Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, október 31, 2006

Af hverju efast ég alltaf um hlutina þegar ég hef fengið loforð um að Guð muni vel fyrir sjá???

laugardagur, október 28, 2006

Lífið er aldrei átakalaust... Eða sko ekki hjá mér alla veganna. Ég er búin að vera edrú núna í 4 ár og 8 mánuði og á þessum tíma hefur hvert áfallið á fætur öðru dunið á mér eins og brotsjór en ég alltaf staðið upprétt. Nú í gær fékk ég seinast enn einn brotsjóinn og ég sé ekki hvernig eða hvort ég geti gert nokkuð í stöðunni til að bæta hlutina. Og þar sem ég er nú ekki þekkt fyrir annað en að krota stóra og mikla skratta á veggina var þetta nú bara alveg til þess að ég lagðist í rúmið og undir sæng.
Þó lífið hafi ekki verið mér auðvelt eftir að af mér rann hef ég samt sem áður eignast allt sem hjartað mitt þráði, ég á yndislegan mann og fjögur heilbrigð og yndisleg börn (þó þau séu öll langbest þegar þau sofa), góða og trausta vini og ég er þokkalega heilsuhraust oftast nær og regla hefur komist á hjá mér. Ég hef náð að skjóta rótum sem er gott fyrir mig... Og enn komumst við að sömu niðurstöðu: Ekkert af þessu ætti ég í dag nema fyrir það að ég er edrú.
Ég á það bara svolítið til að gleyma því...

föstudagur, október 27, 2006

Ég verð nú að vera sammála Ellu frænku með að það hafi verið betra að kötturinn át músina um daginn heldur en að fá hana inn... Ég nefnilega fór út að reykja í gærkvöldi og sá þá tvær mýs hlaupa meðfram húsveggnum hjá okkur. Mig langar ekki í svona gæludýr.
Hann Jónsi minn er voðalega klár, eins og þið vitið en hann er að læra að vera kennari. Sem þýðir að það eru námsbækur eins og hráviði um allt tölvuherbergi, sem við þurftum að læsa fyrir handóðum gemlingum, nokkrar þeirra eru opnar eins og til að minna hann á að lesa það sem þar stendur. Allavega fór ég að skoða eina opna bók hérna inni og annað hvort er ég ekki eins klár og ég hélt eða þetta er einhver kúrs í rugli...
"Ég veit að þú heldur að þú skiljir það sem þú heldur að ég hafi sagt, en ég er ekki viss um að þú gerir þér grein fyrir því að það sem þú skildir er ekki það sem ég átti við."

mánudagur, október 16, 2006

Ég ætla að vera Fýlu-strumpur núna... Mér leiðist hor. Mér leiðist hnerri. Mér leiðist læknar. Mér leiðist þrálát eyrnasýking í börnum. Mér leiðist sýklalyf. Mér leiðist læknakostnaður. Mér leiðist lyfseðlar. Mér leiðiðst lyfjaverð. Mér leiðist áhyggjur. Mér leiðist röfl...

fimmtudagur, október 12, 2006

Það er stundum alveg ótrúlegt hvað fólk reynir að hafa skynsemi fyrir mér...

laugardagur, október 07, 2006

Í nótt átti ég erfitt með svefn og var á fótum langt fram eftir nóttu, ég veit alveg að ég má ekki leyfa mér þetta. Nema hvað að í nótt sótti að mér þorsti þannig að ég gekk að eldhúsvaskinum og lét renna úr kaldavatnskrananum í stórt glas. Þegar ég bar glasið að vörum mér sá ég hreyfingu í garðinum. Það var köttur sem hljóp hringinn í kringum "jólatréð" okkar. Fyrst réttsælis og svo rangsælis. Skottið slóst til og mig minnir að hafa lesið það einhversstaðar að það væri merki um pirring hjá köttum. Mér er nú ekki vel við ketti og það kom upp sú hugsun að trufla hann og hræða í burtu en svo fór ég að fylgjast með. Hann var að elta eitthvað sem faldi sig undir trénu. Ég hef örugglega fylgst með kettinum pirra sig á að komast ekki undir tréð til að ná í það sem hann var að elta í rúman hálftíma áður en ég sá hvað það var sem orsakaði þennan pirring. Það var mús... Pínulítil og saklaus mús sem ákvað að hlaupa undan trénu en kötturinn náði henni. En í staðinn fyrir að éta hana strax ákvað hann að leika sér aðeins að henni og það þótti mér ljótur leikur því það var greinilegt að músin kvaldist meir og meir. Þrótturinn að hlaupa undan varð alltaf minni og minni þar til að hún gafst upp og þá smjattaði kattarófétið á henni með hléum. Ég vonaði að músin stæði í honum.
Það er alltaf eitthvað að bloggernum þegar ég hef ætlað að blogga undanfarna daga... Pælingarnar sem ég var með voru bara snilld en ég man ekkert hvernig þær voru þannig að við misstum öll af því að lesa um það.

þriðjudagur, október 03, 2006

Ég er heima með Sesselju lasna í dag...Hún má fara út í fyrsta lagi á morgun. Ég hélt að henni myndi nú leiðast með múttu sinni einni en það var nú aldeilis ekki svo. Hún er búin að vera í dúkkuleik í allan dag og syngjandi jólalög. Hún bað mig um að koma í dúkkuleik með sér í morgun og þegar ég sagðist ekki hafa áhuga þá minntist hún þess þegar við vorum í Barbie í gamla húsinu okkar og dillaði dúkkunum freistandi fyrir framan mig.
Ég setti inn nýja færslu á barnasíðuna okkar enda verð ég að vera duglegri með það. Það eru svo margir sem vilja fylgjast með.