Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

mánudagur, febrúar 28, 2005

Hér eru tvær í viðbót;) Er alveg að missa mig hérna....



Ég hef verið að missa mig í nýjasta æðinu á barnalandi sem er að fótósjoppa myndir í einhverjar ævintýralegar útgáfur. Ég gekk meira að segja svo langt að taka þátt í keppni um flottustu myndina og það tókst nú ekki betur en svo að það var kommentað á hvað þessi og hin voru með flottar myndir, allir taldir upp nema ég. En ég gefst ekki upp á að reyna að fá hrós fyrir þær og ákvað þá að setja þær hérna inn. Hvað er í raun meira viðeigandi en að fá hrós fyrir eitthvað á sinni eigin síðu? Fyrri myndin er af Kolbrúnu þegar hún var minni og seinni myndin er af Sesselju.



föstudagur, febrúar 25, 2005

Bara fyndið...http://www.trigger.is/fun/HollowMen.wmv
Þið verðið að hafa hljóðið á samt;)

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Þetta er svolítið sniðugt próf...
http://www.killsometime.com/humor/humor.asp?humor=Color-Test

Ég er alltaf að falla á svona dæmum. Ég er svo góðhjörtuð og saklaus að mér dettur aldrei í hug að þetta sé neitt annað en eitthvað svona "próf". Finna fimm villur eða horfa vel á einhvern hlut. Þetta er hins vegar litblindupróf. Gangi ykkur vel og látið mig vita hvernig ykkur gekk.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Ég hefði átt að kvarta meira undan manninum mínum í gær, konudaginn góða. Alveg frá því að ég hellti upp á kaffið um morguninn og þar til Harpa dró mig út í göngu var ég ógeðslega fúl og sár. Ég byrjaði strax að kvarta í Hörpu um leið og við vorum komnar út og nöldraði og röflaði og tuðaði, hún er æðislega góð vinkona því hún leyfir mér að klára það og fer síðan að tala um eitthvað allt annað þegar hún kemst að. Þannig að í göngunni náðum við að fá okkur viðring, ganga helling og þjálfa málvöðvana. Á skipulagi heimilisins var henni og Bjartey boðið í kjúlla um kvöldið og fór í heimsóknir og eitthvað bras áður en hún kom aftur í kvöldmatinn. Á meðan settist ég niður gjörsamlega hundsuð af manninum mínum sem þóttist vera að læra og fékk mér kaffi og kex. Hann spurði mig hvort ég vildi ekki súkkulaði með kaffinu og ég hreytti í hann neitun, ég væri með kex. Fattaði ekkert. Ég hélt áfram að horfa á nágranna eða eitthvað álíka heilalaust sjónvarpsefni í fýlu. Pétur Marínó, frægi vinur okkar, kom í kaffi og ég baunaði þessari harmasögu minni út úr mér eftir að hann sagði okkur hvað hann gerði fyrir sína konu í tilefni dagsins. Jónsi hlustaði bara og glotti, ég misskildi hann illilega með það og varð enn sárari. Þegar Harpa síðan kemur rétt fyrir kvöldmat spyr Jónsi hvort við viljum kaffi og við svöruðum báðar neitandi, ég ennþá í fýlu. Kjúllanum, maísstönglunum, frönskunum, salatinu og gosinu gerð góð skil og við sitjum ennþá við matarborðið þegar Sesselja og Jónsi eru að ganga frá í uppþvottavélina. Hann hellir upp á kaffi og býður okkur. Ég stekk fram og næ í forláta flotta grísabollann minn og hann segir; "Nú? Ætlaru að drekka úr þessum bolla?" Ég svaraði játandi enda nýbúin að eignast þennan sæta svínabolla. Þá kemur vísbending frá honum að ég ætti að fá mér nýjan bolla. Í skápnum var fullur bolli af karamellum og súkkulaði. Mmmmm. Svo maula ég bara á góðgætinu langt fram eftir kvöldi og Harpa fer heim, hún fékk að sjálfsögðu sinn skammt líka því hún er nú konan hans Jónsa nr 2. Svo er bara komið að háttatíma og ég leggst upp í rúm en það skrjáfar í koddanum mínum...hann var fullur af súkkulaði og karamellum. Miklu betra en blóm!

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Við fórum upp í Egilstaði í gær og stóru stelpurnar okkar fóru í ballet. Jónsi ákvað að fylgjast með þeim meðan ég færi með þau yngri með mér í Bónus. Þetta er fyrsta "vikulega förin" síðan fyrir áramót og ég var með vikutossann með mér og nýja debetkortið mitt. Ég var svo mikið að fylgja því sem stóð á tossanum að þegar ég setti frosið grænmeti, sem ekki var á listanum, í körfuna tók ég því sem svo að þar færi einn hlutur af listanum og gleymdi því að kaupa þann hlut. Þegar ég kom nær kassanum fór ég að stressast upp, mun vera næg innistæða á kortinu? Ég verð alltaf svona þegar ég versla í Bónus hvort sem ég er með peninga eða kort því það eru alltaf að minnsta kosti fjórar manneskjur á eftir mér í röðinni með fullar körfur líka. Og ég verð alltaf svo hrædd um að eiga ekki fyrir þessu eða bara að vera þvælast fyrir þeim að ég stressast öll upp og get varla sett upp á bandið eða raðað í pokana. Ég átti fyrir því sem ég keypti enda ekki um hærri upphæð en tæpar 9oookr að ræða. Fegin fór ég yfir í Kaupfélagið til að kaupa afmælisgjöf handa Svanhildi, vinkonu Sesselju. Þegar þangað kom sagði ég henni að elta mig bara og ég fékk yndislegasta svar í heimi. "Ég elska þig líka, mamma, alveg heilan helling."
Til hamingju með daginn, kynsystur. Ég vona að þið eigið góðan dag og megi karlarnir eða aðrir aðstandendur dekra ykkur til óbóta.
Hljómaði þetta nokkuð biturt? Nei, ég hélt ekki. Prff, bölvaður bóndadagurinn gleymdist og þess vegna verður konudagurinn ekki haldinn hátíðlegur heldur, að mínu mati er það svindl en Jónsi ætlar að standa við þetta greinilega. Byrjun konudags (uppúr miðnætti)fór í að brjóta saman tau, hvað er rómantískara en það svosum?

föstudagur, febrúar 18, 2005

Það voru einu sinni tveir menn að versla í Kringlunni gjafir handa konunum sínum. Annar var ríkur og hinn ekkert ríkur. Þeir rölta um og ákveða að hittast bara aftur á Kringlukránni eftir að þeir hafa keypt gjafirnar.
Þegar þeir hittast aftur var sá ríki búinn að kaupa svakalega stóran demantshring og glænýjan bíl. "Ef hún fílar þetta ekki getur hún staðið upp af sínum feita rassi og keyrt hingað niðureftir sjálf og skilað þessu!"
Hinn hugsaði sig um og ákvað að skreppa aðeins og kaupa meira. Og þegar hann kom til baka var hann með ullarsokka og vaselinsdúnk. Sá ríki rekur upp stór augu: "Bíddu bíddu...hvað ertu að gefa henni... ?"
"Hún er með kaldar tær og ef hún fílar ekki sokkana þá getur hún troðið þeim upp í rassinn á sér!"
Ég er andvaka. Ég hellti mér upp á rótsterkt róandi te sem ætti að nægja til að svæfa flóðhest en ég hef greinilega eitthvað fitnað.
Mér tókst nú að sofna aðeins fyrir miðnætti en hrökk upp við slæman draum rétt fyrir eitt. Mig hefur nú oft dreymt svipaða drauma og þennan og alltaf er ég andvaka það sem eftir er af nóttinni. Draumurinn byrjar alltaf á því að ég er að keyra og öll börnin eru með mér og það er voða gaman, sungið og trallað. Svo erum við bara að keyra þegar við komum að brú eða sjó og ég missi stjórnina á bílnum og keyri út í vatnið. Og ég skipulegg björgun barnanna og skrúfa niður rúðuna svo við komumst út úr sökkvandi bílnum sem fyllist óðum af vatni. Ég vakna alltaf áður en ég er komin að bakkanum með börnin og veit þar af leiðandi ekki hvort mér tekst að bjarga börnunum mínum eða ekki. Tilfinningin er svo þrúgandi þegar ég vakna að ég get ekki legið kyrr og fer að tékka á stelpunum og kyssi þær, laga sængina þeirra og horfi á þær sofa í smá stund. Það hefur oft dugað til að róa mig en núna hef ég slátrað fjórum bollum af flóðhestasvæfilyfi og ekkert bólar á syfju eða ró. Ég er að spá hvort þetta te sé gallað...

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Ég hef ekkert merkilegt að segja en það er svo langt síðan ég skrifaði eitthvað hérna inn að ég bara varð...
Mér tókst að eyða 1o.ooo krónunum samdægurs, geri aðrir betur. Ég keypti notaða leikgrind á BL, þar sem snáðinn er farinn að sitja einn með tennurnar sínar tvær sá ég mér ekki annað fært en að fjárfesta í slíku. Það mun ekki líða á löngu þar til hann fer að skríða hér út um allt og ég er ekkert spennt fyrir því að barnið nagi rafmagnssnúrur né klifri í stiganum.
Svo er ég búin að taka ákvörðun um það að í vor/sumar verður húsið mitt tekið í gegn. Það kemur ekkert við mig þó það kosti meiri pening en við eigum. Ég hef ákveðið hvernig nýji stiginn verður og hvar, hvernig baðherbergið verður og hvar, hvernig eldhúsinnrétting verður og hvar og hvernig klæðning verður á húsinu. Ég er illa haldin og ég veit af því. Og þið sem hafið uppi einvherjar skynsemisraddir um þetta mál eru vinsamlegast beðnir um að halda þeim frá mér og helst bara með sjálfum sér. Ég veit og skil en ég skal.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Allir að kaupa sér buxur frá Frentex! Ég keypti mér buxur þaðan fyrir svolitlu síðan og fór í þær hreinar í morgun sem væru engar fréttir nema hvað það vaxa peningar í vösunum á þeim! Og ég er ekkert að tala um neinar smáupphæðir eins og þegar maður finnur fimmhundruðkall. Heilar 10.000 krónur takk fyrir takk. Ég elska þessar buxur.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Ástandið á mér undanfarna daga hefur verið slíkt að ég þurfti að setja sjálfri mér reglur um notkun tölvunnar og aðrar hliðarfíknir. Ég fæ einn og hálfan tíma á dag í tölvunni og ræð sjálf hvort ég tek þetta allt í einni beit eða skipti þessu eitthvað niður. Þetta er að sjálfsögðu að reyna á sjálfsagan og heiðarleikann hjá mér að ég tali ekki um viljastyrkinn. Þetta er annar dagurinn og ég er strax farin að beygja regluna og teygja. Nú er ég búin með tímann minn í dag og kláraði hann í strax í morgun og nú er Jónsi ekki heima og ég er farin að stelast. Húrra fyrir mér og viljastyrknum!!!

laugardagur, febrúar 12, 2005

Ég hef að undanförnu verið bara með einhverja brandara hérna og ástæðan fyrir því er að ég hef ekkert skemmtilegt að segja. Febrúar á það til að draga fram það versta í fólki og ég er bara neikvæð og leiðinleg. Það fer eiginlega allt í taugarnar á mér. Hvernig Jónsi situr þegar hann er að læra, hversu miklir grallarar stelpurnar eru, hversu þungt loft er hérna sama hversu marga glugga ég opna er bara það sem ég hef náð að pirra mig á í dag. Og þar sem ég hef ekkert skemmtilegt að segja er best fyrir mig að þegja. En endilega hressiði mig við og skrifið eitthvað sætt í kommentakerfið eða gestabókina.
Íslendingar eru að keyra og svo sjá þeir bíl úti í kanti og sjá að þetta eru útlendingar. Íslendingarnir fara út úr bílnum og segja "Do you need help?"
Útlendingarnir svara "No no, it´s ok"
Íslendingarnir gefa sig ekki og segja "Yes yes, we are gonna help you"
Útlendingarnir: "No no, this is ok"
Íslendingarnir: "Yes we are gonna help you"
(Íslendingarnir fara aftur inn í bíl inn og koma út með reipi)
Útlendingarnir: "What are you gonna do?"
Íslendingarnir: "First we are gonna reip you and then we are gonna ýt you"

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Frá mér til ykkar í tilefni dagsins.
http://www.funnybunch.com/1/me1.swf

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Þrenn hjón, öldruð hjón, miðaldra hjón og ung hjón, vildu ganga í Krossinn. Gunnar, yfirkross, sagði þeim til að fá að ganga í Krossinn þyrftu þau að komast af í tvær vikur án kynlífs. Hjónin samþykktu þessi skilyrði.
Eftir tvær vikur þegar þau komu til baka spurði Gunnar öldruðu hjónin:"Hvernig gekk að vera án kynlífs?" Gamli maðurinn svaraði að þetta hefði ekki verið neitt mál, þannig að Gunnar bauð þau velkomin í Krossinn.
Næst spurði Gunnar miðaldra hjónin hvernig hefði gengið að vera án kynlífs í tvær vikur. Miðaldra maðurinn svaraði að þetta hefði gengið vel fyrstu vikuna, en seinni vikuna hefði hann þurft að sofa frammi í sófa, en það hefði tekist. Gunnar bauð miðaldra hjónin velkomin í Krossinn.
Gunnar snéri sér síðan að ungu hjónunum og spurði: "Gátuð þið verið án kynlífs í tvær vikur?"
"Nei Gunnar, okkur tókst ekki að vera án kynlífs í tvær vikur" svaraði ungi maðurinn sorgbitinn.
"Hvað gerðist?" spurði Gunnar.
"Konan mín var að teygja sig eftir málningardós á efstu hillunni og missti hana. Þegar hún beygði sig eftir henni, stóðst ég ekki freistinguna og skellti mér aftan á hana."
"Þú skilur að þið eruð þá ekki velkomin í Krossinn" segir Gunnar þá.
"Já, við vitum það" sagði þá ungi maðurinn. "Við erum heldur ekki velkomin aftur í Húsasmiðjuna."
Það getur tekið á að eiga börn, sérstaklega þegar þau líkjast manni sjálfum í grallaraskapnum.
Um daginn hringdi lögreglan í mig og tilkynnti mér að börnin mín, ásamt öðru barni, höfðu verið að fikta með eld uppi í fjalli og þær væru á leiðinni heim. Þeim hefði brugðið illa enda höfðu þær misst stjórn á eldinum og þurft hjálp til að slökkva hann. Við þessar fréttir var mér að sjálfsögðu brugðið og ég stökk út til að ná í þær. Ég leitaði um stund og hvergi sást til þeirra en þegar ég var að gefast upp á leitinni rakst ég á þær fyrir utan hjá þriðja sökudólgnum, sem var búin að fara í sturtu og skipta um föt. Ég sagði þeim að koma inn í bílinn og fór í búðina og svo heim, allan tíman sagði ég ekkert en var að kafna úr reykjarlykt. Ég ætlaði að láta þær segja mér hvað hafði gerst en þær þorðu því ekki og fór ég þá að spyrja þær hvað þær höfðu verið að gera. Þær sögðu mér að þær höfðu verið að fikta með eld og ástæðuna fyrir því að þær höfðu kveikt bálið, reyndu meira að segja að kenna þriðja aðilanum um allt en ég sagði að þær vissu betur en svo að vera að fikta með eld og að það skipti engu máli hver gerði hvað því þær voru allar að þessu. Refsingin var vikustraff, beina leið úr skólanum og enga krakka inn. Ég hef heyrt því flengt fram að hin móðirin hafi enga refsingu gefið.
Svo fæ ég að heyra það út í bæ að ég sé allt of ströng við börnin og að ég eigi nú ekki að láta svona. Börnin mín hafi sagt að mamma hennar (þriðja sökudólgsins) sé svo góð. Ég hef sagt þeim að ég sé ekki að skammast í þeim bara til að vera leiðinleg, þvert á móti er ég að reyna að kenna þeim hvað er rétt og hvað er rangt. Að mig langi ekkert til þess að rífast í þeim og mig langi miklu frekar að við séum vinkonur.
Í dag er öskudagur og vikustraffið ekki búið. Og í hausnum á mér glymur sektarbjallan, hin mamman er svo góð... Ég ákvað að gefa undan með þeim orðum að nú er ég að vera mjög góð við þær að leyfa þeim að fara út til að sníkja nammi með hinum krökkunum og þær skildu samt halda áfram að vera góðar. Því var hátíðlega lofað yfir morgunmatnum og svo var farið í að redda búningum, greiða og mála. Það voru tvær afar ánægðar og hamingjusamar stelpur, önnur svört Bratzdúkka og hin fín pæja, sem gengu út í daginn.
Eftir sit ég og hugsa hvort ég sé óhæf móðir....

mánudagur, febrúar 07, 2005

Það er svolítið snúið að láta fjármálin ganga upp þegar maður hefur fyrir fjórum börnum að sjá og annað foreldrið er í fæðingarorlofi og hitt er á kennaralaunum. Jónsi hækkaði um heilan þúsundkall í launum eftir verkfallið en það virðist ekki duga. Ég fór í bankann og lét þá endurskipuleggja allan pakkann hjá okkur, greiðsluþjónustuna, visakortin, yfirdráttaheimildirnar og öll lánin. Við erum að vísu ekki með Visa eða yfirdráttaheimild á eina debetkortinu okkar og einu lánin sem við erum að borga af er bílalánið, húsnæðislán og tölvukaupalán en samt þurftum við að koma reglu á þetta því við vorum komin á eftir með nokkra reikninga, allt útaf verkfallinu og jólunum. En það sem sló mig svolítið útaf laginu í bankanum var að ég uppgötvaði að ég er perri. Eða er það ekki perralegt að finnast vænt um þjónustfulltrúann sinn? Og þá er ég að meina að langa til að knúsa manneskjuna í kaf?
Kannski leið mér bara svona því hún sagði mér að þetta væri allt komið í lag núna.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Þar sem ég er með afbrigðum kvenleg og það er sjálfsagður réttur kvenna að skipta um skoðun eins oft og þeim lystir tek ég mér það leyfi að skipta um skoðun. Ég er farin norður. Mun ég því ekki standa við tvær færslur á dag en ég er hvort eð er búin að margbrjóta það loforð sem ég lofaði lengst upp í ermina á mér.
Góðar stundir.
Það lítur nú ekkert út fyrir að ég fari neitt um helgina. Veðrið er ekkert voðalega slæmt og færðin ekkert svakalega slæm en... Ég er víst ekki að fara að ferðast ein og með svona dýrmæta ferðafélaga er ekki telft á tæpasta vaði. Því verður þessi ferð að bíða betri tíma. En ég var nú farin að hlakka svolítið til að komast til mömmu og monta mig af skrappinu og börnunum, föndra pínu með henni og sjá hvað hún hefur verið að bralla. Ég hef breyst í algjöra mömmustelpu og þeir sem þekkja til okkar mæðgna hlæja yfir þessum orðum.
En þá förum við í ballet á morgun með stóru stelpurnar og í Bónus í staðinn og ég mun síðan skjóta mér í teiti til Ruttlu vinkonu. Var komin með pínu samviskubit yfir því að svíkja hana eina ferðina enn.
Ég fann tönn í munninum á litla kút í gærkvöldi. Það er eitthvað í sambandi við tannfé eða eitthvað þegar maður finnur fyrstu tönnina og ég náttúrulega varð að blaðra því að ég væri búin að finna hana. Það er á planinu að fara til mömmu um helgina og ég hefði náttúrulega átt að þegja svo hún þyrfti nú að punga út einhverjum aur.
Birnirnir þrír og fyrirtíðaspennan.

Það var sólríkur morgunn í skóginum þegar bangsafjölskyldan reis úr rekkju einn daginn.
Bangsi litli töltir inn í eldhús, sest við morgunverðarborðið, lítur ofan í litlu skálina sína og sér að hún er tóm. Hver hefur borðað grautinn minn? spyr hann, ámátlegum rómi. Þá kemur bangsapabbi, hlammar sér í sæti sitt, lítur í stóru skálina sína og sér að hún er líka tóm. Hver hefur borðað grautinn minn? urrar hann. Bangsamamma lítur upp frá eldhúsbekknum og segir: Ó mæ god, hvað oft þurfum við að fara í gegn um þetta? Bangsamamma vaknaði fyrst allra. Bangsamamma vakti ykkur hina. Bangsamamma hitaði kaffið. Bangsamamma tæmdi uppþvottavélina og raðaði upp í skápa. Bangsamamma lagði á borðið. Bangsamamma hleypti kettinum út, tæmdi kattabakkann og gaf kisu að éta og drekka. Bangsamamma fór út og sótti blaðið. Og nú, þegar þið drattist loksins á fætur og parkerið ykkar súru trýnum við morgunmatarborðið...
hlustið vel, þetta segi ég bara eitt skipti í viðbót: ÉG ER EKKI BÚIN AÐ BÚA TIL HELVÍTIS GRAUTINN ENNÞÁ!!!!

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Geri aðrir betur! Ég er klædd og komin á ról. Ég hef greitt öllum skvísunum á heimilinu og sent í skóla eða leikskóla. Búin að kyssa manninn minn og henda honum út til að vinna fyrir mér. Búin að hella mér upp á kaffi og kveikja á útvarpinu (og sjónvarpinu og tölvunni). Og ég er búin að skella í eina eplaköku sem í þessum skrifuðum orðum mallar í ofninum og skreyta eina skúffuköku. Þegar þetta birtist á veraldarvefnum mun ég rjúka til og baða yngsta afkvæmið, maka það út í kamfóru, fylla nefið á því af saltvatsdropum, skella einu stykki af bleiju á rassinn á því og fleygja einhverjum leppum utan um það.
Ég vil taka það fram að klukkan er ekki orðin hálfníu og ég er búin að klæða, greiða, kyssa, hella uppá, baka, skreyta og blogga.

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Það er þá þegar maður lofar einhverjum dugnaði. Ég er nú samt ekki af baki dottin og ætla ég að blogga tvisvar á dag í viku frá og með núna.
Ég er alveg dottin ofan í þetta blessaða hobbí sem ég smitaðist af hjá henni Kristjönu og hef ég verið að fletta gömlum myndaalbúmum. Ég er nú ekki forfallnari en svo að ég tími ekki að klippa allar þessar myndir og líma á blað og hef ég þá brugðið á það ráð að fá Kristjönu til að skanna þær allar(eða læra það og fara til afa) og prenta þær svo út og klippi klippi og lími lími. Ég veit að það er "tvíverknaður" en við erum nú einu sinni að tala um að ég geri eitthvað. Það rifjast upp gamlar minningar við svona flett í albúmum. Mér leið nú svakalega vel í kjallaranum á Grænukinn og það sést á myndunum frá tvíburunum að þeim leið nú vel líka. Það eru nokkrar myndir af þeim þar sem þær eru með ælupestina og skælbrosa framan í myndavélina. Ég man að þær voru búnar að æla út um allt og ég var með 2,5 kg þvottavél og uppiskroppa með rúmföt og handklæði og ég brá á það ráð að setja þær í vagninn (hann var plasthúðaður að innan). Svo gerði ég uppgötvun á þessu fletti mínu... Hann Jónsi minn á barasta ekkert í þessu barni. Karl er alveg nákvæmlega eins og ég og Dagbjört vorum sem ungabörn. Ég hef alltaf haldið því fram að Karl sé svo líkur Jóa tengdó, en þar er um óvenjumyndalegt eintak af fullvaxta karlmanni að ræða því þeir Jónsi eru svakalega líkir. En fegurð drengsins er sko bara komin frá mér.