Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, júní 13, 2004

Þar sem ég hef stofnað heimasíður fyrir börnin mín hafa allir verið að biðja um myndir á síðurnar. Ég læt nú oftast undan slíkum þrýstingi mjög fljótt og rauk til afa, sem er svakalega tæknilega sinnaður og á stafræna vél + tölvu fulla af myndum af hele familien. Nema hvað heppnin hefur aldrei verið mér hliðholl þegar ég læt undan þrýstingi frá öðrum og það sannaðist þegar ég kom til afa, tölvan hans hrundi rétt áður en ég kom í heimsókn. Hann getur hvorki sent mér myndirnar né skellt þeim á netið úr tölvunni. En ég pældi mikið í þessu og hvernig ég gæti reddað þessu vandamáli. Það hefur lengi verið á planinu hjá okkur að fá okkur stafræna myndavél því við verðum alltaf jafn reið og vonsvikin þegar við sækjum venjulegu filmurnar úr framköllun, því það kostar hvítuna úr auganu þar sem lítil samkeppni er á svæðinu.
Ég komst að þeirri niðurstöðu að kaupa bara eitt stykki digitalvél á næsta tilboði sem bærist inn um lúguna. Ekki þurfti ég að bíða lengi eftir tilboðinu því daginn eftir kom blað frá BT. Og útsalan skyldi hefjast eigi síðar en föstudaginn 11. júní klukkan 11:00. Ég hringdi nokkur símtöl í bankann og í fólk sem á að ráða mér heilt og fékk leyfi til að fjárfesta í slíku sómatæki sem ég hafði fest augun á. Var ég mætt á Egilsstaði um hálf ellefu þennan ágæta föstudagsmorgun, galvösk og tilbúin í fjárútlátin. Þegar loksins verslunin opnaði var ég með fyrstu manneskjunum inn, fleiri höfðu gert sér vonir um að gera góð kaup á þessari útsölu og mætt hvaðanæva að af Austurlandi.
Ég veit ég þarf ekki að taka það fram að ég er þriggja barna móðir og á von á því fjórða innan skamms né heldur þarf ég að útskýra það fyrir ykkur að eigi er að því hlaupið að komast að heiman þegar aðstæður eru eins og hjá mér. Því ekki á ég auðvelt með að komast upp í farartæki fjölskyldunnar né að sitja í því lengri leiðir. Það er því ekki að undra að þegar mér var tilkynnt að hin umrædda og langþráða stafræna myndavél væri ekki til á svæðinu en væri væntanleg á næstu dögum voru vonbrigði mín og særindi slík að líkami minn skalf og nötraði af innbyrgðri reiði og hormónabrenglun. Ég hélt svakalega ræðu um hversu langt að ég væri komin og mér þætti það lélegt af þeim að auglýsa eitthvað sem ekki væri til. Ræðan var hvorki rökstudd né málefnaleg því ég lét þarna stjórnast algjörlega af tilfinningum mínum og varð að tappa af áður en ég missti vatnið af eintómum vonbrigðum. Aumingja afgreiðslumaðurinn stamaði því út úr sér, meðan hann horfði á mig með augljósri hræðslu um að ég myndi springa þá og þegar, að ég fengi hana bara senda heim að dyrum ef ég keypti hana núna. Ég gerði það svosum og borgaði vélina og reif af honum kvittunina og ábyrgðarskírteinið áður en ég stormaði út hálfkjökrandi yfir þessum djö... umboðum verslana á Austurlandi og helv... þjónustulund í vanhæfum andsk... starfsmönnum þeirra.
Ég hringdi suður á skrifstofu BT þegar ég var búin að jafna mig tiltölulega á þessu hormónakasti mínu til að bera fram málefnalegri kvörtun á þessu óréttlæti sem mér fannst ég vera beitt. Konugreyið sem tók við kvörtun minni hefur ekki liðið betur en mér þegar hún tók upp símtólið, því þegar ég var búin að útskýra fyrir henni hvert vandamálið væri í mínum augum spurði hún mig hvað málið væri eiginlega því ég hafði fengið auglýsta vöru á auglýstu verði og fengi þetta meira að segja sent heim að dyrum eftir nokkra daga....
Ég held að ég þurfi ekki að segja ykkur hvernig mín viðbrögð voru við þau orð!