Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Eins og flest allir sem mig þekkja vita er ég gæludýrasjúk. Ég hef nú náð að halda þessari sýki niðri um alllangt skeið núna og ekkert nema gott um það að segja. En ég ákvað að fyrst ég fæ ekki að eiga gæludýr (mýs, köngulær og margfætlur teljast ekki til gæludýra í mínum huga!!) ákvað ég að passa annara manna gæludýr. Semsagt á morgun mun ég verða með hvolp í fóstri í rúma viku. Hann er 7 mánaða blanda af Golden Retriever og íslenskum og ekkert smá mikil dúlla. Ég hlakka afar mikið til að hafa hund í viku en svo er alltaf spurningin verð ég fegin þegar hann fer heim til sín aftur eða verð ég enn veikari í hund?
Ég mun sjást með hund á vappi semsagt næstu daga en örvæntið ekki "forvitnu bæjarbúar" hann er ekki kominn til að vera...

laugardagur, janúar 28, 2006

Barnalandsumræður eru nú mis heimskulegar og þær eru margar en inn á milli leynist alltaf einhver viskubrunnur. Ég t.d. komst að því núna áðan að ég og Jónsi minn skráðum okkur í sambúð alltof snöggt miðað við að það er leyfilegt að búa saman í allt að tvö ár ef barn er inni í myndinni...
Sem þýðir að ég hef fundið lausn á fjárhagsvanda okkar hjóna. Ég hendi honum bara út og skrái okkur úr sambúð, bíð síðan í hálft ár áður en ég hleypi honum í rúmið til mín aftur og þá getum við búið saman í tvö ár áður en við skráum okkur aftur í sambúð. Flókið ferli en sjáum til, samkvæmt reiknivél rsk.is er ég undir tekjumörkum og myndi þess vegna vera með 25o.ooo krónur í barnabætur á þriggja mánaða fresti. Það er meira en það sem ég er með í tekjur á þessum þremur mánuðum þannig að með þessu myndi ég tvöfalda tekjurnar mínar. Og þetta gæti ég gert án þess að svindla á kerfinu þar sem þeir í raun "skulda" mér miðað við þessar upplýsingar um sambúðarreglur vegna barnabótanna. Og ég þyrfti ekkert að hafa samviskubit yfir þessu og gæti keypt mér hreinræktaðan kött.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Einhvern tíma hefði mér fundist fólk sem hittist til að spila og skemmta sér á heilbrigðan máta alveg hryllilega hallærislegt og vitlaust. Það væri ekkert fútt nema áfengi eða annar óskapnaður væri á boðstólum en þá væri ekki mikið spilað og tilgangurinn þar með farinn.
Í gær buðum við tveimur pörum í spilamennsku. Á boðstólum var túnfisksalat með ólífum, hvítkáli, papríku, gulrætum og sýrðum rjóma auk saltkexs og hinn klassíski mygluostur og vínber. Þessu var rennt niður með kóki eða vatni fyrir utan einn bjór sem minn maður var að rembast við allt kvöldið. Og mér var oft hugsað til "gamlamíns" sem hefði hlegið endalaus yfir þessum aulahóp. En tilgangur með þessari fallegu sögu er sá að ég er greinilega orðin ónýt eða gömul því þessi heilbrigða skemmtun varð til þess að ég get ekkert gert í dag. Kroppurinn er alveg búinn á því og neitar með kvölum að framkvæma hinu minnstu hreyfingar.
Nema það sé göngutúrinn minn í gær sem er orsök þessa illgjörnu verkja?

laugardagur, janúar 21, 2006

Það á ekki að leyfa mér að halda upp á barnaafmæli. Ég er svo léleg í þessu að það ætti bara að banna mér að koma nálægt þessu öllu saman og láta einhvern annan sjá um þetta. Í fyrsta lagi gengur það ekki að baka þegar maður er með rúmlega eins árs pjakk sem er nýbúinn að uppgötva takkana á eldavélinni. Það verður bara ein eplakaka. Ég er búin að senda Jónsa greyið niður í búð svona milljón sinnum og alltaf spyr hann hvort það sé eitthvað annað sem mig vanti. Aldrei man ég eftir neinu fyrr en hann er kominn aftur heim.
Ég gerði forláta flott boðskort í fótósjoppinu handa skvísunni minni þar sem við völdum saman myndir og letur og allt. Ég gleymdi að bera það út og ákveð þess vegna að hringja í alla þá sem Sesselja var búin að skella á gestalistann svona til að redda mér fyrir horn en gleymi að hringja í helminginn. En nóg um mín mistök...
Jónsi elskan ætlaði að aðstoða mig við baksturinn og gera kornflekskökur og dró upp einhverja svakalega JóaFeluppskrift. Hann fer gjörsamlega eftir leiðbeiningunum en eitthvað klikkar. Hann reynir aftur en aftur klikkar eitthvað. Í það skipti ákvað ég að tékka á þessari uppskrift og rek augun í að hún er meingölluð! Það er helmingi meira af súkkulaði en á að vera ef maður miðar við sýrópsmagnið og smjérið! Ég er að spá í að senda Jóa Fel reikninginn fyrir sexhundruð grömmum af súkkulaði. 600gr eru hvorki meira né minna en 6 stykki og hvert stykki um 200 krónurnar. Vegna mistakanna hans Jóa í uppskriftinni af kornflekskökunum í Hagkaupsbókinni get ég ekki haldið áfram að baka um miðja nótt því við eigum ekki nóg súkkulaði.

föstudagur, janúar 20, 2006


Það eru fimm ár í dag síðan ég eignaðis þessa prinsessu. Mér finnst nú ekki svo langt síðan en þetta er staðreynd engu að síður.... Sesselja mín er að verða fullorðin. Það verður því bakað og þrifið í allan dag fyrir veisluna á morgun.

mánudagur, janúar 16, 2006

You are not authorized to view this page!!!
Hvaða bull er þetta? Ég á þessa síðu og má bara víst skoða hana!

Ég skrapp í bæinn um helgina og að sjálfsögðu fór ég barnlaus. Ég var ekki lent í Reykjavík þegar ég sjálf var orðin sárlasin og föstudagskvöldið fór í að snýta mér, hósta og þurrka tárin sem láku niður vanga mér með reglulegu millibili. Hausverkur og hellur fyrir eyrum og barátta við að sofna til að losna undan áþján kvefsins entist langt fram eftir laugardagsmorgni. Skrapphittingur og búðarferðir með 39 stiga hita er eitthvað sem ég ráðlegg engum að gera. Sérstaklega þegar það eru einstaklingar á skrapphittingnum sem skrappa eiginlega ekki neitt en gjamma þeim mun meira og hlæja mest af eigin fyndni. En þó þolinmæðin sé ekki mikil við þessar aðstæður er orkan samt svo lítil að maður nennir ekki að böggast í hávaðaseggnum en einbeitir sér frekar að því að skapa eitthvað.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Það tekur á taugarnar að vera ein með öll þessi börn og þrjú af þeim lasin. Á tímabili í dag langaði mig til að öskra. Karl vill bara liggja á mér, skiptir hann engu hvort ég standi, sitji eða ligg svo lengi sem ég held á honum. Sesselja er að drepast úr leiðindum og reynir að hafa ofan af sér með hoppi og rifrildi við Kolbrúnu, sem grætur bara vegna verkja og sjálfsvorkunnar. Dagbjört er bara hérna...ég bið hana um að gera eitthvað en ekkert gerist. Ég hef tekið eftir því að hún er að verða snillingur í að láta líta út fyrir að hún sé að gera eitthvað.
En það gerðist nú í kvöld atvik sem lyfti munnvikum mínum aðeins.
Það hafði hellst niður úr stútkönnunni hans Karls og Sesselja steig í hana.
"Mamma, ég steig í bleytu", sagði hún æst. "
"Nú, þurrkaðu hana þá upp fyrir mig."
"Hún er þurr!" Var ekki að nenna því:)
"Ef bleytan er þurr af hverju blotnaðir þú þá í fæturna?"
"Það veit ég ekki!"

Þetta samtal er merkilegt fyrir þær sakir að það meikar mest sens af öllum samtölum í dag.

mánudagur, janúar 09, 2006

Það á ekki að segja nei við áráttu- og þráhyggjusjúkling með kvíðaraskanir!
Ég hef verið andvaka vegna þessarar uppgötvunar á fátækt okkar. Hvernig í ósköpunum fór það fram hjá okkur að við værum fátæk?
Samkvæmt þessu erum við í góðum málum þannig séð, ef við sleppum öllu eins og síma, rafmagni og slíkum óþarfa. En samkvæmt þessu erum við í djúpum kúk og eigum engan afgang heldur skuldum!
Svo er því logið í mann að heiðarleiki borgi sig! Prff, ef við værum ekki heiðarleg hefðum við fengið greiðslumat fyrir húsinu.

laugardagur, janúar 07, 2006

Ég er í fýlu. Við hjónaleysin tókum ákvörðun um daginn að tékka á því hvort við gætum stækkað við okkur með að kaupa nýtt og stærra hús. Byrjunin á því er að fara í greiðslumat og í því ferli er tekið allt til, tekjur, skuldir, fjöldi í heimili og nærbuxnastærð og allt. Í ljós kom að við erum láglaunafólk (kemur ekki á óvart sé tekið tillit til vinnustaða okkar beggja)og samkvæmt einhverri reiknivél er framfærslukostnaður á 6 manna fjölskyldu meiri en það sem við höfum í tekjur á mánuði. En hvernig er það hægt? Ég ekki skilja núna? Við hvað er eiginlega miðað?
Ég allavega fór í feita fýlu. Ekki við bankann eða þjónustufulltrúana heldur við þessar reiknivélar. Við skuldum ekkert nema húsið og bílinn, engin neyslulán né skuldabréf. Við erum ekki að reykja né drekka né förum við oft út á lífið. Við göngum ekki í hátískufatnaði né merkjavöru. Við leyfum okkur aldrei neitt til að lenda ekki í vandræðum með peninga...En svo geta þetta hvíta pakk sem reykja úr sér lifur og lungu, drekkur í sig úttaugabólgu og skorpulifur og gera í því að fela sig í fínu dieselfötunum keypt sér þvílíku húsin og bílana en ekki við.
Ég er sár, fúl og reið. Og kannski svolítið öfundsjúk...

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Ég á svo bágt... Straxveikin er að fara með mig. Vill einhver gjöra svo vel og koma og sparka í mig? Ég þjáist illa þessa dagana.

sunnudagur, janúar 01, 2006


Gleðilegt nýtt bloggár og takk fyrir lesturinn á liðnum árum. Ég ætla ekki að strengja nein háleit nýársheit um að hætta að reykja eða megra mig eða eitthvað álíka heimskulegt. Mér tókst að hætta að reykja þegar það voru ekki áramót og ég fitnaði í kjölfarið á því og mér prívat og persónulega finnst það fara mér betur að vera feit en andfúl, grá og mygluleg. Og auk þess finnst mér þessi áramótaheit alltaf hljóma sem trygging fyrir vonbrigðum með sjálfan sig þannig að ég tek ekki þátt í því.
En hins vegar er alltaf fínt að ætla að bæta sig á einhvern hátt þó ekki sé það gert með öfgum og látum... Ég stefni að andlegri framför og vonandi verður engin breyting þar á í ár en þar sem ég tek einn dag í einu og það hefur nú skilað mér ágætis árangri ætla ég að halda því áfram.
Betra að vera feitur en fullur!
Cheerios.