Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Það getur tekið á að eiga börn, sérstaklega þegar þau líkjast manni sjálfum í grallaraskapnum.
Um daginn hringdi lögreglan í mig og tilkynnti mér að börnin mín, ásamt öðru barni, höfðu verið að fikta með eld uppi í fjalli og þær væru á leiðinni heim. Þeim hefði brugðið illa enda höfðu þær misst stjórn á eldinum og þurft hjálp til að slökkva hann. Við þessar fréttir var mér að sjálfsögðu brugðið og ég stökk út til að ná í þær. Ég leitaði um stund og hvergi sást til þeirra en þegar ég var að gefast upp á leitinni rakst ég á þær fyrir utan hjá þriðja sökudólgnum, sem var búin að fara í sturtu og skipta um föt. Ég sagði þeim að koma inn í bílinn og fór í búðina og svo heim, allan tíman sagði ég ekkert en var að kafna úr reykjarlykt. Ég ætlaði að láta þær segja mér hvað hafði gerst en þær þorðu því ekki og fór ég þá að spyrja þær hvað þær höfðu verið að gera. Þær sögðu mér að þær höfðu verið að fikta með eld og ástæðuna fyrir því að þær höfðu kveikt bálið, reyndu meira að segja að kenna þriðja aðilanum um allt en ég sagði að þær vissu betur en svo að vera að fikta með eld og að það skipti engu máli hver gerði hvað því þær voru allar að þessu. Refsingin var vikustraff, beina leið úr skólanum og enga krakka inn. Ég hef heyrt því flengt fram að hin móðirin hafi enga refsingu gefið.
Svo fæ ég að heyra það út í bæ að ég sé allt of ströng við börnin og að ég eigi nú ekki að láta svona. Börnin mín hafi sagt að mamma hennar (þriðja sökudólgsins) sé svo góð. Ég hef sagt þeim að ég sé ekki að skammast í þeim bara til að vera leiðinleg, þvert á móti er ég að reyna að kenna þeim hvað er rétt og hvað er rangt. Að mig langi ekkert til þess að rífast í þeim og mig langi miklu frekar að við séum vinkonur.
Í dag er öskudagur og vikustraffið ekki búið. Og í hausnum á mér glymur sektarbjallan, hin mamman er svo góð... Ég ákvað að gefa undan með þeim orðum að nú er ég að vera mjög góð við þær að leyfa þeim að fara út til að sníkja nammi með hinum krökkunum og þær skildu samt halda áfram að vera góðar. Því var hátíðlega lofað yfir morgunmatnum og svo var farið í að redda búningum, greiða og mála. Það voru tvær afar ánægðar og hamingjusamar stelpur, önnur svört Bratzdúkka og hin fín pæja, sem gengu út í daginn.
Eftir sit ég og hugsa hvort ég sé óhæf móðir....