Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

laugardagur, október 18, 2003

Ég tók þá ákvörðun, þrátt fyrir vinsamleg tilmæli frá góðum konum, að fara ekki á fund í kvöld.
Ég á örugglega eftir að sjá eftir því á morgun eða hinn. Í staðinn ákváðum við að halda videokvöld handa börnunum.
Við erum ekki búin að vera dugleg með að verðlauna þær að undanförnu. Við fengum áhyggjur af því um daginn að vera að dekra þær. Það virðist oft skolast til hjá þeim af hverju við veitum þeim verðlaun. Þær eru haldnar þeirri rangtúlkun að það sé skylda okkar að verðlauna þær sama hvort þær séu duglegar eður ei. Þær eru farnar að stunda það að hlusta ekki á mig fyrr en ég er orðin hás og hálfheyrnarlaus af öskrunum í sjálfri mér. Ekki misskilja mig og hallast að því að ég sé sígargandi allan daginn, sú er ekki raunin. Ég reyni að biðja fallega fyrst svo er ég hvöss, þegar það dugar ekki fer ég að skipa fyrir og ef ég fæ engin viðbrögð þegar svo langt er komið þá byrja ég að hækka tóninn.
Allavega héldum við þetta videokvöld fyrir þær og keyptum við nammi og snakk til að narta í meðan spólan rúllaði í tækinu. Athyglin hjá þeim var af skornum skammti, ég held að þær hafi verið að horfa í 35 mínútur. Svo var farið að veltast í sófanum og vera fyrir hinum, nammið var ekki búið svo það var ekki skýringin. Ég er farin að hallast að því að það sé valið á myndinni, ég valdi "Shrek" á ensku (óvart). Það er langt síðan við sáum hana og mig langaði í eitt skipti að horfa á eitthvað annað en Öskubusku 2, sem by the way er viðbjóðsleg teiknimynd.