Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, september 23, 2003

Í gær gerðum við Jónsi samning um að hann færi að gefa köllunum morgunmat og í staðinn myndi ég gera húsið hreint og hann þyrfti ekki að gera neitt eftir vinnu, ég myndi elda og ganga frá eftir matinn og allt. Hann vaknaði sem sagt um 6 og fór út í kulda Helvítis til að gefa kolóðum köllum að borða.
Miðstöðin var eitthvað vanstillt þarna niður frá og kallarnir voru bláir af kulda. Jónsi lofaði þeim að við myndum redda því áður en þeir kæmu heim aftur. En Jónsi er að vinna til 5 á mánudögum þannig að ég þurfti að redda því. Sem er ekkert vandamál fyrir venjulega manneskju sem er ekkert að gera annað en að þrífa heima hjá sér. En eins og ég hef áður sagt er framkvæmd ekki minn sterkasti punktur, ég var sem sagt búin að skipuleggja allan daginn og þetta var ekki svo yfirstíganlegt verkefni þó það bættist við að redda miðstöðinni.
Nema hvað ég hef verið að reyna að fá viðgerðarmann hingað heim að laga þvottavélina í marga daga. Hann annað hvort svarar ekki símanum eða það er slökkt á gemsanum, konan hans var með honum í þessu og sagðist alltaf ætla láta hann vita að ég hafi hringt eða biðja hann um að hringja í mig við fyrsta tækifæri. Við búum í rúmlega 800 manna samfélagi, hversu mikið getur verið að gera hjá rafvirkja sem er ekki einu sinni eini rafvirkinn á svæðinu???
Þannig að ég þurfti að skipuleggja þetta allt upp á nýtt. Og forgangsraða þessu öllu.
Fyrst sá ég um miðstöðina niður frá, ég hringdi suður til að láta vita og fá leyfi til að fá mann í þetta. Ég geri mér grein fyrir því að ég hef ekki hugmynd um hvernig maður lagar miðstöðvarofn sem er svipað gamall og afi. Ég fékk leyfið svo ég hringdi í Pétur frænda, hann er smiður þannig að hann veit allt. Hann sagði mér að hringja í annan mann sem vissi meira um svona en hann....er einhver betri en Pétur frændi í að laga hluti?? En ég ákvað að treysta honum bara og viti menn það kom maður og reddaði þessu á mettíma....sem er svolítið merkilegt því ég held að hann og ofninn hafi verið jafnaldrar.....Ég gat þá sett plús hjá því á skipulaginu mínu.
Þá var komið að því að ná í skottið á rafvirkjanum upptekna. Ég hringdi og hringdi og hringdi, þannig að ég prófaði heimasímann, gemsann, búðina og konugreyið. Gafst síðan upp í bili. Náði samt í hann um hádegið, það kviknaði bara allt í einu á gemsanum hans. Hann lofaði að koma í dag og ég er farin að skipuleggja allt út frá því að hann kemur í dag.
Þvottavélin er því enn biluð, ég fór með þvottinn til ömmu og við erum búin að fara nokkrar ferðar með þvott þangað. Sem væri ekkert merkilegt nema ég fæ tauið hreint og samanbrotið til baka. Hún amma mín er besta þvottavél í heimi. Við setjum sjálf í kannski 3 vélar en fáum til baka um það bil 30 vélar, allt hreint, engir blettir og allt samanbrotið. Þvottahúsið mitt er tómt....ja það er alla vega enginn þvottur þar lengur.
Ég var búin að framkvæma 2 hluti af skipulaginu mínu og stelpurnar á leiðinni heim úr skólanum. Ég gaf þeim að borða og lét þær gera heimaverkefnin. Það var sko partur af þessu æðislega skipulagi sem ég var búin að setja upp fyrir mig og bara einn hlutur eftir. Að efna minn hlut í samningnum okkar Jónsa. Að þrífa húsið svo hann gæti notið kvöldsins með mér í ró og næði, fengið gott að borða og horft á fótboltann.
En...þar sem skipulagið var alveg að ganga upp þá kom yfir mig þessi rosalega þreyta, ég bara varð að fara og leggja mig. Með börn í húsinu og vont veður er það ekki hægt þannig að ég lá bara í rúminu og fylgdist með þeim spila tölvuleik fram að drekkutíma. Eftir kaffi og sígó laumaðist ég aftur upp í rúm og barnaefnið hljómaði temmilega hátt stillt og ég gerði aðra tilraun til að leggja mig. Þá hringdi síminn og mamma var hinum megin á línunni. Hún er æðislega góð í að láta mig fá samviskubit í gegn um síma. Mér finnst eins og hún finni á sér þegar ég vil leggja mig. Hún hringir óeðlilega oft þegar ég er að reyna að sofna á daginn. Það mætti allur heimurinn taka svona 2ja tíma siestu nema ég ef mamma fengi að ráða.
Ég þakka Guði fyrir að finna handa mér mann sem á auðvelt með að fyrirgefa. Því ég er ekki auðveld í sambúð. Ég þreif ekkert, eldaði ekki, sendi hann til ömmu að ná í tauið, skipti um stöð þegar hann var að horfa á fótboltann og kvartaði síðan undan þreytu eftir daginn og sofnaði bara.....