Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, október 01, 2003

Mér er alltaf hent út að reykja, sem er alveg sjálfsagt þar sem ég er eina manneskjan í fjölskyldunni sem hefur þennan illa lyktandi ósið. Og ég er með smá áhyggjur af því að lyktin festist í fötum barnanna. Að ég tali ekki um hvað þetta ógeð festist á veggjunum.
Og ég hef oft dásamað útsýnið af tröppunum okkar, aðallega þó þegar ég staulast út eldsnemma á morgnana til að fá mér fyrsta kaffibollann og sígó. Þá er fallegt að horfa á Hólmatindinn bleikan af morgunsólinni niður í hlíðar og skuggar fjallanna hérna megin falla upp í hann miðjan.
En í kvöld varð ég agndofa þó ekki í fyrsta skipti. Það er alveg heiðskírt, stjörnubjart og norðurljósin loga fjallanna á milli. Þetta er ekki hægt að sjá almennilega í siðmenningunni vegna götuljósanna. En hér er þetta stórkostleg sýn.
Furðulegur þessi heimur. Maður gerir sér svo mikið grein fyrir hvað maður er lítill í miðjunni á öllum þessum svakalega geimi. Og um leið þakklátur fyrir að skipta einhvern máli.

Svo spillir ekki fyrir að það læðist aftan að manni sætur karl og knúsar mann.