Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

miðvikudagur, september 29, 2004

Ég verð bara að láta ykkur vita að ég rakst á æðislega síðu á netinu sem hjálpar svona einhverfum húsmæðrum eins og mér. Ég gjörsamlega sogaðist inn og las allt á síðunni. Svei mér þá ef ég hlakka bara ekki til að koma heim þó það sé allt í drasli þar.

mánudagur, september 27, 2004

Skipulagið í dag var að fara með Karl til barnalæknisins og rjúka svo af stað norður í Mývatnssveit. Barnalæknirinn kemur hingað austur með x mánaða millibili og dagurinn í dag er sá dagur sem hann heiðrar Eskfirðinga með nærveru sinni. En hann þurfti að skjótast eitthvert og getur því ekki tekið á móti okkur fyrr en um hálf sex í kvöld. Og af þeim sökum fer þá allt skipulag hjá mér í rugl auk þess sem dagurinn fer í það eitt að bíða. Það er samt ekkert að Karli, við erum bara að fara með hann í tékk og láta athuga með öndunarfærin (mér finnst hann standa svo oft á öndinni og súpa hveljur). Og eins og glöggir lesendur sjá þá fer það nett í taugarnar á mér að hæstvirtur barnalæknirinn (hvort á að segja læknirinn eða lækninn?) ákvað að láta Eskfirðinga bíða þar til eftir fjögur til að ná tali af honum. Erum við ekki nógu góð fyrir hann? Er þetta virðinging sem borin er fyrir okkur landsbyggðarpakkinu?
Alla vega þá er ég á leiðinni norður í kvöld með fjögur börn í bíl. Við ætlum að vera í einhverja daga og ég ætla að plata mömmu og Halla til að taka slátur og upplifa smá "gömludagatilfinningu". Og svo ætla ég að fá að fara aðeins út á vatn og í göngutúra og svolleis. Ég þarf að komast í þann gírinn því ég er hætt að reykja, hætti daginn áður en Karl fæddist, og ég geri ekkert annað en éta og éta. Ég ét allt sem tönn á festir, og helst ef það er sykur eða súkkulaði í því. Það er í rauninni mjög gott að hætta að reykja þegar þú ert með barn á brjósti því þá fitnar maður ekki. Barnið étur allt upp. En ég er semsagt búin að vera hætt núna í 4 vikur og 2 daga. Ég er voða stolt af sjálfri mér að geta þetta án þess að það bitni á fjölskyldumeðlimum því ég er ekkert meira pirruð en venjulega.

laugardagur, september 25, 2004

Ég varð svolítið svekkt um daginn þegar ég heyrði að það væri búið að selja gamla prestshúsið. Mig hefur langað í þetta hús í mörg ár og var næstum því búin að sannfæra manninn minn um að fara að skoða og kaupa það.

(Myndin er fengin að láni frá Helga Garðars)

Ég geri mér alveg grein fyrir í hvaða ástandi húsið er, þetta er gamalt hús sem ekkert hefur verið gert fyrir í mörg ár. Hriplekur og allar lagnir handónýtar. En það er það sem heillar mest, eins hversu stórt og virðulegt það er. Ég var búin að sjá fyrir mér hvernig húsið myndi líta út eftir viðgerðirnar. Mig langaði til að gera það upp í upprunalegri mynd og allt. Hafa einungis eina stóra íbúð í húsinu og þar sem það er svo hátt til lofts sá ég fyrir mér stóra kverkalista í loftinu og rósettur og dúllerí. En ég var ekki nógu fljót að sannfæra kallinn og stökkva til. Ég reyni bara að sætta mig við það að húsið er nú í eigu aðila sem mun að öllum líkindum skemma það með því að innrétta það sem vinnubúðir fyrir útlenda smiði. Reyni að réttlæta þennan silahátt í mér með því að þetta hefði verið of dýrt dæmi fyrir okkur og við hefðum aldrei haft efni á þessu. En ég er samt svekkt...hundsvekkt.

fimmtudagur, september 23, 2004

Ég var búin að gleyma hversu mikill tími fer í svona smábörn.
Sesselja er komin á þann aldur að hún reddar sér mest sjálf á milli matartíma, hún er svo dugleg að leika sér og þó ég sé mamma hennar finnst mér hún bara duglegri en flest börn á hennar aldri. Það þarf voðalega lítið að hafa fyrir henni og ef hún fær mömmukast (að vilja bara vera innan 3ja metra radíus við mig) er hún bara að hjálpa mér og spjalla.
Tvíburarnir eru orðnar of miklar gellur til að nenna að hanga með mér eða yfir mér. Þær eru of uppteknar af skólafélögum og grallaraskap að ég sé þær varla á milli matartíma og ef ég er svo heppin að sjá þær þá eru þær búnar að fylla húsið af 6-8ára krökkum og ég komin í að smyrja ofan í liðið.
Karl er auðvitað algjört krútt og alveg yndislegur, maður getur í rauninni ekki kvartað undan honum. Hann sefur eiginlega allan sólarhringinn, fyrir utan þegar hann drekkur og fær kveisu. Kveisan er ekki alvarleg, stendur í mesta lagi yfir í 2-3 tíma kannski einu sinni á sólahring. Ég er með hann á brjósti og vippa því túttunum út á 3-4 tíma fresti til að næra hann. En honum er farið að liggja svo á að stækka að ég næ varla að safna í bobbingana áður en hann er orðinn svangur aftur. Og svo þarf náttúrulega að baða hann og slíkt en allar athafnir fara gjörsamlega eftir hans skipulagi sem breytist stöðugt. Þannig að litli prinsinn hefur farið í bað seint að kvöldi og snemma að morgni. Verið klæddur úr náttgallanum eftir hádegið og látinn sofa í sokkabuxunum heila nótt.
Nú, þeir sem mig þekkja vita tilhneigingu mína til einhverfu á skipulagi og reglu. Ef eitthvað fer ekki alveg eftir mínu skipulagi eða eitthvað ruglar í reglunni hjá mér fer ég í hnút. Ég geri mér grein fyrir að skipulagshæfni mín og þráhyggja að halda skipulaginu er á jaðri geðheilsubrúninni en það stoppar mig ekki. Það er bara eitthvað við það að fá einhvern í heimsókn, sama hver er, og sjá viðbrögð fólks þegar það þarf að stikla yfir óhreinan þvott, útiföt og skó bara til að komast inn í stofu til mín. Til þess eins að færa til hreina tauið svo þau geta sest í sófann hjá mér til þess að sitja í rykskýinu sem þyrlast upp. Bara til þess að segja mér að börnin mín eru einhverstaðar úti í óhreinum fötum, með horið niður á höku, betlandi mat af sárasaklausum gamalmennum. Það er bara eitthvað við það sem ég kann ekki alveg við. Mig langar ekkert til að enda þannig, mér finnst betra að vera einhverf.

laugardagur, september 18, 2004Nú finn ég alvarlega fyrir því hversu tækniheft ég er og er ekkert að fíla það. Hér er ég með þessa fínu fínu myndavél sem er full af góðum myndum sem mig langar til að deila með ykkur og svo er ég í þessari svaðalega fínu tölvu með geðveika virka adsl-ið og stend á gati. Hvernig setur maður myndirnar inn beint úr vélinni?
Mér finnst svo flott hjá Beddu að setja inn myndir af því þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast hjá henni og mig langar svolítið til að herma eftir því. Ekki að það sé alltaf brjálað stuð og standandi partý hjá okkur alla daga en sumum finnst við lifa spennandi og fullnægjandi lífi og þessir sumir vilja fylgjast með og þá væri gott að geta brugðið upp myndum af umræddum atburðum. Mér finnst ég ekkert hljóma bitur...

fimmtudagur, september 16, 2004

Það er komið netsamband við Hólsveginn!!
Ég veit samt ekki alveg hvar ég á að byrja, kunnugt vandamál þegar það líður svona langt á milli skrifanna. En jú, ég hef bætt við mig nýju barni. Það var fullkominn drengur, 16 merkur og 54 cm. Það tók ekki langan tíma hjá mér að kreista hann út þá loksins er komið var að því. Hann var búinn að stríða okkur nokkrum sinnum en þegar á hólminn var komið tók þetta ekki nema tæpa 3 tíma. Stelpurnar voru orðnar svolítið pirraðar á þessu spítalaveseni á okkur því við komum aldrei til baka með nýtt barn. En hamingjan varð áþreifanleg hjá þeim þegar þær komu að skoða litla bróður, þá skipti engu máli að strákar eru leiðinlegir. Ég fór ?heim? daginn eftir og þá var Jónsi byrjaður í skólanum, það var svolítið erfið vika. Ég gat ekki hleypt stelpunum út og þær voru orðnar hættulegar hvor annari, pirringurinn var orðinn svolítið mikill hjá þeim. Stressið hjá mér stigmagnaðist alla vikuna og ég missti næstum mjólkina, sem varð til þess að ég varð ennþá stressaðri. Við skírðum prinsinn á laugardeginum, 4. september, hann ber nafnið Karl Jóhann en þann dag náði stressið hámarki hjá mér. Sem braust út í taugaveiklunarhlátri þegar drengurinn prumpaði undir blessunarorðum prestsins. Í veislunni sjálfri var varla hægt að halda uppi samræðum við mig því ég var annars hugar, ekki veit ég um hvað ég var að hugsa. En svo um kvöldið hrundi ég niður og grét alla nóttina en ég skrifa það á hormónana og spennufallið yfir að vera búin að skíra. Því það vita þeir sem mig þekkja að ég græt ekki. Aldrei.
Við stelpurnar vorum síðan guðslifandi fegnar þegar við loksins komum heim til Eskifjarðar, okkur finnst ekki jafn gaman í Reykjavík og Jónsa. Og við höfum verið að reyna að koma okkur í gömlu rútínuna aftur með tilliti til yngsta fjölskyldumeðlimsins. Annars hef ég voða lítið orðið vör við tvíburana nema þegar þær koma heim til að borða og skila skólatöskunum. Sesselja flúði í sveitina og er að hjálpa til við slátrið en er væntanleg heim á morgun.
Þannig lítur upprifjun síðustu vikna út og þar sem netsambandið er komið hjá okkur mun ég nú vera duglegri við bloggerí og slíkt.