Mér þykir voðalega vænt um að horfa á bæinn minn þegar ég fer út að reykja. Það er rosalega fallegt, sérstaklega á kvöldin. En undanfarið fyllist ég sektarkennd í hvert einasta skipti sem ég horfi niður í bæ frá tröppunum mínum, því ég tek eftir því að bókasafnið er búið að opna aftur. Það var lokað í sumar vegna viðgerða á húsnæðinu en ég fékk þessa æðislegu hugmynd í fyrra að fá mér bókasafnskort, sem mér fannst að allar fyrirmyndarmæður ættu að gera. Sá ég fyrir mér löng og dimm vetrarkvöld þar sem ég og dætur mínar sætum makindarlega í rúminu mínu og læsum bækur til að auka orðaforða og lesskilning, sem og okkur til mikillar skemmtunar.
Ég fékk mér bókasafnskort og dætur mínar líka. Gerðum við okkur ferð niður í bókasafn til að taka bækur sem við völdum af mikilli kostgæfni. Við settumst einnig í rúmið mitt og lásum þær bækur sem við tókum, en einhvern veginn fórst það fyrir að skila blessuðum bókunum. Ég gæti svosem skilað bókunum. En þrjár af þeim fimm bókum sem við tókum eru týndar og ég þori ekki að skila hinum tveimur sem eftir eru. Ég veit ekki hver sektin er fyrir að skila ekki bókum og ég kvíði fyrir því að fá að vita hver sektin er ef liðið er ár. Því ef þetta er eitthvað líkt og videoleigan þá er ég gjaldþrota og húsið mitt verður tekið upp í skuldina.
<< Home