Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, mars 29, 2005

Ég var næstum búin að gleyma að segja ykkur frá nýjustu þráhyggjunni minni.
Þannig er að ég var að hjálpa ömmu og afa að þrífa sumarbústaðinn, sem er ekkert merkilegt svosum. En ég var að þrífa inn á baðherbergi og sá á veggnum einhvurslags græna flugu. Hún var skærgræn og mjó með fjóra þunna vængi og næstum eins og hrossafluga nema stæltari og með minni fætur. Ég vil fá að vita hvernig fluga þetta var. Og mig langar svo mikið til að vita hvaða tegund af flugu þetta var að ég átti erfitt með að sofna í nótt. Ég hef reynt vísindavefinn, gúgúl og náttúrufræðistofnun en ekki fengið nein svör og er að verða vitlaus á þessu.
Páskarnir voru góðir, mjööög góðir. Ég gerði ekkert, gjörsamlega ekkert, alla páskana annað en að sitja á mínum feita rassi og éta. Salli sailor kom í heimsókn með börnin sín tvö og var því brjálað að gera á Hóli, en ég gerði ekkert og ég lét hann sjá sjálfan um að búa um sig og börnin. Furðulegt hvað það er hægt að troða af fólki inn í þetta litla hús. Á föstudaginn langa kom Harpa og eldaði fyrir okkur dýrindis kjúkling og var borðað í tveimur hollum, börnin fyrst og fullorðnir svo. Það var gaman að sjá eldhúsið mitt troðfullt af börnum að borða. Eitthvað svo notalegt að horfa á sjö börn í eldhúsinu mínu. Ég át yfir mig og var alla nóttina að jafna mig á því. Það er vont að borða yfir sig.
Ég nenni ekkert að blogga meira en þar sem fólk var farið að hafa áhyggjur af mér ákvað ég að skrifa eitthvað smáræði hér inn. Skrifa meira þegar ég er búin að þrífa eftir páskana og ekki örvænta þó það verði ekkert í nánustu framtíð því ég vandist því vel að gera ekkert um páskana.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Ég fékk kaupæði um daginn og sat eins og klessa fyrir framan tölvuna og fylgdist með uppboðsvefnum og smáauglýsingunum og ebay og barnalandi, sem væri ekkert merkilegra en það sem ég geri hvort eð er dags daglega nema þá festi ég kaup á skenk, sem á myndinni leit út fyrir að vera trefilli góður undir sjónvarpið okkar. Nýbúin að horfa á Innlit/Útlit og þar var ein æðisleg hugmynd yfir svona álíka skenk. Ég gerði þau góðu kaup að ég eignaðist svakalega flottann antíkskenk fyrir 2ooo kall en jafnframt þau stóru mistök að gleyma að spyrja um málin. Hann kom í hús í dag og það kom í ljós að húsið mitt er aðeins of lítið. Hann er samt kominn undir sjónvarpið en til þess þurfti maðurinn minn, heittelskaður, að fjarlægja fæturna undan skenknum og tvær veggfastar hillur. En allan þann tíma með allri þeirri viðhöfn sem þurfti fékk ég ekki einu sinni að heyra það að næst þegar ég kaupi eitthvað eigi ég að sleppa því. Ég er mjög heppin í ástarmálum, ekki eins heppin í fjármálum.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Ég er svo forvitin að það getur stundum farið alveg með mig. Það þýðir ekkert að gefa mér pakka fyrr en ég má taka hann upp og ég er varla komin út af pósthúsinu áður en ég opna það sem ég fékk sent. Jónsi hefur lengi skemmt sér yfir þessari forvitni í mér og hefur stundað það að gefa eitthvað í skyn eða koma með einhverjar hálfkveðnar vísur og þá er ég viðþolslaus af forvitni. En það sem fer enn meira í taugarnar á mér er þegar fólk sendir mér nafnlaus skilaboð eða kvittar í gestabækurnar með einhverri persónulegri kveðju og skilur bara föðurnafnið eftir sig. T.d. "Elsku Hulda mín, þetta er allt alveg frábært hjá þér. Ég er mjög stolt af þér, kveðjur og knús. H. Jóhannesdóttir."
Ég þekki örugglega einhvern sem er Jóhannesdóttir og ber eitthvað nafn sem byrjar á H...en ég er ekki að koma því fyrir mig hver í heilhveitinu þetta er! Ég vaknaði í nótt og fékk það svo innilega á tilfinninguna að þetta væri einhver sem ég ætti að vita hver er og það tók mig langan tíma að sofna aftur.

mánudagur, mars 14, 2005

Ég hefði átt að vera nákvæmari í bænum mínum um betra veður, vindinn lægði en það er svakalegt frost og snjókoma. En þar sem drengurinn arfleiddi forláta góðan ajungilag kerrupoka af systrum sínum verður honum hent út í vagn eftir hádegið. Þó að pokinn sé orðin átta ára á hann samt að þola 80°frost eða eitthvað álíka en stráknum verður troðið í handprjónaðar peysur og ullarleista líka þannig að það væsir ekkert um hann. Og á meðan snáðinn sefur á sínu græna úti ætlar húsmóðurin að þrífa húsið. Þetta er löngu hætt að vera sniðugt, ef ég byggi á höfuðborgarsvæðinu væri mamma búin að hringja í Heiðar snyrti og skikka honum og þessari skellu sem er með honum í þáttunum til mín að þrífa. Annars væri ég alveg til í að fá þau í heimsókn mínus myndavélarnar því það er þægilegt að fá smá aðstoð við þrifin.
Annars sendi ég inn í fótósjoppkeppnina á Barnalandi tvær myndir og úrslitin voru í gær...ég skíttapaði. Mér finnst þetta fótósjopp æðislega gaman og ég tek þátt aftur ef það verður svona keppni en þá ætla ég að passa upp á það að vanda mig ekkert og athuga þá hvort ég vinni ekki. Hljómar þetta nokkuð biturt? Mér finnst það ekki.

laugardagur, mars 12, 2005

Þá er þessi dagur að lokum komin og enn ein helgin framundan. Ég hlakka til að vera öll saman, vildi bara að það lyngdi svo við kæmumst aðeins út. En ég hékk í tölvunni í dag og setti saman smá fótósjoppverkefni. Svo er ég búin að vera dugleg í skrappinu en þið vitið hvar þið finnið myndir af því. Hins vegar er afrakstur tölvuhangsins hér:

Góða helgi, allir.

föstudagur, mars 11, 2005

Gærdagurinn var mér erfiður en ég á alveg agalega góða vini og yndislegan karl. Hann var bara í því að knúsa mig allan daginn. Vakna = knús, morgunmatur = knús, farinn í vinnuna = knús, komin heim að ná í eitthvað = knús, kominn heim úr vinnunni = knús, farinn á fund = knús, kominn heim aftur = knús, kvöldmatur = knús, farinn á bekkjarkvöld = knús, kominn heim aftur = knús, horfa á sjónvarpið = knús, fara að sofa = knús.
Nú er ég bara ofsalega þakklát fyrir það sem ég á og hvert ég er komin. Þannig að ég ætla að slökkva á tölvunni núna því ég er búin að bæta við mig barni fram yfir hádegi og fara að þrífa hérna. Því eins og ég hef sagt áður þá er húsið í rúst og ég hef aldrei neitt að gera allan daginn. Ég er nefnilega bara heimavinnandi.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Í dag er ár síðan að ég frétti að Stefán væri farinn. Þessi dagur er búinn að vera svolítið erfiður þess vegna. Ég veit að ég á að sleppa og blebleble en ég er greinilega ekki alveg tilbúin til þess strax. Ég er búin að fletta svolítið oft í gegnum albúmin mín og hugsa svolítið til baka. Hvað ef ég hefði... er algengasta byrjunin á öllum pælingum í dag. Ekki skemmtilegt.
En ég endaði á Barnalandi og tók þátt í keppni um ævintýramyndir til að hafa um annað að hugsa. Það gekk ágætlega að mínu mati en hér er afraksturinn:

þriðjudagur, mars 08, 2005

Áður en ég segi ykkur sögu ætla ég að telja upp nokkrar staðreyndir. Við búum í gömlu húsi, ég er nýbúin að horfa á The Grudge, ég er með svakalegt ímyndunarafl og ég er mjög oft "ein" heima eftir að Jónsi fór að kenna útlendingunum.
Í gærkvöldi var ég búin að lesa fyrir stelpurnar og var að brása um á netinu þegar ég heyrði að það var einhver niðri í kjallara. Ég leit á klukkuna og sá að það var alveg hálftími þar til að Jónsi kæmi heim þannig að ég varð svolítið hrædd. Ég gólaði niður í einhverri bjartsýni : Jónsi? Ert þetta þú?
Ég fékk ekkert svar heldur ágerðist bröltið bara, ég ákvað að athuga með þetta. Ég læddist niður, skíthrædd og skjálfandi. Er þetta innbrotsþjófur eða einhver unglingurinn að stelast til að reykja inni í kjallaranum eða einhver að skemma allt dótið okkar eða er þetta draugur... Það var ekkert ljós niðri í kjallara en það var opin útihurðin og ég gægðist inn og sá að það var einhver að fikta í þvottavélinni. Ég kannaðist nú við útlínur mannsins míns og andvarpaði stórum.
"Hjúkket, ég var alveg skíthrædd uppi", segi ég.
"Það væri nú meiri helvítis næsheitin í einhverjum innbrotsþjófinum að setja í vél hvar sem hann brytist inn", svaraði hann og hló. Ég hló með honum, léttirinn yfir að þetta væri hvorki innbrotsþjófur né draugur var of mikill til að reyna að útskýra fyrir honum hversu hrædd ég hafði verið.

mánudagur, mars 07, 2005

Það er æðislegt að lesa barnabækur. Ég hef verið að lesa fyrir stelpurnar áður en þær fara í háttinn og ég lifi mig svo inn í bækurnar að ég les alltaf meira en ég ætla. Sagan um Blíðfinn er yndisleg, spennandi en samt hugljúf. Við verðum að eignast hinar bækurnar því við eigum bara þá fyrstu og ég kláraði hana fyrir helgi.
Núna er ég að lesa um prinsessurnar í Prinsessubókinni. Þetta er skondin bók, eða öllu heldur gefur fyrirheit um að vera skondin bók því ég hef bara lesið um eina prinsessu. Hún heitir Pálína og er ekkert prinsessuleg og pabbi hennar ætlar að reyna að gifta hana skynsömum manni að nafni Pétur, hann hins vegar hefur meiri áhuga á sokkum en prinsessum. Hversu miklar líkur eru á að þetta gerist í rauninni? Að lífið væri aðeins eins auðvelt og það er í barnabókum...

sunnudagur, mars 06, 2005

Mér var bent á það að bloggið mitt fjallaði einungis um þrif og börn. Samt aðallega þrif. Ég fór að skoða gamlar færslur og svei mér þá ef það er bara ekki rétt, það er allavega hægt að telja á fingrum annarar handar þær færslur sem segja frá einhverju merkilegu. Ég gæti lagt árar í bát og farið að grenja yfir að eiga mér ekkert líf... En ég tók aðra ákvörðun. Mér finnst þetta svo fyndið að ég skuli alltaf vera með þráhyggju gagnvart heimilinu því það sýnir að ég er að standa mig mjög illa í slúðri og djammi. Ég hef ekki farið út á lífið síðan ég fór á jólahlaðborðið á Toppnum og ég man ekki síðustu slúðursögu sem mér var sagt. Að vera með sífelldar áhyggjur af því að einhverjum finnist drasl heima hjá mér þegar það eru aðallega þrjár manneskjur sem heimsækja mig og þeim öllum er skítsama hvort ég sé búin að ryksuga eða brjóta saman. Ég myndi segja að ég væri áhyggjufíkill.

föstudagur, mars 04, 2005

Ég náði að þrífa eldhúsið, forstofuna og stofuna og brjóta saman tauið og virkja stóru stelpurnar í að ganga frá því. Þannig að þegar Jónsi kom heim varð hann ánægjulega sörpræsd. Svo um kvöldið hleypti ég honum í tölvuna að læra, las fyrir stelpurnar og kláraði fyrstu bókina um Blíðfinn. Þær voru svakalega spenntar þegar mest gekk á í sögunni sem er bara sætt, finnst mér. Svo fór ég bara að skrappa inni í eldhúsi með Karl í Hókuspókusstólnum við hliðina á mér. Hann var nú ekkert svakalega sprækur í gærkvöldi, greyið. Hann var pirraður og nöldraði heilan helling svo þegar við settum hann í rúmið fundum við að hann var heitur en það er svo illa að marka með hita á kvöldin að við vorum ekkert að mæla hann. En í morgun kom í ljós að hann er fárveikur og með rúmlega 39 stiga hita og er bara í móki. Það er að ganga RS-vírus hérna og ég hringdi inn á heilsugæslustöð og heimtaði tíma hjá lækni. Nú bíð ég bara eftir að það þóknist lækninum að taka á móti okkur.
En afrakstur skrappsins er að finna á föndursíðunni minni og muniði nú eftir að kvitta í gestabókina;)

fimmtudagur, mars 03, 2005

Ég hef greinilega haft mjög gott af þessu fjörulalli okkar í gær því ég er byrjuð að þrífa hérna. Ég ákvað að Sesselja færi ekki á leikskólann í dag því við förum á eftir upp í Bónus með Kidda afa. Það er svo yndislegt að hafa hana heima núna því hún hjálpar mér svo mikið þegar ég er að þrífa, passar að ég sitji ekki of lengi í pásum og svona. Við erum búnar að þrífa eldhúsið en getum ekki klárað það með að setja uppþvottavélina af stað því það eru ekki til kubbar í hana. En það var þurrkað af borðum og bekkjum, ryksugað og skúrað. Næsta herbergi er forstofan og ég læt vita þegar það er búið, ef það verður ekki komin ný færsla fyrir hádegi þá er ég enn að þar að flokka ullarsokka, vettlinga, húfur, flíspeysur, útigalla og skó.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Það var yndislegt veður í dag og þar sem mér leið aðeins betur en í gær ákvað ég að fara með öll börnin út á sveit í smá fjörulall. Ég hefði mátt klæða mig aðeins betur því ég entist ekki eins lengi og ég hefði viljað. Ég held að stelpunum hafi fundist þetta svakalega góð tilbreyting frá tölvukellingunni. Það er hægt að skoða fleiri myndir af fjörferðinni í albúmunum hjá krílunum en þá er skylda að skrifa í gestabókina hjá þeim. En hér eru nokkrar góðar:





þriðjudagur, mars 01, 2005

Varúð-persónuleg og væmin færsla!
Ég hef verið að spá í að tala við doksa um að byrja á lyfjunum aftur. Það er farið að birta en ég er ekkert að skána og það þýðir ekkert að vera að blekkja sjálfa sig með þetta og mér er ekki að takast að sannfæra neinn í kringum mig. Ég er ekkert að standa mig voðalega vel með að halda þessu heimili hreinu, hangi bara í tölvunni svo tímunum skiptir og geri bara það allra nauðsynlegasta, skipti á snáða og gef öllum að borða. Jónsi er byrjaður að kenna útlendingunum og er því ekkert heima fyrr en á kvöldin og þá fær hann náðarsamlegast að komast í tölvuna til að læra. Þá glápi ég á imbann í staðinn. Stundum skil ég ekki þolinmæðina hjá manninum gagnvart mér. Börnin verða náttúrulega vör við þetta líka og ég fæ bullandi samviskubit yfir því að vera svona erfið í umgengni. En samt fyndið með stóru stelpurnar mínar, þegar ég er að detta niður sækja þær alveg svakalega í mig. Ég á að lesa og syngja fyrir þær áður en þær fara að sofa, þær vilja sofa í mömmurúmi og knúsast, tala við mig stanslaust um allt sem þær eru að hugsa. Dúllur. Guð er góður við mig að lána mér alla þessa gullmola.
Annars er ég að peppa mig í að fara að föndra aftur en ég veit ekki alveg hvað ég á að taka upp, mósaíkið er of tímafrekt og ég get ekki verið með það hérna inni, trölladeigið tekur of mikið pláss meðan það er að þorna, ég er ekki nógu góð í höndunum til að fara að sauma út, ég er ekki í skrappstuði núna(ég er að miða mig við einhverjar sem hafa farið á milljón námskeið í þessu)...Ég enda örugglega uppfrá hjá ömmu að mála jólastellið mitt og dúllast eitthvað þar. Guði sé lof fyrir þau gömlu, ég veit ekki hvar ég væri ef ég ætti þau ekki að.