Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

fimmtudagur, september 23, 2004

Ég var búin að gleyma hversu mikill tími fer í svona smábörn.
Sesselja er komin á þann aldur að hún reddar sér mest sjálf á milli matartíma, hún er svo dugleg að leika sér og þó ég sé mamma hennar finnst mér hún bara duglegri en flest börn á hennar aldri. Það þarf voðalega lítið að hafa fyrir henni og ef hún fær mömmukast (að vilja bara vera innan 3ja metra radíus við mig) er hún bara að hjálpa mér og spjalla.
Tvíburarnir eru orðnar of miklar gellur til að nenna að hanga með mér eða yfir mér. Þær eru of uppteknar af skólafélögum og grallaraskap að ég sé þær varla á milli matartíma og ef ég er svo heppin að sjá þær þá eru þær búnar að fylla húsið af 6-8ára krökkum og ég komin í að smyrja ofan í liðið.
Karl er auðvitað algjört krútt og alveg yndislegur, maður getur í rauninni ekki kvartað undan honum. Hann sefur eiginlega allan sólarhringinn, fyrir utan þegar hann drekkur og fær kveisu. Kveisan er ekki alvarleg, stendur í mesta lagi yfir í 2-3 tíma kannski einu sinni á sólahring. Ég er með hann á brjósti og vippa því túttunum út á 3-4 tíma fresti til að næra hann. En honum er farið að liggja svo á að stækka að ég næ varla að safna í bobbingana áður en hann er orðinn svangur aftur. Og svo þarf náttúrulega að baða hann og slíkt en allar athafnir fara gjörsamlega eftir hans skipulagi sem breytist stöðugt. Þannig að litli prinsinn hefur farið í bað seint að kvöldi og snemma að morgni. Verið klæddur úr náttgallanum eftir hádegið og látinn sofa í sokkabuxunum heila nótt.
Nú, þeir sem mig þekkja vita tilhneigingu mína til einhverfu á skipulagi og reglu. Ef eitthvað fer ekki alveg eftir mínu skipulagi eða eitthvað ruglar í reglunni hjá mér fer ég í hnút. Ég geri mér grein fyrir að skipulagshæfni mín og þráhyggja að halda skipulaginu er á jaðri geðheilsubrúninni en það stoppar mig ekki. Það er bara eitthvað við það að fá einhvern í heimsókn, sama hver er, og sjá viðbrögð fólks þegar það þarf að stikla yfir óhreinan þvott, útiföt og skó bara til að komast inn í stofu til mín. Til þess eins að færa til hreina tauið svo þau geta sest í sófann hjá mér til þess að sitja í rykskýinu sem þyrlast upp. Bara til þess að segja mér að börnin mín eru einhverstaðar úti í óhreinum fötum, með horið niður á höku, betlandi mat af sárasaklausum gamalmennum. Það er bara eitthvað við það sem ég kann ekki alveg við. Mig langar ekkert til að enda þannig, mér finnst betra að vera einhverf.