Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

föstudagur, október 24, 2003

Ég gat ekki annað en bloggað núna þar sem ég er stödd fyrir framan tölvuna. Er reyndar búin að vera í tölvunni í mestallt kvöld. Ég er svo mikill snillingur eins og mjög oft hefur komið fram. Ég verð bara að miðla af sjálfsdýrkuninni minni áður en ég spring úr stolti.

Vinkonu minni langar að byrja að blogga en kann ekkert á svona html dót. Þannig að ég tók völdin í mínar hendur og ákvað að hjálpa henni af stað, því eins og hefur verið staðfest oftar en einu sinni þá er það minn tilgangur í lífinu. Það er að segja að láta öðrum líða betur á einhvern hátt, aðrir mega finna sinn starfa í því að staðfesta alla skapaða hluti. Stend ég mig alltaf betur og betur í þessu guðdómlega hlutverki eftir að ég fattaði sjálf að þetta er mitt hlutskipti. En það fóru nú bara allmörg ár í það að ná því í gegnum kollinn á mér.

En að stolti mínu í kvöld. Eftir að ég fékk aðgang að síðunni hennar byrjaði ég að herma eftir því sem ég sá gert við mína síðu. Ekki svo að skilja að hennar síða sé enn ein léleg eftirprentunin af þessu templati því hún er með alveg gjörólíka síðu. Nema ég var ekki sátt við hvað uppsetningin var flókin hjá henni svo ég tók mér leyfi frá Bessa og breytti því í síðu sem eitthvað svipaði til uppsetningar á minni. En þá var ég ekki alveg sátt við litinn, það er eitthvað fráhrindandi við lit sem minnir mann á annað hvort framsóknarflokkinn eða vinstri græna. Af þessu má draga frekar þann dóm að ég er ekki hrifin af grænum lit heldur en að ég hafi verið að gefa í skyn stjórnmálaskoðanir mínar. Þannig að ég skipti um lit hjá henni líka og þó ég segi sjálf frá er verkið vel af hendi unnið miðað við það að ég hef ekki hugmynd hvaða html kóði er fyrir alla liti heimsins. Svo setti ég að sjálfsögðu hlekki, svo maður athugi sletturnar aðeins, yfir á mig og minn kall. Og er ég nokkuð stolt af afreki mínu sem mér finnst ég eiga allan heiðurinn því aðrir gáfust upp og fóru að sofa. Röflandi eitthvað um að ég ætti ekki að vaka yfir þessu í alla nótt.

Þannig að nú er hánótt og allir fjölskyldumeðlimir nema ég í fasta svefni. Og ég orðin svo þreytt að ég var alveg farin að fatta þetta forritunardót og skrifaði vinkonunni næstum emil með html kóða. Fyrir utan þá staðreynd að þessi skrif hér eiga ekki eftir að vekja mikinn skilning hjá flestum í fyrramálið.

En ef ég fer ekkert að sofa þá bæti ég tölvusnilld á listan yfir í hverju ég er snillingur.