Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

föstudagur, desember 05, 2003

Það er komin helgi, loksins. Ég er búin að bíða eftir henni síðan á sunnudaginn. Bjóst að vísu við því að allt væri orðið hreint og fínt og ég gæti bara slakað á. En onei...

Ég stóð í að reyna að selja mósaíkverkin mín á jólabasar í allan dag og mun gera það líka á morgun. En það er ekki það eina sem ég þarf að gera á morgun, ég þarf að baka tvær tertur, þrífa baðherbergi, þvo sparikjóla stelpnanna og kápurnar þeirra svo við séum tilbúin fyrir afmælið sem á að halda á sunnudaginn. Afi minn á afmæli, var ég búin að segja ykkur það? Mamma kemst ekki hingað austur um helgina því litlu systur mínar eru að halda tónleika á sunnudaginn. Og ég skil hana alveg að nenna ekki að keyra í sex klukkutíma sama daginn, bara til að komast fram og til baka.

Ég finn að vökur undanfarinna nótta eru farnar að taka sinn toll. Mér er illt í bakinu, mér er illt í hausnum, ónæmiskerfið er að hrynja og maðurinn minn gerði ekkert annað en að dotta í allan dag. En ekki ætla ég að kvarta yfir því samt, þó ég sé hálfpartinn búin að því. Þetta gæti verið verra, vinnulöggjöfin gæti staðið í sömu sporum og í kringum 1990 og ég verið að vinna í síldinni frá 16 tímum og upp í 20 tíma á sólarhring. Eða, ég gæti verið einstæð, blönk og fengið neitun hjá félagsþjónustunni. Eða ég gæti einfaldlega verið heilalaus hálfviti með hor og slef. Sem ég er ekki.