Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, apríl 25, 2004

Mér finnst ég alltaf eitthvað vera að röfla en ég verð aðeins að nöldra hérna yfir einu sem mér finnst algert svindl. Ég þekki margar konur sem á sinni fyrstu meðgöngu bættu við sig nokkrum kílóum sem síðan neituðu að fara þegar fæðingin og brjóstagjöfin voru yfirstaðin. Þær konur komust síðan upp með það á næstu meðgöngu að fela meðgönguna fram að 30. viku þar sem engin bumba kom í ljós vegna felubúningsins. Ég hef aldrei getað sagt að ég sé feit eða búttuð og ef ég fæ ekki reglulega að éta lít ég út fyrir að vera með anorexiu því öll bein standa út. Þegar ég svo varð ólétt í fyrsta skiptið sá ekki almennilega á mér fyrr en ég var vel hálfnuð og þá var eins og ég hafði etið handbolta, sem að lokum varð að körfubolta. Í annað skiptið sem ég varð ófrísk leit ég út eins og barn frá Bíafra, grindhoruð með uppblásinn maga. Og það frá 12. viku. Núna þegar ég varð þunguð í þriðja sinn sást á mér daginn eftir getnað og hefur allur bærinn verið meðvitaður um að ég er ei kona einsömul síðan á Þorrablótinu. Ég er æ oftar spurð hvenær ég eigi að gjóta blessaða krílinu og alltaf fylgja svari mínu vonbrigðis/undrunar/hneykslunar viðbrögð. Það sér meira á mér núna, rétt rúmlega hálfnaðri, en mörgum búttuðu konunum sem ég þekki eftir að þær voru komnar með krakkann á leikskólann og komnar á Herbalife því ég bý ekki yfir þessum felubúningi og lít út fyrir að hafa gleypt uppblásna barnið frá Bíafra.

Það er ekkert gaman að líta út fyrir að vera eins gráðugur og maður er.
Ég hef verið að röfla upp á síðkastið að mig langi til að breyta einhverju eða helst öllu í kringum mig. Einnig auglýsti ég eftir einhverjum sem nennti að aðstoða mig við að breyta síðunni minni en þolinmæðin brast og ég fór að fikta sjálf. Eins og sjá má er ég komin með mæli sem sýnir hversu langt ég er gengin og hversu langt er eftir og þó ég segi sjálf frá finnst mér þetta svakalega krúttilegt og smart. Og ég ætla að leyfa mér að verða alveg agalega væmin og stelpuleg því ég er ólétt og ég á þessa síðu, og það eru eflaust margir sem segja að það sé kominn tími til að ég verði svolítið kvenleg. Mig langar að breyta meira t.d. fá annan lit í bakgrunninn eða eitthvað, kannski ég eigi sjálf eftir að gefa mér tíma í að finna út úr því en þó verð ég að segja að tæknikunnátta er ekki mín sterkasta hlið. But bare with me here...

föstudagur, apríl 23, 2004

Þið sjáið kannski að ég hef tekið til í rugludallahlekkjunum og breytt einhverju. Ég auglýsi hér með eftir einhverjum sem nennir að aðstoða mig við frekari breytingar.
Sú var tíðin að ég beið eftir föstudögunum. Nú hafa þessir dagar aðeins þá merkingu að ég get eytt meiri tíma með börnunum mínum. Við erum búin að taka út hjólin og höfum leyft þeim aðeins að spreyta sig á þeim. Tvíburarnir eru duglegar að hjóla og víla ekki fyrir sér að hjóla bæinn endilangan. Sem mætti teljast stórafrek þegar tekið er tillit til að þær varla nenna að ganga í skólann sem er næstum því í næsta húsi. Þær báðu um að hjálparadekkin væru tekin af því þær eru orðnar, að eigin mati, allt of stórar fyrir svoleiðis barnadót. Það þurfti talsvert að sannfæra mig um að þær höndluðu það en ég gaf eftir að lokum og þær gerðu sér lítið fyrir og hjóluðu eins og þær hefðu aldrei gert neitt annað. Svo heyrði ég það utan af mér að þær væru glannar á hjólunum og færu ekki eftir umferðareglunum. Það þýddi að ég röflaði lengi um að ef þær færu ekki eftir þeim yrðu hjólin tekin, ég held að þeim finnist ég ekkert skemmtileg. En allavega er að koma enn ein helgin, sú fyrsta á þessu sumri, og ég er að gæla við þá hugmynd að fara í sund upp á Egilsstöðum á morgun. Þar er útisundlaug og rennibraut og ég held að það verði bara gaman. Ég var með svokallað broskallakerfi á þeim og verðlaunin voru sund og sjoppa á laugardögum og ég sakna þess svolítið að síðan kerfið datt niður að við erum hætt að fara svona um helgar. Þær eru nú svo yndislegar að kerfið er ekki nauðsynlegt lengur en ég er nú mamma þeirra og mér finnst minn fugl fagur og neita því ekkert. Ef ég ætti stafræna vél þá væri ég með albúm hérna á síðunni og þið mynduð sjá að ég er ekkert að ýkja þegar ég segi að ungarnir mínir eru krútt.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Gleðilegt sumar!
Ég myndi skella upp myndum og borðum á síðuna af því tilefni að það er komið sumar en tæknikunnáttan er því miður af skornum skammti. Og er síðan mín ekki það eina sem mig langar til að hressa upp á þessa dagana. Ég er alltaf veik í að breyta bæta eða hressa upp á eitthvað um þetta leyti á hverju ári. Samt vil ég ekki segja að ég sé vormanneskja...Ég er frekar svona jólatýpa því þá er orkan til staðar og þeir hlutir framkvæmdir sem mig langar til að séu framkvæmdir. En það hefur verið að bögga mig upp á síðkastið að breyta eða bæta húsið og garðinn og allt en ekki til peningur eða orka í neinar aðgerðir. Mér leiðist orku- og peningaleysi.

sunnudagur, apríl 04, 2004

Ég er alein í kotinu. Ég fékk þá snilldarhugmynd að senda manninn í burtu með börnin á föstudaginn meðan ég myndi ná að hvíla mig pínulítið. Því eins og hefur komið fram er ég ólétt og það er farið að taka á, svo vægt sé til orða tekið. Ég er að vinna og þó ég hafi mikla ánægju af því sem ég geri í vinnunni er margt af því sem ég má bara ekki vera að gera. T.d. að halda á krílunum eða þungum hlutum, en ég geri það hvort eð er hérna heima þannig að ég nenni ekki að vera að vorkenna mér og hanga heima. Ég sé ekki að grindargliðnunin lagist á sófanum hér heima né að bakið lagist á skúringunum hér þannig að ég stefni á að vinna fram á sumarið.

En þessi snilldarhugmynd mín er nú aldeilis að snúast í höndunum á mér. Húsið er alveg skínandi hreint eftir að mamma kom í heimsókn og "hjálpaði" mér að þrífa. Það er ekki einu sinni fatapjatla á röngum stað. Ég er búin að leggja mig fimm sinnum síðan þau fóru þannig að ég er úthvíld og mér er farið að leiðast. Ég get verið í tölvunni eins og mig lystir, horft á það sem mig langar til án þess að ég sé trufluð, sofið út seinustu tvo morgna og lagt mig þegar ég hef ekkert annað að gera án þess að þurfa að taka tillit til barna eða manns. Og Guði sé lof að það sé mánudagur á morgun því annars myndi ég fara taka upp á einhverri vitleysu eins og rífa allt úr eldhúsinu og mála eða eitthvað álíka mikið rugl. Ég ráðlegg engri móður að taka svona ákvörðun án ítarlegrar umhugsunar.

fimmtudagur, apríl 01, 2004

Heilhveitis skattavesen...
Ég kláraði skattaskýrsluna mína um daginn og hef svosum ekkert að segja um hana sem slíka því netframtalið er eiginlega idiot-proof. Maður þarf bara að athuga hvort allt stemmi ekki við þessa blessaða bleðla sem allir taka upp á að senda manni upp úr áramótum. En ég sé það alltaf sem heljarflikki af ljóni í veginum að byrja á framtalinu mínu þrátt fyrir það. En....maður borgar næstum því hvítuna úr augunum á sér um hver mánaðarmót án þess að fá svo mikið sem eitt lítið "takk". OG Í HVAÐ FER SÁ PENINGUR? Matarboð fyrir kínverska forsetann, risnureikning fyrir Samfylkinguna og eitthvað álíka mikið rugl. Ég myndi sætta mig við þetta ef ég fengi símtal tvisvar á ári frá Dabba þar sem hann myndi ausa yfir mig þakklæti sínu og útskýra fyrir mér í hvað þessir skitnu aurar mínir færu í...Eða kannski ekki. Ætli ég myndi bara ekki byrja að froðufella og garga á hann að mér finnist þetta allsherjarsvindl.

Ég komst að því í dag að skattkortið mitt hefur ekki skilað sér frá síðasta vinnuveitanda og því hefur verið tekinn fullur skattur af mér síðan ég byrjaði að vinna á leikskólanum. Það er ekki eins og ég hafi það háar tekjur að ég finni ekkert fyrir því þegar heilu tugþúsundin hverfa bara. Og ég verð ekkert afskaplega hrifin af því þegar ég kemst að því að það hafi ekkert verið að hlusta á mig (frekar en fyrri daginn) þegar ég bað fyrrverandi yfirmann minn að senda mér skattkortið fyrir um 2 mánuðum síðan. Var engin ástæða fyrir því að ég hætti þar eða?

En sem betur fer bý ég á yndislegum stað og alltaf hægt að redda svona smámálum. Mér var bara ráðlagt á skrifstofunni að gera hitt og þetta og afganginum yrði reddað fyrir morgundaginn þannig að allir reikningar séu greiddir á réttum tíma. Því ef það er eitthvað sem stressar mig upp þá eru það ógreiddir reikningar sem safna vöxtum. Þannig að allt er gott sem endar vel.