Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, október 22, 2003

Ég var eitthvað slöpp í dag, ég held að ég hafi tekið út áhrif sprautunnar sem sú yngsta fékk fyrir hana. Svona er ég nú góð móðir. Hún var rosalega góð hjá lækninum, hoppaði á einum fæti og hoppaði um allt á báðum, þóttist svo vera íþróttaálfurinn.
Mitt móðurhjarta fylltist að sjálfsögðu stolti og um leið fullvissu um að hún væri miklu duglegri en önnur börn á hennar aldri og þó eldri börn væru tekin með í reikninginn jafnvel. Hún taldi að vísu ekki upp í 21 fyrir þau en rosalega var gaman að sjá hvað barnið mitt er yndislegt.

En ég á þau þrjú og það er víst bannað að skilja útundan þannig að ég ætla aðeins að minnast á þær líka. Dagbjört er enn heima við með pestina og ég nennti ekki að leika við hana í morgun. En hún er ekki dóttir mömmu sinnar fyrir ekki neitt. Hún samdi við mig að ég fengi frið ef hún fengi naglalakk. Þar sem ég er ekki hlynnt því að leyfa þeim að leika lausum hala með skærbleikt naglalakk varð ég náttúrulega að sjá um fínheitin. Sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir að eftir handsnyrtinguna vildi hún líka fá hárgreiðslu og allan pakkann. Þannig að í staðinn fyrir að fá frið fékk ég tveggja tíma hlutverk sem snyrtifræðingur. Hún er svakalega snjöll, þetta elsta afkvæmi mitt. Og mitt litla hjarta fylltist stolti yfir þessari snilld hjá henni sem ég vil að sjálfsögðu eigna mér og góðu uppeldi.

Það leið ekki á löngu þar til miðjubarnið skilaði sér heim eftir skólann. Uppfull löngunar að miðla af sínum fróðleik um garð skólastjórans og allt sem í honum fannst um morguninn, það var víst einhver rannsóknarþema í bekknum hennar. Hún gaf sér engan tíma til að borða hádegismatinn fyrir blaðri og tók það mig fimmtán tilraunir til að fá hana til að rannsaka matinn. Þegar matartíminn var liðinn gerði ég aðra tilraun til að fá minn langþráða "frið" hérna á neðri hæðinni sem heppnaðist ekki betur en svo að hún vildi að sjálfsögðu fá naglalakk líka. Og reyndi ég aftur sömu brelluna að fá hana til að lofa að fara upp og gefa mér smá frið um leið og naglalakkið þornaði. Það var samþykkt. En ég gekk í aðra gildru, þannig er að ég á mikið úrval af naglalökkum, það tók tímann að velja......