Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

mánudagur, janúar 31, 2005

Þá er það orðið opinbert að ég er farin að skrappa. Ég verð nú að segja að ég er trefilli ánægð með árangurinn miðað við að þetta er mín allra allra fyrsta skrappsíða. Að vísu er ég ekki svo svakaleg í þessu að hafa sýrulausan pappír og límdropa og bla. Notaði bara mismunandi lit prentarablöð og prentaði svo út þær myndir sem ég vildi nota sem þema. Klippi klipp og líma líma og vella!





Finnst ykkur þetta ekki flottasta skrappsíða sem þið hafið séð?

sunnudagur, janúar 30, 2005

Það er svakalegt hvað ég er áhrifagjörn. Nýjasta æðið er scrap, Gunna frænka hefur gert þetta í mörg ár og mér hefur alltaf fundist þetta þrælsniðugt en aldrei nennt þessu. Fyrr en nú. Nú verður sko scrappað! Ég er búin að týna til fullt af myndum og límmiðum og prenta helling út sem verður notað í "æði þessa mánaðar" og þar sem ég er meðvituð um að þetta er áhrifagirnin þá verður helst ekkert keypt í þetta sinn. Mun ég leyfa ykkur, lesendur góðir, að fylgjast með. Ég ætla að byrja á Dagbjörtu minni þar sem hún skaust nú fyrst úr skauti mér.

laugardagur, janúar 29, 2005

Það er skrítið hvað tónlist getur haft mikil áhrif á tilfinngarnar hjá mér. Þið sem þekkið mig vitið hvaðan ég kem og allt það og þið skiljið þá kannski hvað ég meina þegar ég segi að það er sum tónlist sem ég get bara ekki hlustað á. Bubbi(áður en hann fór til Kúbu), Sex Pistols, Purkur Pilnikk, Sjálfsfróun, Fræbblarnir eru bara það sem mér líður verst yfir en svo eru það Metallica, Pearl Jam, Pantera, Sepultura, Sororicide sem gera mig bara reiða og ég fer að þrífa af miklu offorsi. Jet black Joe og Nirvana gera mig þunglyndari en ég er vanalega. Og svo mætti endalaust telja en af þessum sökum hef ég passað voðalega upp á tónlistarsafn heimilisins og myndu margir af mínum gömlu "félögum" deyja úr hlátri ef þeir flettu í gegnum bunkann. Edith Piaf, Norah Jones, David Grey og félagar auk Rásar 2 og Bylgjunnar. En mér líður vel og er edrú og þegar á heildina er litið er það frábærlega vel af mér staðið.
Góðar stundir.
Það er ekki oft sem við fjölskyldan bregðum okkur af bæ en það kemur fyrir. Það var að byrja nýtt balletnámskeið, framhald af þessu sem var fyrir jólin, og stelpurnar vilja vera með í því sem er barasta gott mál. Mér finnst ekkert tiltökumál að keyra upp í Egilsstaði einu sinni í viku fyrir það enda margt hægt að gera þar í leiðinni. Eins og til dæmis að fara verslunarferð í Bónus og svoleiðis bruðl. Fyrsti tíminn var í dag og við mættum alltof seint þannig að þær mæta bara í næsta tíma. Ástæðan er margföld. Í fyrsta lagi lögðum við aðeins of seint af stað því húsmóðurinni langaði í pulsu þegar það var farið að nálgast sjoppuna. Í öðru lagi lentum við í smá árekstri inn á Reyðarfirði útaf ánskótans hálkunni og fólki sem kann ekki að nota stefnuljósin. Þetta var fyrsta rispan á nýja fína skutbílnum og mig langaði að gráta og berja strákgreyið sem átti sökina á þessu. Í þriðja lagi var búið að færa námskeiðið úr íþróttahúsinu yfir í tónlistarskólann. Við fórum bara með börnin í sumarbústaðinn í smá afslökun eftir allt þetta hark. Ég treysti mér bara ekki af stað niðureftir alveg strax og ef ég væri ekki hætt að reykja held ég að ég hefði slátrað hálfum pakka í bústaðnum en ég fékk mér bara kaffi, súkkulaði og brauð í staðinn. Svo þegar lagt var af stað eftir kaffipásuna í Sólvangi lagði ég til að farið yrði í Bónus og fjárfest í bleijum á kútinn. Síðan var rokið af stað niður á firði en það eru svaka sviptivindar á Dalnum, við fukum næstum útaf einu sinni en maðurinn minn er svo góður bílstjóri að honum tókst með snarræði að halda okkur á veginum. Þegar komið var á Hálsinn rákumst við á göngumann með bakpoka og sígó röltandi niður brekkuna, í brekkunni hálfri keyrðum við fram á annan gönguhrólf með sígó lallandi sér upp brekkuna og þegar í bæinn var komið brunuðum við framhjá enn einni manneskju röltandi fram og til baka hjá bakpokahrúgu. Þetta mun verða ráðgáta húsmóðurinnar þessa vikuna: Hvað er í gangi með allt þetta gangandi fólk?

föstudagur, janúar 28, 2005

Ég var víst búin að lofa tveimur bloggfærslum á dag... En ég hef ekkert að segja núna. Búin að vera með hús fullt af börnum í allan dag og einhvern veginn langar mig bara að segja eitt orð: "Barbí". Þó ég hafi verið umkringd krökkum í dag tókst mér að þrífa helminginn af baðherberginu - klára það næst þegar ég þarf að fara - og skúra eldhúsið og þrífa eftir drekkutímann, hafa til matinn, sláturmáltíð, vaska upp stóra pottinn eftir matinn, setja í uppþvottavélina, hella upp á kaffi og poppa fyrir Ædolpartýið, brjóta saman allt tauið í sófanum. Ekki lélegur árangur það fyrir letidýr eins og mig.
Kidda bróðir tókst að gleðja mig um daginn með æðislegum link um daginn og ætla ég að reyna að dreifa smá gleði líka.
Híhí...
Mig dreymdi að ég væri með barnaskarann á hælunum, uppþvottabursta í hendinni og að ég yrði að vera búin að skúra baðherbergið áður en Jónsi kæmi heim. Og þegar ég vaknaði var ég dauðþreytt en dauðfegin því það var aðeins eitt barn í húsinu og ef draslið á baðherberginu fer í taugarnar á einhverjum má hinn sami bara skúra. Hah! Glætan... Þið vitið að það að leyfa öðrum að þrífa heima hjá mér er aðeins í nösunum á mér. Allavega gæti ég ekki verið viðstödd þann gjörning án þess að gera þá gæðamanneskju kreisý á afskiptaseminni og sérviskunni í mér.
Ég vissi samt að þetta væri draumur þegar ég fór inn á baðið, það var stórt og flísalagt í hólf og gólf með hvítum flísum og stór og flott innrétting með brotinn "hurðahún" á einni hurðinni. Okkar er pínulítið með dúk á gólfinu og 20ára gamlar "bleikar" flísar á veggjunum. Þetta var ekki mitt baðherbergi sem ég þurfti að skúra.
Ég hef ákveðið að blogga tvisvar á dag í allavega viku.

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Ég var að gera barnalandssíðu fyrir litlu frænku mína í gær og var látin fá disk með helling af myndum. Fyndið hvað leynist í "myndaalbúmum" fjölskyldumeðlima.



Tvíburarnir mínir.

Inúítinn minn.

Ég og Kiddi bró, alltaf sætustustust.

Ég bara VARÐ að sýna ykkur þessa. Pétur frændi og Gunnhildur frændakona nýskriðin af gelgjunni...eða ekki:)

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Þráhyggjan er mig lifandi að drepa. Ég keypti mér víkingalottó bara til að vinna nóg fyrir breytingunum á húsinu. En það var ekkert á miðanum, ég er ekki frá því að það hafi verið leynikóði á miðanum sem sagði; þú ert vitlaus grey. Hvað er það annað en vitleysa að kaupa sér lottó þegar maður á ekki fyrir mjólk?
Annars er voða fátt að frétta af þessum vígstöðum. Sá stutti dafnar bara eins og blómi í eggi (ég fletti þessu upp og jú, þetta er skrifað svona!)og þyngist og stækkar með hverjum deginum. Hann er farinn að fá aðeins að borða á kvöldin og hefur fengið það síðan um jól, hann varð vitlaus yfir að vera skilinn útundan þegar allir voru að borða svona fínt. En upp á síðkastið hefur mér fundist hann þurfa meira að drekka. Hann er fastur á mér á morgnanna. Ég ákvað að prufa að gefa honum í hádeginu með okkur og viti menn hann var bara sáttur til hálf fjögur. Draumapiltur þegar hann er saddur. Stelpurnar eru í endalausu stríði við okkur foreldrana í sambandi við viðeigandi klæðnað útifyrir. Meðan við stöndum föst á því að það er vetur og það þýði húfu, vettlinga og hlífðarbuxur gefast þær ekkert upp á því að benda á verr klædda einstaklinga á svipuðum aldri. Rök okkar eru þau að við erum ekki foreldrar þeirra barna og þá fær maður svör sem stinga. En samt eru þau svör ekkert miðað við viðbrögðin við matnum í kvöld. Mér datt í hug að skella fisk, spaghetti, tómatsósu, osti og fetaosti saman í eldfast mót og baka í ofni. Enginn kláraði af disknum nema ég, karlinn flúði með afsökun um bekkjarkvöld hjá umsjónarbekknum hans og annar tvíburinn ældi. Það var samt lyst á poppi og spólu skömmu eftir að ég hafði gengið frá eftir máltíðina sem ég eyddi með sjálfri mér. Mér fannst þetta bara ágætt en smekkur manna er víst misjafn.

mánudagur, janúar 24, 2005

Ég er að deyja úr straxveiki þessa dagana. Ég á alveg svakalega erfitt með að sætta mig við að ekki séu til peningar til viðhalds/viðbyggingar á fasteigninni og að ég verði að bíða. Húsið er að sjálfsögðu komið á tíma, byggt 1916 og ég vil helst að eitthvað verði gert áður en það hrynur yfir okkur. Í ofsarokinu um áramótin hélt ég í alvöru að húsið væri að fjúka burt og það hljómaði í kollinum á mér lagið "það fýkur burt". Að vísu er það lag um að landið sé að fjúka burt en samt... Auk þess sem við erum að kafna úr plássleysi. Við hjónin sofum til að mynda inni í innri stofunni með prinsinn og borðstofan okkar er í kössum í geymslu. Af sökum plássleysis er ekki hægt að bjóða fleirum heim en í mesta lagi þremur gestum án barna. Jónsi er svakalega æðrulaus maður og benti mér á aðra leið til að skoða þetta mál. Í staðinn fyrir að einblína á plássleysi að sjá hversu kósý þetta er... Hann má alveg reyna að blekkja sjálfan sig á þeirri ranghugmynd. Það er ekkert kósý við það að gestirnir komist ekki hjá því að horfa inn á skeiðvöll okkar hjóna.

laugardagur, janúar 22, 2005

Föstudagskvöldin hafa verið nokkurs konar fjölskyldukvöld hjá okkur þar sem við njótum þess að vera saman og borða nammi fyrir framan sjónvarpið. Hefur það oftast verið Idolið sem glápt er á meðan nammið er etið og allir sitja í einni kös. En í gær varð ég fyrir miklum vonbrigðum, ekki yfir Idolinu heldur að þegar ísinn kláraðist sat ég allt í einu alein í stofunni með yngsta krílið og þá áttaði ég mig á einu....þeim finnst ekkert gaman af söngvakeppni þegar fólk kann að syngja. Á meðan fólk var að syngja illa og gera sig að fífli var glápt og hlegið en nú er þetta ekkert spennandi lengur og nammið er borðað en svo er laumast upp í Barbí. Næsta föstudag verður spilað. Ég tek ekki í mál að sitja alein á fjölskyldukvöldunum og úða í mig sælgæti því það er eitthvað svo sorglegt.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Yngsta prinsessan okkar á afmæli í dag og er orðinn 4jra ára. Finnst eins og það hafi verið í gær sem hún skaust út úr mér.

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Það er með eindæmum hvað ég þarf alltaf að vera með mikið vesin. Ég ætti að ganga með derhúfu sem á stæði "Gangandi vesin" og vera með barmmerki í stíl. Áður en þið lesið þetta vil ég taka það fram að það eitt að koma mér til læknis er Heljarinnar vesin.
Þegar ég fer til læknis vegna þrálátra höfuðkvala og lýsi þeim sem best ég kann fyrir honum kannast læknirinn ekkert við einkennin sem hrjá mig og fer að blaða í einhverjum sérritum á útlensku og kemst að þeirri niðurstöðu að ég þurfi að fara suður í sneiðmyndatökur. Ég fer suður og tala við heilan árgang af sérfræðingum í höfuðkvölum sem allir standa á gati yfir þessum krankleika sem á sér enga sýnilega ástæðu miðað við allar mögulegar myndir, röntgen, sneiðmyndir, ómskoðanir og hvað allt þetta heitir. Ég tala við annan árgang en núna af taugasérfræðingum og einnig standa þeir ráðalausir yfir mér. Á endanum verður það augljóst að orsökin er vöðvabólga sem veldur höfuðverkjunum. Ég vissi það allan tíman að ég er með vöðvabólgu í öxlunum... Þetta er góð afsökun til að fara ekki til læknis aftur fyrr en ég missi handlegg eða eitthvað annað lífshættulegt plagar mig. Því ég vil ekki vera þekkt sem "þessi móðursjúka".
Ég er líka svolítið erfið þegar málið snýr að tannlæknum, ég er með lélegar tennur og má ég kenna sjálfri mér og Vífifelli um það. Ég fer ekki til tannsa fyrr en ég er hætt að sofa fyrir kvölum og helst ekki þá. Ég sting alltaf upp á því þegar ég kem í stólinn að draga tönnina úr en það er aldrei hlustað á mig nema þegar um endajaxla er að ræða. Ég þjáist illilega af tannlæknafóbíu og mitt álit á þeim sem fara í skóla til þess að læra tannlækningar er álíka mikið og á dýraníðingum. Það er annað hvort peningarnir eða hreinn og beinn kvalarlosti sem dregur fólk í það nám. En það er allt annar pistill sem verður sennilega ekki skrifaður hér né af mér.
Alla vega fór ég um daginn til tannlæknisins en þar sem Eskifjarðarbæ tekst svo illa að halda tannlæknum hér hef ég kynnst fleiri tannlæknum en mig lystir. Þessi nýi hins vegar tekur ekkert bull í mál og vill bara laga í mér skoltinn í eitt skipti fyrir öll. Ekkert hálfkák og áður en ég vissi af var hann búinn að skipuleggja viðgerðir hingað og þangað um allan tanngarð og hefur hafið sína herför í þessum skrifuðum orðum. Hann hefur lagað brotna jaxlinn sem ég braut á karamellu rétt fyrir jólin og hann var að laga hinn brotna jaxlinn sem ég braut á ristuðu brauði með osti þegar hann rakst á "falinn endajaxl". Ég vissi alveg að jaxlinn væri ekki farinn neitt en þar sem hann var ekkert að bögga mig hélt ég að hann væri bara lítill og sætur, svolítið seinþroska, endajaxl sem ætti eftir að láta sjá sig. Það er skipulagt brottnám á jaxlinum og mér sagt að mæta á fimmtudeginum. Þar sem ég hef gengið í gegnum slíkt áður ákveð ég að hafa manninn minn mér til halds og trausts í þeirri aðgerð vonandi að þetta yrði ekki eins mikið vesin eins og hinn endajaxlinn reyndist. Þar þurfti nefnilega að splitta og fræsa í bein og læti. Við mætum á fimmtudagsmorgninum með vonina að vopni. Tannsi byrjar að skoða og deyfa og því meir sem hann skoðar ákveður hann að deyfa meira og meira og endar þetta á blóðbaði. Vonin dó. Sem betur fer fann ég ekkert fyrir þessu en það er eitthvað við hljóðin í verkfærum "djöfulsins", eitthvað óhugnalegt og hryllilegt. Það var splittað og fræst og skorið og fræst meir en á endanum gafst grænjaxlinn upp...í þrennu lagi og laus frá beini. Það var sogið og saumað og sogið meir. Tannsinn skrifaði upp á sýklalyf og sendi mig heim. Að sjálfsögðu var málið ekki þar með dautt, langt því frá því ég fékk sýkingu í kjálkann og sýklalyfið sem ég fékk var ekki nógu sterkt og því blés kinnin á mér út í hið óendanlega og kvalirnar ætluðu að drepa mig. Það var stungið á en ekkert kom þannig að það var stungið á aftur en ekkert kom þannig að ég var sett á sýklalyfjakokteil sem drepið gæti sýktan steypireið og það rétt slapp. Ég hékk alla helgina milli heims og helju með kinnina í öðru herbergi og át sýklalyf og verkjalyf með súrmjólk. En með hamingju í hjarta og kinnina í næstum réttri stærð kveð ég í bili.

sunnudagur, janúar 02, 2005

Gleðilegt nýtt ár og þakka liðið. Ekkert smá ópersónuleg áramótakveðja en hún verður að duga.
Áramótin hjá okkur voru mjög róleg bara í rokinu. Svakalega stór og skemmtileg fjölskylduveisla í Hátúninu á gamlárskvöldið. Þar voru afi, amma, Gunna frænka, mamma, Halli mömmumann, Kiddi litlibró, Sylvía litlasystir, Arna minnisystir, Jói tengdó, Evlý tengdó, Gunnhildur frændakona, Pétur frændi, Karl Steinar litlifrændi, Arndís litlafrænka, Jónsi minn, ég og börnin okkar fjögur. Þetta var yndisleg veisla en svo langaði okkur svolítið til að draga okkur úr hópnum um miðnættið og fara heim að sprengja (ég hringdi samt líka í 907-númerið). Og þá átti það bara að vera ég og Jónsi og tengdóin tvö og börnin fjögur. Fórum við tvær ferðir uppeftir og því eðlilegt að fara tvær ferðir niðureftir líka. Þegar farið var uppeftir voru þrjú börn, stólarnir og meðlæti með matnum tekið í fyrri ferðinni en í seinni ferðinni var afgangur af heimilisfólki og tengdó bæði ferjuð. Þegar niðureftir var farið þurfti aðeins að breyta sætaskipan í eðalvagninum okkar og voru húsmóðir og stúlkubörn skikkaðar í sín sæti auk tómra meðlætisskálanna. En ekki var önnur ferð farin það kvöld til að ferja fólk né stóla því mér tókst að láta hurðina fjúka upp með þeim afleiðingum að ekki var hægt að loka bifreiðinni. Því var hringt uppeftir og einhver beðinn um að skila yngsta barninu og tengdóunum til síns heima. Og þetta var kortéri fyrir miðnætti. Þeim var skilað hingað niðureftir og við frestuðum tilraunum til að loka eða laga bílhurðina fram yfir miðnætti meðan við skutum upp nokkrum rakettum. Þá var farið með hann aftur upp í Hátún í bílskúrinn til afa þar sem allir karlmennirnir söfnuðust saman til að sjá hvað hafði skemmst. Ég hélt í alvöru að ég hefði skemmt bílinn en hurðin skelltist bara í lás og aflæstist ekkert aftur. Það voru samt allir sem prófuðu að loka bílnum. Það var ekki fyrr en Sylvía sá að hurðin var læst sem allir föttuðu hvað var að og bíllinn er lokaður og læstur hér fyrir utan.
Á miðnætti stóðum við, tengdóin tvö og Hólsfólkið, úti í garði og þrjóskuðumst við vindinn, stelpurnar allar komnar með stjörnuljós í hönd og ég hræðsluklump í magann. Eftir smástund fór Jói tengdó inn með þann stutta og vegna vindsins og hræðslunnar um að börnin spryngju í loft upp tók ég ekkert eftir því strax. En ég fór nú inn líka til að athuga með þá þegar ég tók eftir að fækkað hefði í hópnum. Þeir höfðu gefist upp á rokinu og kuldanum og ákváðu að horfa út um gluggann á öll herlegheitin. Ég leit út og þá sá ég að stærsti flugeldurinn, sem Jónsi hafði nýlokið við að kveikja í, hafði fokið á hliðina. Bönkuðum við í gluggann eins og eitthvað væri hægt að gera í því að svo stöddu, flugeldurinn rauk af stað eftir götunni og sá ég fyrir mér að börnin í næsta húsi spryngju í loft upp. Þegar ég hafði róað mig niður eftir þá sýn var mér tilkynnt að hann hefði BARA farið undir bílinn við næsta hús. Sá ég að sjálfsögðu fyrir mér að bíllinn spryngi í loft upp en þegar engir bílapartar flugu um loftið sættist ég á þá útskýringu að hann (flugeldurinn) hefði skemmst eða eitthvað. Ég fór nú samt í dag og laumupúkaðist í kringum bílinn til að athuga með þetta en fann bara prikið... Ég vona til Guðs að hann hafi sprungið.