Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, júní 27, 2004

Ég veit nú bara ekkert hvar ég á að byrja ef ég á að segja frá öllu sem hefur á daga mína drifið síðan ég skrifaði síðast. Ég er orðin svo rótgróin hérna heima að ég kann ekki á það þegar eitthvað mikið er í gangi.
Ég fór að þrífa eldhúsið hjá mér um daginn þrátt fyrir skipanir um að hafa hægt um mig. Ég hef samt afsökun sem mér finnst réttlæta þetta kast sem ég fékk á eldhúsinu...Ég er komin með ógeð á að hanga bara og gera ekki neitt. En ég fór af stað með tusku og hreinsilög, reif niður gluggatjöldin og þreif efri helming eldhússins. Þegar ég var að fara að byrja á neðri helmingnum fann ég verk í mjóbakinu sem leiddi fram í bumbu og ákvað því að geyma það þar til daginn eftir. Ég varð að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég var búin að keyra mig út þann daginn og hvíldi mig það sem eftir var dags. Verkurinn ágerðist samt og daginn eftir ákvað ég að í staðinn fyrir að klára eldhúsið skyldi ég fara að hitta ljósmóðurina og sagði henni að ég væri með verki. Þar sem hún hafði ekki allar staðreyndir á hreinu tengdi hún þetta grindarlosinu og sendi mig heim. Nú var verkurinn farinn að koma í bylgjum...á 5mínútna fresti. Þar sem ég hef gengið í gegn um tvær meðgöngur áður hefði ég náttúrulega átt að þekkja þessa verki en ég taldi sjálfri mér trú um að þetta væri ekki neitt. Svo tók maðurinn minn eftir að það var eitthvað að og bað mig um að hringja í lækninn, stóð síðan yfir mér meðan ég talaði við hann til að ég segði satt og rétt frá. Ég á það nefnilega til að draga úr einkennum þegar ég tala við aðra um þau, sérstaklega ef það er fólk úr heilbrigðisgeiranum. Hann spurði mig hversu langt væri á milli verkja og bað mig að taka tímann á þeim í tvo tíma og hringja svo aftur. Sem ég og gerði...og endaði á sjúkrahúsinu á Neskaupstað í mónitor um klukkan átta um kvöldið. Rétt fyrir miðnætti var mér síðan skellt upp í sjúkraflugvél og send suður á Landspítalann. Ég var síðan sett á Meðgöngudeildina og þurfti að húka þar í nokkra daga meðan þetta var allt að jafna sig. Og ég fékk 3 gesti meðan ég lá þarna...ÞRJÁ!! Þannig að nú veit ég hverjir vinir mínir eru. En sem betur fer gekk þetta vel og allt stoppaði og gekk til baka því ég var ekki nema 28 vikur rúmar gengin með og það er alltof snemmt að gjóta barninu þá. Maðurinn minn var hjá mér eiginlega allan tímann meðan ég lá þarna og fylgdist mikið með hvað læknarnir sögðu. Ég er nú komin heim núna en hann fylgist vel með því að ég geri eins og læknarnir sögðu því ég fékk að fara heim með loforði um að gera ekki neitt næstu vikurnar. EKKI NEITT. Hann fékk meira að segja tengdó sem barnapíu í viku, ekki til að passa börnin heldur til að passa að ég geri ekki neitt. Það virkar svosum ágætlega, ég hef ekki mikið verið á fartinni en ég er samt að verða brjáluð á að hanga svona. Og ekki þori ég að gera neitt meðan hún er hér, ekki svo að skilja að hún sé eitthvað skelfileg...hún mun bara segja Jónsa frá því og hann er nógu hræddur um mig fyrir.

þriðjudagur, júní 15, 2004

Ég hef ákveðið að auglýsa börnin mín aðeins með því að setja linka á þær hér við hliðina. En þar sem blessaða myndavélin sem ég hef fest kaup á er ekki alveg að skila sér á réttum tíma verð ég að stóla á aðra til að senda mér myndir af þeim sem ég get síðan sett á síðurnar hjá þeim. Þetta setur mig í smá hormónaójafnvægi þar sem allar myndir af þeim eru pikkfastar í tölvunni hjá afa og þolinmæði hefur aldrei verið mín sterka hlið. Einnig fer það pínu í taugarnar á mér að enginn vill aðstoða mig við að skreyta síðurnar þeirra nema ég borgi fyrir það! Það er fullt af hjálparsíðum inn á barnalandi svosum en það er ekki fyrir tæknifatlað fólk að skilja hvað um er verið að tala á þeim síðum. Þannig að ég verð að nota æðruleysisbænina nokkuð kröftulega í dag þar sem ekkert virðist ætla vera eins og ég vil hafa það. Ég vil ekki vera í fýlu því það er æðislega gott veður og grindin er bara með skásta móti í dag þannig að ég er farin út.

sunnudagur, júní 13, 2004

Þar sem ég hef stofnað heimasíður fyrir börnin mín hafa allir verið að biðja um myndir á síðurnar. Ég læt nú oftast undan slíkum þrýstingi mjög fljótt og rauk til afa, sem er svakalega tæknilega sinnaður og á stafræna vél + tölvu fulla af myndum af hele familien. Nema hvað heppnin hefur aldrei verið mér hliðholl þegar ég læt undan þrýstingi frá öðrum og það sannaðist þegar ég kom til afa, tölvan hans hrundi rétt áður en ég kom í heimsókn. Hann getur hvorki sent mér myndirnar né skellt þeim á netið úr tölvunni. En ég pældi mikið í þessu og hvernig ég gæti reddað þessu vandamáli. Það hefur lengi verið á planinu hjá okkur að fá okkur stafræna myndavél því við verðum alltaf jafn reið og vonsvikin þegar við sækjum venjulegu filmurnar úr framköllun, því það kostar hvítuna úr auganu þar sem lítil samkeppni er á svæðinu.
Ég komst að þeirri niðurstöðu að kaupa bara eitt stykki digitalvél á næsta tilboði sem bærist inn um lúguna. Ekki þurfti ég að bíða lengi eftir tilboðinu því daginn eftir kom blað frá BT. Og útsalan skyldi hefjast eigi síðar en föstudaginn 11. júní klukkan 11:00. Ég hringdi nokkur símtöl í bankann og í fólk sem á að ráða mér heilt og fékk leyfi til að fjárfesta í slíku sómatæki sem ég hafði fest augun á. Var ég mætt á Egilsstaði um hálf ellefu þennan ágæta föstudagsmorgun, galvösk og tilbúin í fjárútlátin. Þegar loksins verslunin opnaði var ég með fyrstu manneskjunum inn, fleiri höfðu gert sér vonir um að gera góð kaup á þessari útsölu og mætt hvaðanæva að af Austurlandi.
Ég veit ég þarf ekki að taka það fram að ég er þriggja barna móðir og á von á því fjórða innan skamms né heldur þarf ég að útskýra það fyrir ykkur að eigi er að því hlaupið að komast að heiman þegar aðstæður eru eins og hjá mér. Því ekki á ég auðvelt með að komast upp í farartæki fjölskyldunnar né að sitja í því lengri leiðir. Það er því ekki að undra að þegar mér var tilkynnt að hin umrædda og langþráða stafræna myndavél væri ekki til á svæðinu en væri væntanleg á næstu dögum voru vonbrigði mín og særindi slík að líkami minn skalf og nötraði af innbyrgðri reiði og hormónabrenglun. Ég hélt svakalega ræðu um hversu langt að ég væri komin og mér þætti það lélegt af þeim að auglýsa eitthvað sem ekki væri til. Ræðan var hvorki rökstudd né málefnaleg því ég lét þarna stjórnast algjörlega af tilfinningum mínum og varð að tappa af áður en ég missti vatnið af eintómum vonbrigðum. Aumingja afgreiðslumaðurinn stamaði því út úr sér, meðan hann horfði á mig með augljósri hræðslu um að ég myndi springa þá og þegar, að ég fengi hana bara senda heim að dyrum ef ég keypti hana núna. Ég gerði það svosum og borgaði vélina og reif af honum kvittunina og ábyrgðarskírteinið áður en ég stormaði út hálfkjökrandi yfir þessum djö... umboðum verslana á Austurlandi og helv... þjónustulund í vanhæfum andsk... starfsmönnum þeirra.
Ég hringdi suður á skrifstofu BT þegar ég var búin að jafna mig tiltölulega á þessu hormónakasti mínu til að bera fram málefnalegri kvörtun á þessu óréttlæti sem mér fannst ég vera beitt. Konugreyið sem tók við kvörtun minni hefur ekki liðið betur en mér þegar hún tók upp símtólið, því þegar ég var búin að útskýra fyrir henni hvert vandamálið væri í mínum augum spurði hún mig hvað málið væri eiginlega því ég hafði fengið auglýsta vöru á auglýstu verði og fengi þetta meira að segja sent heim að dyrum eftir nokkra daga....
Ég held að ég þurfi ekki að segja ykkur hvernig mín viðbrögð voru við þau orð!

fimmtudagur, júní 10, 2004

Það gerðist svolítið sniðugt áðan. Það kemur ekki oft fyrir þegar maður er orðinn svona gamall og ráðsettur eins og við hjónakornin erum að það komi einhver og hringi dyrabjöllunni eftir kvöldmat. Enda í hvert skiptið sem einhver villist að dyrunum okkar kippast allir í fjölskyldunni við og forvitnin ætlar allt um koll að keyra og ekki er óalgengt að meirihlutinn komi til dyra. Áðan var allavega dinglað hjá okkur og ég fór til dyra og þar stóðu nokkrar sætar unglingsstúlkur, rjóðar í kinnum og með glampa í augunum. "Hæ, við erum að skrá niður þátttöku í kvennahlaupið?"
Ég hélt nú að það hefði ekki farið fram hjá einum einasta manni í bænum að ég er farin að verða eins og "Þ" í laginu og skakklappast varla áfram í þokkabót. Ég leit á bumbuna mína og svaraði:"Jahá, ég lít alveg út fyrir að geta hlaupið þessa dagana..." Þær hlógu bara og þökkuðu fyrir sig um leið og þær gengu í burtu.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Ég fór á fund um daginn og þá var svolítið síðan ég fór síðast. Ég finn fyrir því í dag hvað ég hafði gott af því. Ég gerði mér nefnilega grein fyrir því að hlutirnir gætu verið verri en þeir eru og þetta ástand á mér er bara tímabundið. Þannig að ég hef tekið ákvörðun um að hætta að kvarta og kveina...í bili.
Karlinn fór að vinna í morgun og var eitthvað að vesenast með körlunum á Egs fram á kvöld. Við dúllurnar sváfum til níu og þegar Sesselja var farin á leikskólann hjálpuðu tvíburarnir mér að taka aðeins til. Verðlaunin voru sundferð seinnipartinn. Ég gat ekki annað en brosað þegar við vorum í sturtunni og vorum að klæða okkur í sundfötin...Það munaði ekki miklu að ég kæmist ekki í sundbolinn minn. En það hafðist að lokum og við vorum í rúman klukkutíma að busla. Vandamálið sem virtist ekki vera neitt vandamál varð svakalegt þegar kom að því að fara úr sundbolnum því ég var ekki að ná honum niður fyrir bumbuna. Stelpurnar stungu upp á því að ég biði bara eftir því að hann þornaði og færi í honum innan undir fötin. Það var hlegið mikið og ég held að þær hafi ekki verið að hlæja með mér...

sunnudagur, júní 06, 2004

Þar sem ég hef ekkert að gera næstu vikurnar og hef ekkert haft að gera undanfarnar vikur hef ég ákveðið að stofna heimasíður fyrir börnin mín. En þar sem ég var bara að taka þessa ákvörðun rétt áðan eru þær ekki tilbúnar fyrir almúgann eins og er. Ég þarf líka að verða mér úti um myndir og bakgrunn og slíkt pjattdót...svo kann ég ekki almennilega á þetta dót því ég er pínu tækniheft. En þegar að því kemur mun ég láta vita.
En fyrst ég hef nú haft á orði að ég hafi ekkert haft að gera eða sé ekki fram á að hafa neitt að gera finnst mér ég hafa leyfi til að röfla aðeins yfir því fyrst ég er að blogga hvort eð er. Ég má ekki ryksuga eða skúra eða lyfta neinu eða príla neitt og þess vegna langar mig alveg óstjórnlega til að fara að taka til hendinni í þessu blessaða húsi mínu. Þar sem ég sé ekki fram á neinar stórframkvæmdir á næstunni fékk ég þá flugu í kollinn að lappa pínu upp á hreysið svona til að auðvelda mér biðina eftir milljónunum sem Guð ætlar að gefa mér til að byggja húsið almennilega upp seinna meir. Ef ég mála yfir sprungurnar í veggjunum þá hætti ég að sjá þær og ef ég pússa bara yfir hæðirnar í gólfunum þá get ég gengið á jafnsléttu heima hjá mér. Semsagt ef ég lappa bara upp á pleisið með málningu og spartli auk þess að pússa pínu til þá ætti það að duga þar til við getum farið að gera almennilega við húsið og gert það að kastalanum sem mér hæfir að búa í. En það kostar aðeins meiri pening en við eigum akkúrat núna og það er svona samningur í gangi sem ég er viss um að Guð hafi gert við mig. "Hulda mín, sýndu þolinmæði og æðruleysi í x langann tíma og ég mun verðlauna þér með hamingju, góðri heilsu og miklum auðæfum þegar fram líða stundir. Þinn tími mun koma ef þú aðeins sýnir mér auðmýkt." Ég þori allavega að veðja að það var hann sem sagði það við mig. Og ég svaraði bara;"Ókey, en ekki láta mig þá bíða jafn lengi og aumingja Jóhönnu." Hann blikkaði mig og smellti í góm þannig að ég er að sætta mig við það sem ég hef í dag; hormónaköst yfir öllu mögulegu sem lítilli hamingju fylgir, góðri heilsu fyrir utan geðheilsu og hreyfigetu og nógan pening til að ná endum saman og ekki krónu meir en það. En hey, ég er þó að vinna í því sem mér ber samkvæmt þessum samning. Hversu lengi hefur Jóhanna beðið?