Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

mánudagur, október 13, 2003

Ég hata það meira en hell it self þegar ég þarf að hringja í þjónustulínur og það er símsvari sem biður mig um að ýta á alla takkana á símanum áður en hann tilkynnir mér að ég þurfi að bíða, það séu allir uppteknir. Svo virðist eins og allir hafi bara skroppið í kaffi og ég bíð í fimmtíuog átta eilífðir þar til allt bakkelsið á kaffistofunni klárast til að fá að vita að ég átti að ýta á 3 en ekki 2. Þá byrjar önnur bið Dauðans og ég þrjóskast skjálfandi og titrandi við löngun mína til að skella á. Það virðast allir vera farnir í mat á hinum enda símalínunnar og ég berst við þrána að sprengja heimilissímann í loft upp. Þegar ég er loks farin að skilja út á hvað hryðjuverk og sjálfsmorðsárásirnar ganga er svarað. Brjálæðið sjatnar smátt og smátt meðan ég kynni mig kurteisislega og mig gagntekur þessi svakalega auðmýkt, mér finnst ég hafa truflað þennan mikilsmetna þjónustufulltrúa og fer að biðjast afsökunnar á frekjunni og yfirganginum í mér að nenna að bíða svona lengi, gleymi erindinu og þakka fyrir að hann/hún hafi svarað símtalinu og legg á hin rólegasta.
Það tekur mig svo alltaf smástund að átta mig á því að ég hafi engin svör fengið og þetta símtal, sem tók eina og hálfa mínútu, fór ekki sem skildi.

Það er ekki mér að kenna þó starfsfólk þjónustulínanna fari að hverfa sporlaust.