Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

föstudagur, febrúar 18, 2005

Ég er andvaka. Ég hellti mér upp á rótsterkt róandi te sem ætti að nægja til að svæfa flóðhest en ég hef greinilega eitthvað fitnað.
Mér tókst nú að sofna aðeins fyrir miðnætti en hrökk upp við slæman draum rétt fyrir eitt. Mig hefur nú oft dreymt svipaða drauma og þennan og alltaf er ég andvaka það sem eftir er af nóttinni. Draumurinn byrjar alltaf á því að ég er að keyra og öll börnin eru með mér og það er voða gaman, sungið og trallað. Svo erum við bara að keyra þegar við komum að brú eða sjó og ég missi stjórnina á bílnum og keyri út í vatnið. Og ég skipulegg björgun barnanna og skrúfa niður rúðuna svo við komumst út úr sökkvandi bílnum sem fyllist óðum af vatni. Ég vakna alltaf áður en ég er komin að bakkanum með börnin og veit þar af leiðandi ekki hvort mér tekst að bjarga börnunum mínum eða ekki. Tilfinningin er svo þrúgandi þegar ég vakna að ég get ekki legið kyrr og fer að tékka á stelpunum og kyssi þær, laga sængina þeirra og horfi á þær sofa í smá stund. Það hefur oft dugað til að róa mig en núna hef ég slátrað fjórum bollum af flóðhestasvæfilyfi og ekkert bólar á syfju eða ró. Ég er að spá hvort þetta te sé gallað...