Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, janúar 14, 2004

Gleðilegt nýtt ár allir (betra er seint en aldrei).

Það er næstum því mánuður síðan ég skrifaði eitthvað síðast. Búin að halda því fram að það sé allt í lagi með mig í hvert einasta skipti sem einhver hringir í mig til að skamma mig fyrir að blogga ekki. Ég biðst afsökunar á því að hafa logið að öllum og þar á meðal sjálfri mér. Ég er víst búin að vera í bullandi þunglyndi yfir hátíðirnar. Ég var búin að stressa mig of mikið á jólunum, var komin með kvíðahnút í mallakútinn og að lokum gafst ég bara upp á öllu saman. Ég áttaði mig samt ekki á því sjálf fyrr en ég og vinkona mín sátum saman í eldhúsinu mínu og töluðum um sameiginlega vinkonu sem á við þetta vandamál að stríða líka. Það er alltaf jafngaman að vera síðastur til að fatta hlutina. En fyrsta skrefið er náttúrulega að átta sig á vandamálinu þannig að maður viti hvað maður er að kljást við.

En jólin hjá mér voru samt alls ekki slæm. Þetta voru fyrstu alvöru jólin mín og Jónsa og þar sem að þrjú börn eru á heimilinu var þetta pakkaflóð með ólíkindum. Ég hef ekki séð svona marga pakka alla mína ævi held ég. Enda tók það okkur rúma þrjá tíma að klára það dæmi. Dætur mínar eiga það nefnilega til að ráðast á sárasaklaust fólk sem komið er yfir 35 ára aldurinn og kalla það afa og ömmu. Því finnst þessu indæla fólki það vera knúið til að gefa "barnabarninu" jólagjöf, svo ekki setjist það á sál barnsins. Þannig að það var orðið svolítið ruglingslegt, svo vægt sé til orða tekið, frá hvaða afa eða ömmu pakkinn var.

Ég setti mér engin áramótaheit. Ég ætla ekki að hætta að éta nammi, ég ætla að ekki að fara í eitthvað "Líkaminn fyrir lífið" átak, ég ætla ekki að hætta að reykja né drekka kaffi. Ég held að öfug sálfræði virki alveg ágætlega á mig (eða svo segir mamma allavega). Þannig að ég sé fram á það að ef ég ætla ekki að hætta neinu og ekki byrja á neinu þá verði ég voðalega hollustusamleg áður en langt um líður.