Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, október 19, 2003

Fólk er yndislegt stundum. Ég fór í morgun að gefa vinnuköllunum morgunmat eins og þeir báðu um í gær, voru að vísu svo vænir að leyfa mér að sofa til 8. Þannig að ég mætti galvösk og til í tuskið eða eins galvaskur og maður getur verið klukkan 8 á sunnudagsmorgni. Þegar ég gekk inn var hryllileg brennivínsstækja yfir öllu og ég loftaði út á meðan ég hellti upp á kaffi. Ég byrjaði að tína upp bjórdósir í tugatali og þetta minnti mig á gamla og vonda tíma er ég var í ruglinu. Þegar ég var búin að tína fram allskonar mjólkurvörur og brauð með tilheyrandi áleggstegundum og marmelaði settist ég niður og fékk mér kaffi og sígó. Og það var það eina sem gerðist í um tvo tíma.
Þar sem pirringurinn yfir aðkomunni og að hafa vaknað til einskis óx með hverri mínútunni samdi ég smá ræðu í kollinum á mér til að flytja um leið og útvaldnir áheyrendur færu á stjá. Nú var ég komin með nóg. Þeir fóru yfir strikið, með þessari framkomu við mig, sem er ekkert nema almennilegheitin, og ekki í fyrsta skiptið.
En eins og fram hefur komið, oftar en einu sinni á þessari síðu, er ég alger gunga. Ég vil ekki að fólk sé reitt við mig og hvað þá að ég fari að reita fólk til reiði. Þannig að skammarræða mín breyttist snögglega í vinsamleg tilmæli þegar forsprakkinn mætti til morgunverðar. En vopnin snerust allillilega í höndunum á mér og ég sat eins og lúpa undir skammaræðu frá honum.....
Ég röfla víst allt of mikið yfir hlutunum og er aldrei á staðnum til að redda þeim því sem þeim vantar.
En ég hef alltaf sagt að erótískt nudd er ekki innifalið í gistingunni.