Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

laugardagur, október 07, 2006

Í nótt átti ég erfitt með svefn og var á fótum langt fram eftir nóttu, ég veit alveg að ég má ekki leyfa mér þetta. Nema hvað að í nótt sótti að mér þorsti þannig að ég gekk að eldhúsvaskinum og lét renna úr kaldavatnskrananum í stórt glas. Þegar ég bar glasið að vörum mér sá ég hreyfingu í garðinum. Það var köttur sem hljóp hringinn í kringum "jólatréð" okkar. Fyrst réttsælis og svo rangsælis. Skottið slóst til og mig minnir að hafa lesið það einhversstaðar að það væri merki um pirring hjá köttum. Mér er nú ekki vel við ketti og það kom upp sú hugsun að trufla hann og hræða í burtu en svo fór ég að fylgjast með. Hann var að elta eitthvað sem faldi sig undir trénu. Ég hef örugglega fylgst með kettinum pirra sig á að komast ekki undir tréð til að ná í það sem hann var að elta í rúman hálftíma áður en ég sá hvað það var sem orsakaði þennan pirring. Það var mús... Pínulítil og saklaus mús sem ákvað að hlaupa undan trénu en kötturinn náði henni. En í staðinn fyrir að éta hana strax ákvað hann að leika sér aðeins að henni og það þótti mér ljótur leikur því það var greinilegt að músin kvaldist meir og meir. Þrótturinn að hlaupa undan varð alltaf minni og minni þar til að hún gafst upp og þá smjattaði kattarófétið á henni með hléum. Ég vonaði að músin stæði í honum.