Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, maí 30, 2004

Ég hef alltaf talið sjálfa mig vera manneskju sem kemur til dyranna eins og ég er klædd. Þetta er að vísu bara orðatiltæki en ég hef aldrei séð tilganginn í að skella mér í einhver spariföt þegar ég á von á heimsókn. Hvort sem um er að ræða orðaleik eða ekki. En í kvöld hefði svo sannarlega hlaupið á snærið hjá þeim sem telja ófrískar og fáklæddar konur sexí ef þeir hefðu komið í heimsókn eða jafnvel bara verið að bera út einhvern ruslpóstinn. Því ég sá mér ástæðu til að skreppa aðeins út og áttaði mig ekki fyrr en ég stóð á stéttinni og fann fyrir köldum andvara upp undir handklæðið þar sem það náði rétt svo utan um uppblásinn kviðinn. Ég var fljót að hoppa til baka inn í húsið aftur. Ég skammaðist mín í smástund en var fljót að jafna mig á því þar sem enginn sá til mín...held ég. En ég er ekki frá því að ég hafi staðið í nokkrar sekúndur eldrauð í framan og andstutt yfir þessari yfirsjón minni. Fyrr má nú vera heimakær og sátt við lífið svona nýkomin úr baði.
Þegar maður er með þrjú börn á heimilinu er sjaldan lognmolla hjá manni.

Um daginn var svakalega gott veður og tvíburarnir spurðu hvort þær mættu fara út að hjóla. Með hjálminn á réttum stað og mikinn lestur frá mömmu um hættur og bönn lögðu þær af stað. Ég varð ekki vör við þær í nokkra klukkutíma og var að fara á límingunum, þar sem við erum bíllaus og ég get ekkert gengið. Svo fékk ég hringingu um það hvar börnin mín var að finna, þær voru að leika sér hinum meginn í bænum við stærstu ána í firðinum. Þar sem ég er ólétt eru hormónarnir ekki mjög stabílir þá má segja að ég hafi fengið vægt hormónaflipp yfir þessum fréttum. Vinkona mín kom að ná í mig svo ég gæti sjálf skammast í börnunum yfir þessum glannaskap en þegar við mættum á svæðið mætti okkur önnur ástæða til hórmónakasts af minni hálfu. Það var verið að athuga hversu vel 2ja mánaða strigaskórnir þeirra gætu flotið í straumnum og annar skórinn hjá annari stelpunni minni var flotinn nokkuð langt. Eftir langann fyrirlestur um hversu mikinn pening skór kosta og hversu hættulegt það er að leika sér hjá stórum ám og hversu hrædd ég hafði verið þegar ég frétti af þeim hjá ánni og þær ættu ekki að fara svona langt frá heimilinu sama hversu gott veður væri án þess að biðja um leyfi lét ég þær hjóla heim í einni beit.
Ég var svolítinn tíma að jafna mig á þessari uppákomu en ég held að þær hafi verið fljótar að gleyma þessari ræðu minni.
Til að þær þurfi nú ekki að vera í stígvélum í allt sumar lögðum við leið okkar upp í Egs í gær til að kaupa nýja strigaskó meðal annars snatts sem telst nauðsynlegt þegar maður á stóra fjölskyldu og ólétta kerlingu. Við fórum á alla mögulega staði sem selja skó en komumst að því að meira að segja umboð Steinars Waage virðist ekki átta sig á því að það eru fleiri en eitt barn á Austurlandi sem notar sömu skóstærð. Að vísu á kaupfélagið forljóta og rándýra skó en gerir sér greinilega ekki grein fyrir því að stelpur eru fleiri en strákar og rústa fleiri skóm yfir árið en drengirnir gera. Ég fékk vægt kast á afgreiðslukerlinguna í Steinari Waage yfir hvurslags djöfulsins þjónusta þetta væri fyrir heilan landsfjórðung vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég ætla að versla eitthvað á stelpurnar hjá henni en hún er einnig með Do re mí umboðið. Það virðist vera bara framleitt eitt stykki í stærð af þeirri vöru sem hentar henni að panta. Á meðan hún stóð stamandi, reynandi að biðjast afsökunar rauk ég út í fússi. Ég meina, til hvers að kalla sig umboð Austurlands í einhverri tiltekinni þjónustu en geta samt ekki einu sinni þjónustað eina konu sem á fleiri en eitt barn?

mánudagur, maí 24, 2004

Dæmi um hversu mikið manni getur leiðst þegar maður er skikkaður til að hanga heima hjá sér og gera ekki neitt.
1. Það vekur gífurlega eftirvæntingar þegar pósturinn dettur inn um lúguna.
2. Það vaknar virkilegur áhugi á því hvað gerist næst í hinum ýmsu sápuóperum og maður jafnvel bíður eftir þeim.
3. Maður er farinn að hringja í bankann og pósthúsið bara til að spjalla.
4. Að sitja úti á palli í góða veðrinu hefur alls engin góð áhrif á geðheilsuna því maður tekur eftir öllu sem þyrfti að gera en getur ekki gert sjálfur.
5. Maður stendur sjálfan sig að því að útbúa sér einhverjar kræsingar jafnvel þó maður sé ekkert svangur bara til að brjóta upp daginn.
6. Hjartað tekur nokkur aukaslög þegar síminn hringir og maður hlakkar til að svara.
7. Maður er farinn að taka viðtal við sjálfan sig í ímynduðum spjallþætti þar sem maður sjálfur er í öllum hlutverkum.
8. Maður vonar í hvert sinn sem bíll keyrir fram hjá húsinu að einhver sé á leiðinni í heimsókn.
9. Maður skipuleggur heilan helling sem maður ætlar að gera þegar börnin koma heim og er gráti næst þegar börnin vilja frekar fara út að leika sér.
10. Þegar hápunktur dagsins er að finna horköggul á stærð við hnetu vel staðsettan hálfa leið upp í heila.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Er ég ein um að finnast þessi umfjöllun um fjölmiðlafrumvarpið vera komin út í einhverja vitleysu? Í alvörunni, það líður varla sá klukkutími sem ekki er minnst á þetta í einhverjum miðlinum og er Stöð 2/Bylgjan nánast komin út í einhverja þráhyggjutendensa. Þetta frumvarp kemur engan vegin við mig eða mitt líf því mér finnst afar sjaldgæft að eitthvað sé í fréttunum sem mér kemur bókstaflega við. Og hvort Ari eða Ásta eigi þennan eða annan miðil og vilji einbeita sínum umræðum á þennan eða hinn vettvanginn er gjörsamlega út á þekju hvað mig varðar. Hlutleysi smutleysi...Við erum viti borið fólk og getum því nokkurn veginn ákveðið sjálf hverju við trúum þegar einhver segir okkur sögu. Ég verð svo pirruð að allir fréttatímar og allar umræður skuli snúast um þetta eingöngu að mig langar stundum að garga. Að vísu bý ég ekki í siðmenningunni og get því ekki skipt um útvarpssstöð þegar það kemur eitthvað sem ég nenni ekki að hlusta á og ekki eru í boði stöðvar sem spila bara auglýsingar og lög þó Skjár 1 sé heilhveiti duglegur að spila lög allan daginn sem enginn veit nein deili á.
Og vegna þessa alls hef ég eytt meirihluta morgunsins í að skipta um stöðvar og hækka og lækka í sjónvörpum og útvörpum til skiptis til að geta hlustað á eitthvað annað sem mér kemur engan veginn við eða snertir mitt líf á nokkurn hátt. T.a.m. hlustaði ég á karl í morgun vera að lýsa draumum og draumaráðningum sínum og var það svakalega fræðandi, hann telur að dreyma að maður sé að drekka fari það algerlega eftir gæðum vínsins og aðferðum bruggsins hvernig veðrið verður næstu daga. Einnig telur hann að það drepist rolla í hvert sinn sem einhver á heimilinu dreymir tannmissi. Fannst mér þetta með eindæmum merkilegur karl og fýsir mig að vita hvernig hann myndi ráða í drauma mína, sérstaklega þar sem mig dreymir oft að ég sé að monta mig yfir hárinu mínu og sveifla því óspart meðan önnur merkileg atriði fara gjörsamlega fram hjá mér því hársveiflurnar eiga hug minn allan. Að ég tali ekki um hversu mikil aðdáun þeirra sem með mér eru í draumnum er yfir þessu svakalega vel rækta hári sem er með afbrigðum fallegt og liðast um andlit mitt og axlir þannig að allir standa á öndinni.

mánudagur, maí 17, 2004

Ég hef komist að því að það er stórhættulegt að fá ruslpóstinn heim þegar maður hefur ekkert að gera og hangir bara heima hjá sér og borar í nefið. Byko er svakalega duglegt fyrirtæki og stendur sig vel í að senda manni freistandi gylliboð um pallaefni, grindverk og blómakör. Reyndar féll ég fyrir því um daginn og dreif mig inn á Reyðarfjörð og eyddi síðustu krónunum í forláta blómakar og fúavörn. Núna stendur það úti á stétt og er hálffúavarið og tómt. Ég á ekki einu sinni fyrir mold í það, hvað þá einhverjar plöntur.
En ég hafði eitthvað fyrir stafni þann daginn þó, keyrði í 10 mínútur hvora leið og skoðaði mig um í versluninni í allavega 40 mínútur, sem af einhverjum óútskýranlegum ástæðum ég naut mikils. Furðulegt að byggingavörur og verkfæri höfða svona til mín.

fimmtudagur, maí 13, 2004

Það er nýtt kommantakerfi hérna sem ég hef bara ekki hugmynd um hvaðan kemur. Það er flóknara en Haloscan en virðist þjóna sínu hlutverki. Þannig að ég er hætt að bögga mig á því en tagborðið er ekkert að komast fyrir hérna á síðunni þannig að við verðum bara að bíða með það.

Ég er ekki búin að vera heimaliggjandi í viku en er að verða brjáluð á því. Ég hefði svosum alveg nóg að gera ef ég mætti og gæti gert eitthvað. Mig langar að fara og þrífa bílinn og bóna og ryksuga að innan og dúlla eitthvað í honum því það er svo gott veður í dag en verð að leyfa honum að vera skítugur í friði. Eða fara út í garð og raka saman laufunum og taka draslið sem hefur fokið í vetur og jafnvel slá. Allavega mig langar að gera eitthvað úti...En ég get ekkert gert. Hvort sem það er utanhúss eða ekki.

Ég er búin með bókina og já, hún endaði með því að aðalhetjurnar urðu ástfangnar og blaaaa...Það kom mér gjörsamlega í opna skjöldu og var bara það eina sem kom á óvart í allri bókinni. Ég veit ekki hvaða bók ég nenni að leggja fyrir mig núna, það er svo mikið úrval í bókasafninu að ég lendi bara í vandræðum með að velja. Ef þið hafið einhverjar uppástungur væri það vel þegið. Og bara svo þið vitið það, þá nenni ég ekki að lesa um ástfangið fólk sem fær rafmagnaðann fiðring þegar hendurnar óvart snertast eða að það sjáist nánast á nefinu hvað þráin er að fara með manneskjurnar. Einhverja með söguþræði án málalenginga, takk.

Vegna óléttunnar urðum við að breyta í húsinu og flytja okkar rúm niður. Það tók smástund að fá karlinn til að gera þetta en svo loksins þegar hann byrjaði skammaðist ég, eins og góðri konu sæmir, yfir að hann skildi byrja á vitlausum enda. Þar sem ég má ekkert gera og engu lyfta stóð ég yfir honum og súpervæsaði verkefnið. Gekk um með málbandið og mældi hvað kæmist fyrir hvar og hvernig væri nú best að raða öllu draslinu. Skipaði honum fyrir með hillur og rúm og kommóður í allar áttir. "Nei, það er 2cm meira til hægri, færðu þetta aðeins til vinstri, þetta fer upp í okkar herbergi, þetta er ekki beint, farðu með þetta niður í kjallara, viltu færa þessa hillu aftur þar sem þú settir hana áðan, við getum sett þetta út í bílskúr, skápurinn hallar svolítið."

Mér finnst ekkert skrýtið að hann hafi verið með harðsperrur í eyrunum eftir þetta.

þriðjudagur, maí 11, 2004

Eins og þið sjáið hefur síðan mín tekið nokkrum breytingum en ekki er allt búið enn. Vegna tæknilegrar vankunnáttu fellur tagborðið og commentakerfið út í óákveðinn tíma eða þar til einhver kerfisfræðingurinn býðst til að aðstoða mig við að skilja html-kóðann í templatinu. Ég biðst auðmjúklegrar afsökunar á þessum óþægindum.

mánudagur, maí 10, 2004

Þar sem ég er nú orðin heimaliggjandi húsmóðir hef ég ákveðið að sökkva mér í lestur góðra bóka. Ekki hef ég aðeins ákveðið það heldur er ég í raun byrjuð og fyrsta lesning er ekki af lakari kantinum, sem ég hef ákveðið að nafngreina ekki til að skemma ekki væntingar tilvonandi lesenda. Maðurinn minn varð svo upprifinn af þessu riti að hann stökk eitt kvöldið og náði í eintak handa mér af bókasafninu. Þessi bók er að vísu tiltæk hér á heimilinu en hún er á ensku og ég hef ekki nennu til að lesa og þýða í einu. Því byrjaði ég lesturinn hitt kvöldið á hinni íslensku þýðingu og verð að segja að ég er hætt að geta rifið mig upp úr bókinni. Söguþráðurinn er spennandi og úthugsaður og maður er límdur niður meðan maður hugsar sig um, allt til að halda í við efnisviðinn. En það er eitt með flest allar spennubækur sem ég hef lesið því það þarf alltaf að koma upp einhverri kynferðislegri eða rómantískri spennu milli aðalsögupersónanna. Og það fer alltaf jafn mikið í taugarnar á mér að þurfa að lesa um hvernig tilfinning ástríðna blossar upp í miðri skotárás eða í miðjum flótta verði karlhetjan uppfull af einhverri bölvaðri verndartilfinningu gagnvart kvenhetjunni þegar það er kannski hún sem hefur á 130 bls sýnt framúrskarandi færni í að redda sér sjálf. Og þar með var áhugi minn dauður og það áður en nokkur maður sem skipti söguna máli dó í skotbardaga eða í æðisgenginni flóttatilraun.

miðvikudagur, maí 05, 2004

Haldiði ekki að íslensku stafirnir hafi ekki klikkað í textanum hér á undan...og ég gleymdi að sjálfsögðu að ýta á ctrl og c áður en ég publishaði. Það var aldeilis skemmtileg byrjun á deginum skal ég ykkur segja.
Ó, hve ljúft það væri ef dagurinn færi á þessa leið...

Ég vakna við vekjaraklukkuna rétt fyrir sjö og finn að ég er úthvíld, laumast niður í eldhús og helli upp á kaffi og bý til hafragraut. Meðan grauturinn kólnar á fjórum skálum fer ég aftur upp, klæði mig og ræsi heimilisfólkið blíðlega. Þegar þau tínast niður nýti ég tækifærið og bý um rúmin, dreg gluggatjöldin frá og opna gluggana. Meðan þau borða í rólegheitunum smyr ég nesti handa tvíburunum til að hafa með í skólann og laumast í einn kaffibolla. Meðan allir klæða sig geng ég frá skálum og skeiðum í uppþvottavélina og þurrka af borðum. Það er kominn tími til að fara að taka sig til við að fara í skólann og ég greiði hárið á stelpunum og aðstoða við að koma skólatöskum á bakið. Ég kyssi alla bless, nema Sesselju því við erum ekki að fara í skólann. Við erum á leiðinni á leikskólann og ég athuga hvort eitthvað vanti í leikskólatöskuna og aðstoða hana við að klæða sig í útifötin. Þar sem klukkan er nú bara rúmlega átta og við eigum ekki að mæta fyrr en klukkan tíu þá förum við gangandi í góða veðrinu og tökum alla útúrdúra á leiðinni því okkur liggur ekkert á.
Eftir vinnudaginn kem ég heim og fer í garðinn minn að taka aðeins til fyrir sumarið, raka saman þessum þrálátu laufum og tíni upp draslið sem fokið hefur inn í garðinn. Eftir það er hann tilbúinn til sláttu en ég læt ekki þar við sitja heldur fer í beðin líka og reyti arfa og plássfrekt gras þannig að blómin mín geti nú notið sín í sumar. Nú er klukkan orðin það margt að ég þarf að fara inn til að taka til kvöldmatinn en Sesselja vill vera lengur úti þannig að hún fer í sandkassann sinn. Ég þvæ mér um hendurnar og set kartöflur í pott og helli upp á kaffi, þar sem ég hef smá tíma þar til að kartöflurnar og kaffið verður tilbúið fer ég niður í þvottahús til að skella í eina vél. Þar tek ég eftir að það þarf að skúra gólfið því hjólin hafa sporað allann ganginn út og næ í moppuna. Eftir að hafa lokið mér af í kjallaranum í bili kem ég upp og fæ mér einn kaffibolla, lækka undir kartöflunum og tek til grænmetið sem ég ætla að nota í salatið.
Eftir kvöldmatinn tek ég af borðum og set í uppþvottavélina, þurrka af borðum og kveiki á kerti. Sest að lokum á stól með kaffibollann og fer yfir námsefni tvíburanna með þeim í rólegheitum og eftir að þær hafa útskýrt þetta allt fyrir mér og allt er komið í orden í töskunum fyrir næsta dag er kominn tími til að tannbursta krakkaskarann. Þá fara börnin að tínast í rúmin sín og ég fer niður að taka úr vélinni og hengi upp og í leiðinni fer ég í kistuna að ná mér í mat fyrir næsta dag. Fer með það upp í eldhús til að setja það í vaskinn til að afþýðast í stofuhitanum og geng frá úr uppþvottavélinni og slekk á kertinu. Dagurinn er að kveldi komin og ég er farin að finna fyrir þreytu og fer í sturtu og tannbursta mig, hátta mig og skríð upp í rúmið mitt og slekk ljósin.

Yeah, right! Ég má þakka fyrir að hafa afgangsorku til að komast úr rúminu í ísskápinn til að ná mér í eitthvað að éta.