Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, október 20, 2004

Nú er ég búin að taka síðurnar hjá öllum stelpunum í gegn og þó ég segi sjálf frá þá er ég snillingur. Ég fann svona mynda- og bakgrunnasíðu sem ég stalst til að taka af. Að vísu vantar að taka síðuna hjá Karli í gegn en ég er í vandræðum með að finna þema. Ég kann ekkert á svona stráka og ekki hefur Jónsi áhuga á að hanga inn á barnalandi með mér og skoða bakgrunna, það er rétt svo að hann nennir að skrifa fyrir þau í vefdagbækurnar. Ég hef reynt allar aðferðir sem ég kann til að vekja hjá honum smá áhuga eða samviskubits.Það hefur alltaf virkað að gefa í skyn að það séu veitt "verðlaun" en einhvern vegin klikkaði sú aðferð núna. Ég hef líka reynt að höfða til samviskunnar hjá honum með að ég sé búin með síðurnar hjá hinum börnunum og hann geti nú alveg hjálpað mér. Ég hef líka reynt að láta þetta hljóma eins og Dagbjört er náttúrulega með Þyrnirós því ég held að hún muni ekkert þurfa að hafa fyrir því að "prinsinn" bjargi henni, Kolbrún er með Fríðu og Dýrið því ég þori að veðja að hún mun koma heim með afbrotamann og verði alveg viss um að geta bjargað honum og svo er Sesselja með Mjallhvíti (hvort ætli maður segi Mjallhvíti, Mjallhvítu eða Mjallhvít) því hún mun eiga svo marga vini og ekki alltaf vita hverjir eru góðir en svo kemur prinsinn og finnur hana. Þetta er útpælt sko.Nú er bara næst á dagskrá að fá myndavélina til að virka svo maður geti tekið nýjar myndir til að setja inn á. Ég ráðlegg engum að kaupa stafrænar myndavélar í BT þær eru algjört drasl og alls ekki að kvarta við þá því þá færð þú gallað drasl. Að vísu er vélin okkar geðveikt góð þegar hún ákveður að batteríin séu nógu góð fyrir sig en það er mjög sjaldan. Jafnvel ný batterí eru stundum ekki nóg fyrir þessa þrusuvél sem kostaði 25þús.

En að öðru, það gerði bara brjálað veður allt í einu og það varð allt hvítt á skotstundu. Það var svolítið sniðugt hvernig bíllinn okkar reyndist í fyrsta snjónum á sumardekkjunum. Í stuttu máli er þessi stórglæsilegi 7manna skutbíll eins og belja á svelli við fyrsta snjókorn! Sú stutta vildi að sjálfsögðu fara á leikskólann og eftir dálítið þras gaf ég eftir og arkaði með veldúðað barnið út í bíl. Á leiðinni niður brekkuna var ég ekki með vott af stjórn á bílnum, hann svoleiðis flakkaði á milli hengiflugsins öðru megin og húsa og bíla hinumegin. Ég var skíthrædd um að rispa okkar bíl en var skítsama um hina hlutina sem voru á góðri leið með að tefja för okkar niður brekkuna. Þá heyrðist í aftursætinu: "akkuru keyriru sona hægt?" Ég reyndi að útskýra að það væri erfitt að keyra í snjó og að bíllinn væri á sumardekkjum en þá vorum við komnar að enda brekkunnar og við tók pínukafli af torfærum vegna þess að helmingur bæjarins er sundur grafinn vegna lagningar hitaveitu. En það var alveg nóg til þess að bíllinn gafst upp á þessu volki og fór ei lengra. Sama hvað ég reyndi að koma bílnum upp þennan 0,2% halla þá var það tómt grín. Ég reyndi allt, juðast fram og til baka eða bakka upp. Og á meðan ég sat sveitt við stýrið og juðaði bílnum fram og til baka kom önnur spurning úr aftursætinu: "akkuru keyriru ekki áfram?" Ég reyndi að útskýra að við værum fastar í snjónum en eins og allir vita eru börnin mín ákaflega greind. Því fékk ég athugasemd sem stakk: "þú kannt ekki að keyra". Meðan ég reyndi að fá barnið á þá skoðun að þetta hefði ekkert að gera með það hvort ég kynni að keyra eða ekki heldur að snjórinn væri svo þéttur og bíllinn á sumardekkjum, komu vinnukarlar til að bjóða fram aðstoð sína. Ég bað þá um að ýta mér frá svo ég stöðvaði ekki alla umferð. Barnið komst samt á leikskólann fyrir atbeina góðs nágranna. Þó mér þyki nú alltaf vænt um fyrsta snjóinn og fái pínu löngun til að fara á skíði eða þotu var ég ekki ánægð með að þurfa að skilja glænýja bílinn eftir þarna skipreka. En börnin voru allavega ánægð með þetta veður. En þó verð ég að viðurkenna að það kom smá fiðringur í jólabarnið og ég er byrjuð að föndra jólakortin og svoleiðis.
Jónsi komst ekki í staðlotuna og er í bullandi mínus yfir því. Hann er svo svekktur yfir að missa eitthvað úr en ég veit að hann er svo klár að hann mun ekki lenda í neinum vandræðum með það, eina sem gæti verið vesin er að það er 100% mætingarskylda. Ætli þeir skilji ekki að vera veðurtepptur er að komast ekki spönn frá rassi? Ég meina þetta eru nú prófessorar og allt...