Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, maí 30, 2004

Þegar maður er með þrjú börn á heimilinu er sjaldan lognmolla hjá manni.

Um daginn var svakalega gott veður og tvíburarnir spurðu hvort þær mættu fara út að hjóla. Með hjálminn á réttum stað og mikinn lestur frá mömmu um hættur og bönn lögðu þær af stað. Ég varð ekki vör við þær í nokkra klukkutíma og var að fara á límingunum, þar sem við erum bíllaus og ég get ekkert gengið. Svo fékk ég hringingu um það hvar börnin mín var að finna, þær voru að leika sér hinum meginn í bænum við stærstu ána í firðinum. Þar sem ég er ólétt eru hormónarnir ekki mjög stabílir þá má segja að ég hafi fengið vægt hormónaflipp yfir þessum fréttum. Vinkona mín kom að ná í mig svo ég gæti sjálf skammast í börnunum yfir þessum glannaskap en þegar við mættum á svæðið mætti okkur önnur ástæða til hórmónakasts af minni hálfu. Það var verið að athuga hversu vel 2ja mánaða strigaskórnir þeirra gætu flotið í straumnum og annar skórinn hjá annari stelpunni minni var flotinn nokkuð langt. Eftir langann fyrirlestur um hversu mikinn pening skór kosta og hversu hættulegt það er að leika sér hjá stórum ám og hversu hrædd ég hafði verið þegar ég frétti af þeim hjá ánni og þær ættu ekki að fara svona langt frá heimilinu sama hversu gott veður væri án þess að biðja um leyfi lét ég þær hjóla heim í einni beit.
Ég var svolítinn tíma að jafna mig á þessari uppákomu en ég held að þær hafi verið fljótar að gleyma þessari ræðu minni.
Til að þær þurfi nú ekki að vera í stígvélum í allt sumar lögðum við leið okkar upp í Egs í gær til að kaupa nýja strigaskó meðal annars snatts sem telst nauðsynlegt þegar maður á stóra fjölskyldu og ólétta kerlingu. Við fórum á alla mögulega staði sem selja skó en komumst að því að meira að segja umboð Steinars Waage virðist ekki átta sig á því að það eru fleiri en eitt barn á Austurlandi sem notar sömu skóstærð. Að vísu á kaupfélagið forljóta og rándýra skó en gerir sér greinilega ekki grein fyrir því að stelpur eru fleiri en strákar og rústa fleiri skóm yfir árið en drengirnir gera. Ég fékk vægt kast á afgreiðslukerlinguna í Steinari Waage yfir hvurslags djöfulsins þjónusta þetta væri fyrir heilan landsfjórðung vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég ætla að versla eitthvað á stelpurnar hjá henni en hún er einnig með Do re mí umboðið. Það virðist vera bara framleitt eitt stykki í stærð af þeirri vöru sem hentar henni að panta. Á meðan hún stóð stamandi, reynandi að biðjast afsökunar rauk ég út í fússi. Ég meina, til hvers að kalla sig umboð Austurlands í einhverri tiltekinni þjónustu en geta samt ekki einu sinni þjónustað eina konu sem á fleiri en eitt barn?