Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, október 15, 2003

Ég var ekki há í loftinu þegar ég byrjaði á vinnumarkaðnum. Aðeins 11 ára gömul var ég farin að fá föst vikulaun og borgaði ég minn skerf til heimilisins. Við skulum átta okkur á því þó ég sé ekkert gamalmenni þá voru tímarnir öðruvísi þegar ég var barn. Ég þurfti að vinna fyrir því sem mig langaði í og var mér kennt að virða gildi auranna minna. Þó þessi lærdómur hafi stundum farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér var ég lengi í viðskiptum við sama bankann, lagði inn launin mín og allan pening sem ég eignaðist á sama reikninginn árum saman.
Þessi nafnlausi banki kom ekki til móts við mínar þarfir þá loksins ég bað þá um aðstoð við skuldasúpuna mína. Ekki var hún talin nógu mikil vandræði þessi tæpa milljón sem ég var að streðast við að borga niður. Og þegar ég keypti mér hús vantaði mig 50 þúsund til að borga öll gjöld sem viðkomu sölunni. Ég bað þá aftur um að aðstoða mig í þessum banka, það var ekki hægt því ég var á einhverjum lista. Á þessum lista var fólk sem skuldaði upp fyrir haus og því fannst mér, skuldlausri manneskjunni, skrítið að vera enn talin ein af þessu fólki. Það skipti engum togum ég var á þessum lista og bankastjórinn fengi bágt fyrir ef hann lánaði mér. Það fauk svo í mig að ég ákvað að fara heim og hugsa áður en ég framkvæmdi eitthvað glæpsamlegt við þennan blessaða mann. Viku seinna fór ég aftur í þennan þjónustulipra banka og tilkynnti bankastjóranum að ég vildi loka öllum reikningum sem ég átti í þessum banka, líka orlofsreikningunum mínum. Hann hváði við og ég sagði eins og var, þegar ég hafði fengið í hendurnar allar mínar fúlgur gat ég ekki haldið aftur af mér. Kurteisin fauk út í veður og vind. Auðmýktin gufaði upp og fylltist ég einhverju óskiljanlegu stolti. Og með háum og stöðugum rómi tilkynnti ég mína afstöðu : ?ég hef verið í viðskiptum við ykkur í allt of langan tíma til að taka þátt í þessu kjaftæði og ætla mér að skipta um banka. Ég bað þig um að lána mér 50 þúsund um daginn og þú sagðir nei. Það var ekki eins og ég væri að biðja þig um annað eistað. Þú mátt eiga þennan 50 þúsundkall og bæði eistun, ég er farin annað með minn aur.? Ég gekk út með minn 20 þúsundkall og skildi vesalings manninn
eftir skilningslausan og með furðulega kippi í andlitinu
Ástæðan yfir því að ég deili þessu með ykkur er sú að ég er alltaf ánægð með þjónustuna í nýja bankanum mínum jafnvel þó ég eigi ekki eyri.
Ég hringdi sem sagt áðan og ætlaði að fá stöðuna á reikningnum mínum, það greip mig eitthvað bjartsýniskast, og það var að sjálfsögðu ekkert inni. Það er langt í mánaðarmótin og mig vantar pening til að komast í Bónus, ég kemst svosum alveg uppeftir en það væri svolítið hallærislegt að standa síðan og horfa á alla aðra versla. Nema hvað hún var svo skilningsrík sú sem ég talaði við að hún tók bara af þjónustureikningnum svo ég myndi nú ekki verða mér til skammar í mannamergðinni á Egilstöðum.