Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Við fórum í Krónuna í dag og keyptum í matinn, sem væri ekki frásögu færandi nema fyrir það að ég stóðst freistingarnar í nammiganginum og keypti mér meira að segja hörfræ til að hressa upp á meltinguna. Já, nú skal tekið á honum stóra sínum og settur stóllinn fyrir dyrnar á óhollustunni. Fyrst fólk út um allan bæ er farið að spá hvaða tegund af bumbu ég er með ákvað ég að losa mig bara við hana. Annars líður mér mjög vel með þennan belg minn því hef ég fengið að heyra það líka að ég líti bara svakalega vel út og það sjáist á mér hversu hamingjusöm ég er.
En á leiðinni heim úr Krónunni var ég að hugsa um pylsur með öllu og hvernig Pétur frændi sagði alltaf þegar hann var snáði að hann vildi pulsu með öllu nema sementi. Akkurat þá keyrðum við fram á Álverssvæðið og ég spurði Jónsa: "Ætli þeir í Bechtel séu að gera sitt eigið sinnep?" Auðvitað meinti ég sement.
Þegar heim kom greip um okkur hreingerningaræði og var ryksugan munduð. Að sjálfsögðu létu stelpurnar sig hverfa um leið. Allt í einu mundu þær að þær höfðu lofað krökkunum í hverfinu að leika og það þurfti að smíða eldflaug og allt. En Sesselja og Karl voru eitthvað að setja sig í startholurnar með að taka þátt í átakinu. Sesselja settist á ryksuguna og lét hana blása hárið meðan Karl gekk um alla stofuna með moppu á hausnum.