Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Ég er komin í aðhald... ekki megrunaraðhald heldur aðhaldsbuxur. Svona eins og feitar konur nota til að fá aftur fram eitthvað mitti. Ég vil samt halda því fram að ég sé í mínu vegna bakverkja og þegar ég er í því er það svo þröngt að ég get ekki setið vitlaust. Mér finnst gott að vinna í því líka því ég beiti líkamanum réttar, þegar ég finn að aðhaldsspangirnar stingast undir rifbeinin veit ég að ég er að beita mér vitlaust. Ég er ekki feit heldur bara kem ég vel undan vetri...2005-2006 vetrinum. En mér finnst það ekki skemma samt að ég er grennri í aðhaldi.
Ég elda, þess vegna er ég....
Ef ég er útötuð í brunasárum á handleggjum eða höndum má skilja það sem svo að ég hafi verið að elda eitthvað agalega gott. Það virðast liggja á mér álög með það ef ég elda það góðan mat að ég kem sjálfri mér á óvart þá hef ég brennt mig annað hvort á pönnunni eða ofninum.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Yes!!!
Ég náði loksins að fatta verkefni síðan í VOR! Þannig að nú verður sko haldið áfram á batabrautinni ótrautt. Ég las fyrsta kaflann í AA-bókinni, að formála og öllu meðtöldu, skrifaði niður mínar pælingar um það og gerði síðan þennan lista þar sem ég fer yfir vanmátt minn og stjórnleysi. Það sem var að flækjast fyrir mér með þennan blessaða lista er að ég á að taka dæmi úr mínu daglega lífi og þar sem mér finnst aldrei neitt gerast hjá mér og ég einhvern veginn bara líða áfram var fátt um fína drætti þar.
Kannski er þetta vanmáttur að finnast aldrei neitt gerast? Eða er það stjórnleysi?

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Viðvörun viðvörun:
Aldrei að kaupa tjöruhreinsi á Ísafirði. Allavega ekki þennan í grænu brúsunum sem lofar að taka alla tjöru og fluguhræ af bílnum. Ekki nóg með að umbúðirnar ljúga stórt heldur er þessi andskoti svo fastheldinn á bílnum eftir það að venjulegur tjöruhreinsir, bílasápa, svampar og háþrýstidæla nær því ekki af.
Í þennan póst má leggja þann skilning að ég hafi verið að þrífa bílinn minn í dag í fyrsta skiptið síðan við vorum á ferðalagi án þess að hafa rangt fyrir sér.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Hvernig kem ég í veg fyrir að einhverjir útlendir auglýsendur skrifi í gestabókina mína? Halda þeir virkilega að maður taki mark á einhverju eins og þessu: chlordiazepoxide hcl abuse isotretinoin generic cialis line renova proscar riomet mortgage ultram wellbutrin xl anexsia vicodin fastin order propecia buy didrex xanax side effects cream renova skin ?

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Some things are longer to sink in than others...
Og mikið vildi ég að fólk færi ekki svona snemma að sofa svo ég gæti hringt þegar ég uppgötva eitthvað. Eins og núna... það er aðfaranótt sunnudags og klukkan er að ganga tvö en allir sem ég þekki (eða þarf að tala við) eru farnir að sofa.
Það er nú ekki hægt að ná sambandi við Jónsa þessa dagana því hann situr sveittur yfir stærðfræðipróflestri og ekki vil ég nú trufla þann lestur.
En fyrir þá sem eru fljótir að fatta ætla ég að gefa upp eina vísbendingu og hún er : það er eitthvað sem viðkemur níu mánuðum en það er ekki meðganga.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Mér þætti afskaplega vænt um ef þeir sem luma á myndum af okkur síðan í sumar myndu senda mér þær svo ég geti skellt þeim á barnalandssíðuna okkar. Okkur bráðvantar nýja myndavél þar sem Karl skellti sér í boltaleik með okkar gömlu...

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Ég er farin að hallast að því að ég sofi á enninu... Toppurinn stendur alltaf beint upp í loftið á morgnanna. Það myndi vissulega útskýra af hverju ég hvílist svona illa ef ég er að taka einhver geggjuð breikdansspor á nóttunni.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

We'll be dancin' in the street.
Á laugardaginn var ég bara að dúlla mér hérna heima og engan veginn upplögð í neinn selskap. En þegar ég tók eftir því að það voru óvenju margir fullorðnir nágrannar að slæpast hérna um götuna tilkynnti Jónsi mér að það yrði götupartý og grill um kvöldið. Við virðumst vera hætt að tala um saman um svona hluti... hvort það er vegna þess að okkur finnst við svona náin að við höldum að við getum lesið hugsanir hvort annars eða einhvers annars veit ég ei. En við erum alla vega með þann ljóta ávana að gleyma að tilkynna hvort öðru um uppákomur eða ákvarðanir. Ég var nú ekki að nenna að fara. Að finnast ég vera að troða mér upp á fólk eða að flækjast fyrir er mjög ríkt í mér þessa dagana...
Götunni var lokað, tónlistin dunaði um hverfið og grill frá bræðslunni flutt á staðinn. Borð voru borin út á miðja götuna og veðrið lék við okkur. Krakkarnir fíluðu það í botn að fullorðna fólkið væri að flækjast úti. Það var grillað, etið og drukkið og brugðið á leik. Hafsteinn og Addi skelltu sér upp á eitt borðið og dönsuðu að mér sýndist spænskan flamengó. Þegar þeir fóru nú að bera á sér bumburnar og herma eftir arabískum magadansi gat ég ekki lengur á mér setið og skellti mér upp á borð til þeirra því þeir voru sko að gera þetta vitlaust. Þú getur ekki dansað almennilegan magadans nema vera með rétta tegund af maga... Og stinn og loðin bjórvömb er ekki það ekki heldur er það 9 ára gamalt fæðingarspik sem hefur fengið upprifjun á þriggja og hálfs árs fresti! Sumir horfðu á mig með aðdáun í augum, enda ekki furða ég þarf bara að dilla mér tvisvar og bumban heldur áfram þar til ég kreppi magavöðvana. Aðrir láku niður í götuna af hlátri, ég vil halda því fram að sjá þá tvo við hliðina á alvöru magadansmær hafi verið ástæðan. Fáir hnussuðu í hneykslan yfir því að ég skyldi hafa dirfst að athafast þetta meðan börnin horfðu á, ég hef alltaf haldið því fram að kynna börnin fyrir hinum ýmsu menningararfleiðum sé bara hið besta mál. Hins vegar varð maðurinn minn orðlaus, af hverju veit ég ekki ennþá.

sunnudagur, ágúst 06, 2006

http://www.GlitterMaker.com/ - Glitter Graphics
http://www.GlitterMaker.com/ - Glitter Graphics


Stóru stelpurnar mínar eru orðnar 9 ára!!! Mmmm, það er samt ekki að þýða að ég sé deginum eldri en tvítug.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Var að bæta Kidda mági mínum við krækjulistann minn. Ég var að komast að því núna að hann bloggar og hann er búinn að vera að því í mörg ár. Talandi um að fylgjast með þessu fólki í kringum sig....

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Ég veit eiginlega ekki hvað er í gangi með mig þessa dagana en ég er orðin svo meyr. Vinafólk okkar kom okkur skemmtilega á óvart um daginn með því að gifta sig eftir skírn á glænýju dótturinni. Mér fannst það svo yndislegt að ég fór að háskæla. Og þegar ég horfði á Rockstar Supernova og Tommy tilkynnti Magna að Eyrún fengi að koma út til hans verð ég nú að viðurkenna að ég táraðist. Annað hvort er ég á einhverju hormónaflippi eða ég er að breytast í Ameríkana...

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Jæja þá er maður komin heim eftir alveg dásamlega yndislegt sumarfrí. Við tekur hversdagslegt líf og þjark. En ekki þar með sagt að það votti fyrir kvíða eða þunglyndi, þvert á móti. Mér finnst alltaf voða gott að koma heim aftur. Ég fyllist alltaf svo undarlegum frið þegar ég keyri yfir hálsinn og við blasir heimabyggðin. Svo er haustið að nálgast og rómantíkin tekur völdin. En áður en ég get hlakkað til þess þarf ég að skella upp tveimur afmælisveislum þó afmælisbörnin séu þrjú. Ég er nefnilega svo séð að hafa eignast tvö sama daginn.
Sjötta ágúst verða stóru stelpurnar mínar 9 ára og það verður heljarinnar partý. Við vorum að setja saman gestalistann (um og yfir þrjátíu börn) og svona ákveða hvernig við viljum hafa þetta. Það verður farið í leiki og við foreldrarnir vorum beðin um að vera með í þeim... Þá sjaldan sem ég er beðin um að vera með í leikjum neita ég oftast nema í þetta sinn. Þannig að það verður farið í einhverja útileiki ef veður leyfir. Þær vilja hafa hollustuna í fyrirrúmi þannig að það verður nóg af gulrótum, tómötum og agúrkum á borðunum hjá mér á næstunni.
Svo verður hans hátign tveggja ára þann tuttugastaogníunda ágúst og ég er að velta því fyrir mér að hafa það bara svona lítið og nett og bjóða nánustu ættingjum og vinum í þá veislu. Svona svo ég þurfi ekkert að hafa fyrir þessu. Annars er ég með nettan móral yfir því að fyrsta afmælið hans var frekar fámennt (en góðmennt) og ég bakaði ekki einu sinni kökuna sjálf eða neitt. Þannig að það er aldrei að vita nema maður skelli í veislu a´la Hulda.
Ferðasagan verður að bíða betri tíma því ég nenni ekki að telja upp þá yndislegu daga sem við áttum. Ætla frekar að leyfa þeim að gerjast aðeins í kollinum á mér og njóta þeirra sjálf.