Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

laugardagur, október 30, 2004

Ég man eiginlega ekki eftir því að hafa verið jafnlangt niðri. Fimmtudagurinn var skelfilega erfiður dagur en sem betur fer á ég góða að. Meira að segja mjög góða. Jónsi var að vinna allan daginn þannig að hann hafði ekki grænan guðmund um hvernig mér leið þegar hann kom heim. En þegar ég hafði gert heiðarlega tilraun til að kveikja í kofanum og brotnaði gjörsamlega niður þegar það mistókst, áttaði hann sig á að það var ástæða fyrir því að ég var svona þögul. Þegar ég fór að grenja útaf hvítlauksbrauðinu sem breyttist í kol, varð ég umkringd fjölskyldunni sem öll voru að reyna að hugga mig. Einnig hafði Harpa vinkona mín fyrr um daginn reynt að hressa mig við, sem tókst rétt á meðan á þeirri tilraun stóð, með því að draga mig út í göngutúr. Við gengum bæinn þveran og endilangan og ég ýtti á undan mér barnavagninum sem kostaði hvítuna úr augunum á tengdó. Mér er farið að líða betur en þennan laaaanga dag en var að fatta núna af hverju ég er með harðsperrur í fótunum... Harpa er slæmur félagsskapur í hnotskurn. Ef þú flettir orðunum upp í orðabók er mynd af henni þar skellihlæjandi. Það er henni að kenna að það er sprungið á vagninum mínum og það er líka henni að kenna að ég er með harðsperrur. Það er líka henni að kenna að það greip mig löngun í kvöld að skella mér í langan göngutúr bara til að hressa mig við. Ég lét það duga að labba heim frá ömmu og afa.

fimmtudagur, október 28, 2004

Elsku mamma til hamingju með afmælið!
Að þurfa að vera inni og geta ekkert farið, að vera umkringdur börnum... Ég hef bara ekkert að segja sem meikar sens, svo ég tjái mig nú á góðri íslensku. En ég veit að þó ég myndi aldrei aftur heyra "jólasveinar, einn og átta" þá væri það of snemmt. Þó ég myndi aldrei aftur þurfa að tína upp perlur og liti þá væri það of snemmt. Þó ég myndi aldrei þurfa að leiðrétta málfarið hjá neinum aftur þá væri það of snemmt. Þó ég myndi aldrei aftur þurfa að stoppa leik áður en einhver slasar sig þá væri það of snemmt.
Ég fór vitlausu megin framúr í morgun, vægast sagt. Það fer allt í taugarnar á mér og mér líður eins og ég sé að fara að grenja.

mánudagur, október 25, 2004

Síðasta færsla er sönnun þess að maður á ekki að blogga þegar maður er lasinn. Mér var tilkynnt að þetta væri verr skrifað en pistill eftir pissfullan og dauðvona hamstur... Sem er nokkuð slæmt. Ég ætla samt ekki að biðjast afsökunar né leiðrétta neitt í þeim skrifum.
Hinsvegar ætla ég að deila með ykkur hugrenningum mínum um hversu spennandi skrif mín eru. Undanfarna daga hef ég farið inn á teljarann til að athuga hverjir lesendur mínir eru og hvort ég hafi nú eignast einhverja nýja fastagesti. Mér til mikillar furðu (og nokkurar kátínu) hefur msnsörtsj og gúgúl vísað á mig ef viss leitarorð hafa verið borin upp. T.d. ef þú ert að leita að nöktum konum, þrifum, hreingerningum, heimilum, talibönun eða blessunum þá beina þessar tvær leitarvélar þér á síðuna mína. Þar sem mér er tíðrætt um þrif, hreingerningar eða heimili mitt finnst mér svosum ekkert skrítið að síðan mín beri á góma er leitað er eftir slíkum stikkorðum en það sem vekur furðu mína er að leitarorðin: "naktar konum", "blessanir" og "talibanar" vísi á mig...

miðvikudagur, október 20, 2004

Nú er ég búin að taka síðurnar hjá öllum stelpunum í gegn og þó ég segi sjálf frá þá er ég snillingur. Ég fann svona mynda- og bakgrunnasíðu sem ég stalst til að taka af. Að vísu vantar að taka síðuna hjá Karli í gegn en ég er í vandræðum með að finna þema. Ég kann ekkert á svona stráka og ekki hefur Jónsi áhuga á að hanga inn á barnalandi með mér og skoða bakgrunna, það er rétt svo að hann nennir að skrifa fyrir þau í vefdagbækurnar. Ég hef reynt allar aðferðir sem ég kann til að vekja hjá honum smá áhuga eða samviskubits.Það hefur alltaf virkað að gefa í skyn að það séu veitt "verðlaun" en einhvern vegin klikkaði sú aðferð núna. Ég hef líka reynt að höfða til samviskunnar hjá honum með að ég sé búin með síðurnar hjá hinum börnunum og hann geti nú alveg hjálpað mér. Ég hef líka reynt að láta þetta hljóma eins og Dagbjört er náttúrulega með Þyrnirós því ég held að hún muni ekkert þurfa að hafa fyrir því að "prinsinn" bjargi henni, Kolbrún er með Fríðu og Dýrið því ég þori að veðja að hún mun koma heim með afbrotamann og verði alveg viss um að geta bjargað honum og svo er Sesselja með Mjallhvíti (hvort ætli maður segi Mjallhvíti, Mjallhvítu eða Mjallhvít) því hún mun eiga svo marga vini og ekki alltaf vita hverjir eru góðir en svo kemur prinsinn og finnur hana. Þetta er útpælt sko.Nú er bara næst á dagskrá að fá myndavélina til að virka svo maður geti tekið nýjar myndir til að setja inn á. Ég ráðlegg engum að kaupa stafrænar myndavélar í BT þær eru algjört drasl og alls ekki að kvarta við þá því þá færð þú gallað drasl. Að vísu er vélin okkar geðveikt góð þegar hún ákveður að batteríin séu nógu góð fyrir sig en það er mjög sjaldan. Jafnvel ný batterí eru stundum ekki nóg fyrir þessa þrusuvél sem kostaði 25þús.

En að öðru, það gerði bara brjálað veður allt í einu og það varð allt hvítt á skotstundu. Það var svolítið sniðugt hvernig bíllinn okkar reyndist í fyrsta snjónum á sumardekkjunum. Í stuttu máli er þessi stórglæsilegi 7manna skutbíll eins og belja á svelli við fyrsta snjókorn! Sú stutta vildi að sjálfsögðu fara á leikskólann og eftir dálítið þras gaf ég eftir og arkaði með veldúðað barnið út í bíl. Á leiðinni niður brekkuna var ég ekki með vott af stjórn á bílnum, hann svoleiðis flakkaði á milli hengiflugsins öðru megin og húsa og bíla hinumegin. Ég var skíthrædd um að rispa okkar bíl en var skítsama um hina hlutina sem voru á góðri leið með að tefja för okkar niður brekkuna. Þá heyrðist í aftursætinu: "akkuru keyriru sona hægt?" Ég reyndi að útskýra að það væri erfitt að keyra í snjó og að bíllinn væri á sumardekkjum en þá vorum við komnar að enda brekkunnar og við tók pínukafli af torfærum vegna þess að helmingur bæjarins er sundur grafinn vegna lagningar hitaveitu. En það var alveg nóg til þess að bíllinn gafst upp á þessu volki og fór ei lengra. Sama hvað ég reyndi að koma bílnum upp þennan 0,2% halla þá var það tómt grín. Ég reyndi allt, juðast fram og til baka eða bakka upp. Og á meðan ég sat sveitt við stýrið og juðaði bílnum fram og til baka kom önnur spurning úr aftursætinu: "akkuru keyriru ekki áfram?" Ég reyndi að útskýra að við værum fastar í snjónum en eins og allir vita eru börnin mín ákaflega greind. Því fékk ég athugasemd sem stakk: "þú kannt ekki að keyra". Meðan ég reyndi að fá barnið á þá skoðun að þetta hefði ekkert að gera með það hvort ég kynni að keyra eða ekki heldur að snjórinn væri svo þéttur og bíllinn á sumardekkjum, komu vinnukarlar til að bjóða fram aðstoð sína. Ég bað þá um að ýta mér frá svo ég stöðvaði ekki alla umferð. Barnið komst samt á leikskólann fyrir atbeina góðs nágranna. Þó mér þyki nú alltaf vænt um fyrsta snjóinn og fái pínu löngun til að fara á skíði eða þotu var ég ekki ánægð með að þurfa að skilja glænýja bílinn eftir þarna skipreka. En börnin voru allavega ánægð með þetta veður. En þó verð ég að viðurkenna að það kom smá fiðringur í jólabarnið og ég er byrjuð að föndra jólakortin og svoleiðis.
Jónsi komst ekki í staðlotuna og er í bullandi mínus yfir því. Hann er svo svekktur yfir að missa eitthvað úr en ég veit að hann er svo klár að hann mun ekki lenda í neinum vandræðum með það, eina sem gæti verið vesin er að það er 100% mætingarskylda. Ætli þeir skilji ekki að vera veðurtepptur er að komast ekki spönn frá rassi? Ég meina þetta eru nú prófessorar og allt...

sunnudagur, október 17, 2004

Ég er að taka síðuna hjá Dagbjörtu í gegn og mér finnst ég bara helvíti klár þó ég segi sjálf frá...Varð bara aðeins að monta mig.

laugardagur, október 16, 2004

Og meðan ég er að...Ef ég hefði fæðst í Englandi þá myndi ég ekki bara jafn yndisfagurt nafn eins og raun ber vitni heldur þessum viðbjóði:

My very British name is Chelsea Gladstone.
Take The Very British Name Generator today!
Created with Rum and Monkey's Name Generator Generator.

Stundum er ég of dugleg...ég var svo mikið að flýta mér í morgun að krækjurnar á nýju bloggarana mína fóru í algjört rugl. Að sjálfsögðu tók ég ekkert eftir því að í templeitinu hjá Ívari stóð .com.com sem þýddi að engin síða kom upp ef klikkað var á hann. Tóta var ekki Tóta heldur einhver málfræðisnillingur að nafni Þórunn Blöndal eða Gröndal eða eitthvað álíka gáfulegt og Tannsmiðurinn varð allt í einu að Þannsmið en sú eina sem komst klakklaust í gegn var Þórdís.
Þetta er nú samt ekki það eina sem ég var of fljót á mér með. Ég skellti Kalla út í vagn áðan því ég ætlaði að ganga inn eftir til Hörpu og fá að smakka kökuna sem hún er að fara að baka. Og í þessu bjartsýniskasti ákvað ég að labba líka með stelpunum inn í sjoppu að kaupa nammið, það er jú nammidagur, en svo settist ég niður með manninum mínum í hádeginu og nenni ekki að standa upp aftur. Ef ég hefði sett Kalla bara inn í rúm gæti ég rifið hann upp núna og sett hann í bílstólinn og keyrt inneftir...maður rífur ekki barnið úr vagninum því það væri bara nastý. Álíka nastý og að hringja dyrabjöllunni hjá einhverjum eldsnemma á sunnudegi og skilja krakkana eftir á tröppunum. Hmm, ekki leiðinleg pæling þar?!
Ég ákvað að endurskoða krækjulistann yfir á aðra bloggara. En annars hef ég voðalítið að segja...Það er laugardagur og þá má ég borða nammi fyrir framan börnin.

miðvikudagur, október 13, 2004

Ástæðan fyrir prinsessufítusnum þarna uppi sem býður ykkur velkomin er að stóru stelpunum mínum fannst síðan mín ekki nógu fín. "Það eru engar myndir á síðunni þinni, mamma! Langar þig ekki í prinsessu á síðuna þína." Ég fann konu til að breyta síðunum þeirra og þess vegna eru þær voða mikið að spá í hvernig síðurnar hjá öðrum eru. Þeim finnst síðan hjá pabba þeirra ekki flott en hann er strákur...Þeir hafa mjög sjaldan flottar síður að þeim finnst. Ég hlakka voða mikið til að sjá hvernig síðurnar þeirra koma út. Ég held að ég sé farin að hanga of mikið inni á barnalandi...
Erna vinkona mín á afmæli í dag og er hún nú orðin 27 ára.

En annars hef ég voða fátt að segja því það gerist ekkert merkilegt hjá mér þessa dagana. Er að berjast við skammdegið með að halda mér á fótum og hafa eitthvað að gera og til merkis um dugnaðinn eiga allir fjölskyldumeðlimir hrein föt -sem má teljast afrek eitt og sér. Ef ég verð dugleg að berjast mun húsið mitt verða svakalega hreint og fínt en ég er ekkert með neinn brussugang á þessum þrifum heldur tek þetta hægt og rólega.

þriðjudagur, október 12, 2004

Ég hef ekkert að segja. Ég er alls ekki í vondu skapi samt. Ég held að skammdegið sé að ná mér. En ég hló samt að þessum:

Þýtt úr dönsku.

Danska ríkisstjórnin biður um aðstoð þína í aðgerðum gegn hryðjuverkum.
Ágætu konur - stöndum saman gegn hryðjuverkum !

Við vitum öll að það er dauðasynd fyrir Talibana að sjá klæðalausa konu, ef það er ekki eiginkona hans, og er hann nauðbeygður til að fremja sjálfsmorð ef það hendir.
Við biðjum því allar konur að standa fyrir utan heimili sín á laugardaginn kemur klukkan 16, gjörsamlega naktar, til að aðstoða ríkisstjórnina við að auðkenna óæskilega hryðjuverkamenn. Það er mælt með því að þið farið síðan í göngutúr um nágrannahverfið til að ná sem bestum árangri í baráttunni við hryðjuverk!
Allir karlmenn eru beðnir um að taka sér sæti í hægindastól utan við hús sín til að sanna að þeir séu ekki hlynntir Talibanahreyfingunni og að sanna að auki að þeim finnst sjálfsagt að líta naktar konur, jafnvel þótt þær séu ekki eiginkonur þeirra.
Þar sem að Talibanar umbera ekki áfengisnotkun myndi kaldur bjór í hendinni vera enn frekara tákn um stuðning við baráttuna við hryðjuverk.


Danska ríkisstjórnin þakkar þátttöku borgaranna í baráttunni við hryðjuverk.

föstudagur, október 08, 2004

Það telst nú til tíðinda ef ég er risin úr rekkju og komin í leppana fyrir hádegi. Og kalla mætti það undur og stórmerki þegar ég geri eitthvert handtak hérna heimafyrir -annað en að hella á könnuna og kveikja á tölvunni.
Skalinn er því hér með sprengdur. Ég er upp risin, nýböðuð og klædd en þar með er ekki upptalið það sem ég hef áorkað þennan yndislega morgunn því ryksugan hefur fengið sinn rúnt í gegn um húsið og það glitrar á allt í eldhúsinu. Börnin eru öll í hreinum fötum, búin að fá staðgóðan morgunmat og komin á sinn stað: Tvíburarnir úti í kofa að leika, Sesselja á leikskólanum og Karl sofandi úti í vagninum sínum. Og af því að ég hef verið svo ákaflega dugleg fannst mér ég eiga það skilið að kveikja á tölvunni. Verst að ég hef eiginlega ekkert að segja. Jónsi var að gagnrýna mig í gær fyrir að tala bara um hreingerningar og að þetta væri farið að hljóma eins og þráhyggja hjá mér. En málið með mig og mína einhverfu er að því meira sem ég tala um hvað þarf að gera því meira skipulegg ég framkvæmdina í hausnum og svo þegar rétti tíminn rennur upp þá rís ég á fætur. Allavega virkaði kerfið núna. Hann mun ekki kvarta þegar hann kemur þreyttur heim úr vinnunni í kvöld og á móti honum kemur ilmur af hreinlæti og kvöldmat.

þriðjudagur, október 05, 2004

Tilhneiging mín til að skipuleggja alla hluti áður en byrjað er á þeim hefur ógnvekjandi afleiðingar. Ef ég sé fram á að geta ekki gert hlutina almennilega og skipulega, á mínum hraða, hefur mér hætt til að sleppa þeim gjörsamlega. Og skiptir ekki máli hvaða verk um er að ræða. Ég hef t.d. tekið á móti ættingjum og vinum í það miklu drasli að það fyrsta sem að þeim var rétt voru vaðstígvél og kort til að rata inn í eldhúsið þar sem ég stóð með skóflu komin vel áleiðis í átt að kaffivélinni. Að vísu er annað skapgerðareinkenni sem fléttast inn í þetta ófremdarástand og er það haugaleti. Ég get ekkert fegrað þá staðreynd; ég er hauglöt. Ég sé hlutina safnast upp en hef það bara ekki í mér að ganga frá þeim alveg strax.
Á stundum minni ég á manninn í auglýsinigunni frá Intrum - þar sem hann setur óhreinan disk ofan á heljar mikinn stafla af óhreinum diskum, skálum og glösum og hleypur út úr eldhúsinu áður en allt hrynur. Nema hjá mér er það hreinn þvottur sem safnast svona upp hjá mér. Þegar ég hef verið afspyrnudugleg að vera löt og skipulagslaus nær þvotturinn alla leið upp í loft og sófinn er horfinn undir hrúguna. Ég er svo séð að ég læt aldrei neitt drasl í stólinn minn, þannig að á meðan hinir fjölskyldumeðlimir standa á haus við að ýta frá taui eða hvort öðru til að komast í sófann, horfi ég óáreitt á sjónvarpið með kaffibolla í hönd. Það hefur varla farið framhjá nokkrum hvítum manni að ég á nokkur stykki af börnum með tilheyrandi pappírsflóði á öllum borðum og bekkjum og leikfangaúrval á nær öllum gólfflötum í húsinu. Það tekur því ekki langan tíma að rústa heilu húsi þegar við leggjum okkur öll fram við það.
Suma daga eru börnin með eindæmum dugleg við þessa iðju, þá er eins og við manninn mælt að það er dagurinn sem ég hef ákveðið að framfylgja skipulaginu sem hefur verið í bígerð þá undanfarna daga. Hef ég þá upp raust mína, sem er engilblíð og hljómfögur þó sterk sé, og segi draslinu, börnum, manni og öllu öðru sem þvælist fyrir mér stríð á hendur. Hreingerning er alvörumál í mínum augum og ég breytist í harðbrjósta og meinillan herforingja. Börnin hafa lært það en Jónsi er á góðri leið með að ná því að þegar þessi gállinn er á mér er best að vera ekki að bjóða fram aðstoð sína. Því ef þú hefur ekki þann hæfileika að hreyfast á ljóshraða þá ert þú bara fyrir mér og gætir lent í lífsháska. Hugtakið einn hlutur í einu gufar upp í reyk og ég skýst upp úr hrúgunni í öllum herbergjum að því er virðist á sömu sekúndunni og yfirborð draslsins kemst á hreyfingu. Þegar ég er komin á skrið í tiltektinni virðist sem innihald hússins sé ólgusjór og ég kem annað slagið í ljós eins og hungraður hvítháfur. Fyrir þá sem ekki hafa alist upp með þetta fyrir augunum gæti þetta vakið óhug og hræðslu en þá sem vanir eru birtist þeim þetta sem merki til að pilla sig í burtu og koma ekki aftur heim fyrr en eftir 3-4 tíma.

Það er einungis þrennt sem hefur þau áhrif á mig að skipulaginu verði hrynt í framkvæmd fyrir tímann, því ég er mjög gjörn á að dagsetja allt skipulag og brjóta það niður í vissa tímaröð. Í fyrsta lagi og þar af leiðandi áhrifaríkasta laginu er þegar ég heyri að mamma er væntanleg á svæðið. Ég veit ekki af hverju þetta virkar svona vel en um leið og ég heyri að mamma sé á leiðinni þeytist ég um húsið eins og fellibylur. Ég byrja á því að snúast í kringum sjálfa mig í einhverskonar taugaveiklun og enda á yfirsnúning í hreinu húsi. Í annan stað er þegar ástandið er orðið það slæmt að ég finn ekki hrein föt á börnin eða kem tölvunni hvergi fyrir (erum með fartölvu en ekkert tölvuborð). Þá er hvatinn að komast í tölvuna að loknu verki en öll fjölskyldan endar vel hrein, í hreinum náttfötum, undir hreinum rúmfötum í hreinu húsi að degi loknum og tölvan gleymist. Í þriðja lagi er það þegar ég veit að von er á einhverjum í heimsókn sem ég þekki ekki vel. En þá er líka þrifaþröskuldurinn lækkaður um heilan helling. Baðherbergið er ekki tekið í gegn með klór heldur er Þrif bara látið duga. Moppan er látin svífa yfir eldhúsgólfið lítillega vætt í Þrifi í staðinn fyrir að liggja á fjórum með tvískiptan svamp, fötu og ræstikrem. Ryksugan er látin fylgja fjölförnustu slóðum í teppinu og sleikja meðfram stærstu húsgögnunum í staðinn fyrir að öllu herberginu sé snúið við svo öll rykkorn nái að sogast í botninn á ryksugupokanum. Og einungis er þurrkað af á mest áberandi stöðunum í húsinu en ekki allar hillur tæmdar og hver einasti hlutur dustaður.

Þegar ég les yfir þetta geri ég mér grein fyrir því að geðheilsan er kannski ekki eins góð og ég vildi af láta...