Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, júní 08, 2004

Ég fór á fund um daginn og þá var svolítið síðan ég fór síðast. Ég finn fyrir því í dag hvað ég hafði gott af því. Ég gerði mér nefnilega grein fyrir því að hlutirnir gætu verið verri en þeir eru og þetta ástand á mér er bara tímabundið. Þannig að ég hef tekið ákvörðun um að hætta að kvarta og kveina...í bili.
Karlinn fór að vinna í morgun og var eitthvað að vesenast með körlunum á Egs fram á kvöld. Við dúllurnar sváfum til níu og þegar Sesselja var farin á leikskólann hjálpuðu tvíburarnir mér að taka aðeins til. Verðlaunin voru sundferð seinnipartinn. Ég gat ekki annað en brosað þegar við vorum í sturtunni og vorum að klæða okkur í sundfötin...Það munaði ekki miklu að ég kæmist ekki í sundbolinn minn. En það hafðist að lokum og við vorum í rúman klukkutíma að busla. Vandamálið sem virtist ekki vera neitt vandamál varð svakalegt þegar kom að því að fara úr sundbolnum því ég var ekki að ná honum niður fyrir bumbuna. Stelpurnar stungu upp á því að ég biði bara eftir því að hann þornaði og færi í honum innan undir fötin. Það var hlegið mikið og ég held að þær hafi ekki verið að hlæja með mér...