Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, desember 17, 2003

Ég hef ekki verið dugleg að skrifa undanfarið og ég skammast mín oggulítið, en ekki mikið meira en það. Hættið nú að grenja því ég ætla hér með að reyna að bæta úr því og "segja" ykkur hvað á daga mína hefur drifið.

Eins og þið flest eruð búin að átta ykkur á átti ég afmæli fyrir skemmstu, ég þakka fyrir allar árnaðaróskirnar (sem ég gat talið á fingrum annarar handar), var að því tilefni blásið til veislu og börnunum komið fyrir í pössun, það var afmælisgjöfin mín frá ömmu og afa. Maðurinn minn ákvað að gefa mér það í auka-afmælisgjöf að elda dýrindismáltíð handa okkar banhungruðu gestum og okkur (hann gaf mér líka trefil, húfu, vettlinga og sokka, allt í stíl, en skrifaði það á börnin að sjálfsögðu). Við buðum ekki mörgum, aðeins aðli siðmenningarinnar hér á Eskifirði, því við erum svo hryllilega vandlát á kunningjafólk (hef ég heyrt). Þetta fyrirfólk kann sína mannasiði, enda af góðu fólki komin og öll færðu þau mér gjafir í tilefni veislunnar. Vil ég þakka fyrir þær hér með á meðan ég tel þær og gefendurna upp. Ég fékk ilmvatn (það var vont lykt af mér áður en ekki lengur) frá tengdó sem að vísu heiðraði mig ekki með nærveru sinni þetta kvöld vegna annríkis síns við þegna þjóðfélagsins (eru annars ekki flest allir í Hagkaupum svona stutt frá jólum?), verður það ilmvatn notað til spari. Freyðandi og angandi freyðibað frá Sillu og Ragga, (svo ég geti loksins farið í bað áður en ég spreyja á mig vellyktandi) og bók til að auka þekkingu mína (ég er greinilega ekki nógu greind að þeirra mati), kerti og kaffi frá Stebba og Ernu (svo ég geti haft rómantíska kvöldstund OG haldið manninum mínum vakandi), salt og piparstauka fékk ég frá Ernu (til að krydda upp á tilveruna, ekki veitir af) og síðast en ekki síst fékk ég forláta fallegt afskorið blóm með glimmeri og fínheitum frá Hörpu og vitnaði hún í lyktina af mér í kveðjunni frá sér: "Aldur skiptir ekki máli nema maður sé ostur".
Meðan maðurinn minn stóð pungsveittur við eldavélina útataður í allskyns matartengdum slettum tók ég á móti gestunum og bauð þeim fordrykk, eins og góðum gestgjafa sæmir. Sat ég og talaði mikið og hátt til að halda gestunum rólegum meðan maðurinn minn lagði lokahönd á listaverkið í eldhúsinu. Fannst mér ég með afbrigðum skemmtileg þarna umkringd þessu fallega fólki en loks kom kokkurinn og tilkynnti, með tilheyrandi bugtum og beygjum, að matur væri framreiddur. Settumst við að borði og nutum þessa góðu veitinga fram í ystu æsar. Var boðið upp á Pestófylltan kjúkling með gratín a'la Jónsi með fersku salati, varfærnislega blönduðu með furuhnetum og balsamiediki. Borðhaldið tókst svo með miklum ágætum að fólk valdi sér hina ýmsustu staði til að leggjast á meltuna, minnti þetta mig á rómversku matarveislurnar til forna og skimaði ég eftir fjöður til að kitla hálsinn til að geta etið meira. Sýndist mér fleiri gera það. Í eftirrétt hafði minn elskulegi keypt þrjár tegundir af rjómaís og brætt súkkulaði í heita sósu til að hafa með herlegheitunum. Til að fólk kæmist nú út um dyrnar til síns heima ákváðum við að taka eins og eitt Trivial meðan öll ósköpin myndu sjatna í belgjum vorum. Fannst okkur kvenfólki það góð hugmynd að skipta þannig í lið að konur væru á móti körlum. Því miður gleymdum við að taka það með í reikninginn að þeir voru allir þrír menntamenn en við bara fávísar kvenlufsur. Og því skíttöpuðum við...

Jæja, ég held að þetta sé gott í bili, ég segi seinna frá jólahlaðborðinu sem við fórum á kvöldið eftir.

þriðjudagur, desember 16, 2003

Guði sé lof að jólin eru bara einu sinni á ári. Ég er alvarlega að spá í að fara til læknis og tékka hvort ég sé að fá magasár af öllu þessu stússi. Um leið og ég sé fram á að geta slakað pínu á kemur upp nýtt verkefni og þetta er búið að vera svona í rúman mánuð. Ég endurtek nú bara mína árlegu setningu; "ég mun undirbúa mig betur fyrir næstu jól og klára jólakort og gjafir um næsta sumar".
Ég segi þetta í hvert einasta skipti sem ég er drukkna næstum í jólakortum, jólapappír og jólamerkimiðum. Það myndi ekki koma mér á óvart ef enginn fengi rétta gjöf né rétt kort fyrir þessi jól.

föstudagur, desember 12, 2003



"Ég verð að fara að þrífa", hef ég sagt þessi orð áður á þessari síðu? Það er allavega það sem ég er að fara að gera. Ég get ekki boðið fólki heim í svona drasl, ég vildi samt að ég ætti einhverja vinkonu sem væri ekki að vinna á morgnana svo hún gæti hjálpað mér að þrífa... eða alla vega koma mér af stað. Ég er ekki svo viss að hún myndi vita hvernig ætti að þrífa hérna því ég er svo vanaföst og sérvitur með allt sem viðkemur þrifum. Svo skil ég ekki af hverju allir eru að líkja mér við Monicu í Friends.
Ég á afmæli í dag, ég á afmæli í dag.

En dagurinn byrjaði ekkert vel. Elsta dóttirin byrjaði að æla í nótt og ég þurfti að þvo henni um hárið því þetta fór út um allt. En það hafðist hjá okkur að þrífa æluna upp og koma barninu í háttinn. Svo var "jólasveinninn" næstum staðinn að verki, miðdóttirin rumskaði um leið og hann var að koma því fyrir. Ekki nóg með það heldur svaf ég mjög illa, dreymdi einhverja þvælu í alla nótt.
Einhver geðsjúk kona, sem leit út eins og Sandra Bullock (bara ómáluð og þreytulegri), var að reyna að ræna yngstu dótturinni. Þetta átti sér allt stað hér á Esk og hún átti heima í Sautens-húsinu. Ég var að reyna að stela barninu aftur í heillangan tíma með allskonar æfingum. Þegar strákarnir frá Ísó komu til að hjálpa mér að strjúka með barnið þá fékk ég þessar rosalegustu blæðingar sem ég hef séð, það fossaði niður úr mér. Þá vildu þeir ekki fá mig inn í bílinn. Svo þurfti ég að sannfæra mömmu um að ég væri í vandræðum með þessa föken skitsó og í miðju símtali mætti herra skitsó, hann leit út eins og sjúskað eintak af Willem Defau (hvernig sem það er nú skrifað), á svæðið og hann var að reyna að nauðga öllum. Það stöðvaði hann ekkert að rauða hafið væri að koma út úr mér að neðan. Barðist ég hetjulega þangað til að mamma kom og hjálpaði mér á snilldarlegan hátt að komast undan geddusvíninu. Þá hafðist leiðin að barninu og ég varð alltaf hræddari og hræddari, það voru þvílíkir ranghalar um allt húsið. En hún mamma var búin að koma barninu út í bíl og ég trúði henni ekki strax þannig að það munaði engu að herra skitsó náði okkur með sinn undna böll hangandi úti. En mamma reddaði því með að ganga fyrir mig og segja að það myndi enginn særa mig aftur. Þá vaknaði ég.

Ég fletti upp í þessari æðislegu draumaráðningabók og þetta er allt fyrir erfiðleikum og veikindum ef ekki verra. En þó að byrjunin á deginum hafi ekki verið glæsileg er ég handviss um að hann verði samt æði. Ég verð með pínu fullorðins matarboð í kvöld semsagt engin börn. Ég ætla samt ekki að setja börnin í pössun í Sautens-húsið.

miðvikudagur, desember 10, 2003

Þetta eru fyrstu jólin mín og Jónsa saman í alvöru. Hann var að vísu hjá mér um seinustu jól en þá bjuggum við ekki saman. Ég er dauðfeginn að hann komi ekki með einhverjar furðulegar hefðir frá sínu bernskuheimili eins og sumir sem ég þekki. Hann er mjög vel upp alinn skal ég segja ykkur. Það á eftir að hljóma eins og ég sé einhver agalegasta grybba fyrr og síðar en sú er ekki raunin. Ég er ljúf sem lamb og á ekkert erfitt með að sætta mig við neitun, ef henni fylgja góð og gild rök (að mínu mati).

Ég hef fengið að ráða hvernig húsgögnin eru og hvernig þeim er uppraðað enda er heimilið, þó ég segi sjálf frá, með þeim fallegri sem ég veit um og ég skil ekki af hverju H&H hefur ekki haft samband eða mætt með myndavélina. Og Vala Matt er ekki ennþá mætt til að sýna ykkur hvað þetta er voðalega smart hjá okkur. Þetta fólk er ekkert að standa sig í sínu starfi ef ég er spurð.

Það var mjög gaman að byrja að búa því við keyptum margt nýtt, hann átti ekki almennilegan sófa frekar en ég. Hann átti einhvern eldgamlan og karrígulan og ég átti tvo aðeins yngri og eldrauða tveggjasæta. Þannig að við fórum í IKEA og eyddum öllum peningnum sem "við" áttum í nýtt sófasett og bókahillur og margt fleira skemmtilegt. Hann gat beitt neitunarvaldinu en gerði það ekki, því ég er svoddan smekkmanneskja. Einnig hef ég fengið að stjórna öllum jólaskreytingunum fyrir þessi fyrstu jól okkar enda er húsið temmilega mikið skreytt og og ég veit að jólatréð verður einnig skreytt eftir mínu höfði.

Semsagt þetta verða gleðilega glæsileg jól hjá okkur.

mánudagur, desember 08, 2003

Þar sem það er mánudagsmorgunn framundan ákvað ég að bregðast ykkur ekki, elsku fastagestirnir mínir, og skrifa eitthvað handa ykkur til að lesa. Ég vil ekki að þið ofkeyrið ykkur á vinnu eða námi. Ég var með fullt af hugmyndum áðan þegar ég var að skreyta gluggana í borðstofunni og vildi gefa ykkur hlutdeild í þeim. Því eins og þið vitið eru pælingar mínar ekkert smá gáfulegar og til margs brúklegar... En ég man ekki eina einustu pælingu lengur því þessi tölva er svo lengi að tengjast og það tekur heila ævi að opna hverja síðu. Þannig að þegar ég loksins var kominn inn á bloggið voru liðnar nokkrar mínútur og skammtímaminnið brann yfir. En ég veit að þær voru á mjög svo vitsmunalegum nótum og bráðsmellnar... minnir mig. Ég er farin að þrífa aftur bara.
Það er annar í aðventu og ekki nema hálfur mánuður í að allt þurfi að vera tilbúið fyrir blessuð jólin. Ég man ekki til þess að mamma hafi stressað sig svona mikið eins og ég geri fyrir þessa hátíð ljóss og friðar. Mér er óglatt af öllu kaffinu sem ég hef drukkið á hlaupunum í brjáluðu jólastússi. Það kæmi mér ekki á óvart að ég þyrfti að fara á heilsuhæli eftir áramót, bara til að ná mér niður.

Annars tók ég mér pásu á jólaundirbúningnum og tók þátt í þessum basar og svo hjálpaði ég til að halda veislu fyrir afa gamla. Basarinn fór ekki alveg eins og ég vildi, ég seldi ekki eitt einasta verk eftir mig. En ég get þá haldið sýningu seinna með þessum verkum ef mér skyldi detta sú vitleysa í hug að ég hefi eitthvað fram að færa á listasviðinu. En ég hefði samt ekki átt að vaka svona margar nætur, "pungsveitt" við að fitla við listagyðjuna. Ahhh... fukkit!
Þar sem þessi blessaði basar tók mestan tíman minn var ég í hálfgerðum vandræðum með terturnar sem mér var falið að baka fyrir afmælið hans afa. Var það fyrst í gærkveldi sem mér gafst tími til þess og stóð ég sveitt og þakin hveiti langt fram á nótt fyrir framan eldavélina og hrærivélina. En þegar fyrsta tertan féll fór ég í fýlu og gafst upp. Ég fór að sofa. Vaknaði síðan eldsnemma í morgun til að gera aðra tilraun og fóru þær tilraunir sem betur fer betur og terturnar tókust á síðustu stundu. Ég get greinilega bakað meira en vandræði. Harpa kom síðan sem kölluð upp úr ellefu og var henni útréttað því verkefni að greiða skvísunum áður en við héldum til veislunnar. Og allt rétt hafðist. Veislan var glæsileg, það var fullt hús af fólki og allir fóru saddir og sáttir heim, ég kom heim með tvær tertur af þremur og fullt af möffins.

laugardagur, desember 06, 2003

Þó ég hafi tekið þátt í jólabasar föndrandi og þreyttra húsmæðra núna um helgina mætti ég ekki í jogginggalla og klossum með flíspeysuna yfir öxlunum. Og held ég að Kiddi bró verði hæstánægður með þann árangur hjá mér. Það er hans mesta hræðsla í lífinu að stóra systir verði "landsbyggðartútta" fyrir aldur fram.

föstudagur, desember 05, 2003

Það er komin helgi, loksins. Ég er búin að bíða eftir henni síðan á sunnudaginn. Bjóst að vísu við því að allt væri orðið hreint og fínt og ég gæti bara slakað á. En onei...

Ég stóð í að reyna að selja mósaíkverkin mín á jólabasar í allan dag og mun gera það líka á morgun. En það er ekki það eina sem ég þarf að gera á morgun, ég þarf að baka tvær tertur, þrífa baðherbergi, þvo sparikjóla stelpnanna og kápurnar þeirra svo við séum tilbúin fyrir afmælið sem á að halda á sunnudaginn. Afi minn á afmæli, var ég búin að segja ykkur það? Mamma kemst ekki hingað austur um helgina því litlu systur mínar eru að halda tónleika á sunnudaginn. Og ég skil hana alveg að nenna ekki að keyra í sex klukkutíma sama daginn, bara til að komast fram og til baka.

Ég finn að vökur undanfarinna nótta eru farnar að taka sinn toll. Mér er illt í bakinu, mér er illt í hausnum, ónæmiskerfið er að hrynja og maðurinn minn gerði ekkert annað en að dotta í allan dag. En ekki ætla ég að kvarta yfir því samt, þó ég sé hálfpartinn búin að því. Þetta gæti verið verra, vinnulöggjöfin gæti staðið í sömu sporum og í kringum 1990 og ég verið að vinna í síldinni frá 16 tímum og upp í 20 tíma á sólarhring. Eða, ég gæti verið einstæð, blönk og fengið neitun hjá félagsþjónustunni. Eða ég gæti einfaldlega verið heilalaus hálfviti með hor og slef. Sem ég er ekki.

fimmtudagur, desember 04, 2003

Æi, fyrirgefið mér bloggleysið. Það virðist bara vera að þessa dagana að ég hafi sett mig sjálfa í síðasta sæti (og þar með ykkur). Hér höfum við loksins smá röfl þó frekar sé dagskráin undanfarna og núkomandi daga hjá mér.

Ég er ekki ennþá búin að þrífa borðstofuna. En sjónvarpsherbergið er ennþá hreint og næstum því eldhúsið og barnaherbergið. Afi minn á afmæli á mánudaginn, verður 75 ára þessi elska. Það verður haldið upp á það á sunnudaginn og hef ég verið beðin um að þrífa (ég er dugleg annars staðar en heima hjá mér) og baka tvær tertur. En það er samt ekki á dagskránni fyrr en á laugardaginn. Ég var beðin um að skrifa bréf og disk, það er á leiðinni, Kiddi minn. En það er búið að vera tómt vesen að fá þennan disk skrifaðan þannig að ég vil fá stórt knús þegar þú loksins kemur til mín. Svo eru það blessuðu jólakortin mín, ég er farin að skilja freistinguna með þessi tilbúnu kort í búðunum. Ég er búin að gera nokkur en á langt í land með þau því maðurinn minn þekkir svo marga (fyrstu alvöru jólin okkar saman) og þá bætist það við þau sem ég er vön að senda. Mér var boðið að vera með í basar sem verður á föstudaginn og laugardaginn. Þar sem ég virðist vera sú eina sem mósaíkar hérna gat ég ekki neitað og er því búin að standa á haus við að finna til það sem ég átti. Ekki var um jafn auðugan garð að gresja eins og mig minnti og hef ég því skapað hvert listaverkið á fætur öðru til að hafa eitthvað til að sýna og jafnvel selja. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég get selt svona mósaíkdót á mikið, vil ekki vera of dýr en þetta er hellings vinna. Mér er sagt að þetta sé rosalega flott hjá mér en... Og svo kom í ljós að bæst hefur við gæludýrin á heimilinu, það sást mús í eldhúsinu í fyrradag. Þurfti ég að fara yfir á næsta fjörð til að kaupa gildru, það virðast allir vera sannfærðir um að mýs sé ekki að finna hér á Eskifirði. Svo eru það þessi yndislegu börn líka víst, það þarf að gefa þeim að borða og vesen. Það ringdi í dag þannig að það bættist á fjallið í kjallaranum. Það er samt eftir að telja upp mína uppáhaldsiðju og er það skylda mín að halda karlinum ánægðum. Mun ég því hafa nóg að gera næstu daga en ég lofa að finna meira til að röfla um á morgun þannig að ykkur leiðist ekki, af nógu er svo sem að taka. Ég bý út á landi og er það skylda okkar landsbyggðarkvenna að ganga í flíspeysum og röfla, stenst ég þær kröfur fyllilega.

Ekki grunaði mig að ég ætti eftir að vera svona vinsæll bloggari. Ég verð alltaf svo glöð þegar þið skammið mig fyrir bloggleysið. Takk takk, ég myndi knúsa ykkur ef ég vissi hver þið eruð...

mánudagur, desember 01, 2003

Bara pælingin um að mamma sé kannski á leiðinni virkar á mig eins og b12 virkar á róna.

Ykkur finnst kannski ekkert gaman að lesa um hvernig þrifunum miðar hjá mér en það er bara það eina sem kemst inn í hausinn á mér þessa dagana. Ég sé ryk og Mr.Propper-brúsa þegar ég loka augunum á kvöldin.

Barnaherbergið sem ég var heilan dag að þrífa er ei lengur hreint mér til mikillar mæðu. Ég var að vísu búin að hóta því að rífa jólaseríuna niður ef þær myndu vera að fikta í glugganum eða rusla til. En ég hafði svo mikið fyrir því að gera gluggan fallegan og skipti um gardínur og allt þannig að ég tími ekki að framfylgja þeirri hótun þó það sé búið að brjóta báðar reglurnar.

Ég lauk þrifunum loks í eldhúsinu og búrinu klukkan þrjú á aðfararnótt sunnudags, það er hreint ennþá vegna þess að ég hef ekkert eldað síðan á laugardagskvöldið. Hvaða eldhússkápur haldið þið að sé vanræktastur? Ég gerði þá svakalegu uppgötvun að það er kryddskápurinn hjá mér. Ég bjóst við að þurfa að henda helling úr búrinu en sem betur fer var ekki mikið skemmt eða útrunnið. Eða kannski er ekkert mikið lengur í þeim efnum eftir að ég tók eldhúsið á Hótelinu í gegn? Sem betur fer var ástandið ekki eins slæmt, þó slæmt hafi verið, og það var á Hótelinu þar sem ekki hafði verið þrifið í ár eða meira.

Sjónvarpsholið er orðið voðalega hreint og fínt en miðað við erfiði mitt þar er ég alvarlega að spá í að banna börnum aðgang þangað til á aðfangadag. Ég þreif allt og pússaði, tók öll blómin og baðaði þau og fuglana líka. Stillti jólaseríu og aðventuljósi afar smekklega upp í glugganum. Ég dáist að snilli minni í innanhúsarkitektúr því þó ég segi sjálf frá er sjónvarpsholið næst fallegasta herbergið í húsinu, ef ekki væru þessar ljótu myndir hans Jónsa og þessi stútfulla hilla af dvd og videomyndum væri það fallegast.

Ég er að byrja á borðstofunni en vegna þess að þar réði ég öllu er það fallegasta herbergið (þegar það er hreint) í húsinu. Þar er mesta umgengnin og þar safnast allt draslið saman. Tau og skólabækur gætu auðveldlega gleypt yngsta barnið þannig að það myndi aldrei finnast aftur. Þar reynir einnig mest á skipulagshæfni mína því við erum fimm í fjölskyldunni og eigum öll jafnmikinn rétt á plássi hér en það þarf að vera smekklega uppraðað. Og ég er að pæla hvernig ég get fengið fjölskyldumeðlimi til að ganga vel um fram að jólum.

Ætli besta lausnin sé ekki bara að henda þeim öllum út og skella flennistóru skilti á tröppurnar:"Þeir sem ekki geta verið kyrrir og prúðir bannaður aðgangur!".
Þetta er til háborinnar skammar, Hulda Stefanía!

Ég dauðskammast mín fyrir hvernig húsið var orðið, rykið og kámið á öllu var hrikalegt. Ókey, ég hef verið lasin og maðurinn minn er að vinna mikið og það eru þrjú heilbrigð börn á heimilinu og allt. En... ég geri það miklar kröfur til mín sem húsmóður að mér finnst þetta skammarlegt. Jónsi segir stundum að ef ég væri með ræstingarfyrirtæki þá myndi enginn vinna fyrir mig lengi eða ég myndi ekki treysta neinum fyrir þrifunum. Það getur vel verið rétt en það er erfitt að lækka standardinn á þessum hlutum þegar maður ólst upp á hreinu heimili með mömmu að fyrirmynd. Það er kona sem ég vildi hafa í vinnu hjá mér í þessu ræstingarfyrirtæki, það myndi ekki þurfa fleiri starfsmenn en okkur tvær og allt yrði hreint. Og ég er ekki alveg að skilja af hverju ég ætti að lækka standardinn hjá mér, það er ekki eins og ég sé að ganga í hús og bögga húsmæðurnar með skítnum þar á bæ, þetta snýst eingöngu um mitt eigið verk, hvort sem ég framkvæmi þrifin hér eða í öðrum húsum. Ég veit að þetta eru öfgar á háu stigi en mér finnst þetta góðir öfgar.
Nema þegar bakið og fæturnir fara að kvarta undan þrældómnum.