Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

We'll be dancin' in the street.
Á laugardaginn var ég bara að dúlla mér hérna heima og engan veginn upplögð í neinn selskap. En þegar ég tók eftir því að það voru óvenju margir fullorðnir nágrannar að slæpast hérna um götuna tilkynnti Jónsi mér að það yrði götupartý og grill um kvöldið. Við virðumst vera hætt að tala um saman um svona hluti... hvort það er vegna þess að okkur finnst við svona náin að við höldum að við getum lesið hugsanir hvort annars eða einhvers annars veit ég ei. En við erum alla vega með þann ljóta ávana að gleyma að tilkynna hvort öðru um uppákomur eða ákvarðanir. Ég var nú ekki að nenna að fara. Að finnast ég vera að troða mér upp á fólk eða að flækjast fyrir er mjög ríkt í mér þessa dagana...
Götunni var lokað, tónlistin dunaði um hverfið og grill frá bræðslunni flutt á staðinn. Borð voru borin út á miðja götuna og veðrið lék við okkur. Krakkarnir fíluðu það í botn að fullorðna fólkið væri að flækjast úti. Það var grillað, etið og drukkið og brugðið á leik. Hafsteinn og Addi skelltu sér upp á eitt borðið og dönsuðu að mér sýndist spænskan flamengó. Þegar þeir fóru nú að bera á sér bumburnar og herma eftir arabískum magadansi gat ég ekki lengur á mér setið og skellti mér upp á borð til þeirra því þeir voru sko að gera þetta vitlaust. Þú getur ekki dansað almennilegan magadans nema vera með rétta tegund af maga... Og stinn og loðin bjórvömb er ekki það ekki heldur er það 9 ára gamalt fæðingarspik sem hefur fengið upprifjun á þriggja og hálfs árs fresti! Sumir horfðu á mig með aðdáun í augum, enda ekki furða ég þarf bara að dilla mér tvisvar og bumban heldur áfram þar til ég kreppi magavöðvana. Aðrir láku niður í götuna af hlátri, ég vil halda því fram að sjá þá tvo við hliðina á alvöru magadansmær hafi verið ástæðan. Fáir hnussuðu í hneykslan yfir því að ég skyldi hafa dirfst að athafast þetta meðan börnin horfðu á, ég hef alltaf haldið því fram að kynna börnin fyrir hinum ýmsu menningararfleiðum sé bara hið besta mál. Hins vegar varð maðurinn minn orðlaus, af hverju veit ég ekki ennþá.