúminu mínu og læsum bækur til að auka orðaforða og lesskilning, sem og okkur til mikillar skemmtunar.

Ég fékk mér bókasafnskort og dætur mínar líka. Gerðum við okkur ferð niður í bókasafn til að taka bækur sem við völdum af mikilli kostgæfni. Við settumst einnig í rúmið mitt og lásum þær bækur sem við tókum, en einhvern veginn fórst það fyrir að skila blessuðum bókunum. Ég gæti svosem skilað bókunum. En þrjár af þeim fimm bókum sem við tókum eru týndar og ég þori ekki að skila hinum tveimur sem eftir eru. Ég veit ekki hver sektin er fyrir að skila ekki bókum og ég kvíði fyrir því að fá að vita hver sektin er ef liðið er ár. Því ef þetta er eitthvað líkt og videoleigan þá er ég gjaldþrota og húsið mitt verður tekið upp í skuldina.
Aumingja ég, aumingja aumingja ég.

Ég á svo bágt að ég er að deyja. Ég á meira að segja svo bágt að læknirinn vill ekki segja mér hvað er að. Ég fór semsagt til læknisins í morgun. Eftir langan tíma af prófum og prufum virðist sem svo að læknirinn hafi komist að einhverri niðurstöðu. En hann vill ekki segja mér hver hún er. Hann vill frekar senda mig bara suður í rannsóknir. Semsagt, meiri tími í meiri próf og fleiri prufur. Aumingja aumingja ég.

miðvikudagur, október 29, 2003Ég er að spá með þetta blessaða Hótel og mína þáttöku í því ævintýri.

Eigendur hf sögðust ætla koma núna um mánaðarmótin og byrja að laga, breyta og bæta en segjast núna ætla koma eftir hálfan mánuð. Svo er eins og einn þeirra sé ekki alveg að skilja að ég hafi áhuga á að gera þetta rétt. Ég er ekkert að skipta mér of mikið af samt. Ég var bara að benda honum á að húsið er það gamalt að við þurfum að fá leyfi hjá Húsafriðunarnefnd fyrir endurbótunum og viðgerðunum. Bara til að leyfa þeirri nefnd að halda að okkur sé ekki sama hvað þeim finnst. Því þá eru meiri líkur að við fáum samþykki og jafnvel styrk til endurbótanna og minni líkur á að þeir fari í fýlu og sekti okkur fyrir breytingarnar eftir að við erum búin að breyta. Og ef við viljum fá starfsleyfi fyrir þessu þá þarf að hafa ýmislegt í vissum skorðum. Ég hef lesið allskonar lög og reglugerðir um þetta því ég er nú eins og ég er. Ef ég á að gera eitthvað vil ég gera það rétt og eins vel og hægt er annars sleppi ég því. Og fyrst þeir voru nú búnir að biðja mig um að sjá um þetta Hótel læt ég það vera mitt mál ef þeir ætla ekki að hafa sama hátt á og ég.

Ég er ekki að tala um að þeir hlusti á mig eins og ég sé Guð heldur að þeir hlusti á mig því ég veit hvað ég er að segja. Eigendur hf vilja bæta við herbergi og glugga og einhvað meira og ég er í því að benda á lögin og reglugerðirnar. ? Ef við eigum að fá leyfi þá þarf þetta að vera svona eða hinsveginn? en það er ekki hlustað. Það er ekki heldur hlustað þegar ég byrja að tala um heilbrigðiseftirlitið, vinnumálaeftirlitið og brunavarnareftirlitið og þeirra reglur. Það eru ekkert svo mörg atriði sem þarf að laga í húsinu til að fá öll leyfi frá þeim. En ég gæti alveg eins verið að tala við vegg.

En smáatriði hjá okkur geta verið stórmál fyrir aðra!

Því er ég farin að velta því alvarlega fyrir mér hvort ég eigi að vera að taka þátt í þessu veseni yfir höfuð. Það er ekkert eins leiðinlegt og slítandi og þegar það er ekki tekið mark á því sem maður hefur fram að færa. Ég er ekki að nenna að vera einhver forvarnarfulltrúi fyrir menn sem eiga að vita hlutina sjálfir. Og ég hef fullt annað að gera en að vera að koma mér í sömu vandræðin aftur og aftur. Ég bjó með manni sem hlustaði aldrei á mig og ég fékk ógeð á því að vera að blaðra mig bláa.
Hversu latur getur maður verið?Ég átti að vekja afa og ömmu í morgun því afi var að fá sér nýja vekjaraklukku og er ekki alveg að kunna á hana eða treysta henni. Þannig að ég reis úr rekkju með hinum rétt um hálfátta, þau voru að vísu öll búin að klæða sig og byrjuð að borða því þau vöknuðu klukkan sjö. Það var tilbúið kaffi fyrir mig og ég sver það að Jónsa langaði til að opna útidýrnar fyrir mig þegar ég fór út í fyrstu sígóna.

Það var svo kalt úti að ég ákvað að starta bílnum og setja miðstöðina í botn svo allt væri nú tilbúið fyrir þessa löngu ökuferð til afa og ömmu. Og ég nennti ekki að fara að skafa af bílnum, það er miklu betra að láta allan snjóinn bráðna bara af.

Þegar heimilisfólkið svo yfirgaf mig og fóru í skólann laumaðist ég inn og hringdi í þau gömlu því ég nennti ekki af stað alveg strax. Þá var amma mín vöknuð og tilkynnti mér að þetta væri í lagi og ég þurfti ekkert að koma í dag. Að vísu sagði hún það eftir að ég minntist á túrverkina og bakið og hausinn og....

En þegar ég var búin að leysa mig undan þessum verkum fattaði ég að bíllinn var ennþá í gangi. Ég verð að viðurkenna að ég spáði í því hvort ég gæti ekki haft hann í gangi þangað til að Jónsi kæmi heim. En það er svo dýrt bensínið að ég hrökklaðist á endanum út sjálf. En rosalega var ég ekkert að nenna því.


Ég er eitthvað svo væmin þessa dagana að ef ég vissi ekki betur myndi ég halda að ég væri hin argasta kerling. Ég kenni Jónsa um þetta helvíti. Þegar við byrjuðum saman þá var ég ekki svona hræðilega mikil veimiltíta.

Ég fór út að reykja áðan og tók þá eftir hvað litli bærinn okkar er fallegur þegar það snjóar. Ójá, það er byrjað að snjóa hérna en það verður allt farið í fyrramálið. Það var svo stillt og fallegt að ég táraðist við horfa yfir bæinn og sjá hvernig snjókornin falla. Oj barasta

þriðjudagur, október 28, 2003
Í dag kom upp mjög furðulegt mál hér á heimilinu svo vægt sé til orða tekið.

Ég sat í mestu makindum með kaffi og sígó þegar það var hringt í mig og ég var spurð hvort húsið mitt væri til sölu. Ég fékk náttúrulega hland fyrir hjartað þar sem við erum ekkert á leiðinni að selja eða flytja. Og neitaði því nokkuð harðlega að það væri falt en spurði einnig hvaðan þessar upplýsingar kæmu eiginlega. Þá er húsið mitt auglýst til sölu á Netinu en ég fullvissaði manneskjuna um að svo væri hreint ekki.

Svo núna áðan settist ég út með kaffi og sígó eftir matinn. Þá gengu upp að mér tvær eldri konur, sem stunda það að ganga um bæinn til að vera upplýstar um öll helstu málin, og þær spurðu mig hvort húsið mitt væri til sölu. Það tók smá tíma fyrir mig að sannfæra þær um að ég væri hvorki að selja né flytja. En svo var komið að því að ég spurði þær hvaðan þær heyrðu þessa vitleysu. "Það er á Netinu," svöruðu þær galvaskar og þrömmuðu niður brekkuna. Eftir sat ég með hraðan hjartslátt og kaffibollinn var ekkert freistandi lengur og sígónni var hent í stampinn.

Ég fór inn og bað manninn minn að athuga þetta fyrst hann var að vafra um á Netinu. Eftir langa leit á öllum helstu fasteignasölunum fundum við enga fasteign til sölu í okkar "hverfi" og hvergi var húsið mitt að finna. Furðulegt.

Einnig má geta þess að mbl.is gerir ekki ráð fyrir austfjörðum í sínu leitarformi.
Við búum í gömlu, sætu, litlu timburhúsi og ég vil fara að dunda við að breyta, bæta og laga.

Það er til dæmis ekki vanþörf á að laga skólplagnirnar því klósettið er ennþá hálfstíflað. Og til lengdar er það ekkert gaman eða sniðugt að hafa það á tilfinningunni að maður sé að baða sig í klósettvatninu.
Einnig er eldhúsið farið að fara svolítið í taugarnar á mér því ég get ekki einu sinni skipt um skoðun þar. Þið getið þá ímyndað ykkur hvernig það er að elda með öll börnin hjá sér að hjálpa og fylgjast með.
Ég er kannski klikkuð en ég sver það að svefnherbergisgólfið okkar er farið að síga í miðjunni. Sem er ekki gott má að mínu mati. Ég býst orðið við því að hrynja niður í borðstofu í hvert skipti sem leikarnir hefjast í hjónarúminu. Eða fá karlinn, rúmið, náttborðin og tölvuna ofan á mig þegar ég sit við borðstofuborðið á kvöldin.
Svo er ég orðin svo gömul og slitin að ég get ekki gengið upp og niður þennan stiga meðan hann er svona brattur og þröngur. Það fer illa með hnén á mér og ég á ekki nógu gott með að stunda svona loftfimleika og jafnvægisæfingar. Það er ekkert gott að lenda á gólfinu fyrir neðan stigann allur í kleinu því hann er svo þröngur stiginn. Það er betra að geta dottið nokkurveginn beinn.

Ég geri mér alveg grein fyrir að svona viðgerðir og dútl kosta pening og það mikinn pening. En mér finnst kominn tími á þetta allt saman.
Og þó á ég eftir að segja ykkur frá því sem ég tel ekki til nauðsynjar!

mánudagur, október 27, 2003

Eins og þið hafið orðið vör við var ég að læra að setja myndir inn hjá mér. Einnig bætti ég við nokkrum linkum hér við hliðina. Þar fann ég flottar myndir og dúkkulísuleik og ljóð og álfa og allt sem mér finnst skemmtilegt. En mig langar svo að vita hvort það sé hægt að festa mynd á einn sérstakan stað á síðunni, svona eins og var gert við teljarann og allt það? Og ef það er hægt að gera það, hvernig fer maður þá að því?


Bare with me for a while...ég er að prófa. Ég er að spá í að lita á mér hárið og fór í svona tölvuprógramm til að sjá hvaða litur færi mér best...svona lít ég út með bleikt hár...nema ég á bleika inniskó ekki svona hvíta.
Og þar sem ég átti mikinn þátt í að hanna síðuna hennar Elsu ákvað ég að setja hana inn á linklistann minn. Takið eftir hvað þetta er falleg síða.
Ég sef mjög fast og það þarf ýmislegt að ganga á til að vekja mig. En í nótt kom það fyrir að ég hrökk upp því ég heyrði ógnvekjandi hljóð. Það er búið að vera skrítinn vindur hérna síðan við komum heim í gær. Það er eins og hann bíði einhvers staðar og safni orku og svo þegar hann er orðinn hættulega sterkur lætur hann vaða. Og á meðan hann er í felum er alveg dúnalogn. Og í nótt sem sagt náði hann að hrista húsið nógu mikið til að það brakaði í því öllu og svo datt eitthvað þungt. Ég hrökk upp og Jónsi fór að athuga hvað hefði dottið, þar sem ég sá að herbergið okkar var á sama stað og enginn veggur hrunin lagðist ég bara niður aftur og steinsofnaði. Jónsi gat ekki sagt mér hvað datt fyrr en í morgun.

sunnudagur, október 26, 2003

Ég er alltaf að gera mér betur grein fyrir því að ég fíla ekki breytingar sem eru ekki undir minni stjórn.

Þegar ég yfirgaf heimili mitt í gær var ég með þá kröfu að koma að því í sama ásigkomulagi. Að vísu tók ég ekki eftir breytingunni fyrr en ég fór út að reykja. Það er alveg jafnmikið drasl inni, en í gær var kassi fyrir utan útidyrnar, fullur af sorpi og sölnuðum laufblöðum. Þar sem þetta athvarf mitt og sígarettunnar er heilagt, eini staðurinn í heiminum þar sem við getum notið þess að vera saman bara tvær, varð ég brjáluð yfir að einhver hafði tekið kassann án þess að fá mitt leyfi. Eftir að í bræði minni sjatnaði gerði ég mér grein fyrir því að einhver hefur annaðhvort verið rosalega umhugað um bakið á mér og þetta athvarf mitt eða helvítis prakkarinn í hverfinu hefur ákveðið að gera mér hrekk eins og í sumar þegar hann tíndi allar klemmurnar af snúrunum daglega og skilaði þeim til mín.
Ég tók líka eitt svona próf, til að stæla Ragga aðeins. Og mér finnst útkoman hæfa mínu hugarfari í kvöld.....ef þið viljið getið þið prófað líka.

Find your inner Smurf!

Við vorum að koma frá Mývatni fyrir skömmu og það fyrsta sem ég geri er að kveikja á tölvunni. Ekki alveg ég lét stelpurnar læra fyrst og svo tannbursta og hátta svo fór ég í tölvuna. En samt ég er ekki einusinni búin að laga kaffi.....En ég verð að koma þessu frá mér því ég er að springa úr hamingju, þið sem fílið ekki væmni eru vinsamlegast beðin að koma bara aftur á morgun. Ég fæ svona köst annaðslagið og ég dauðskammast mín alltaf eftir á að hafa verið svona væmin en ég vil koma þessu frá mér "in public" því mér finnst þetta vera merki um að ég er að breytast úr Huldu Morthens í "the real me".

Það er eitthvað svo unaðslegt við það að vera með fjölskyldunni í bíl á leiðinni heim í ljósaskiptunum. Góð tónlistin ómaði, börnin hlógu, kallinn keyrði og ég horfði út um gluggann. Rosalega fann ég það vel hvað ég á gott líf og það þyrmdi yfir mig þakklætið.
Það er alls ekki sjálfgefið að eiga svona gott.
Ég er ekki að segja að við séum svo vellauðug að við vitum ekki aura okkar tal eða að við séum ein af fallega fólkinu (þó við séum með afbrigðum falleg fjölskylda) eða svo fjallhraust að Maggi Íþróttaálfur fölni í samanburðinum.
Ég er að reyna að koma því frá mér hvað það er gott að vera búin að finna sálufélagann/lífsförunaut/the one/eða hvað sem þið kallið það. Og finna að þú tilheyrir æðri tilgangi en að bara vera.

laugardagur, október 25, 2003

En ég og hele familien ætlum að bregða okkur norður í land yfir helgina. Okkur var nefnilega boðið í ammmmæli og maður neitar ekki þegar manni er boðið frítt að éta.
Þannig að ég vona að þið farið ekki í fýlu þó ég bloggi ekkert yfir helgina.
Yngsta dóttirin á heimilinu er á þeim aldri að það er voðalega gaman að fylgjast með henni, uppátæki hennar eru stundum ofsalega fyndin og stundum miður skemmtileg.

Það er t.d ekki fyndið eða skemmtilegt þegar henni þrýtur þolinmæðin. Þá er grátur og gnístran tanna.....í heila eilífð.

En þegar hún vill fara í föt og enginn hefur tíma á þeirri sekúndu sem hún þarf til að fara í fötin þá reddar hún sér sjálf með misjöfnum árangri þó. Eins og í morgun, þá vantaði hana hreinar nærbuxur og þar sem hún veit hvar þær eru geymdar og enginn hafði tíma þá varð hún bara að redda sér sjálf. Ekki nóg með að hún hafði þær ranghverfar heldur náði hún að snúa þeim öfugt líka. Og hljóp hér um allt með brókina á kafi uppi í rassinum en bara öðru megin.

föstudagur, október 24, 2003

Ég held að ég hafi lært það í dag að maður á ekki að vera í tölvunni langt fram á nætur. Ekki nóg með að ég hafi bullað heilan helling í nótt þá er ég búin að vera handónýt í allan dag. Það ætti að banna mér að fara í tölvuna eftir miðnætti. Því eins og mér fannst ég agalega klár í gær skoðaði ég afraksturinn í dag og ég dauðskammast mín að ekki varð meir úr verki á öllum þessum tíma sem ég sat í sæti tölvusnillingsins.

En ég fór til ömmu og afa í morgun til að hjálpa þeim að þrífa, þau eiga von á gestum um helgina. En ég held nú að hjálpa sé of sterkt að orði kveðið því amma hékk yfir handriðið og gólaði allt sitt röfl yfir alla sem gengu framhjá og var ekkert að taka til. Afi ákvað að flýja vettvanginn og skellti sér í búðarráp á Egilstöðum. Þannig að það var eiginlega bara ég sem var að taka til en ég varð ekkert fúl yfir því, því af gefinni reynslu flækjast þau nú bara fyrir mér og fyrir hvort öðru og bíða eftir að ég biðji þau um að fara bara í pásu. Það má þó ekki misskilja mig með að ég elski ekki þessi hrukkudýr því þau tvö eru með þeim manneskjum sem ég elska mest í heiminum. Það er eitthvað svo dúllulegt að vera búin að búa saman í hálfa öld og vera komin á það stig að röfla bara í hvort öðru yfir hvert þjóðfélagið sé að eiginlega að stefna.

Ég vona að ég og kallinn minn náum að verða svona.
Ég gat ekki annað en bloggað núna þar sem ég er stödd fyrir framan tölvuna. Er reyndar búin að vera í tölvunni í mestallt kvöld. Ég er svo mikill snillingur eins og mjög oft hefur komið fram. Ég verð bara að miðla af sjálfsdýrkuninni minni áður en ég spring úr stolti.

Vinkonu minni langar að byrja að blogga en kann ekkert á svona html dót. Þannig að ég tók völdin í mínar hendur og ákvað að hjálpa henni af stað, því eins og hefur verið staðfest oftar en einu sinni þá er það minn tilgangur í lífinu. Það er að segja að láta öðrum líða betur á einhvern hátt, aðrir mega finna sinn starfa í því að staðfesta alla skapaða hluti. Stend ég mig alltaf betur og betur í þessu guðdómlega hlutverki eftir að ég fattaði sjálf að þetta er mitt hlutskipti. En það fóru nú bara allmörg ár í það að ná því í gegnum kollinn á mér.

En að stolti mínu í kvöld. Eftir að ég fékk aðgang að síðunni hennar byrjaði ég að herma eftir því sem ég sá gert við mína síðu. Ekki svo að skilja að hennar síða sé enn ein léleg eftirprentunin af þessu templati því hún er með alveg gjörólíka síðu. Nema ég var ekki sátt við hvað uppsetningin var flókin hjá henni svo ég tók mér leyfi frá Bessa og breytti því í síðu sem eitthvað svipaði til uppsetningar á minni. En þá var ég ekki alveg sátt við litinn, það er eitthvað fráhrindandi við lit sem minnir mann á annað hvort framsóknarflokkinn eða vinstri græna. Af þessu má draga frekar þann dóm að ég er ekki hrifin af grænum lit heldur en að ég hafi verið að gefa í skyn stjórnmálaskoðanir mínar. Þannig að ég skipti um lit hjá henni líka og þó ég segi sjálf frá er verkið vel af hendi unnið miðað við það að ég hef ekki hugmynd hvaða html kóði er fyrir alla liti heimsins. Svo setti ég að sjálfsögðu hlekki, svo maður athugi sletturnar aðeins, yfir á mig og minn kall. Og er ég nokkuð stolt af afreki mínu sem mér finnst ég eiga allan heiðurinn því aðrir gáfust upp og fóru að sofa. Röflandi eitthvað um að ég ætti ekki að vaka yfir þessu í alla nótt.

Þannig að nú er hánótt og allir fjölskyldumeðlimir nema ég í fasta svefni. Og ég orðin svo þreytt að ég var alveg farin að fatta þetta forritunardót og skrifaði vinkonunni næstum emil með html kóða. Fyrir utan þá staðreynd að þessi skrif hér eiga ekki eftir að vekja mikinn skilning hjá flestum í fyrramálið.

En ef ég fer ekkert að sofa þá bæti ég tölvusnilld á listan yfir í hverju ég er snillingur.

fimmtudagur, október 23, 2003

Það er farið að fara svolítið í taugarnar á mér hvað blöðin koma seint hérna. Að ég tali nú ekki um þegar það er ekki flogið í nokkra daga og maður fær öll blöðin í einu. Þegar það skeður er maður búinn að horfa á fréttir og heyra í útvarpinu allt sem er merkilegt í þessum blöðum. Og til hvers er ég að gerast áskrifandi af blaði sem er hvort eð er útlistað í Íslandi í bítið?

Er réttlátt að ég sé að borga sama gjald fyrir blaðið hér og fólk er að borga fyrir það í Reykjavík?

Og meðan ég er að minnast á það þá erum við áskrifendur af Stöð 2 og Sýn. Það var klínt á okkur Bíórásinni fyrir einhvern smápening í viðbót á mánaðargjaldið. Það væri allt í lagi ef við gætum skipt yfir á þessa Bíórás hvenær sem við vildum. Það er nefnilega bara hægt að horfa á hana þegar dagskráin á Sýn er ekki byrjuð.

Semsagt ég get séð Bíórásina og Popptíví meðan ég les blaðið mitt á nóttunni í löngu tapaðri baráttu um að vera inn.

Það getur líka gert mig kolbrjálaða þegar það streyma hér inn gylliboð frá bönkunum, stílaður á börnin mín, með allskonar gjafir til að kaupa börnin okkar. Það er mjög auðvelt að heilaþvo börnin, sjáiði bara Latabæ sem er svosum ágætur heilaþvottur í sjálfu sér. Það færi ekki eins mikið í taugarnar á mér ef bankarnir myndu senda börnunum sparibauka.

En af hverju ætli fólk sem er búið að vera í viðskiptum við bankann í einhver ár fái ekki einhverjar gjafir líka?
"Ef þú ert í viðskiptum við okkur í 10 ár þá færðu penna merktan okkur."
Af hverju fær fólk sem er með allt sitt sparifé í einhverju tilteknum banka ekki frían sparibauk?
"Ef þú ert með meira en 30 milljónir á sparireikning hjá okkur í 10 ár þá færðu að gjöf forljótt risaseðlaveski merkt okkur."

miðvikudagur, október 22, 2003

Ég var eitthvað slöpp í dag, ég held að ég hafi tekið út áhrif sprautunnar sem sú yngsta fékk fyrir hana. Svona er ég nú góð móðir. Hún var rosalega góð hjá lækninum, hoppaði á einum fæti og hoppaði um allt á báðum, þóttist svo vera íþróttaálfurinn.
Mitt móðurhjarta fylltist að sjálfsögðu stolti og um leið fullvissu um að hún væri miklu duglegri en önnur börn á hennar aldri og þó eldri börn væru tekin með í reikninginn jafnvel. Hún taldi að vísu ekki upp í 21 fyrir þau en rosalega var gaman að sjá hvað barnið mitt er yndislegt.

En ég á þau þrjú og það er víst bannað að skilja útundan þannig að ég ætla aðeins að minnast á þær líka. Dagbjört er enn heima við með pestina og ég nennti ekki að leika við hana í morgun. En hún er ekki dóttir mömmu sinnar fyrir ekki neitt. Hún samdi við mig að ég fengi frið ef hún fengi naglalakk. Þar sem ég er ekki hlynnt því að leyfa þeim að leika lausum hala með skærbleikt naglalakk varð ég náttúrulega að sjá um fínheitin. Sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir að eftir handsnyrtinguna vildi hún líka fá hárgreiðslu og allan pakkann. Þannig að í staðinn fyrir að fá frið fékk ég tveggja tíma hlutverk sem snyrtifræðingur. Hún er svakalega snjöll, þetta elsta afkvæmi mitt. Og mitt litla hjarta fylltist stolti yfir þessari snilld hjá henni sem ég vil að sjálfsögðu eigna mér og góðu uppeldi.

Það leið ekki á löngu þar til miðjubarnið skilaði sér heim eftir skólann. Uppfull löngunar að miðla af sínum fróðleik um garð skólastjórans og allt sem í honum fannst um morguninn, það var víst einhver rannsóknarþema í bekknum hennar. Hún gaf sér engan tíma til að borða hádegismatinn fyrir blaðri og tók það mig fimmtán tilraunir til að fá hana til að rannsaka matinn. Þegar matartíminn var liðinn gerði ég aðra tilraun til að fá minn langþráða "frið" hérna á neðri hæðinni sem heppnaðist ekki betur en svo að hún vildi að sjálfsögðu fá naglalakk líka. Og reyndi ég aftur sömu brelluna að fá hana til að lofa að fara upp og gefa mér smá frið um leið og naglalakkið þornaði. Það var samþykkt. En ég gekk í aðra gildru, þannig er að ég á mikið úrval af naglalökkum, það tók tímann að velja......
Ég er rosalega þakklát fyrir góða vini núna.
Ég þurfti að yfirgefa heimilið í kvöld og hótelstjórast aðeins, akkúrat þegar börnin voru að tannbursta sig og hátta. Vinkona mín var svo óheppin að þiggja matarboð og var ekki farin heim þegar ég þurfti að skjótast þetta. Þar sem húsbóndinn var að heiman, varð ég að dömpa háttatímanum á hana og rauk út með það loforð á vörunum að ég kæmi að kyssa eftir smástund.

Eftir langar og órökræddar samræður við fólk, mismunandi á sig komið andlega, var ástandið orðið þannig að ég tók sénsinn að sumir myndu kunna sér hóf yfir blánóttina. Og hélt heim á leið, gjörsamlega búin á sálinni.

Á móti mér tók rólegt og afslappað andrúmsloft og börnin biðu spök eftir að mamma kæmi að kyssa góða nótt. Ég fylltist frið yfir því hversu heilbrigða fjölskyldu og góða og trausta vini ég á í dag.

Og ég þakkaði Guði fyrir að eina geðveilan á heimilinu mínu er í gangi þegar maðurinn minn vitnar í barnalög til að hafa málfræðireglur og stafsetningu á hreinu.

þriðjudagur, október 21, 2003

Það virtist valda misskilningi hjá sumum um daginn þegar ég talaði um að skipta við einhvern um líf tímabundið. Ég elska lífið mitt og ég er mjög hamingjusöm með allar ákvarðanir sem ég hef tekið varðandi það.
Ég sé reglulega hversu heppin ég er.

Eins og í dag fór ég til Egilstaða í verslunarferð. Mér leið svo vel aleinni á veginum í nýja jeppanum mínum. Vitandi það að ég mætti alveg eyða þeim peningum sem ég var með. Dáðist að útsýninu á leiðinni, sá frostið bókstaflega sleikja fjöllin. Og hugsaði allt upphátt til að halda mér félagskap.
Á leiðinni heim, eftir velheppnaðan verslunarleiðangurinn, söng ég hástöfum mér til mikillar skemmtunar.

Á svona dögum er ég alveg til í að eiga mitt líf sjálf en þegar allt hefur sinn vanagang dag eftir dag.....Þá er ég til í að einhver skipti við mig en bara til að fá smá tilbreytingu. En bara þegar það er orðið aðeins of tíðindalaust. Og það gerist ekki oft þegar það eru þrjú stykki af iðandi börnum.

Eins og ég segi þá elska ég lífið mitt.
Ég er að sjá að það hentar ekki mínu vaxtarlagi að vera lengi heima við. Þó ég sé í eðli mínu mjög svo heimakær persóna.

Ég hef verið heima í tvo daga með veikt barn og við erum búnar að gera allt sem hægt er að gera þegar maður er lasinn heima. Það er búið að lita á um 100 blöð og lita allaveganna eina blaðsíðu í allar litabækurnar á heimilinu. Videotækið er hætt að heilla þessa ungu snót og tölvuleikurinn er ekkert skemmtilegur lengur. Mér finnst ekkert gaman að henni leiðist svona, ég fæ á tilfinninguna að ég sé leiðinleg.

Kannski á morgun ef hún verður ennþá heima fer ég í Barbie með henni. Og nota mitt Barbiedót, mamma var svo indæl að koma með það til mín um daginn.

En ég er ekki til í að fara í annan mömmóleik fyrr en eftir 100 eilífðir....
Ég fékk algjört áfall áðan. Ég var fullkomlega með það á hreinu að það væri miðvikudagur. Og ég sem á að fara með þá yngstu í einhverjar sprautur og læti inni á Heilsugæslu.

Það tók mig nokkra djúpa andardrætti og huglæga slökun til að ég áttaði mig að það er bara þriðjudagur. Úff, sem betur fer, annars væri ég núna með samviskubit dauðans, því ég er alltaf að gleyma þessum sprautum. Ég er vanhæf móðir hvað þetta varðar.

En það er ekki kominn miðvikudagur svo ég hef ennþá möguleika á að muna þessar sprautur. En vegna þess að ég mundi þetta í dag á ég örugglega eftir að gleyma þessu á morgun.

mánudagur, október 20, 2003

Ég er búin að vera bíða eftir pakka frá mömmu minni í marga daga. Ég þori að veðja að maðurinn sem var fenginn til að ganga hingað austur með hann hefur drepist á leiðinni.
Svo finnst mér ekki rétt hjá mömmu að hafa látið mig vita af því að það væri pakki á leiðinni. Hún veit alveg hvað ég er forvitin og hversu erfitt mér þykir að bíða eftir einhverju.
Annars er ég að drepast úr leiðindum.
Ég var svo hryllilega skipulögð í gærkveldi áður en ég fór að sofa að það gekk allt snurðulaust fyrir sig í morgun. Sem í sjálfu sér er ekkert merkilegt nema fyrir þær sakir að það telst mjög til tíðinda á þessum vígstöðvum að geta tekið morguninn með ró og að allir fái sinn tíma til að undirbúa stríð dagsins. Ég tók til föt á alla fjölskylduna og fór í gegnum skólatöskuna hjá Kolbrúnu til að fylla á liti og svoleiðis. Mér finnst ekkert gaman lengur að stelpurnar líkist mér svona. Og alltaf sé ég betur hvað mamma mín gekk í gegnum með mig og dáist ég að því hvernig hún tók á málunum.
En rosalega hefndist mér fyrir að fara seint að sofa....ég ætlaði aldrei að vakna í morgun. Rúmið var alveg fullkomið, ekki of heitt og mátulega mjúkt. Myrkrið vann með rúminu, það gerði það meira heillandi að liggja áfram. Ég hélt að þegar aldurinn færi að leggjast svona á mann væri það einmitt öfugt, að ég myndi vakna fyrir allar aldir og mætti ekki drekka kaffi eftir klukkan 5 og svoleiðis en ooooneiiii. Ég er alltaf öðruvísi en allir í kringum mig, kaffi virðist hafa þveröfug áhrif á mig og ég gæti sofið í heila öld.
En svo ég snúi mér að öðru, þessi ákvörðun um að fara bara aftur að leggja mig í dag. Það var aldeilis sem það breyttist þegar sjúklingurinn minn reis úr rekkju og vildi fá að horfa á Mary Poppins. Ég var svosum alveg með varaáætlun......en að ég nenni að fara alla leið niður í kjallara til að róta í óhreinum þvotti er afar fjarstætt.

sunnudagur, október 19, 2003

Jæja, helgin bara formlega búin og ný vika að byrja. Ég þarf að vakna kl 6 í fyrramálið og gefa vinnuköllunum að éta áður en þeir fara að vinna. Ég var búin að skipuleggja allan morgundaginn, ég dáist oft af snilli minni í því að skipuleggja, en elsta dóttirin varð lasin um kvöldmatarleytið. Ég var furðu snögg að skipta um skipulag og ákvað að vera heima að prófa þessa margumræddu þvottavél mína. Ég hef nefnilega ekki prófað hana síðan hún náði sér eftir nærbuxurnar hans Jónsa. En þar sem allt húsið er orðið hreint ( afi og amma komu í heimsókn með fyrirvara í kvöld ) hef ég ekkert að gera á morgun. Ég er pottþétt á að stelpan verði í móki fram yfir hádegi, hún er svo lasin greyið. Þannig að valið stendur í raun á milli tveggja skipulaga, annars vegar að þvo þvottinn þannig að heimilisfólkið fari að fá hrein föt eða hinsvegar að leggja mig bara og slá þessu upp í kæruleysi. Æi, ég ákveð það á morgun, þetta er svo stór ákvörðun að ég ætla að sofa á henni.
Rosalega væri ég stundum til í að skipta við aðra um líf. Ekki að mér finnist ekki gaman að vera ég, það er æði. Ég held bara stundum að aðrir eigi betra líf, ekki eins litlaust. Til að mynda Kiddi bróðir, hann býr í útlöndum og gerir það sem hann langar til. Og Gunna frænka er líka í útlöndum, að læra það sem hún hefur áhuga á. En ég sit hér og veit ekkert hvað ég vil gera eða á hverju ég hef áhuga. Lifi bara einn dag í einu, að sinna þessum börnum mínum og kalli. Ég er samt ekkert að kvarta, tilgangur minn er að láta öðrum líða betur. Það er langt síðan ég fattaði það. En stundum get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvað ef ég hefði valið aðra leið en þá sem ég valdi?
Fólk er yndislegt stundum. Ég fór í morgun að gefa vinnuköllunum morgunmat eins og þeir báðu um í gær, voru að vísu svo vænir að leyfa mér að sofa til 8. Þannig að ég mætti galvösk og til í tuskið eða eins galvaskur og maður getur verið klukkan 8 á sunnudagsmorgni. Þegar ég gekk inn var hryllileg brennivínsstækja yfir öllu og ég loftaði út á meðan ég hellti upp á kaffi. Ég byrjaði að tína upp bjórdósir í tugatali og þetta minnti mig á gamla og vonda tíma er ég var í ruglinu. Þegar ég var búin að tína fram allskonar mjólkurvörur og brauð með tilheyrandi áleggstegundum og marmelaði settist ég niður og fékk mér kaffi og sígó. Og það var það eina sem gerðist í um tvo tíma.
Þar sem pirringurinn yfir aðkomunni og að hafa vaknað til einskis óx með hverri mínútunni samdi ég smá ræðu í kollinum á mér til að flytja um leið og útvaldnir áheyrendur færu á stjá. Nú var ég komin með nóg. Þeir fóru yfir strikið, með þessari framkomu við mig, sem er ekkert nema almennilegheitin, og ekki í fyrsta skiptið.
En eins og fram hefur komið, oftar en einu sinni á þessari síðu, er ég alger gunga. Ég vil ekki að fólk sé reitt við mig og hvað þá að ég fari að reita fólk til reiði. Þannig að skammarræða mín breyttist snögglega í vinsamleg tilmæli þegar forsprakkinn mætti til morgunverðar. En vopnin snerust allillilega í höndunum á mér og ég sat eins og lúpa undir skammaræðu frá honum.....
Ég röfla víst allt of mikið yfir hlutunum og er aldrei á staðnum til að redda þeim því sem þeim vantar.
En ég hef alltaf sagt að erótískt nudd er ekki innifalið í gistingunni.

laugardagur, október 18, 2003

Ég tók þá ákvörðun, þrátt fyrir vinsamleg tilmæli frá góðum konum, að fara ekki á fund í kvöld.
Ég á örugglega eftir að sjá eftir því á morgun eða hinn. Í staðinn ákváðum við að halda videokvöld handa börnunum.
Við erum ekki búin að vera dugleg með að verðlauna þær að undanförnu. Við fengum áhyggjur af því um daginn að vera að dekra þær. Það virðist oft skolast til hjá þeim af hverju við veitum þeim verðlaun. Þær eru haldnar þeirri rangtúlkun að það sé skylda okkar að verðlauna þær sama hvort þær séu duglegar eður ei. Þær eru farnar að stunda það að hlusta ekki á mig fyrr en ég er orðin hás og hálfheyrnarlaus af öskrunum í sjálfri mér. Ekki misskilja mig og hallast að því að ég sé sígargandi allan daginn, sú er ekki raunin. Ég reyni að biðja fallega fyrst svo er ég hvöss, þegar það dugar ekki fer ég að skipa fyrir og ef ég fæ engin viðbrögð þegar svo langt er komið þá byrja ég að hækka tóninn.
Allavega héldum við þetta videokvöld fyrir þær og keyptum við nammi og snakk til að narta í meðan spólan rúllaði í tækinu. Athyglin hjá þeim var af skornum skammti, ég held að þær hafi verið að horfa í 35 mínútur. Svo var farið að veltast í sófanum og vera fyrir hinum, nammið var ekki búið svo það var ekki skýringin. Ég er farin að hallast að því að það sé valið á myndinni, ég valdi "Shrek" á ensku (óvart). Það er langt síðan við sáum hana og mig langaði í eitt skipti að horfa á eitthvað annað en Öskubusku 2, sem by the way er viðbjóðsleg teiknimynd.
Það er laugardagur og ég stend frammi fyrir erfiðri ákvörðun. Á ég að fara á fund í kvöld eða ekki?
Ekki það að ég sé orðin eitthvað tæp, það er bara manneskja þarna sem ég á erfitt með að fronta. Þegar einhver er reiður út í mig verð ég algjör gunga og vil helst ekki vera í vegi þeirra manneskju. Ekki það að ég hafi gert þessari manneskju neitt, ég varð bara sár út í hana fyrir að blaðra um mín persónulegu mál í þessu stóra samfélagi sem við búum í. Já, við vorum nefnilega ágætis vinkonur þangað til að ég varð vör við að fullt af fólki, sem ég þekkti ekkert, vissi um öll mín mál, stór og smá. Og ég sagði öllum sem voru að spyrja mig út í þessi mál að hún ætti að læra að þegja.
Þannig að ég er að spá hvort ég eigi að fara á fund? Er máltækið, sá vægir sem vitið hefur, ekki í réttu samhengi í þessu máli?

fimmtudagur, október 16, 2003

Ég hef hann Ragga mág minn grunaðan um svindl! Það eru ekki svona margir sem skoða síðuna hans :( Ég þori að veðja að hann ýti bara á "refresh" takkann hjá sér svona 100 sinnum á dag og afgangurinn sé tengdó og ég. Svo er ég miklu duglegri að blogga en hann og þó ég segi sjálf frá er ég miklu skemmtilegri en hann. Hann er bara í skóla, hversu mikið getur verið að ske þar? Annað en ég, húsmóðirin, sem hef fullt að gera og fæ aldrei frið fyrir öllum þessum börnum sem mér tókst að hlaða niður.
Svo er það maðurinn minn sem þessa dagana kvartar mikið undan einhverri pest. Hann sagði mér að hann væri lasinn en ég hef hann líka grunaðan um svindl, ég fann nefnilega furðu efnislítinn hjúkkubúning í nærfataskúffunni.
Annars vil ég hrósa kunningjabloggara mínum, henni Beddu, fyrir allar myndirnar sem hún hleður á sína síðu. Mér finnst það með afbrigðum sniðugt og gefur miklu betri sýn á hvað hún er að ganga í gegnum dag frá degi. Hvernig fer maður annars að því að setja svona myndir inn á síðuna sína og hvar fær maður svona flottar myndir. Hún mætti samt vera duglegri að blogga því mér leiðist mjög oft....
Ég var að hlusta á útvarpið sem að væri ekkert merkilegt nema fyrir það að ég er svo afskiptasöm og hef skoðun á öllu. Þess vegna verð ég að koma þessu frá mér áður en ég spring.
Það eru allir vitlausir út í þessa Sif fyrir að hafa bannað rjúpnaveiðar og ég skil ekki af hverju. Rjúpur eru rjúpur hvort sem þær eru íslenskar eða grænlenskar, þær líta alveg eins út á disknum þegar sósan og kartöflurnar eru komnar á diskinn líka. Svo fer bragðið alveg eftir því hvort manneskjan kunni að elda eða ekki. Við getum í alvöru ekki sagt að mengunin á Grænlandi skemmi bragðið af henni. Og hún er skotin þar alveg eins og hér, með byssum. Hvað er þá málið í alvörunni? Er það ekki að afsökunin til að drepa eitthvað á undir högg að sækja fyrst rjúpuna á að friða? Jú, svei mér þá, þeir fóru að ofsækja gæsina áður en þessi Sif lauk máli sínu í pontunni á Alþingi. Ruku út í sveit að kaupa veiðileyfi fyrir hundruðir þúsunda til að skjóta virkilega bragðvont fiðurfé. Þannig að ég held að þetta sé frekar að vera með leyfi til að drepa heldur en að veiða í matinn, því gæs er ógeð og hana borðar enginn heilvita manneskja sjálfviljug.
En ef fólkið er að spá í jólamatinn þá vil ég koma því á framfæri að hreindýrakjöt er mjög bragðgott og enginn hefur bannað veiðar á þeim. En þau halda sig aðallega hér fyrir austan og þess vegna væri ekkert vitlaust fyrir menn í drápshugleiðingum að gera sér ferð og bóka gistingu hjá mér:)
Minnst á samviskubit....ég er í vinnunni. Ég á víst að vera að þrífa klósettin. En ég er að drepast úr leti og búin að sannfæra mig um að það megi bíða í smástund. Fólkið verður að vinna til 5.
Það var rosalega erfitt að fara á fætur klukkan 6 í morgun. Ég var næstum búin að reka kallinn af stað en svo áttaði ég mig á því að þetta er víst mitt starf en ekki hans. Hvernig stendur á því að ég virðist vera með þá ranghugmynd að ég eigi að þrífa heima hjá mér bara vegna þess að maðurinn er að vinna úti? Seinast þegar ég vissi þá var ég líka með vinnu utan heimilisins....
Samt fæ ég samviskubit yfir að vera ekki búin að þvo allt óhreina tauið, brjóta saman það hreina, ryksuga stofuna, skipta um á rúmunum og þrífa baðherbergið. Ég er farin að sjá að ég er full af kvenfyrirlitningu.....
Hvað er það annað?

miðvikudagur, október 15, 2003

Ég var ekki há í loftinu þegar ég byrjaði á vinnumarkaðnum. Aðeins 11 ára gömul var ég farin að fá föst vikulaun og borgaði ég minn skerf til heimilisins. Við skulum átta okkur á því þó ég sé ekkert gamalmenni þá voru tímarnir öðruvísi þegar ég var barn. Ég þurfti að vinna fyrir því sem mig langaði í og var mér kennt að virða gildi auranna minna. Þó þessi lærdómur hafi stundum farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér var ég lengi í viðskiptum við sama bankann, lagði inn launin mín og allan pening sem ég eignaðist á sama reikninginn árum saman.
Þessi nafnlausi banki kom ekki til móts við mínar þarfir þá loksins ég bað þá um aðstoð við skuldasúpuna mína. Ekki var hún talin nógu mikil vandræði þessi tæpa milljón sem ég var að streðast við að borga niður. Og þegar ég keypti mér hús vantaði mig 50 þúsund til að borga öll gjöld sem viðkomu sölunni. Ég bað þá aftur um að aðstoða mig í þessum banka, það var ekki hægt því ég var á einhverjum lista. Á þessum lista var fólk sem skuldaði upp fyrir haus og því fannst mér, skuldlausri manneskjunni, skrítið að vera enn talin ein af þessu fólki. Það skipti engum togum ég var á þessum lista og bankastjórinn fengi bágt fyrir ef hann lánaði mér. Það fauk svo í mig að ég ákvað að fara heim og hugsa áður en ég framkvæmdi eitthvað glæpsamlegt við þennan blessaða mann. Viku seinna fór ég aftur í þennan þjónustulipra banka og tilkynnti bankastjóranum að ég vildi loka öllum reikningum sem ég átti í þessum banka, líka orlofsreikningunum mínum. Hann hváði við og ég sagði eins og var, þegar ég hafði fengið í hendurnar allar mínar fúlgur gat ég ekki haldið aftur af mér. Kurteisin fauk út í veður og vind. Auðmýktin gufaði upp og fylltist ég einhverju óskiljanlegu stolti. Og með háum og stöðugum rómi tilkynnti ég mína afstöðu : ?ég hef verið í viðskiptum við ykkur í allt of langan tíma til að taka þátt í þessu kjaftæði og ætla mér að skipta um banka. Ég bað þig um að lána mér 50 þúsund um daginn og þú sagðir nei. Það var ekki eins og ég væri að biðja þig um annað eistað. Þú mátt eiga þennan 50 þúsundkall og bæði eistun, ég er farin annað með minn aur.? Ég gekk út með minn 20 þúsundkall og skildi vesalings manninn
eftir skilningslausan og með furðulega kippi í andlitinu
Ástæðan yfir því að ég deili þessu með ykkur er sú að ég er alltaf ánægð með þjónustuna í nýja bankanum mínum jafnvel þó ég eigi ekki eyri.
Ég hringdi sem sagt áðan og ætlaði að fá stöðuna á reikningnum mínum, það greip mig eitthvað bjartsýniskast, og það var að sjálfsögðu ekkert inni. Það er langt í mánaðarmótin og mig vantar pening til að komast í Bónus, ég kemst svosum alveg uppeftir en það væri svolítið hallærislegt að standa síðan og horfa á alla aðra versla. Nema hvað hún var svo skilningsrík sú sem ég talaði við að hún tók bara af þjónustureikningnum svo ég myndi nú ekki verða mér til skammar í mannamergðinni á Egilstöðum.

þriðjudagur, október 14, 2003

Ég tók ákvörðun í dag sem ég hef ekki áður haft kjark til að taka. Þannig er mál með vexti að Kiddi litli bróðir minn er hárgreiðsludama og hefur séð um allar ákvarðanatökur í sambandi við mitt hár síðan 1997. Þar áður var ég hryllingur. Hann hefur haft tagldirnar og höldin í þessum málum, semsagt hvernig ég er klippt og hvernig litt hárið er. Hann hefur nú flúið land og er staddur í baunalandi. Því miður treysti ég ekki neinum nema honum til að brillera með hárið á mér en nenni ekki að bíða lengur eftir að hann komi heim. Ég fór í búðina og keypti mér háralit og dreif mig heim. Það tók mig rúman hálftíma að maka þessum viðbjóð í hárið á mér en árangurinn er ásættanlegur. Kiddi minn, þetta var Viva Color nr 50, permanent farg. Alla vega þá er liturinn komin en slitnu endarnir eftir...og ég treysti mér ekki alveg í það vesen. Í gamla daga endaði ég með hanakamb eða alveg nauðasköllótt útaf því að ég náði aldrei beinni línu. Rosalega sakna ég Kidda litla bróður míns á svona stundum.
Mér þætti mjög vænt um að þið sem skoðið bloggið mitt mynduð kvitta í gestabókina mína. Það hefur komið mér þægilega á óvart hve margir hafa skoðað hjá mér. Ég þakka pent.

mánudagur, október 13, 2003

Ég hata það meira en hell it self þegar ég þarf að hringja í þjónustulínur og það er símsvari sem biður mig um að ýta á alla takkana á símanum áður en hann tilkynnir mér að ég þurfi að bíða, það séu allir uppteknir. Svo virðist eins og allir hafi bara skroppið í kaffi og ég bíð í fimmtíuog átta eilífðir þar til allt bakkelsið á kaffistofunni klárast til að fá að vita að ég átti að ýta á 3 en ekki 2. Þá byrjar önnur bið Dauðans og ég þrjóskast skjálfandi og titrandi við löngun mína til að skella á. Það virðast allir vera farnir í mat á hinum enda símalínunnar og ég berst við þrána að sprengja heimilissímann í loft upp. Þegar ég er loks farin að skilja út á hvað hryðjuverk og sjálfsmorðsárásirnar ganga er svarað. Brjálæðið sjatnar smátt og smátt meðan ég kynni mig kurteisislega og mig gagntekur þessi svakalega auðmýkt, mér finnst ég hafa truflað þennan mikilsmetna þjónustufulltrúa og fer að biðjast afsökunnar á frekjunni og yfirganginum í mér að nenna að bíða svona lengi, gleymi erindinu og þakka fyrir að hann/hún hafi svarað símtalinu og legg á hin rólegasta.
Það tekur mig svo alltaf smástund að átta mig á því að ég hafi engin svör fengið og þetta símtal, sem tók eina og hálfa mínútu, fór ekki sem skildi.

Það er ekki mér að kenna þó starfsfólk þjónustulínanna fari að hverfa sporlaust.

sunnudagur, október 12, 2003

Einu sinni þegar ég var einstæð móðir nældu öll börnin í þá verstu veiki sem hægt er að fá...ælupest. Mér finnst ógeðslegt að æla sjálf en þessa umræddu helgi voru semsagt öll börnin ælandi og spúandi en ekki ég. Það eina sem ég veit um að er ógeðslegra en að æla er þegar maður þarf að þrífa upp annara ælu. Svo er líka virkilega ógeðfellt að heyra til einhvers sem er að æla eða finna lyktina af annara ælu.
Sú helgi endaði þannig að öll börnin náðu sér á undraverðum tíma og endurheimtu alla heimsins orku en skildu mig eftir með þrefalda ógleði og uppköst sem minntu á Nornirnar frá Eastwick. Þessi helgi minnir óneitanlega á þessa helgi forðum fyrir utan gubb og ógeð. Í staðinn féll maðurinn fyrst með einhverjum óskiljanlegum verkjum og lífshættulegum líkamshita, svo fengu öll börnin að smakka á þessari veiki en allt slátrið sem þau átu á föstudaginn styrkti ónæmiskerfið hjá þeim svo þau lágu eiginlega ekkert. Og þegar allir virðast vera að jafna sig er ég skilin eftir með verki í hverjum einasta vef líkamans sem minna á sig við minnstu hreyfingu. Karlinn liggur að vísu enn og kvartar sáran. En þar sem ég er vön að standa þó móti blási 40 m/s kvarta ég ekki meðan hann þjáist og næ í vatnsglas og verkjapillur handa honum, passa að börnin séu ekki með læti svo hann nái að sofa.
Ekki það að ég ætli að fara í einhver æfisöguskrif hérna núna en ég hef átt heima á mörgum stöðum um mína æfi. Það sem ég var að spá í að deila með ykkur er minningar mínar um heila 37 fermetra kjallaraíbúð í Hafnarfirðinum. Það sem er svo sérstakt við þann stað fyrir utan stærðina var að þar bjó ég ein um stund með stelpunum mínum tveimur. Ég var einstæð móðir með tvö börn og ég var í skóla og átti ekki bót fyrir boruna á mér. Við áttum ekki nein húsgögn þannig að þau húsgögn sem ég var með til að byrja búskapinn voru í láni. Okkur leið öllum rosalega vel í litla hreiðrinu okkar og í minningunni var alltaf sól í Hafnarfirði þetta ár. En helsta og besta minningin frá að búa í svona þrengslum er hversu fljótur maður var að þrífa pleisið. Það var aldrei neitt mál að taka til. Tók í mesta lagi klukkutíma að ná öllum skít í burt.
Núna bý ég í 130 fermetrum rúmum, búin að bæta við mig einu barni og karli. Og þó lífið sé miklu auðveldara núna og okkur líði öllum afskaplega vel þá er alltaf drasl hjá mér, ég virðist hafa glatað þeim hæfileika að nenna að standa upp og byrja. Ég læt þetta alltaf vaxa mér í augum og sleppi því bara. Og svo er líka mjög oft vont veður hérna. Ég gruna veðurguðina um að vera í einhverju bandvitlausum gír, þetta er ekki Kína og það er ekki monsúntími.
Ég er farin að sjá að ég er mjög sérstök manneskja. Til að mynda hefur kaffidrykkja mín oft þau áhrif að ég verð alvega afskaplega syfjuð. Jaa, svona fyrstu fimmtán bollarnir á morgnana hafa allavega voða lítil örvandi áhrif. Annað dæmi um það hvað ég er einstök er að jafnvægisskyn mitt er ekki staðsett í innra eyranu á mér. Ég hef komist að því að síðan ég fór til tannlæknisins um daginn hefur mér farið mjög svo aftur í að ganga í beinni línu og að komast stórslysalaust upp og niður stiga. Það er svosum ekki við tannlækninn að sakast, hann var með sakleysis uppástungu um að gera við aftasta jaxlinn öðrumegin. En tönnin tók upp á því að mölvast í miðjum klíðum þannig að hana þurfti að taka með lítilsháttar skurðaðgerð. Og eftir að jaxlinn fór hef ég ekki haldið jafnvægi sem skildi og þar af leiðandi dreg ég þá ályktun að jafnvægisskyn mitt hafi verið staðsett einmitt þar.
Ég þekki marga sem virðast aldrei vera sáttir við það sem þeir hafa. Ein vinkona mín t.d. getur aldrei búið lengi í sama húsinu. Hún skoðar H&H og sér alltaf hryllinginn sem hún býr við og vill flytja í nýtt hús. Vitnar hún í þetta tímarit um stærð á svefnherbergjum og nýtingu plássins, auðvitað hljómar það alltaf henni í hag og ef maður vissi ekki betur myndi maður halda að hún byggi í torfkofa af lýsingu þáverandi húsnæðis.
Önnur vinkona mín er aldrei sátt við útlitið á sér. Hún virðist ekki geta sætt sig við það að hún er ekki Allie McBeal. Og í staðinn fyrir að setja raunhæft markmið sem tekur tillit til heilsunnar heldur hún áfram hlaupa og ganga á milljón, étur ekki neitt nema kanínufóður og kvartar svo undan því að fá svona hryllilega marbletti. Það finnst engum hún feit nema henni en hvað með ef hún væri feit? Hún væri samt sú sem hún er.
Allavega það sem ég sagt vildi var að ég virðist líka hafa eitt atriði sem ég get ekki sætt mig við. Hlutirnir geta aldrei gerst þegar ég vil að þeir gerist. Semsagt, ég þjáist af óþolinmæði og straxveiki. Og ég bókstaflega þjáist, fæ líkamlega verki og allt, ég gjörsamlega engist um eins og vængjalaus fluga á brennheitri eldavélahellu.
Ég er langverst um helgar því þá eru allir í fríi og geta ekkert gert af því sem ég er að biðja þau um að gera. Af hverju erum við með helgarnar aftur? Mér finnst þær ekkert eins merkilegar og forðum, helst bara tilgangslaus tímasóun.

laugardagur, október 11, 2003

Eins og fram hefur komið eru þrjú börn á heimilinu. Horfi ég aðdáunarfullum augum á þau á hverjum degi. Mér finnst þær miklu betri útgáfur af mér heldur en ég er. Þær eru sætari en ég og þær eru hlýðnari en ég var. Þær eru blessunarlega lausar við það að bera utan á sér genamengi föður síns og í fljótu bragði virðast þær vera eingetnar. En því oftar sem ég horfi á þær á kvöldin á meðan þær eru að hátta þá velti ég fyrir mér hvaðan í ósköpunum þessi kúlurass kemur.
Í matarboðinu í gær kom upp hugmynd um að ég ætti að skrifa krassandi sögur um gesti hótelsins. Til dæmis ef það koma tvær manneskjur af sitthvoru kyni og gista heila nótt og þar sem ég er ekki á staðnum til að fylgjast með hvort þau gisti í sama herbergi eða í sama rúmi. Og hvað fer fram á meðan eskfirðingar sofa á sínu græna? Ég er náttúrulega með mínar sorahugsanir þegar við kemur fólk sem skilið er eftir eftirlitslaust og upp hófust í gærkvöldi spunasögur og skemmtisögur sem allar gengu út frá því "hvað ef?" Var þetta hin mesta skemmtun og hlógum við mikið að ímyndunaraflinu. Þegar tveir eða fleiri eru samankomnir og sleppa ímyndunaraflinu lausu spinnast upp sögur sem ekki eru prenthæfar.
Það er furðulegt hvað vandamál leystast oft á ótrúlega fljótan og auðveldan hátt en gallinn er sá að klukkutíma seinna koma önnur vandamál upp. Við komumst í matarboðið í gær. Þannig að ég biðst afsökunar á að hafa blandað afturendanum mínum í málið. Þetta varð allt að hinni fínustu skemmtun en svo varð Jónsi greyið veikur. Þegar við komum heim vorum við barnlaus og ég sem ætlaði svo að tæla drenginn í eitthverja svefniherbergisglímu en svefnleysið varð ekki af sömu ástæðu og ég vildi. Hann var sjóðheitur og stynjandi en ekki af sömu ástæðu og ég vildi.
Svo í morgun þurfti ég að ná í börnin og sat í smástund undir skömmum frá ömmu minn. Gallinn við að vera úti á landi er sá að það lokar allt á föstudögum klukkan sex og ég gleymdi að fara eitthvað fyrir hana.
Við fórum í barnaafmæli í dag og sem betur fer var ég svo fyrirhyggjusöm að fara í dótabúðina í gær. Þetta var eins fínt og barnaafmæli getur orðið. Þegar heim kom mætti mér fárveikur, tapsár maður og ofvirkt barn. Ég veit ekki hvað hún fékk að borða á meðan ég var í burtu. Annars voru þau voða skrítin bæði tvö, ég lofaði að skilja þau ekki eftir ein aftur.
Á laugardögum er ég vön að fara á fundi en í kvöld kemst ég ekkert því börn og karl eru lasin og ég er búin að setja mig í Florence Nightingale búninginn.

föstudagur, október 10, 2003

Jæja, ég er búin að hlakka til að fara annað og borða barnlaus alla vikuna og nú er komið í ljós að barnapían ætlar að svíkja okkur. En það er allt í lagi, ég skil þau bara eftir ein heima með Cheerios. Það hefur gengið hjá öðrum og ætti að geta gengið hjá okkur. Neeei, ætli maður noti ekki æðruleysisbænina bara nokkrum sinnum næsta klukkutímann og andi djúpt. Getum líka horft á Simpsons með börnunum eins og öll önnur föstudagskvöld.....Gæðin liggja í tímanum sem við eyðum með börnunum:)
Mig langaði svosum ekkert út, ég man seinasta skipti sem við fórum eitthvað bara tvö (um verslunarmannahelgina) og það var ágætt. Það er ekkert svo langt síðan, það eru margir sem fara sjaldnar út barnlaus en við....MY ASSSSS
Rosalega er fólk forvitið. Ég er alltaf að fá fleiri og fleiri spurningar í sambandi við Hótelið. Ég er að spá í að koma næst með svar á þessa leið: "Komdu og gistu eina nótt og sjáðu sjálf(ur). Þegar þú snæðir morgunmatinn get ég spjallað við þig um hótelið, eigendur þess og hvað er á döfinni."
Annars var ég að spá í að setja skilti á sólpallinn: "Þessi fasteign er í eigu xxxxx og ykkur kemur ekkert meira við, nema þið komið með gott kauptilboð!"
Þið hafið kannski tekið eftir því að röflið mitt um að bæta og breyta síðunni minni hefur borið árangur? Ég kann meira að segja að bæta inn öðrum bloggurum. Ég þekki þessa Hrebbnu ekki neitt, en mér finnst hún ágæt. Hún er að læra úti í Ameríku og það er svona eiginlega það eina sem ég veit um hana.
Mig er farið að langa suður til höfuðborgarinnar. Það er kannski skrítið að heyra mig segja þetta, manneskjan sem flúði siðmenninguna. En ég þrái að komast á almennilegt kaffihús og skella mér í bíó. Ekki það að ég helli upp á eitthvað verra kaffi en þessi kaffihús....
Ég sé fyrir mér kósý lítið kaffihús, sætan þjón, gott kaffi og kökur og bakkelsi allskonar í massavís. Mig langar í almennilega gulrótarköku og súkkulaðiköku og horn með salati og crépes.
Mig langar að setjast niður og fá kaffið til mín, ekki þurfa að ná í það sjálf.
Það væri líka æðisleg tilbreyting að geta lesið blöðin daginn sem þau koma út ekki daginn eftir. Þá kannski myndi maður fá það á tilfinninguna að maður væri inni í málunum.
Fara í bíó og sjá myndina áður en hún er gefin út á video væri æðislega góð og kærkomin tilbreyting. Og sitja í almennilegum sal með almennilegum sætum og surround systemi. Með popp og kók í kjöltunni og gjörsamlega hverfa inn í stóra tjaldið.
Ég sé ekki tilgang í að fara á Egilsstaði til að sitja í pínulitlum sal á eldhúskolli, heyra allt í mono og vita að ég gæti bara verið heima í stofu hálfum mánuði seinna að horfa á sömu mynd.
Það er margt til í því sem Bedda segir um leikskólastarfsmenn, aðallega konurnar, en ég er farin að hallast að því að þetta eigi við um flest allt kvenfólk.
Ég þekki eina konu sem gengur um ljúgandi í sjálfa sig og aðra að henni líði alveg glimrandi vel. En þá koma spurningar sem brenna á vörum mér núna:
"Þegar manni líður svona ofsalega vel, er maður þá að velta því fyrir sér hvað aðrir gera og/eða gerðu fyrir mörgum mánuðum, jafnvel árum, síðan?"
"Og ef manni líður svona hryllilega vel er maður þá að tala illa um fólk sem gerði manni ekkert illt?"
"Og reynir maður vísvitandi að skemma fyrir fólki þegar maður er í svona líka prýðismálum sjálfur?"
Það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér en óheiðarlegi og baknag. Mannleg samskipti eru flókin og ég er farin að átta mig á því að það sem ég segi og geri hefur afleiðingar. Eftir að ég áttaði mig á því hef ég passað að gera og segja ekkert sem ég get ekki staðið við. Ég viðurkenni þegar ég hef sagt eitthvað ljótt eða gert eitthvað á hlut annara.
Ef einhver ein manneskja fer svo rosalega í taugarnar á mér að ég gjörsamlega fer yfir um á því. Þá er það oftast vegna þess að hún er að sýna einhvern skapgerðarbrest sem ég bý yfir líka og þoli ekki. Og akkúrat núna ÞOLI ÉG EKKI KVENFÓLK!!

fimmtudagur, október 09, 2003

Jæja, þá er þessi dagur loks að kveldi kominn. Ég er búin að bíða eftir þessu í allan dag, alveg frá því að ég vaknaði í morgun.
Þetta er búið að vera ágætur dagur, yfir heildina litið. Það meiddist enginn og kviknaði ekki í neinu.
Ég er búin að klifra marga stiga í dag. Tilfinningastigann, álagsstigann og stigann á Hótelinu svo nokkrir séu nefndir. Svona þrekraun tekur á en ég datt ekki í neinum þessara stiga. Og ég held að ég sé bara að verða syfjuð eftir allt þetta príl. Ætla að fara í bað og arka svo upp síðasta stigann og upp í rúmið okkar. Og reyna að sofa í hundrað ár, þannig að ef ég skrifa ekki á morgun bið ég bara að heilsa ykkur í bili.
Ég er búin að röfla og röfla í þeim Eigendum hf. að fara að koma og laga húsið, búin að suða og suða í þeim um hvernig ég vil að þeir lagi húsið. Ég hef talað mig bláa um hvað þarf að gera í sambandi við rekstur á húsinu og ég hef orðið súrefnislaus á að bíða, svona röflandi og suðandi.
Ég fór til Sýslumanns um daginn og forvitnaðist um svona leyfi sem maður þarf víst að hafa. Og hún sem ég talaði við var voða elskuleg og gaf mér næstum klukkutíma kennslu um hvað þarf að hafa á hreinu þegar maður tekur við svona hóteli. Öll lög og allar reglur sem þarf að hafa á hreinu í þessum málum.
Svo talaði ég við Eigendurna hf, þeir hafa enga hugmynd um hvernig þeir vilja hafa þetta allt saman á hreinu. Þeir vita ekkert í sinn haus þessir karlar. Þeir eru ekki einusinni vissir um hvað þeir vilja með þetta hús.
Svo fór ég í morgun og talaði við bankann minn um hvernig þeir væru til í að hjálpa mér að hafa þetta allt á hreinu.
Þá kom í ljós að ég þarf að ákveða sjálf hvernig ég vil hafa mitt á hreinu. Og til hverra ég get leitað til að vita hver er besta leiðin fyrir mig.
Þannig að ég þarf að setjast niður með manninnum og Eigendum hf og vera með frekju eina ferðina enn.
En þá erum við aftur komin á þann punkt sem við vorum á í seinasta mánuði. Þar sem ég mun sitja blá í framan röflandi og suðandi um hvað ég vil gera í þessu máli og hvernig.
Þær upplýsingar sem ég hef fengið undanfarið eru alltof flóknar fyrir litla, sæta hausinn minn. Þannig að ég er að spá í að fara á ráðstefnu fyrir konur með rekstur.

miðvikudagur, október 08, 2003

Ég er komin með áhyggjur af því hvort sú yngsta sé heyrnalaus, hún talar stundum svo hátt. Það er eins og hún sé að tala við einhvern hinumegin við fjörðinn. Og verður svo geðveikt sár ef maður svarar í sama raddstyrk. "Ekki öskra á mig, mamma!"
Nema hún haldi að ég sé heyrnalaus.
Allavega, ég er búin að vera geðveikt dugleg í dag. Mér tókst að klára allt sem ég ætlaði mér og fór því snemma heim. Mér fannst ég eiga það skilið að fá að leggja mig en þeirri yngstu fannst það ekki. Hún var ekkert í kúristuði, var út um allt rúm og sakaði mig um að vera að kremja hana. En eins og venjulega kom Jónsi eins og hetjan sem hann er. Arkaði upp brekkuna og tók málin í sínar hendur.....ég held að ég nuddi hann bara í kvöld og uppfylli kröfur góðrar unnustu.
En núna ætla ég að fá mér kaffi og sígó.
Ég er loksins farin að sjá árangur á skipulaginu mínu um þrifin á Hótelinu. Jei!!Ég er farin að sjá fyrir endann á allsherjarhreingerningunni enda er ég búin að vera hér næstum á hverjum degi í heilan mánuð. Eftir að ég fékk réttu efnin var þetta aðeins léttara. Mr. Propper var ekkert að vinna með mér í þessu þannig að ég fékk mér iðnaðarsápur. Og strákarnir eru loksins að fatta að ég hef rétt fyrir mér með þessa hluti hérna þannig að ég er í mjög góðu skapi. Ég held ég fari bara núna og tek skítinn á baðherbergjunum í karphúsið.

þriðjudagur, október 07, 2003

Ég og maðurinn minn áttum æðislegt samtal áðan, við vorum að tala um þessa pistla okkar en það mátti alveg misskilja orðaskiptin.
"Ég er stundum með áhyggjur af því að ég sé með hann of langan"
....ég hef aldrei kvartað undan því.
Mér finnst að ég eigi skilið að vinna í Víkingalottóinu á morgun. Ég myndi ekki eyða því í neina vitleysu eða neitt svoleiðis. Ég mætti að vísu ekki láta neinn vita af því. Það mundu allir vilja fá eitthvern pening hjá mér.
Ég er ekki rík núna en mamma á afmæli í þessum mánuði og hún er 45 ára, hún bað mig um 45 þúsund um daginn í afmælisgjöf. Afsakaði sig svo þegar hún heyrði mig taka andköf og sagðist hafa meint 5 þúsund......Ég held að henni hafi verið fúlasta alvara með þessu. Ég held líka að hún sé leyni-japani, hún ætlast til að ég nenni að sjá um hana þegar hún verður gömul. Glætan! Það er ekkert svo langt þangað til að hún verði gömul og ég er enn að hlaða niður börnum og hef engan tíma í röflandi gamalmenni.
Allavega ef ég myndi vinna þá er ég alveg búin að ákveða hvað ég myndi kaupa. Ég myndi kaupa mér eyju í Miðjarðarhafinu (þar er heitt) og nokkra þjóna frá Asíu (þau eru duglegasta fólkið) og svo myndi ég kaupa mér flugvél (svo ég gæti farið á eyjuna þegar mér langaði til) og g-streng með tígrismynstri fyrir Jónsa og hengirúm fyrir mig. Og svo þyrfti ég verði vopnaða byssum því mamma myndi elta mig í göngugrindinni með fölsku tennurnar í glasi og Sorbitól í veskinu.
Mig langar að deila visku minni; vissuð þið að Norðmenn eru búnir að stunda það frá 13. öld að stela fiski frá okkur?
Ég var að hlusta á einhvern útvarpsþátt um daginn þar sem einhver var að tala um landhelgismálin. Norðmenn vilja ekki leyfa okkur að veiða einhvern fisk sem heldur sig einhversstaðar út fyrir landhelgi. Af hverju eru það alltaf Norðmenn sem eru að böggast í okkur þegar kemur að fiski?
Svona er ég nú hugsandi manneskja:)
Hæhæ.
Ég er búin að standa í ströngu í morgun skal ég láta ykkur vita! Búin að vera ofsalega dugleg. Ég skemmdi 2 pönnur með þessu geðveika efni sem ég fékk til að þrífa þær. Ég held samt að það hafi ekki verið mér að kenna sko.
Skrifaði kvörtunarbréf til RÚV og hringdi út um allar trissur.
Maðurinn minn er algjört krútt, hann ætlaði að koma að hjálpa mér að þrífa. En fyrst ég var heima var engin þörf á því. Hann kom samt snemma heim. Hann skreið upp í rúm og lagði sig. Ég er búin að finna enn eitt sem við eigum sameiginlegt. Við getum bæði sannfærst um að við erum voða duglegt fólk og eigum skilið að leggja okkur aðeins pínustund. En ég ætla ekki að leggja mig núna, ég er í stuði til að gera eitthvað voða mikið.

mánudagur, október 06, 2003

Góðan daginn.
Eru Glæstar vonir, á stöð 2, kennslugögn í siðfræði? Svona til að sýna hvað á ekki að gera og hvernig á ekki að gera það?
Ég eyddi næstum heilum vetri í að horfa á þennan þátt með konum hér í bæ og ég var sannfærð um að ég hefði ekkert betra að gera.
Á endanum gerði ég mér grein fyrir því að því lengur sem maður horfir því sjúkari verður maður. Núna horfi ég bara annað slagið á þessa vitleysu.
Ég er vön að leggja mig hvenær sem tækifæri gefst og morgnarnir eru sæla, ef ég þarf ekki að þrífa einhversstaðar. Nema í morgun ákvað ég að breyta aðeins til og horfa á sjónvarpið.
Hver er þessi nýja stelpa í morgunsjónvarpinu og af hverju segir hún ekkert? Er þessi dökkhærða hætt? Af hverju eru þið á Stöð 2 alltaf að skipta út fólki? Er gaurinn at arna svona leiðinlegur að allir yfirgefa hann? Af hverju er aldrei neinn stöðugleiki þegar um sjónvarp er að ræða? Hvurs eigum við, fólk sem líkar ekki breytingar, eiginlega að gjalda?
Þegar ég fékk engin svör varð ég reið út í sjálfa mig. Sjónvörp hafa ekki eyru og því er alveg sama þó ég röfli mig í hel, dagskráin breytist ekkert. Þetta var svona í fyrravetur líka, það var alveg sama hvað ég röflaði......
"Nei, Brooke, láttu manninn í friði."
"Þú ert ekkert skárri en hún; giftist inn í fjölskylduna vegna peninganna, Brooke"
"Leyfðu manninum að fara, Brooke."
"Brooke, hann er með Taylor núna, sættu þig við það."
"Æi Brooke, þú fékkst þitt tækifæri en klúðraðir því."

En þessi Brooke hélt sínu striki og braut hverja siðaregluna á fætur annarri. Og það var orðið sama í hvaða landi siðareglan var í gildi. Þannig að ég gafst upp á að tala fyrir daufum eyrum og hætti að horfa á þetta rugl. Í morgun gerði ég góða tilraun til að horfa en hún er enn að, þessi Brooke. Þetta er skaðræðiskvendi sem hefur enga siðferðiskennd.
Og ég slökkti á tækinu.

sunnudagur, október 05, 2003

Rosalega er gaman að þið skulið skoða síðuna mína. Nú verð ég að fara að vanda mig með stafsetninguna og sletta minna...það eru víst nokkur gamalmenni líka að skoða hjá mér. Það er kraftaverk að þau kunni á tölvu en skilji ekki ensku!
Ég man þá tíð þegar veðurguðirnir voru sammála um uppskriftina. Ég man enn hvernig hún var og mig minnir að hún hafi hentað öllum vel.
Hún er svohljóðandi:
Einn og hálfur mánuður af hlýju sumri með stöku rigningu, einn mánuður af hægt kólnandi hausti með slatta af rigningu, átta mánuðir af vetri með einstaka hríð og einn og hálfur mánuður af hægt hlýnandi vori með smávott af hreti.

Þeir eru ekki búnir að vera sammála í nokkurn tíma. Það var ekki snjór til að fara á skíði seinasta vetur, það var þoka og rigning í mest allt sumar og núna ætla þeir ekki að ákveða hvort það eigi að vera vetur, vor, sumar eða haust.
Seinustu vikur hafa verið annað hvort hitabylgjur eða slydda.

Þetta er farið að plaga geðheilsuna hjá mér lítillega....Ég er farin að endurskoða ákvörðun mína um pilluát.
Þeir selja enn Prozac, er það ekki?
Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég átta mig á því að fólk er ekki allt eins fullkomið og ég. Ég er góð manneskja og set sjálfri mér viss mörk sem ég fer ekki yfir.
Ég kem fram við flesta einsog ég vil að sé komið fram við mig.
Ég er kurteis og alla jafna hin prúðasta kona. Það þarf mikið til að ég útiloki fólk og þarf mikið að hafa gengið á. Ég hef unnið með gamalmennum og fötluðum og gekk það áfallalaust af minni hálfu. Ég er fljót að fyrirgefa ef upp á vinskapinn slettist og á tiltölulega auðvelt með að biðjast fyrirgefningar sjálf ef sökin er mín. Ég viðurkenni mistök sem ég geri og biðst afsökunar ef ég hef sært einhvern. Ég hef ekki lagt álög á fólk né belju þess og ágirnist ekki asna þeirra. Ég vildi samt að ég ætti jafn mikinn pening og Bill Gates...eða bara 5% af þeim.
Ég virði eigur annarra og einkalíf.
Ég geng til dæmis ekki um og rispa lakkið á nýja bílnum nágrannans. Eða týni blómin úr beðum verðlaunagarða....lengur. Ekki geng ég með spreybrúsa í vasanum til að merkja mér alla skapaða hluti með einhverju óskiljanlegu letri. Aldrei myndi mér detta í hug að rífa grindverkið í næsta garði niður og skella því í arininn bara vegna þess að mig vantar eldivið....sama hversu ljótt grindverkið er.
Og ég er hætt að velta fyrir mér hver er að sofa hjá hverjum, hvenær, hvar og í hvaða stellingum....svo lengi sem það er ekki ég eða maðurinn minn.
Hvað þá að ég sé að fara í fýlu út í einhvern fyrir að segja eitthvað við einhvern úti í bæ einhvern tíma. Eða að tala um hvað einhver er að gera einhvers staðar úti í bæ með einhverjum sem er ekki á staðnum til að leiðrétta. Það er mikill munur á heiðarleika og kjaftagangi nefnilega. Heiðarleiki er að segja hvað þér finnst þegar þú ert spurð(ur) álits en ef þú ert alltaf að segja þitt álit á öllu þá ertu bara kjaftaskur!
Sem sagt eins og ég sagði er ég góð manneskja þegar á heildina er litið. Ég viðurkenni með stolti að ég á mína galla, enda eru fallegustu málverk heimsins aldrei alveg fullkomin....

föstudagur, október 03, 2003

Jæja, ég er loksins búin að fá einhvern til að aðstoða mig við að fá svona drasl á síðuna mína. Raggi ætlar að hjálpa mér en það tekur örugglega einhvern tíma.
Þannig að mamma og tengdó geta loksins farið að skamma mig fyrir bullið í mér. Og er ég búin að bíða eftir því jafn lengi og þær:)

Annars hef ég ekkert merkilegt að segja, ég er ennþá að drepast eftir tannlæknaheimsóknina mína í gær. Borgaði fúlgur fjár fyrir að láta meiða mig og enn meiri aur til að leysa út sýklalyf svo það kæmi ekki sýking í þetta allt saman.
En þetta ýtir bara undir betri tannhirðu barnanna. Svo það er fínt að vera lifandi forvarnir...það er svo margt sem maður passar upp á hjá þeim eftir að reka sig á sjálfur...

fimmtudagur, október 02, 2003

Aaarrrg!!! Þessi dagur er rangur dagur!
Ég hef verið að skoða önnur blogg og mig langar í svona dót á síðuna mína:(
Svona gestabók og teljara og tagboard and shit.

Maðurinn minn gefur sér ekki tíma í að gera þetta fyrir mig. Það er víst svo mikið að gera við að forrita þessi blessuðu börn.

Mamma mín er farin af landi brott. Hún getur verið að þvælast út til Kóngsins Köben til að hitta litla prinsinn sinn sem er að vísu yfir 190 sm. en er samt litli bróðir minn!
En að koma og sjá aðdáunarverðan frumburðinn sinn er einhvern veginn ekkert merkilegt í hennar augum.

Þetta er búið að vera svona síðan hann fæddist. Ég lærði að skrifa nafnið mitt en það var miklu merkilegra að hann brosti og var sætur.
Hann er ennþá voða góður í því, og gerir ekkert mikið meir en akkúrat það!

Hann er einsog fólkið í kvikmyndunum, vaknar fallegur og hárið ekkert úfið og húðin gjörsamlega gallalaus og hann fær aldrei bólur.
Þegar hann fer í ljós eða ber á sig brúnkukrem verður hann aldrei skellóttur eða misbrúnn. Hann getur farið í hvaða föt sem er (svo lengi sem þau fást í dýrum búðum) og litið betur út í þeim en módelið sem sýndi fötin fyrst.
Allir vinir hans eru fallegir líka og hann umgengst bara fegurðardrottningar.

En nóg um hann, það er víst nógu mikið um Kiddadýrkun í heiminum, ég kom heim í morgun og ætlaði að leggja mig. En aldeilis að það sprakk framan í mig.
Það koma voða fáir að heimsækja mig og ég fer enn sjaldnar í heimsóknir til fólks, en í morgun datt öllum í hug að annað hvort hringja eða koma við. Og húsið í rúst og allt í drasli.

Og þá erum við komin aftur að því af hverju ég er svona ósátt við að mamma mín komi ekki til mín. Þegar ég á von á henni í heimsókn fæ ég ósjálfrátt orkuskot í rassinn og er enga stund að þrífa allt á mettíma. Og nú vantar mig svona orkuskot og hún fer af landinu!
Ég hef reynt að blekkja sjálfa mig og telja mér trú um að hún sé á leiðinni en fatta alltaf blekkinguna þegar ég stend upp og geng í áttina að ryksugunni.

Svo er ég líka með bólu í eyranu sem ég næ ekki til sjálf og vantar mömmu mína til að taka hana.
Það er ekki beint hlutur sem ég vil biðja manninn minn um að gera.
Það er svo mikið að gera þegar allir eru komnir heim að eini tíminn sem mundi henta í svoleiðis ógeð væri seint á kvöldin.
Og þá er hann oftar en ekki í rómantískum hugleiðingum og byrjaður á einhverri tælingaraðferð sem hann er búinn að vera að skipuleggja yfir allan daginn.
Semsagt það sem ég vil ekki gera er að vera komin upp í rúm og slíta kossi með orðunum: "Hér er bómull og spritt, elskan, ertu til í að kreista bóluna mína?"

Hann myndi samt örugglega halda að ég væri með "dirtytalk" og hallast að þeirri hugmynd að nú væri ég búin að skipuleggja heita og sveitta leiki sem endast myndu alla nóttina.

miðvikudagur, október 01, 2003

Mér er alltaf hent út að reykja, sem er alveg sjálfsagt þar sem ég er eina manneskjan í fjölskyldunni sem hefur þennan illa lyktandi ósið. Og ég er með smá áhyggjur af því að lyktin festist í fötum barnanna. Að ég tali ekki um hvað þetta ógeð festist á veggjunum.
Og ég hef oft dásamað útsýnið af tröppunum okkar, aðallega þó þegar ég staulast út eldsnemma á morgnana til að fá mér fyrsta kaffibollann og sígó. Þá er fallegt að horfa á Hólmatindinn bleikan af morgunsólinni niður í hlíðar og skuggar fjallanna hérna megin falla upp í hann miðjan.
En í kvöld varð ég agndofa þó ekki í fyrsta skipti. Það er alveg heiðskírt, stjörnubjart og norðurljósin loga fjallanna á milli. Þetta er ekki hægt að sjá almennilega í siðmenningunni vegna götuljósanna. En hér er þetta stórkostleg sýn.
Furðulegur þessi heimur. Maður gerir sér svo mikið grein fyrir hvað maður er lítill í miðjunni á öllum þessum svakalega geimi. Og um leið þakklátur fyrir að skipta einhvern máli.

Svo spillir ekki fyrir að það læðist aftan að manni sætur karl og knúsar mann.
Hana nú! Hversu slæmt er sambandið orðið ef maðurinn er farinn að ritskoða bloggið manns? Er kannski kominn tími á að við förum að tala saman? Ónei :/

Allavega, hann vill meina að ég hafi átt að skrifa að ég væri jafn full hræsni og Kaninn. Það er víst munur á hræsni og hroka. Mér finnst þetta bæði jafn slæmt.
Ég á í stríði við óhreinindi!
Ég er álíka hrokafull og Kaninn, það er nefnilega ekkert voða hreint hérna heima en ræðst með efnavopnum á skít og óhreinindi annars staðar. Ég sem sagt kom mér í samband við vopnasölumann sem er þekktur fyrir bestu efnavopnin og sagði skítnum stríð á hendur.
Innrásin hófst í morgun og ég varpaði sprengjum um allt eldhúsið. Þar sem ég er vön stríðsrekstri og andstæðingur minn heldur sig alltaf á svipuðum slóðum, fór ég að rífa húsgögnin úr sínum heimahögum og laumast bak við, undir og ofan á þessar skotgrafir.
Bak við eina skotgröfina rakst ég á nokkuð sem ég átti erfitt með að sætta mig við...Það var svo illa gengið frá einum veggnum að hann var galopinn. Sem sagt ég get núna sagt til um hvaða viður var notaður fyrir 100 árum til að byggja hús. Ljótur og skítugur viður.
Nema inni í þessum vegg voru aðalhöfuðstöðvar andstæðingsins. Ég tók úðabrúsa og úðaði og úðaði inn í gatið....tók síðan tusku og ætlaði að þurrka þennan skít út en rakst þá á 2ja lítra gosflösku. Það var eitthvað inni í henni og ég dró flöskuna út á gólfið og sá þá að það var rottueitur í botninum og það var búið að narta í það!
Ég samdi um vopnahlé og fór að gera eitthvað annað.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég er að spá af einhverri alvöru að gefast upp. Þetta er einfaldlega of mikið fyrir mig. En ég er ekki hætt að þrífa þarna en ég mun ekki koma nálægt þessum hluta eldhússins fyrr en smiður kemur að laga þetta fyrir mig. Héðan í frá mun hinn endi eldhússins vera í uppáhaldi hjá mér ef ég mun þurfa að dveljast þar.