Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

föstudagur, september 19, 2003

Góðan og blessaðan daginn.
Stundum er eins og Guð sé ekki með mér í liði...
Ég byrjaði daginn á því að sofa næstum yfir mig, ég vaknaði um 20 mín yfir 6. Þannig að ég þaut af stað að útbúa morgunmat fyrir strákana. Gleymdi að kveikja á kaffivélinni og komst svo að því að smjörið er búið.
Þegar ég var á leiðinni heim aftur gældi ég við að vekja karlinn minn með að leggjast í rúmið og biðja hann um að taka tvíburana til í skólann. En neiii, það voru allir vaknaðir þegar ég kom...sú yngsta rosa pirruð yfir að hafa ekki náð á klósettið í tæka tíð. Jónsi fór eitthvað öfugt fram úr og gerði ekki annað en að misskilja mig og verða sár yfir að hann megi ekki skipta sér af heimilinu (það var misskilningurinn). Það tók tvíburana 4ár að klæða sig og 3mán að borða. Ég fékk nú samt tíma til að greiða hárið á þeim áður en þau ruku í skólann...og skildu mig eftir með geðveikt sárt barn...sú yngsta er alla morgna alveg hryllilega sár yfir að mega ekki fara með í skólann. Og ég fékk að vita það í morgun að ohana þýðir fjölskylda og ENGINN er skilinn út undan.
Hún sættist nú við mig þegar ég bauð henni með mér í kjallarann, ég var alveg búin að ákveða að telja flöskurnar og taka aðeins til þarna niðri áður en viðgerðarmaðurinn kemur að laga þvottavélina.
Já það er annað...Þvottavélin er biluð. Nýja þvottavélin sem maðurinn minn keypti svo ég gæti nú þvegið larfana af okkur öllum en endaði á að þurfa gera sjálfur því ég nennti því ekki.
En allavega við fórum niður en ég leit í kringum mig og gafst upp áður en ég byrjaði....Hún var ekki sátt við mig sú stutta þannig að ég mútaði henni með Lilo og Stitch. Ekki mín stoltasta stund en....
Svo fór ég og náði mér bara í kaffi og settist niður með blað og penna og fór að skipuleggja þrifin í kjallaranum, ég er rosalega góð í því að skipuleggja allt. Það er að fara eftir öllum þessum skipulagsplönum sem er að þvælast fyrir mér.
En kaffið fór beint í gegn og ég fór á salernið. Sem væri ekki frá sögu færandi ef ég hefði getað sturtað niður, eins og góðra dömu er siður. Klósettið tók sér nokkrar mínútur að tæma skálina og það heyrðust undarleg hljóð úr öllum niðurföllum í húsinu. Eins og ninja-skjaldbökurnar væru á fyllerí og teyguðu úr stórri flösku....Það er stíflað hjá mér skólpið! Ég get þá sett það á skipulagsplanið að bíða eftir öðrum iðnaðarmanni.
En í miðjum þessum niðurdrepandi hugsunum áttaði ég mig á einu...
Það er föstudagur og helgin er að byrja. Sofa út og gera ekki neitt nema hvíla mig næstu 2 daga. Æi já, ég á víst börn sem sjá til þess að ef maður leyfir sér að slaka á og hanga bara þá má ég eiga von á því að á mánudag verð ég allann daginn að taka til og þrífa og þvottur fram á næsta föstudag (sem verður hvort eð er því viðgerðarkallar koma 5 dögum seinna en þeir segjast ætla að koma).
Þær finna það á sér ef okkur langar að sofa út ( til 9-10) því þá vakna þær sjálfar allt í einu og það fyrir 7....Um daginn vaknaði ég við dynjandi tónlist úr þeirra herbergi. Fyrst fékk ég sjokk, var klukkan orðin 12 eða voru börnin búin að nota allar aðrar aðferðir til að reyna vekja mig og svaf ég svona fast? Ég leit á klukkuna...Hún var kortér í 6!!!!!