Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

föstudagur, ágúst 26, 2005

Eins og glöggir lesendur hafa kannksi áður lesið hér þá fer núverandi húsnæði alveg í mínar fínustu stundum. Því hef ég ákveðið að gera nokkrar endurbætur á húsinu og ég vil sjá eldhúsið, baðherbergið og svefnherbergið okkar hjóna einmitt svona:




Eldhús



Baðherbergi



Svefnherbergi


En hvernig finnst ykkur þetta annars? Er þetta ekki fínt?

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Það er búálfur í húsinu og það ekkert smá óforskammaður búálfur.
Í gær fann ég ekki húslyklana þannig að ég skaust til að kaupa svala fyrir stelpurnar án þess að hugsa neitt um það því Jónsi og stelpurnar voru heima. Hann sér enga lykla í lyklahúsinu og dregur þá ályktun að ég hafi tekið þá og fer út án þess að taka úr lás. Þegar ég er búin að snúa heilu bæjarfélagi til að komast í aukalyklana kem ég heim og set aukalyklana á eina auða krókinn í lyklahúsinu. En þegar Jónsi kom heim sagði hann að ég hefði alveg örugglega verið með lyklana á mér allan tíman því þeir voru undir aukalyklunum...

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Það greip um sig hreingerningaræði í morgun og það var búið að vökva öll blóm, þurrka af öllum hillum og ryksjúga bæði gólf og sófasett fyrir klukkan ellefu. En þvílík hamingja þegar ég fann myndirnar sem ég hélt að væru týndar. Þær fundust undir nokkurra sentimetraþykku ryklagi í bókahillunum, vel faldar innan um upplýsingabæklinga og teikningar eftir börnin.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Þá er skólinn byrjaður og stúlkurnar bara byrjaðar í þriðja bekk, áður en ég veit af þarf ég að fara undirbúa ferminguna. Þær komu heim í morgun með innkaupalistann og forláta fréttabréf þar sem meðal annars kom fram að það vanti ennþá íþróttakennara. Kannski ég ætti að hringja niður í skóla og sækja um þar sem ég er nú með íþróttameiðslin góðu... Ég hélt að ég hefði lesið fréttabréfið spjaldanna á milli en samt kom ég af fjöllum þegar minn ektamaður kom heim. Ekki hafði ég lesið um að íþróttir eru bara á fimmtudögum og föstudögum fyrst til að byrja með né að fyrstu tveir dagarnir af skólaárinu fara í ferðalög um söfn Austurlands. Þannig að ég komst að því að ég þarf að læra að lesa.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Það held ég að með þessari mynd sannist hverra manna drengurinn okkar er:

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Það er komið haust, skólinn byrjar eftir viku og það er búið að rigna í allan dag. Ég get ekki beðið eftir að Harpa komi heim því mér vantar spark í rassinn. Taufjallið ógurlega í stofunni stækkar bara og stækkar og ég er sokkin í föndur og lestur ævintýrabóka. Annars er ég með svakalega flott plan eftir staðlotuferðina, þá verður allt tekið í gegn, mataræði, hreyfing og þrifin. Og eitthvað fleira sem mér dettur í hug.

mánudagur, ágúst 15, 2005

Árátta mín í að ganga frá hlutum er að verða komin á hættulegt stig. Ef ég fer ekki að leita mér hjálpar með þetta á ég eftir að ganga frá börnunum á "stað sem ég finn þau örugglega aftur". Fyrir nokkru tók ég myndir úr albúmi til að láta skanna þær fyrir mig, ég setti þær í umslag og fór með þær til Kristjönu. Vegna anna hjá henni fékk ég umslagið aftur og skannann hennar og mér sagt að gera þetta bara sjálf. Að sjálfsögðu vildi ég ekki týna myndunum þannig að ég gekk frá þeim...Einhversstaðar. Ég er búin að snúa eldhúsinu við til að finna þær og það kom ekkert upp úr krafsinu annað en blýantar og strokleður sem ég hélt að stelpurnar hefðu týnt. Ég hef leitað í öllum hillum á heimilinu og komist að því að ég mætti vera duglegri að þurrka af.
Þetta er farið að minna mig á einhvern sjúkdóm sem ég man ekkert hvað heitir en gamalt fólk er gjarnt að fá....

föstudagur, ágúst 12, 2005

Ég fór til læknis um daginn og tilkynnti honum að ég þyrfti að skipta um lyf. Ég vildi fara á gömlu lyfin aftur þar sem ég er hætt með Karl á brjósti. Það furðulegast sem mér fannst við þetta samtal var að hann var alveg sammála mér og skrifaði nýjan lyfseðil án allra málalenginga. Þannig að ég gat sagt lækninum til og hann hlýddi. Svo fór ég að segja honum frá verkjum sem ég er með í sköflungnum. Ég lýsti þessu öllu fyrir honum, stingir upp með leggnum og þreytutilfinning. Hann skellti fram sjúkdómsgreiningu : "Beinhimnubólga. Afar algengt hjá íþróttafólki, aðallega fótboltaiðkendum." Ég vissi ekki hvort ég ætti að hljæja eða grenja því loksins, loksins sá einhver mig eins og ég er.
Kv, Hulda íþróttakona með meiru;)

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Það kom upp sú pæling hjá einni frú sem ég þekki að þar sem bílskúrinn minn er orðinn svona svakalega fínn og flottur hvort ég færi þá bara ekki út í það að leigja Pólverjum hann. En ég get það ekki því það er ekkert rennandi vatn í honum og maðurinn minn er örugglega búinn að kenna þeim orð eins og "samkvæmt lögum" "reglugerð segir til um..." "verkalýðsfélagið" "lögfræðingar". Það er spurning hvort ég rukki ekki karlinn minn beint.

laugardagur, ágúst 06, 2005

Jæja, þá er þessi afmælisveisla búin. Þetta tókst svona líka æðislega vel upp hjá okkur, engin slagsmál, engin slys, engin niðurhelling (nema hjá fullorðna fólkinu) og allir ánægðir og þreyttir á bænum. Stóru stelpurnar mínar bara orðnar átta ára...mér finnst ekkert svo langt síðan þær voru skríkjandi og spriklandi með piss í bleiu. En þær verða fallegri með hverjum deginum og eru alveg ótrúlega yndislegar. Hverjum þykir sinn fugl fagur en sjáiði bara...

föstudagur, ágúst 05, 2005

Ég er í pásu núna og ákvað að monta mig aðeins yfir dugnaðinum í okkur skvísunum á heimilinu. Það er búið að baka þrefalda möffinsuppskrift, tvær skúffukökur og núna er verið að þrífa. Auk þess alls er móðirin búin að setja í þrjár vélar í dag og brjóta saman úr einni. Það á eftir að baka skinkuhornin og RiceCrispieskökurnar, elda kvöldmatinn og þvo meiri þvott....Ég tók yfir þvottinn núna um daginn í stórhreingerningunum og er vægast sagt ekki að standa mig í því. Hefði betur sleppt því. En samningur er samningur sama hversu mikið maður semur af sér.
Pásan er búin og ég er farin að þrífa klósettið.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Rakst á umræðu inn á barnalandi um nærfataeign...Það minnti mig bara á þegar ég kom að Adda í herberginu mínu að "taka til" og það var ekkert búið að gera í herberginu nema opna nærfataskúffuna. Það er æðislegt að koma að perra glóðvolgum og hlusta á afsakanirnar sem koma í runum. Ég skemmti mér lengi vel á þeirri lífsreynslu að perri hafði komist í nærfötin mín.
Afmælisundirbúningurinn er í algleymingi á heimilinu. Tvíburarnir eru að verða átta ára á laugardaginn og það eru uppi ýmsar hugmyndir með veisluna. Það er búið að setja saman gestalista og telur hann hvorki meira né minna en 22 börn. Boðsmiðarnir eru að prentast út í þessum skrifuðu orðum og verða bornir út í dag. Matseðillinn er smápizzur eða pulsur eða kökur eða bara allt, semsagt ekki alveg ákveðið hvað verður borðað en bakstur hefst engu að síður í dag. Það á að baka möffins því þær segja að það verði að vera möffins og það er ekkert afmæli ef það er ekkert möffins. Svo að sjálfsögðu "afmæliskakan"(RiceCrispieskaka sem mótar töluna og popp í kringum) og svo kassíkin sjálf, skúffukakan. Mér líður eins og ég sé að fara halda upp á afmæli áratugarins. Þær vilja stórt borð úti í garði og að sjálfsögðu bleikan dúk á það og blöðrur út um allt, svo á barasta að uppfarta börnin með veitingarnar. Eftir matinn á að fara í leiki og svo á að horfa á spólu. Ég bið til Guðs um gott veður því ég veit ekki hvernig á að koma öllum þessum börnum fyrir annars. Húsið á eftir að springa utan af okkur ef við neyðumst til að halda það innanhúss.
Samt svolítið fyndið með svona barnaafmæli....flest öll standa þau yfir í tvo tíma og svo er allt búið en þær vildu að afmælið þeirra væri frá eitt til átta og stanslaust prógramm. Ég er alveg til í það með minni útfærslu, börnin heim um þrjú og fullorðnir koma í hollum til átta.
Ég auglýsi eftir aðstoð við þetta afmæli þar sem Harpa ákvað að flýja land...Ég skal sjá um allan bakstur, undirbúning og frágang en aðstoð vantar við uppfartið og börnin.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Jæja, þá er verslunarmannahelgin afstaðin. Að sjálfsögðu var farið á Neistaflug með börnin báða dagana og þeim leyft að fá andlitsmálningu fyrsta daginn, candyfloss og ferð í hoppukastalann seinni daginn og fleira og fleira. Mér finnst svakalegt hvað það er verið að plokka af manni peninga á svona hátíðum því ég er með þrjú stykki af börnum sem hafa vit á að fá eins og hinir.
Fimmhundruð í andlitsmálningu = Fimmtánhundruð, Candyfloss á þrjúhundruð = Níuhundruð og hoppukastalaferðin var að vísu ekki nema hundraðkall en samt...Það er ekki eins og maður sk*** þessu klinki.
Að sjálfsögðu er ekki sett verð á gleði barns né minningar um skemmtilega hátíð í huga barnsins þannig að ég er fegin að hafa getað leyft okkur þetta. Í gærdag tókum við með okkur afganga af heimagerðri pizzunni frá því á laugardagskvöldinu og hittum vinafólk okkar sem kom með drykkjarföng og fengum okkur nesti úti í guðsgrænni náttúrunni við hliðina á Bakkabúðinni.
En þegar við vorum að ganga til baka ætluðu Tvíslurnar að vera voða fyndnar að hlaupa á undan og bregða okkur við eitthvert hornið. Það tókst ekki betur en svo að Kolbrún datt á gangstéttarbrúninni og skrapaðist inn á miðja götu. Við þökkum bara fyrir það að engin umferð var akkúrat þá stundina því þá hefði farið verr. Hún er með fleiður á enni, kinnbeini, undir nefi, vörinni, öxlinni og sár á hnénu. Og hún er ekki ljón að ástæðulausu því þegar hún meiðir sig er sko öskrað eins og eitt slíkt. En allt er gott sem endar vel.