Í dag kom upp mjög furðulegt mál hér á heimilinu svo vægt sé til orða tekið.
Ég sat í mestu makindum með kaffi og sígó þegar það var hringt í mig og ég var spurð hvort húsið mitt væri til sölu. Ég fékk náttúrulega hland fyrir hjartað þar sem við erum ekkert á leiðinni að selja eða flytja. Og neitaði því nokkuð harðlega að það væri falt en spurði einnig hvaðan þessar upplýsingar kæmu eiginlega. Þá er húsið mitt auglýst til sölu á Netinu en ég fullvissaði manneskjuna um að svo væri hreint ekki.
Svo núna áðan settist ég út með kaffi og sígó eftir matinn. Þá gengu upp að mér tvær eldri konur, sem stunda það að ganga um bæinn til að vera upplýstar um öll helstu málin, og þær spurðu mig hvort húsið mitt væri til sölu. Það tók smá tíma fyrir mig að sannfæra þær um að ég væri hvorki að selja né flytja. En svo var komið að því að ég spurði þær hvaðan þær heyrðu þessa vitleysu. "Það er á Netinu," svöruðu þær galvaskar og þrömmuðu niður brekkuna. Eftir sat ég með hraðan hjartslátt og kaffibollinn var ekkert freistandi lengur og sígónni var hent í stampinn.
Ég fór inn og bað manninn minn að athuga þetta fyrst hann var að vafra um á Netinu. Eftir langa leit á öllum helstu fasteignasölunum fundum við enga fasteign til sölu í okkar "hverfi" og hvergi var húsið mitt að finna. Furðulegt.
Einnig má geta þess að mbl.is gerir ekki ráð fyrir austfjörðum í sínu leitarformi.
<< Home