Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

fimmtudagur, september 25, 2003

Ég vil halda að ég sé kona sem þekkir sín takmörk. Þess vegna fékk ég mér aldrei visa eða euro. Það er þess vegna sem ég fékk reglulega taugaáföll þegar ég bjó í bænum, aðallega þjáðist ég á útsölutímum í Hagkaupum. Þeir halda oft útsölur í enda mánaðarins þegar fólk á engan pening og nota kortið. Rúmfatalagerinn var líka verslun sem ég kenni um andlegt ástand mitt á þessum hörmungartímum er ég var enn á meðal siðmenntaðs fólks. Þar gast þú keypt tonn af rúmfötum, handklæðum og kertastjökum af öllum gerðum og skellt því á raðgreiðslur. Þegar Bónus fór að taka við kortum var mér nóg boðið og flutti burt frá þessum siðmenntaða, menningarlega sinnaða og stressaða borgarlýð og út í sveit þar sem fólk kunni enn að meta beinhörðu peningana mína sem ég vann fyrir með blóði mínu, svita og tárum. Kannski þar fyndi ég fólk með svipaðar hugmyndir og ég um lífið, tilveruna og peninga. Þar væru kannski sömu góðu og gömlu gildin í hávegum höfð ennþá.

Þegar ég kom hingað á fallegan hjara Íslands gerði ég mér grein fyrir að margar stelpur á mínum aldri voru ekkert nálægt því að vera með sömu gildi og ég. Þannig að lengi vel hékk ég bara með ömmu og afa. Fór á tímabili að vinna inni á elliheimili og var ég eins og blómi í eggi þar, gellurnar töluðu um hvað þær þvoðu ullarsokka af 20 manns í höndunum í ísköldum lækjunum. Og voru með 17 börn hangandi í pilsinu þegar ekkert var til nema þurrkaðir þorskhausar og útsæði. Hversu þær þurftu að púla og ströggla við að halda lífi í sér og börnunum 17 í verstu veðrum sem yfir landið hefur gengið fyrr eða síðar. Búandi í húsum sem héldu varla vatni hvað þá vindi.

En þessi prinsipp voru í notkun. Þú berð ábyrgð á því sem þú tekur þér fyrir hendur. Þú ert þinnar gæfu smiður. Þú hugsar áður en þú framkvæmir. Þú átt að finna þér mann sem er tilbúinn að vera (aðal)fyrirvinna heimilisins. Þú átt að eignast fullt af börnum. Karlinn lagar allt úti og þú tekur til inni. Karlinn keyrir. Það er í lagi að karlinn sé loðinn en konan á að raka af sér öll óþarfa hár. Jafnrétti er afstætt hugtak. Þetta sem ég taldi hér fyrir ofan er jafnrétti fyrir mér.

Samt er svo sniðugt hvað ég er fljót að gleyma þessum gellum og þeirra þrekraunum og byrja á að sjá ofsjónum yfir mínum verkum.
Það er til nóg af mat úr öllum fæðuhópum þannig að ég þarf ekki að hafa áhyggjur að börnin mín svelti.
Það eru til lyf þannig að ef barnið veikist af kvefi er engin hætta á að allir heimilsmenn drepist úr lungnabólgu eða berklum.
Það eru settar það háar kröfur um húsin sem við búum í að þau leka ekki og eru langflest með rafmagni og hita.
Það eru til allskonar vélar til að hjálpa okkur þreyttu, uppgefnu húsmæðrunum með heimilisverkin. Þvottavélin, þurrkarinn, eldavélin, uppþvottavélin, örbylgjofninn, ryksugan og svo mætti lengi telja.
Við þurfum ekki að fara í næsta læk og bera vatnið heim, við skrúfum frá krana.