Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

fimmtudagur, desember 04, 2003

Æi, fyrirgefið mér bloggleysið. Það virðist bara vera að þessa dagana að ég hafi sett mig sjálfa í síðasta sæti (og þar með ykkur). Hér höfum við loksins smá röfl þó frekar sé dagskráin undanfarna og núkomandi daga hjá mér.

Ég er ekki ennþá búin að þrífa borðstofuna. En sjónvarpsherbergið er ennþá hreint og næstum því eldhúsið og barnaherbergið. Afi minn á afmæli á mánudaginn, verður 75 ára þessi elska. Það verður haldið upp á það á sunnudaginn og hef ég verið beðin um að þrífa (ég er dugleg annars staðar en heima hjá mér) og baka tvær tertur. En það er samt ekki á dagskránni fyrr en á laugardaginn. Ég var beðin um að skrifa bréf og disk, það er á leiðinni, Kiddi minn. En það er búið að vera tómt vesen að fá þennan disk skrifaðan þannig að ég vil fá stórt knús þegar þú loksins kemur til mín. Svo eru það blessuðu jólakortin mín, ég er farin að skilja freistinguna með þessi tilbúnu kort í búðunum. Ég er búin að gera nokkur en á langt í land með þau því maðurinn minn þekkir svo marga (fyrstu alvöru jólin okkar saman) og þá bætist það við þau sem ég er vön að senda. Mér var boðið að vera með í basar sem verður á föstudaginn og laugardaginn. Þar sem ég virðist vera sú eina sem mósaíkar hérna gat ég ekki neitað og er því búin að standa á haus við að finna til það sem ég átti. Ekki var um jafn auðugan garð að gresja eins og mig minnti og hef ég því skapað hvert listaverkið á fætur öðru til að hafa eitthvað til að sýna og jafnvel selja. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég get selt svona mósaíkdót á mikið, vil ekki vera of dýr en þetta er hellings vinna. Mér er sagt að þetta sé rosalega flott hjá mér en... Og svo kom í ljós að bæst hefur við gæludýrin á heimilinu, það sást mús í eldhúsinu í fyrradag. Þurfti ég að fara yfir á næsta fjörð til að kaupa gildru, það virðast allir vera sannfærðir um að mýs sé ekki að finna hér á Eskifirði. Svo eru það þessi yndislegu börn líka víst, það þarf að gefa þeim að borða og vesen. Það ringdi í dag þannig að það bættist á fjallið í kjallaranum. Það er samt eftir að telja upp mína uppáhaldsiðju og er það skylda mín að halda karlinum ánægðum. Mun ég því hafa nóg að gera næstu daga en ég lofa að finna meira til að röfla um á morgun þannig að ykkur leiðist ekki, af nógu er svo sem að taka. Ég bý út á landi og er það skylda okkar landsbyggðarkvenna að ganga í flíspeysum og röfla, stenst ég þær kröfur fyllilega.

Ekki grunaði mig að ég ætti eftir að vera svona vinsæll bloggari. Ég verð alltaf svo glöð þegar þið skammið mig fyrir bloggleysið. Takk takk, ég myndi knúsa ykkur ef ég vissi hver þið eruð...