Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, október 01, 2003

Ég á í stríði við óhreinindi!
Ég er álíka hrokafull og Kaninn, það er nefnilega ekkert voða hreint hérna heima en ræðst með efnavopnum á skít og óhreinindi annars staðar. Ég sem sagt kom mér í samband við vopnasölumann sem er þekktur fyrir bestu efnavopnin og sagði skítnum stríð á hendur.
Innrásin hófst í morgun og ég varpaði sprengjum um allt eldhúsið. Þar sem ég er vön stríðsrekstri og andstæðingur minn heldur sig alltaf á svipuðum slóðum, fór ég að rífa húsgögnin úr sínum heimahögum og laumast bak við, undir og ofan á þessar skotgrafir.
Bak við eina skotgröfina rakst ég á nokkuð sem ég átti erfitt með að sætta mig við...Það var svo illa gengið frá einum veggnum að hann var galopinn. Sem sagt ég get núna sagt til um hvaða viður var notaður fyrir 100 árum til að byggja hús. Ljótur og skítugur viður.
Nema inni í þessum vegg voru aðalhöfuðstöðvar andstæðingsins. Ég tók úðabrúsa og úðaði og úðaði inn í gatið....tók síðan tusku og ætlaði að þurrka þennan skít út en rakst þá á 2ja lítra gosflösku. Það var eitthvað inni í henni og ég dró flöskuna út á gólfið og sá þá að það var rottueitur í botninum og það var búið að narta í það!
Ég samdi um vopnahlé og fór að gera eitthvað annað.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég er að spá af einhverri alvöru að gefast upp. Þetta er einfaldlega of mikið fyrir mig. En ég er ekki hætt að þrífa þarna en ég mun ekki koma nálægt þessum hluta eldhússins fyrr en smiður kemur að laga þetta fyrir mig. Héðan í frá mun hinn endi eldhússins vera í uppáhaldi hjá mér ef ég mun þurfa að dveljast þar.