Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, maí 18, 2004

Er ég ein um að finnast þessi umfjöllun um fjölmiðlafrumvarpið vera komin út í einhverja vitleysu? Í alvörunni, það líður varla sá klukkutími sem ekki er minnst á þetta í einhverjum miðlinum og er Stöð 2/Bylgjan nánast komin út í einhverja þráhyggjutendensa. Þetta frumvarp kemur engan vegin við mig eða mitt líf því mér finnst afar sjaldgæft að eitthvað sé í fréttunum sem mér kemur bókstaflega við. Og hvort Ari eða Ásta eigi þennan eða annan miðil og vilji einbeita sínum umræðum á þennan eða hinn vettvanginn er gjörsamlega út á þekju hvað mig varðar. Hlutleysi smutleysi...Við erum viti borið fólk og getum því nokkurn veginn ákveðið sjálf hverju við trúum þegar einhver segir okkur sögu. Ég verð svo pirruð að allir fréttatímar og allar umræður skuli snúast um þetta eingöngu að mig langar stundum að garga. Að vísu bý ég ekki í siðmenningunni og get því ekki skipt um útvarpssstöð þegar það kemur eitthvað sem ég nenni ekki að hlusta á og ekki eru í boði stöðvar sem spila bara auglýsingar og lög þó Skjár 1 sé heilhveiti duglegur að spila lög allan daginn sem enginn veit nein deili á.
Og vegna þessa alls hef ég eytt meirihluta morgunsins í að skipta um stöðvar og hækka og lækka í sjónvörpum og útvörpum til skiptis til að geta hlustað á eitthvað annað sem mér kemur engan veginn við eða snertir mitt líf á nokkurn hátt. T.a.m. hlustaði ég á karl í morgun vera að lýsa draumum og draumaráðningum sínum og var það svakalega fræðandi, hann telur að dreyma að maður sé að drekka fari það algerlega eftir gæðum vínsins og aðferðum bruggsins hvernig veðrið verður næstu daga. Einnig telur hann að það drepist rolla í hvert sinn sem einhver á heimilinu dreymir tannmissi. Fannst mér þetta með eindæmum merkilegur karl og fýsir mig að vita hvernig hann myndi ráða í drauma mína, sérstaklega þar sem mig dreymir oft að ég sé að monta mig yfir hárinu mínu og sveifla því óspart meðan önnur merkileg atriði fara gjörsamlega fram hjá mér því hársveiflurnar eiga hug minn allan. Að ég tali ekki um hversu mikil aðdáun þeirra sem með mér eru í draumnum er yfir þessu svakalega vel rækta hári sem er með afbrigðum fallegt og liðast um andlit mitt og axlir þannig að allir standa á öndinni.