Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

laugardagur, janúar 29, 2005

Það er ekki oft sem við fjölskyldan bregðum okkur af bæ en það kemur fyrir. Það var að byrja nýtt balletnámskeið, framhald af þessu sem var fyrir jólin, og stelpurnar vilja vera með í því sem er barasta gott mál. Mér finnst ekkert tiltökumál að keyra upp í Egilsstaði einu sinni í viku fyrir það enda margt hægt að gera þar í leiðinni. Eins og til dæmis að fara verslunarferð í Bónus og svoleiðis bruðl. Fyrsti tíminn var í dag og við mættum alltof seint þannig að þær mæta bara í næsta tíma. Ástæðan er margföld. Í fyrsta lagi lögðum við aðeins of seint af stað því húsmóðurinni langaði í pulsu þegar það var farið að nálgast sjoppuna. Í öðru lagi lentum við í smá árekstri inn á Reyðarfirði útaf ánskótans hálkunni og fólki sem kann ekki að nota stefnuljósin. Þetta var fyrsta rispan á nýja fína skutbílnum og mig langaði að gráta og berja strákgreyið sem átti sökina á þessu. Í þriðja lagi var búið að færa námskeiðið úr íþróttahúsinu yfir í tónlistarskólann. Við fórum bara með börnin í sumarbústaðinn í smá afslökun eftir allt þetta hark. Ég treysti mér bara ekki af stað niðureftir alveg strax og ef ég væri ekki hætt að reykja held ég að ég hefði slátrað hálfum pakka í bústaðnum en ég fékk mér bara kaffi, súkkulaði og brauð í staðinn. Svo þegar lagt var af stað eftir kaffipásuna í Sólvangi lagði ég til að farið yrði í Bónus og fjárfest í bleijum á kútinn. Síðan var rokið af stað niður á firði en það eru svaka sviptivindar á Dalnum, við fukum næstum útaf einu sinni en maðurinn minn er svo góður bílstjóri að honum tókst með snarræði að halda okkur á veginum. Þegar komið var á Hálsinn rákumst við á göngumann með bakpoka og sígó röltandi niður brekkuna, í brekkunni hálfri keyrðum við fram á annan gönguhrólf með sígó lallandi sér upp brekkuna og þegar í bæinn var komið brunuðum við framhjá enn einni manneskju röltandi fram og til baka hjá bakpokahrúgu. Þetta mun verða ráðgáta húsmóðurinnar þessa vikuna: Hvað er í gangi með allt þetta gangandi fólk?