Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, september 30, 2003

Hallilúja...Það er búið að gera við þvottavélina mína...okkar. Maðurinn minn hringdi og sagði einhver töfraorð við mann í Reykjavík og það birtist maður frá Egilsstöðum á tröppunum hjá mér í morgun. Ég bauð þessum yndislega eldri manni inn í vel þrifinn kjallarann og sýndi honum vélina, hann byrjaði strax að vinna og ég skellti mér í búðina full þakklætis og keypti ástarpunga til að bjóða honum upp á með sopanum. Málið var að gúmmíið er óþétt og það hefur læðst á milli einhvers lags fatnaður. Ég sá að þetta var svart og tætt en hvaða flík er ekki hægt að segja til um.
Allavega....vélin er í lagi og ég hef enga afsökun að láta ömmu þvo fyrir mig lengur.
Tókuð þið eftir að ég sagði vel þrifinn kjallarann. Já, skipulagið um þrifin þar gengu eftir. Ég byrjaði eftir hádegið á föstudaginn og ótrúlegt en satt þá kláraði ég það rétt fyrir kvöldmat. Ég get alveg verið dugleg.....
Þegar ég nenni því.
Það var nú meira stressið í gær. Ég er búin að vera í fríi yfir helgina, karlarnir fóru heim til sín þannig að það var ekkert farið á hótelið. Allt geymt til mánudags. Nema hvað yfirmenn mínir, sem eru 4, ákváðu að hafa samband við mig. Eða 2 þeirra alla vega.

Annar var á leiðinni....OOÓ:(
Hinn lét mig vita að það væri von á 7 manns í vikunni. Og maðurinn minn ekki heima til að róa mig niður.
Ég fékk taugaáfall, móðursýkiskast og kransæðastíflu og allt í einu. Mig var farið að verkja í vinstri handlegginn í alvöru.

Þetta reddaðist nú, sá sem mætti á svæðið var ekkert að amast yfir því að ég var ekki búin að þrífa eða búa um. Ég hjálpaði honum að mæla eitthvað fyrir endurbæturnar á húsinu og það var voða fínt að fá hann í heimsókn.
En samskiptin við hinn voru ekki góð fyrir yfirmannafóbíuna mína....Það byrjaði allt með einu símtali.
"hvað eru margir eins og er ?"
"Umm, 2. Stundum 3"
"Ha? Hve margir?"
"2 stundum 3"
"Hvað meinaru? Hversu margir?"
"Þeir eru 2 alltaf en stundum bætist 3 maðurinn við. Það fer eftir hvernig veðrið er hvort hann komist heim til sín."
"Þeir eru sem sagt 3?"
"Já stundum"
"Hversu margir eru þeir?"
"HMMMM. 2 stundum 3"

Svo er lús að ganga í skólanum og ég var að kemba tvíburunum þegar ég hélt að ég hefði fundið lús þá hringdi hann aftur.
"Er pláss fyrir 7?"
"Hmm. Ekki í einstaklings."
"Neinei, er pláss fyrir 7?"
"Ég þarf þá að færa rúm til að koma þeim fyrir"
"Jájá, þannig að það er pláss fyrir 7?"
"Jaaa, ef ég færi rúmið úr fimmunni yfir í sexuna og tek rúmin þaðan og set í fimmuna. Þá ætti það að ganga."
"Það er þá pláss fyrir 7?"
"Já."
"Hvenær?"
"Hvenær koma þeir?"
"Í byrjun okt."
Ég hélt ég hefði fundið lús á börnunum og hann var að bögga mig með þessu. Ég var að fá hausverk dauðans.
"Geturu hringt eftir smástund?"
"Hvenær?"
"Eftir korter."
"Jájá...eða hringd þú í mig."
"já ég hringi eftir smá."

Það var enginn lús en ég var alveg búin á geði þegar klukkan var að verða 3.
Ég hringdi um leið og ég var komin af hættustiginu með blóðþrýstinginn.
"Er ekki hægt að selja þeim mat líka?"
"Ehh, ég þyrfti að hafa svolítið mikið fyrir því..."
"Flott, hvaða daga vilt þú vera með matinn?"
"Bara svona 2x eða 3x í viku þá?"
"Hvað segiru um 5 daga vikunnar?"
"Ekki eins og eldhúsið er núna, það þarf nýja eldavél og solleis til að það sé hægt að elda þarna."
"Ok...en 4x í viku?"

Eins og ég var búin að minnast á er ég með severe case af yfirmannafóbíu...Og að eiga samskipti við yfirmann sem er búinn að ákveða eitthvað en vill fá mig til að gefa grænt ljós er auðvelt mál....fyrir hann.
Annað mál hvort ég sé sátt.

Ég viðurkenni að um leið og ég hef mikið að gera líður mér betur, dútl hefur aldrei verið fyrir mig. Ég vinn á vöktum. Hamast þar til verkið er búið. Og ef það er tímamörk á verkinu þá er ég í góðum málum. Það er þess vegna sem ég vill ekki vinna við verksmiðjustörf. Ég væri vinnandi allan sólarhringinn.
En ég hefði verið miklu meira en tilbúin í þetta ef húsið væri í lagi. En ég geri þetta vegna þess að þannig er ég. Ég geri það sem ég er beðin um og reyni að gera það eins vel og ég get.

Þannig að ég er að fara að taka við 7 manns í gistingu, morgunmat og fæði 4 daga vikunnar. Og er með 2, stundum 3 í gistingu og morgunmat 7 daga vikunnar fyrir. Sem þýðir að ég mun hafa mikið að gera næstu 2 mánuði. Og þar sem ég er mjög góð í að skipuleggja hluti er ég náttúrulega búin að skipuleggja þetta allt saman. Ég þarf bara 10 tíma viðbót við sólarhringinn og helst 2 stykki af mér og þá gengur allt upp :)

sunnudagur, september 28, 2003

Ég var að horfa á Jamie Oliver um daginn og allt sem hann gerir virðist vera nokkuð auðvelt, alla vega þegar hann á í hlut. Þættirnir eru um 20mín og þá er komin dýrindis máltíð með forrétti, aðalrétti og eftirrétti. Og allt lítur út fyrir að vera gómsætt.
Ég ákvað að fara í Egs og kaupa eitthvað af þessu hráefni og galdra svo fram máltíð sem tæki öllu fram. Basillíka og tómatar og eitthvað gums komst svosum ofaní körfuna. En ferðin heim drap basílikuna mína næstum því þannig að ég skellti henni í vatn og tómatarnir fóru í ísskápinn. Nú er basilíkan dauð og ég mundi eftir því að mér finnst tómatar vondir.
Í gær ákvað ég samt að elda og þar sem maðurinn minn er svo góður í allskyns pastaréttum ákvað ég að reyna að toppa hans eldamannsku með pasta ala hulda. Það tókst ekki betur en svo að ynsta stelpan prumpaðist áfram í allt gærkvöld og lyktin minnti á hverasvæðið hjá Mývatni.
Svo þegar öll börnin voru farin að sofa og við hjónin settumst fyrir framan imban kom annað slagið lykt sem hefði getað rotað fíl.
En ekki kvartaði maðurinn undan matnum heldur gaf hann mér góð ráð í eldamennskuna : "næst skulum við ekki nota svona mikinn ost, elskan."
Svo er fólk að skammast yfir að ég láti manninn elda. Ég er miklu betri í að þrífa og baka. Og er mikið að spá í að halda mér innan minna marka.
Ég er ekki að segja að ég kunni ekkert að elda, ég er mjög góð í að sjóða pulsur og kjötbollur og kartöflur og hafragraut og fisk og slátur. Svo kann ég að steikja sumar tegundir eins og allskonar kjötbúðinga og kjötbollur og fisk og slátur og kótilettur. Ég get meira að segja sett heilu líkamshlutana af dýrum inn í steikarofn og komið vel út úr því.
Það sem er að fara með mig er þetta Ítalska kjaftæði, ólívur, tómatar, basilíka og oreganó.
Við búum á Íslandi....og ég er mjög góð í að elda íslenskan mat.

fimmtudagur, september 25, 2003

Ég vil halda að ég sé kona sem þekkir sín takmörk. Þess vegna fékk ég mér aldrei visa eða euro. Það er þess vegna sem ég fékk reglulega taugaáföll þegar ég bjó í bænum, aðallega þjáðist ég á útsölutímum í Hagkaupum. Þeir halda oft útsölur í enda mánaðarins þegar fólk á engan pening og nota kortið. Rúmfatalagerinn var líka verslun sem ég kenni um andlegt ástand mitt á þessum hörmungartímum er ég var enn á meðal siðmenntaðs fólks. Þar gast þú keypt tonn af rúmfötum, handklæðum og kertastjökum af öllum gerðum og skellt því á raðgreiðslur. Þegar Bónus fór að taka við kortum var mér nóg boðið og flutti burt frá þessum siðmenntaða, menningarlega sinnaða og stressaða borgarlýð og út í sveit þar sem fólk kunni enn að meta beinhörðu peningana mína sem ég vann fyrir með blóði mínu, svita og tárum. Kannski þar fyndi ég fólk með svipaðar hugmyndir og ég um lífið, tilveruna og peninga. Þar væru kannski sömu góðu og gömlu gildin í hávegum höfð ennþá.

Þegar ég kom hingað á fallegan hjara Íslands gerði ég mér grein fyrir að margar stelpur á mínum aldri voru ekkert nálægt því að vera með sömu gildi og ég. Þannig að lengi vel hékk ég bara með ömmu og afa. Fór á tímabili að vinna inni á elliheimili og var ég eins og blómi í eggi þar, gellurnar töluðu um hvað þær þvoðu ullarsokka af 20 manns í höndunum í ísköldum lækjunum. Og voru með 17 börn hangandi í pilsinu þegar ekkert var til nema þurrkaðir þorskhausar og útsæði. Hversu þær þurftu að púla og ströggla við að halda lífi í sér og börnunum 17 í verstu veðrum sem yfir landið hefur gengið fyrr eða síðar. Búandi í húsum sem héldu varla vatni hvað þá vindi.

En þessi prinsipp voru í notkun. Þú berð ábyrgð á því sem þú tekur þér fyrir hendur. Þú ert þinnar gæfu smiður. Þú hugsar áður en þú framkvæmir. Þú átt að finna þér mann sem er tilbúinn að vera (aðal)fyrirvinna heimilisins. Þú átt að eignast fullt af börnum. Karlinn lagar allt úti og þú tekur til inni. Karlinn keyrir. Það er í lagi að karlinn sé loðinn en konan á að raka af sér öll óþarfa hár. Jafnrétti er afstætt hugtak. Þetta sem ég taldi hér fyrir ofan er jafnrétti fyrir mér.

Samt er svo sniðugt hvað ég er fljót að gleyma þessum gellum og þeirra þrekraunum og byrja á að sjá ofsjónum yfir mínum verkum.
Það er til nóg af mat úr öllum fæðuhópum þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur að börnin mín svelti.
Það eru til lyf þannig að ef barnið veikist af kvefi er engin hætta á að allir heimilsmenn drepist úr lungnabólgu eða berklum.
Það eru settar það háar kröfur um húsin sem við búum í að þau leka ekki og eru langflest með rafmagni og hita.
Það eru til allskonar vélar til að hjálpa okkur þreyttu, uppgefnu húsmæðrunum með heimilisverkin. Þvottavélin, þurrkarinn, eldavélin, uppþvottavélin, örbylgjofninn, ryksugan og svo mætti lengi telja.
Við þurfum ekki að fara í næsta læk og bera vatnið heim, við skrúfum frá krana.

þriðjudagur, september 23, 2003

Í gær gerðum við Jónsi samning um að hann færi að gefa köllunum morgunmat og í staðinn myndi ég gera húsið hreint og hann þyrfti ekki að gera neitt eftir vinnu, ég myndi elda og ganga frá eftir matinn og allt. Hann vaknaði sem sagt um 6 og fór út í kulda Helvítis til að gefa kolóðum köllum að borða.
Miðstöðin var eitthvað vanstillt þarna niður frá og kallarnir voru bláir af kulda. Jónsi lofaði þeim að við myndum redda því áður en þeir kæmu heim aftur. En Jónsi er að vinna til 5 á mánudögum þannig að ég þurfti að redda því. Sem er ekkert vandamál fyrir venjulega manneskju sem er ekkert að gera annað en að þrífa heima hjá sér. En eins og ég hef áður sagt er framkvæmd ekki minn sterkasti punktur, ég var sem sagt búin að skipuleggja allan daginn og þetta var ekki svo yfirstíganlegt verkefni þó það bættist við að redda miðstöðinni.
Nema hvað ég hef verið að reyna að fá viðgerðarmann hingað heim að laga þvottavélina í marga daga. Hann annað hvort svarar ekki símanum eða það er slökkt á gemsanum, konan hans var með honum í þessu og sagðist alltaf ætla láta hann vita að ég hafi hringt eða biðja hann um að hringja í mig við fyrsta tækifæri. Við búum í rúmlega 800 manna samfélagi, hversu mikið getur verið að gera hjá rafvirkja sem er ekki einu sinni eini rafvirkinn á svæðinu???
Þannig að ég þurfti að skipuleggja þetta allt upp á nýtt. Og forgangsraða þessu öllu.
Fyrst sá ég um miðstöðina niður frá, ég hringdi suður til að láta vita og fá leyfi til að fá mann í þetta. Ég geri mér grein fyrir því að ég hef ekki hugmynd um hvernig maður lagar miðstöðvarofn sem er svipað gamall og afi. Ég fékk leyfið svo ég hringdi í Pétur frænda, hann er smiður þannig að hann veit allt. Hann sagði mér að hringja í annan mann sem vissi meira um svona en hann....er einhver betri en Pétur frændi í að laga hluti?? En ég ákvað að treysta honum bara og viti menn það kom maður og reddaði þessu á mettíma....sem er svolítið merkilegt því ég held að hann og ofninn hafi verið jafnaldrar.....Ég gat þá sett plús hjá því á skipulaginu mínu.
Þá var komið að því að ná í skottið á rafvirkjanum upptekna. Ég hringdi og hringdi og hringdi, þannig að ég prófaði heimasímann, gemsann, búðina og konugreyið. Gafst síðan upp í bili. Náði samt í hann um hádegið, það kviknaði bara allt í einu á gemsanum hans. Hann lofaði að koma í dag og ég er farin að skipuleggja allt út frá því að hann kemur í dag.
Þvottavélin er því enn biluð, ég fór með þvottinn til ömmu og við erum búin að fara nokkrar ferðar með þvott þangað. Sem væri ekkert merkilegt nema ég fæ tauið hreint og samanbrotið til baka. Hún amma mín er besta þvottavél í heimi. Við setjum sjálf í kannski 3 vélar en fáum til baka um það bil 30 vélar, allt hreint, engir blettir og allt samanbrotið. Þvottahúsið mitt er tómt....ja það er alla vega enginn þvottur þar lengur.
Ég var búin að framkvæma 2 hluti af skipulaginu mínu og stelpurnar á leiðinni heim úr skólanum. Ég gaf þeim að borða og lét þær gera heimaverkefnin. Það var sko partur af þessu æðislega skipulagi sem ég var búin að setja upp fyrir mig og bara einn hlutur eftir. Að efna minn hlut í samningnum okkar Jónsa. Að þrífa húsið svo hann gæti notið kvöldsins með mér í ró og næði, fengið gott að borða og horft á fótboltann.
En...þar sem skipulagið var alveg að ganga upp þá kom yfir mig þessi rosalega þreyta, ég bara varð að fara og leggja mig. Með börn í húsinu og vont veður er það ekki hægt þannig að ég lá bara í rúminu og fylgdist með þeim spila tölvuleik fram að drekkutíma. Eftir kaffi og sígó laumaðist ég aftur upp í rúm og barnaefnið hljómaði temmilega hátt stillt og ég gerði aðra tilraun til að leggja mig. Þá hringdi síminn og mamma var hinum megin á línunni. Hún er æðislega góð í að láta mig fá samviskubit í gegn um síma. Mér finnst eins og hún finni á sér þegar ég vil leggja mig. Hún hringir óeðlilega oft þegar ég er að reyna að sofna á daginn. Það mætti allur heimurinn taka svona 2ja tíma siestu nema ég ef mamma fengi að ráða.
Ég þakka Guði fyrir að finna handa mér mann sem á auðvelt með að fyrirgefa. Því ég er ekki auðveld í sambúð. Ég þreif ekkert, eldaði ekki, sendi hann til ömmu að ná í tauið, skipti um stöð þegar hann var að horfa á fótboltann og kvartaði síðan undan þreytu eftir daginn og sofnaði bara.....

mánudagur, september 22, 2003

Góðan og blessaðan daginn..
Ég elska mánudaga. Í alvörunni. Þá er einhver regla á allri óreglunni. Vetur Konungur er að vísu aðeins að minna á sig í dag. Það var allt orðið hvítt í morgun og gengur á með éljum.
Ég fór að velta fyrir mér vandræðalegustu augnablikum mínum sem sem krakki.
Dóttir mín er nefnilega orðin svo spéhrædd að það má ekki hlæja að henni. Þær voru að leika sér í tölvunni áðan og hún var eitthvað að dilla sér við þessa stórbrotnu tónlist sem er undir svona tölvuleikjum og sagði: þetta er geggjað gott lag, ég elska það. Auðvitað fór ég að hlæja, hún er ekki nema 6 ára og talaði eins og versta gelgja. Ég þurfti að útskýra fyrir henni af hverju ég hló því hún fór að gráta...
Ein stærsta minning sem ég á með vandræðalegu atviki er þegat ég átti heima á Ísó. Að vísu dró til hverra stórtíðinda á fætur annarra þegar ég bjó þar...en ég ætla ekki að fara nánar út í öll þau minningarbrot.
Stórholt, ég man að stelpan á neðri hæðinni kallaði húsbóndann ekki pabba heldur Halla. Hún átti rosalega flott blöð til að lita á, ekki svona venjuleg hvít og leiðinleg. Stelpan við hliðina á okkur kunni ekki að rusla til og ég fékk alltaf Trix að borða þar.
Einar frændi var hjá okkur um tíma og fór á fyllerí, sem væri ekki frásögu færandi nema hvað hann hefur gert einhverja gloríu eitthvert kvöldið og Lögreglan sótti hann einn daginn. Ég laug í alla krakkana að hann væri leynilögga úr Reykjavík og væri að aðstoða þá í einhverju svakalegu smyglmáli. En ég held að enginn hafi trúað mér. En það er ekki vandræðaleg minning, frekar svona fyndin.
Nei, með vandræðalegustu atvikum í minni æsku var þegar Gunna frænka, sem er 5 árum eldri en ég og því á bullandi gelgju þarna, plataði mig upp í fjall að skoða bók. Og þetta var ekki einhver bók, þetta var bók fyrir fullorðna og það var voða spennandi að fá að vera treyst fyrir því og mega vera með. Við földum okkur bak við stein uppi í hlíðinni og lukum upp þessari svakaskræðu. Flissuðum og tístum og ég skildi ekki hvernig fólk gat sumar þessar stellingar. Þegar við vorum búnar að diskutera skræðuna í bak og fyrir var að koma henni óséðri inn aftur. Og þar sem ég er yngri kemur alltaf í minn hlut að gera það sem er hættulegra. Það voru gestir hjá mömmu þennan dag og auðvitað datt bókin undan peysunni beint á gólfið. Sjafnaryndi blasti við öllum í íbúðinni. Það var fyrst dauðaþögn svo ég reyndi að útskýra. Þá byrjaði einhver kerlingin að tísta og þá var eins og flóðbylgja af skömm og hlátri skylli á mér. Þær grenjuðu og engdust úr hlátri. Ég hljóp upp í fjall og ætlaði aldrei að koma heim aftur. Gunna segir ennþá í dag að ég hafi átt hugmyndina...en ég held að miðað við aldur þegar þetta átti sér stað þá hafi uppástungan komið frá einhverri annari en mér....ég var bara 7 eða 8 ára en hún + 5 ár. Þannig að ég læt ykkur bara um að reikna út hvor er líklegri til að hafa átt hugmyndina...

sunnudagur, september 21, 2003

Oooojjjj sunnudagsmorgnar!!!
Hugmyndin var að ég fengi að sofa út í dag, Jónsi (þessi elska) vaknaði í morgun og tók til morgunmatinn fyrir vinnukallana. En nnneeeeiiiii, sú yngsta fann það á sér hvað mér leið vel svona steinsofandi...."MAMMA??? Má ég fá eitthvað að borða?" Hvurslags spurning er þetta? Það er ekki eins og barnið sé að hrynja úr hor! Hún er 2ja ára síðan í janúar og er í ársgömlum fötum frá tvíburunum (sem eru 6 ára síðan í ágúst)! Hún er hlunkur....en ofsalega sætur hlunkur sko.
Ég dreif mig fram úr til að gefa þessu blessaða banhungraða barni eitthvað að borða. Kaffivélin er svo lengi að sjóða vatnið að barnið var búið að borða fulla skál af Cheerios og Cocoa Puffs þegar ég fékk loksins kaffi í kroppinn. Hvað ætli hún kosti svona vél með tímastilli?
Kaffið komið í könnuna mína og ég ætlaði út að reykja...Ísland flaut upp undir Norður-pólinn í nótt!!! Ískuldi og vindur Dauðans mættu mér í dyrunum. EN ÉG ÆTLAÐI!!!Fyrsta sígóin var ekkert fullnægjandi!!!
Þegar ég kom inn aftur skjálfandi með frosið kaffi í könnunni var annað barn að deyja fyrir framan mig úr hungri. Ég fór með barnið í eldhúsið og gaf því að borða, þegar hljóðið í Cheerios og Cocoa Puffs skella í skálinni heyrðist, kom sú yngsta hlaupandi á ólöglegum hraða og upp í minn stól. Ég fór út að reykja aftur þegar þær voru byrjaðar að borða.
Barnaefnið var byrjað og ég gat loksins slakað á...af hverju er svona kallt úti?
Það er ekki hægt að sitja úti með kaffi og sígó í svona kulda og vindi og horfa yfir heimabyggðina á náttsloppnum. Hann fýkur bara upp!
Þegar sú þriðja vildi fá að borða gafst ég upp og kallaði á Jónsa. Og sú stutta ákvað að herma eftir formúlunni og náði góðum tíma inn í eldhús til að borða aftur. Ég sé fram á að velta henni í skólann þegar hún verður orðin 6 ára.
Hvað er að þessum köllum annars? Það er SUNNUDAGUR!!
Á sunnudögum á maður að taka því rólega og hugsa um andlega hluti, fara í kirkju eða ná sambandi við Guð með öðrum hætti. En að vakna eldsnemma til að fara að vinna úti í Norður-póls kulda og vindi Dauðans. Það hlýtur að vera eitthvað að fólki sem hegðar sér svona!!

laugardagur, september 20, 2003

Jæja..
Það er laugardagsmorgunn og ég vaknaði rétt upp úr 6 og dreif mig í að útbúa morgunmat fyrir bláókunnuga vinnukarla. Það var rosalega fallegt í morgun. Ég horfði yfir heimabyggðina og á fjöllin og himininn. Það hvarflaði að mér í smástund að fara í göngutúr þegar ég væri búin að gefa þeim að borða. Þá mundi ég eftir því hvað það er erfitt að hreyfa sig þegar maður þarf þess ekki. Og ég hætti við.
Rosalega er leiðinlegt að vakna svona snemma á laugardögum... Það eru allir aðrir sofandi og ekkert að gera nema horfa á barnaefnið. Sem by the way er annaðhvort samið af heiladauðum hálfvitum eða það er fyrir heimsk og leiðinleg börn. Mín börn eiga alla vega erfitt með að einbeita sér að dansandi fígúrum sem syngja falskt.
Ég gafst upp þegar talandi kanína fór að kenna mér dulda landafræði.
Fyrst ég var búin að skipuleggja þrifin á kjallaranum þá ætti ég að fara að framkvæma það. En fyrst ætla ég að fá mér kaffi og sígó og velta aðeins meira fyrir mér leyndardómum heimsins.
Og kannski ég skipuleggi bara meiri þrif til að framkvæma einhvern tíma seinna, annaðhvort hérna eða niðri á hóteli.

föstudagur, september 19, 2003

Góðan og blessaðan daginn.
Stundum er eins og Guð sé ekki með mér í liði...
Ég byrjaði daginn á því að sofa næstum yfir mig, ég vaknaði um 20 mín yfir 6. Þannig að ég þaut af stað að útbúa morgunmat fyrir strákana. Gleymdi að kveikja á kaffivélinni og komst svo að því að smjörið er búið.
Þegar ég var á leiðinni heim aftur gældi ég við að vekja karlinn minn með að leggjast í rúmið og biðja hann um að taka tvíburana til í skólann. En neiii, það voru allir vaknaðir þegar ég kom...sú yngsta rosa pirruð yfir að hafa ekki náð á klósettið í tæka tíð. Jónsi fór eitthvað öfugt fram úr og gerði ekki annað en að misskilja mig og verða sár yfir að hann megi ekki skipta sér af heimilinu (það var misskilningurinn). Það tók tvíburana 4ár að klæða sig og 3mán að borða. Ég fékk nú samt tíma til að greiða hárið á þeim áður en þau ruku í skólann...og skildu mig eftir með geðveikt sárt barn...sú yngsta er alla morgna alveg hryllilega sár yfir að mega ekki fara með í skólann. Og ég fékk að vita það í morgun að ohana þýðir fjölskylda og ENGINN er skilinn út undan.
Hún sættist nú við mig þegar ég bauð henni með mér í kjallarann, ég var alveg búin að ákveða að telja flöskurnar og taka aðeins til þarna niðri áður en viðgerðarmaðurinn kemur að laga þvottavélina.
Já það er annað...Þvottavélin er biluð. Nýja þvottavélin sem maðurinn minn keypti svo ég gæti nú þvegið larfana af okkur öllum en endaði á að þurfa gera sjálfur því ég nennti því ekki.
En allavega við fórum niður en ég leit í kringum mig og gafst upp áður en ég byrjaði....Hún var ekki sátt við mig sú stutta þannig að ég mútaði henni með Lilo og Stitch. Ekki mín stoltasta stund en....
Svo fór ég og náði mér bara í kaffi og settist niður með blað og penna og fór að skipuleggja þrifin í kjallaranum, ég er rosalega góð í því að skipuleggja allt. Það er að fara eftir öllum þessum skipulagsplönum sem er að þvælast fyrir mér.
En kaffið fór beint í gegn og ég fór á salernið. Sem væri ekki frá sögu færandi ef ég hefði getað sturtað niður, eins og góðra dömu er siður. Klósettið tók sér nokkrar mínútur að tæma skálina og það heyrðust undarleg hljóð úr öllum niðurföllum í húsinu. Eins og ninja-skjaldbökurnar væru á fyllerí og teyguðu úr stórri flösku....Það er stíflað hjá mér skólpið! Ég get þá sett það á skipulagsplanið að bíða eftir öðrum iðnaðarmanni.
En í miðjum þessum niðurdrepandi hugsunum áttaði ég mig á einu...
Það er föstudagur og helgin er að byrja. Sofa út og gera ekki neitt nema hvíla mig næstu 2 daga. Æi já, ég á víst börn sem sjá til þess að ef maður leyfir sér að slaka á og hanga bara þá má ég eiga von á því að á mánudag verð ég allann daginn að taka til og þrífa og þvottur fram á næsta föstudag (sem verður hvort eð er því viðgerðarkallar koma 5 dögum seinna en þeir segjast ætla að koma).
Þær finna það á sér ef okkur langar að sofa út ( til 9-10) því þá vakna þær sjálfar allt í einu og það fyrir 7....Um daginn vaknaði ég við dynjandi tónlist úr þeirra herbergi. Fyrst fékk ég sjokk, var klukkan orðin 12 eða voru börnin búin að nota allar aðrar aðferðir til að reyna vekja mig og svaf ég svona fast? Ég leit á klukkuna...Hún var kortér í 6!!!!!

fimmtudagur, september 18, 2003

ég er að spá í að byrja aftur á að skrifa dagbók....en núna á netinu þannig að fólk geti böggað mig ef ég geri það ekki reglulega.
samt veit ég ekki hvort það verði langur texti í hvert skipti því um leið og ég finn eitthvað (sem mér finnst skemmtilegt) að gera annað en að sinna stelpunum þá er eins og þær þefi mig uppi og verði að fá ALLA athyglina STRAX. Annars verð ég að standa upp til að verða sáttasemjari eða dómari í einhverri fáráðlegri deilu milli drama og cruelty. Já, tvíburarnir breytast í holdgervinga þessara orða ef ég næ að slaka á í 10 mínútur. All hell brakes loose ef ég er lengur en 15 mínútur. OG 3ja daga tiltekt eftir þær ef ég tek mér meiri en 30 mínútur.
Þannig að ég fer í sturtu á kvöldin þegar þær eru sofnaðar, því mér finnst gott að fara í sturtu (og er alltaf lengur en 30 mínútur undir bununni) en ég get ekki leyft mér það á morgnanna því ég yrði viku að þrífa húsið eftir þá sturtu!