Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

mánudagur, desember 01, 2003

Bara pælingin um að mamma sé kannski á leiðinni virkar á mig eins og b12 virkar á róna.

Ykkur finnst kannski ekkert gaman að lesa um hvernig þrifunum miðar hjá mér en það er bara það eina sem kemst inn í hausinn á mér þessa dagana. Ég sé ryk og Mr.Propper-brúsa þegar ég loka augunum á kvöldin.

Barnaherbergið sem ég var heilan dag að þrífa er ei lengur hreint mér til mikillar mæðu. Ég var að vísu búin að hóta því að rífa jólaseríuna niður ef þær myndu vera að fikta í glugganum eða rusla til. En ég hafði svo mikið fyrir því að gera gluggan fallegan og skipti um gardínur og allt þannig að ég tími ekki að framfylgja þeirri hótun þó það sé búið að brjóta báðar reglurnar.

Ég lauk þrifunum loks í eldhúsinu og búrinu klukkan þrjú á aðfararnótt sunnudags, það er hreint ennþá vegna þess að ég hef ekkert eldað síðan á laugardagskvöldið. Hvaða eldhússkápur haldið þið að sé vanræktastur? Ég gerði þá svakalegu uppgötvun að það er kryddskápurinn hjá mér. Ég bjóst við að þurfa að henda helling úr búrinu en sem betur fer var ekki mikið skemmt eða útrunnið. Eða kannski er ekkert mikið lengur í þeim efnum eftir að ég tók eldhúsið á Hótelinu í gegn? Sem betur fer var ástandið ekki eins slæmt, þó slæmt hafi verið, og það var á Hótelinu þar sem ekki hafði verið þrifið í ár eða meira.

Sjónvarpsholið er orðið voðalega hreint og fínt en miðað við erfiði mitt þar er ég alvarlega að spá í að banna börnum aðgang þangað til á aðfangadag. Ég þreif allt og pússaði, tók öll blómin og baðaði þau og fuglana líka. Stillti jólaseríu og aðventuljósi afar smekklega upp í glugganum. Ég dáist að snilli minni í innanhúsarkitektúr því þó ég segi sjálf frá er sjónvarpsholið næst fallegasta herbergið í húsinu, ef ekki væru þessar ljótu myndir hans Jónsa og þessi stútfulla hilla af dvd og videomyndum væri það fallegast.

Ég er að byrja á borðstofunni en vegna þess að þar réði ég öllu er það fallegasta herbergið (þegar það er hreint) í húsinu. Þar er mesta umgengnin og þar safnast allt draslið saman. Tau og skólabækur gætu auðveldlega gleypt yngsta barnið þannig að það myndi aldrei finnast aftur. Þar reynir einnig mest á skipulagshæfni mína því við erum fimm í fjölskyldunni og eigum öll jafnmikinn rétt á plássi hér en það þarf að vera smekklega uppraðað. Og ég er að pæla hvernig ég get fengið fjölskyldumeðlimi til að ganga vel um fram að jólum.

Ætli besta lausnin sé ekki bara að henda þeim öllum út og skella flennistóru skilti á tröppurnar:"Þeir sem ekki geta verið kyrrir og prúðir bannaður aðgangur!".