Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Haldið ykkur, ég tók til í bílskúrnum og kjallaranum í dag! Að vísu var ég nú ekki ein að verki því mér tókst að plata manninn minn með mér og þurfti ég að múta, hóta og verðlauna til að ná honum út. Um leið og Karl og Sesselja fóru í göngutúr með Ardísi dró ég hann út í bílskúrinn. Hann hefur fyllst smám saman af kattarhlandi og drasli en það varð ekki skárra ástandið þegar krakkarnir brutu gluggann inn til að geta leikið sér þar. Nú er blessaði bílskúrinn loksins orðin tómur og opinn þar til ég hef úðað hann að innan með ediki svo kattarhlandslyktin hverfi. Þá verður hann aftur að geymslu en í þetta skiptið bara fyrir hurðarnar úr herbergjum stelpnanna og vetrardekkjanna því öllu öðru var hent. Ef það bar ekki fnyk af kattarrassi þá var það morknað úr hlandinu frá okkar ástkæru nágrannadýrum.
Nú, þegar ég var að enda við að sópa það mesta út úr skúrnum var hann horfinn. En hann fór sko ekki langt, hann var í stuði og hafði byrjað á kjallaranum. Þannig að nú er allt komið í röð og reglu þar líka, mamma mín yrði nú barasta stolt af því hversu miklu við hentum. Að vísu er ennþá smá óhreint tau sem bíður eftir að komast í vélina en á jafnstóru heimili væri óeðlilegt ef svo væri ekki. Ég skúraði meira að segja í ytri herberginu sem er einstaklega ójafnt gólf auk utanáliggjandi skólplagnar á miðjum gólffletinum. Það var öllu hent út úr kjallaranum til að hægt væri að þrífa almennilega og svo allt flokkað og skilað.
Ég þurfti að gera svakalegar ráðstafanir til að koma draslinu inn í Sorpu og maðurinn sem var með aðalbílinn í slíkt var ekki með símann sinn, eða eitthvað því hann svaraði ekki. Harpa kom rétt fyrir fimm og bjargaði málunum með að fá lánaðan "Litla smók" og kerru og náðum við að fara tvær ferðar áður en það lokaði. En það er samt nóg eftir en ég er með kerruna í láni þannig að á morgun þarf ég bara að fá bíl með dráttarkrók til að klára þetta.
En ég ákvað að sýna ykkur nokkrar myndir af þessum merka atburði og ykkur til yndisauka. Vessgú:þriðjudagur, júlí 26, 2005

Um daginn þegar stelpurnar voru úti í tjaldi að leika sér var ég í makindum hér inni að leika mér í tölvunni. Jónsi hafði skroppið eitthvað og Karl var sofandi þannig að ég var í góðri sveiflu. En svo komu þær inn æpandi og öskrandi um einhverja svakalega flugu með "ógeðslega langan odd" sem væri inni í tjaldinu. Þær eru nú þannig, þessar elskur, að eftir að Kolbrún var stunginn af tveimur geitungum í fyrra að þá grípur um sig geðveikisleg hystería ef það er fluga. Þannig að ég var ekkert að hlusta á þetta og kom með þau rök að þær þyrftu nú ekkert að vera hræddar, geitungarnir eru nefnilega ekkert að stinga mann fyrr en í ágúst/september (þó svo að Kolbrún hafi verið stungin í júní en það var vegna þess að hún settist á búið þeirra). Þá fékk ég þær upplýsingar upp úr einu öskrandi og grátandi barninu að þetta væri ekkert geitungur en "oddurinn er rosalega langur og skelfilegur". Ekkinn var svo ógurlegur að ég fattaði ekki strax hvað hún sagði en svaraði samt að það væri algjör óþarfi að láta svona þó einhver fluga væri í tjaldinu, þær ættu nú að fara út og reka hana bara úr tjaldinu svo þær gætu nú leikið sér. Í þessum sögðu orðum gekk minn heittelskaði inn um dyrnar og heyrði í móðursýkinni gegnum ekkasogin. Þar sem maðurinn er hetja af náttúrunnar hendi ákvað hann að tékka á þessu svakalega fyrirbæri. Tilkynnti þeirri yngstu að hann færi og rekti hana út úr tjaldinu sínu. Hann kom inn eftir nokkra stund og sagði sallarólegur að það væri ekki neitt skrítið að þær hefðu hræðst svona. Honum sjálfum hefði ekki staðið á sama þegar hann sá fluguófétið....

sunnudagur, júlí 24, 2005

Það gleður mig að koma með tvær merkilegar tilkynningar.
Í fyrsta lagi að Sesselja Bára fór í dag og lét skjóta í eyrun á sér, þrátt fyrir hræðsluáróður systra sinna. Hún var algjör hetja og hætti ekki við í miðju kafi þó það hafi verið sannleikskorn í því sem stelpurnar sögðu um sársaukann.
Í öðru lagi að ég fékk tölvupóst, sem innihélt fyndinn brandara en ég ætla ekki að deila honum. Og þessi brandari er merkilegur fyrir þá staðreynd að þetta er fyrsti tölvupósturinn til mín í nær mánuð.
Auk þessara yndisaukandi tilkynninga ætla ég að koma með smá viðvörun sem er mér ekki til nokkurar gleði.

Þið sem eigið kattarkvikyndi sem ekki eru merktir né geldir eigið von á því að sjá eigi bölvað ófétið aftur og hljóta sekt ef sannast getur hver eigandinn er.

Ég hef lent í því, annað sumarið í röð, að hljóta skemmdir upp á háar fjárhæðir vegna umráðasvæðisbaráttu þessara helvítis flóabera. Í fyrra var rassaspreyjað á allt sem gleymdist í meir en 5 mínútur úti við, úlpur, flíspeysur eða skór, skipti engu máli. Nú er þolinmæði mín þrotin því það er búið að spreyja allt tjaldið hans Jónsa, sem var fermingargjöf á sínum tíma, út í þessum fnyk dauðans. Ég hef fengið dýraeftirlitsmann bæjarins með mér í lið og setti hann upp gildru í garðinum þó ég vonaðist eftir skotvopnum eða pyntingartólum. Ekki nóg með að þeir merki sér allt með sínum illalyktandi rassvökva heldur eru þessi kvikyndi að ráðast á börn. Það var ráðist á Sesselju í fyrra, algjörlega að ósekju því hún var ekkert að plaga það kattardýr helvítis. Ég myndi eyða öllum níu lífunum hjá þessum kattardjöflum, ef ég væri með byssuleyfi og að það mætti skjóta innanbæjar, með glöðu geði.
Einu sinni elskaði ég ketti og fannst þeir yndislegir loðboltar. Eignaðist nokkra sjálf, þó ekki alla í einni beit. En ég fór alltaf samviskusamlega með þá til dýralæknis og lét sprauta þá við ormaveiki og gelda ef um högna var að ræða en fékk pilluna fyrir læðurnar. Ég bjargaði meira að segja einu sinni sex kettlingum úr poka við þjóðveginn. Það er aldeilis að kettir launa manni ekki gott karma eða kannski er þetta bara uppeldið á dýrunum því ekki voru mínir kettir úti um nætur né að rölta inn um annara manna glugga til að skemma.
Og við þá dýraeigendur sem ekki eru að sjá almennilega um dýrin sín hef ég bara þetta að segja ; Skammist ykkar!

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Áður en ég fór að sofa í gærkvöldi ákvað ég að lesa pínu og leit ekki upp úr bókinni fyrr en um þrjúleytið og lagðist þá á mitt græna. Snáðinn okkar hefur verið að gera okkur grikk undanfarnar nætur með að vera að glaðvakna um fjögurleytið og taka voðalega illa í það að við hlýðum ekki kalli um leik og gaman. Nema hvað, þegar Karl vaknaði í morgun og áttaði sig á því að við vorum ekkert að fara að hlýða honum frekar en fyrri nætur fór hann að hágráta. Þar sem við höfum verið vakna við hann um miðjar nætur ákváðum við að snúa okkur bara á hina hliðina og hunsa hann, slæmir foreldrar, já, ég veit. Enda fékk ég svakalegt samviskubit þegar hann var búinn að gráta í nokkrar mínútur og ég leit á klukkuna... Hún var að ganga níu. Hann hafði sofið alla nóttina í nótt og náði því að gera okkur enn einn grikkinn.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Við fórum í Krónuna í dag og keyptum í matinn, sem væri ekki frásögu færandi nema fyrir það að ég stóðst freistingarnar í nammiganginum og keypti mér meira að segja hörfræ til að hressa upp á meltinguna. Já, nú skal tekið á honum stóra sínum og settur stóllinn fyrir dyrnar á óhollustunni. Fyrst fólk út um allan bæ er farið að spá hvaða tegund af bumbu ég er með ákvað ég að losa mig bara við hana. Annars líður mér mjög vel með þennan belg minn því hef ég fengið að heyra það líka að ég líti bara svakalega vel út og það sjáist á mér hversu hamingjusöm ég er.
En á leiðinni heim úr Krónunni var ég að hugsa um pylsur með öllu og hvernig Pétur frændi sagði alltaf þegar hann var snáði að hann vildi pulsu með öllu nema sementi. Akkurat þá keyrðum við fram á Álverssvæðið og ég spurði Jónsa: "Ætli þeir í Bechtel séu að gera sitt eigið sinnep?" Auðvitað meinti ég sement.
Þegar heim kom greip um okkur hreingerningaræði og var ryksugan munduð. Að sjálfsögðu létu stelpurnar sig hverfa um leið. Allt í einu mundu þær að þær höfðu lofað krökkunum í hverfinu að leika og það þurfti að smíða eldflaug og allt. En Sesselja og Karl voru eitthvað að setja sig í startholurnar með að taka þátt í átakinu. Sesselja settist á ryksuguna og lét hana blása hárið meðan Karl gekk um alla stofuna með moppu á hausnum.

laugardagur, júlí 16, 2005

Ég hef lúmskt gaman af því að heyra sögurnar sem ganga á milli bæjarbúa og þó aðallega ef sögurnar eru að einhverju leyti um mig eða mína nánustu. Og þar sem mér barst til eyrna ein slík er ég knúin til að leiðrétta þann misskilning sem upp hefur komið í bænum vegna bumbunnar minnar... Ég er ekki ólétt heldur er þetta púra spik vegna seinustu meðgöngu og reykleysis. Eftir að ég átti Karl hef ég ekki hreyft mig meir en brýnasta nauðsyn ber til og eftir að ég hætti að reykja hef ég fundið hversu gott bragð er af eiginlega öllum mat. Mér hefur alltaf fundist matur góður en ég er ekki að grínast með það að eftir að ég hætti að reykja er þetta himnesk og heilög stund þegar ég tygg það sem ég sting upp í mig. Og þar sem ég er nautnaseggur af lífi og sál þá gerist það oft. Ég hinsvegar er þannig gerð genalega að þetta safnast bara fyrir á maganum á mér og ef þið trúið mér ekki þá getið þið horft til ömmu minnar elskulegrar, hún hefur verið eins og Þ í mörg ár án þess þó að vera með barn undir belti. Ekki leiðum að líkjast svosum.
Semsagt : ég er ekki ólétt heldur bara feit.

föstudagur, júlí 15, 2005

Ég hef alltaf vitað að það er bara meira vesin ef maður gerir hlutina sjálfur. Ég asnaðist til að fara að slá garðinn sjálf og sólbrann fyrir vikið. Eftir að hafa hamast í garðinum í heilan dag smitaðist ég af einhverri útisýki og ákvað að taka rababarabeðið mitt í gegn (í fyrsta skiptið síðan ég flutti í kotið) og það var svo illa haldið af illgresi að ég varð að taka það í tveimur hollum og taka upp rababarann til að ná í rassgatið á öllu þessu bölvaða illþýði.
Fyrra hollið af uppskerunni er komið í hús og mallar nú í þessum skrifuðu orðum tvö og hálft kíló af rababara og fimmtánhundruð grömm af sykri í potti og ætlast ég til að þetta verði að sultu en ég á alveg ábyggilega ekki nógu margar krukkur undir þetta og klukkan orðin of margt til að fara að hringja út um allan bæ eftir þeim. En ég er einungis hálfnuð í þessum ófögnuði úti í beði og á þar með helmingi meir af rababara en það sem er inni í eldhúsi (sultan er bara smá partur af því sem ég tíndi upp í dag).
En þar sem ég hef ekki verið illa haldin af húsmóðurgeninu vantar mig uppskriftir af öllu sem inniheldur rababara. Ég er að gera sultu og úr henni verður gerð Hjónabandssæla auk þess að vera slett á disk og brauð annað slagið. Ég hef sankað að mér uppskrift af ostaköku og rababarapæi og grátbið ég um aðstoð... Ef þið lumið á einhverju sniðugu til að nýta uppskeruna endilega látið mig vita.
En ég vissi að ég átti ekkert að fara að gera þetta sjálf því ég sá að ég þarf að taka helling af illgresi undan Rifsberjarunnanum mínum líka. Sem sagt meira vesin en ef ég hefði fengið karlmenni til verksins í upphafi því þeir taka aldrei eftir neinu svona.

sunnudagur, júlí 10, 2005

Það verður gaman að heyra sögurnar af mér á næstunni því ég skellti mér á djammið í gær. Í fyrsta skiptið sem ég fer ein út að skemmta mér síðan Jet Black Joe hélt kombakkballið á Egilstöðum 2003.
Mér var boðið í náttfatapartý sem ég var engan veginn að nenna að fara í, enda var þar samansafn af útjöskuðum húsmæðrum, lausgirtum gellum og óviðbjargandi geðsjúklingum. Já, svona tala ég um vini mína og ég passa ofboðslega vel inn í þennan hóp vonleysingja. En allavega, maðurinn minn henti mér út svo ég varð að mæta og ég hef ekki skemmt mér svona vel síðan sautjánhundruðogsúrkál ef ekki er lengra síðan. Ég tók þátt í Singstar í fyrsta skiptið og rúllaði yfir keppinautana. Ég náði 7320 stigum eftir 3 lög en mér finnst eins og tölvan hafi haldið með Þórunni...það var alveg sama hvaða lag hún söng, hún fékk ekki undir 8000. Svo brunuðum við inn á Topp til að taka þátt í karíokí. En þar var ekkert karíokí heldur bara dískótek. Það tók sig upp gamall Knellufílingur og ég dansaði eins og ég ætti lífið að leysa. Það var svo yndislega gaman að ég tók nokkra magadansa fyrir Hörpu vinkonu, henni til mikillar gleði. Og svo rokkaði ég við Meatloaf og söng hástöfum. Ég þori að veðja að ég hafi dansað af mér 5 kíló í minnsta lagi. Sumir höfðu á orði að ég hefði örugglega ekki skemmt mér svona vel síðan ég hélt upp á 5 ára afmælið hjá stóru stelpunum mínum. Það sorglega er að það er satt þó svo það hafi verið gaman í öllum afmælum sem ég hef haldið. Og svo ég minnist nú aðeins á það að minn heittelskaði á afmæli á morgun og verður 31 árs og það verður eitthvað gott með kaffinu og það verður að sjálfsögðu brjálað stuð þar til við förum bara tvö í bústað yfir nóttina.

En svona til að hafa allt á hreinu fyrir ykkur sem súpa hveljur við þessar fréttir þá er ég ekki dottin í það og er ennþá hætt að reykja sem þýðir að ég drakk ekkert áfengi og reykti bara óbeint í gær. Ég kom heim rétt rúmlega 2 og ég skemmti mér æðislega vel. Og þar með er opinberri tilkynningaskyldu minni lokið.

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Mér finnst margar kirkjur fallegar en þessi er eins og hún hafi skellt sér í sparifötin sín. Og mér finnst nafnið á henni enn fínna : Stóra-Áskirkja.
Og bara svona til að sýna ykkur fleira skemmtilegt sem hægt er að finna á vefnum er þessi leikur hér. Bráðskemmtileg heilaleikfimi en það er bannað að svindla eins og ég gerði. Þetta mun taka á þolinmæðinni og útsjónarseminni, sem mig skortir bæði...