Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, apríl 04, 2004

Ég er alein í kotinu. Ég fékk þá snilldarhugmynd að senda manninn í burtu með börnin á föstudaginn meðan ég myndi ná að hvíla mig pínulítið. Því eins og hefur komið fram er ég ólétt og það er farið að taka á, svo vægt sé til orða tekið. Ég er að vinna og þó ég hafi mikla ánægju af því sem ég geri í vinnunni er margt af því sem ég má bara ekki vera að gera. T.d. að halda á krílunum eða þungum hlutum, en ég geri það hvort eð er hérna heima þannig að ég nenni ekki að vera að vorkenna mér og hanga heima. Ég sé ekki að grindargliðnunin lagist á sófanum hér heima né að bakið lagist á skúringunum hér þannig að ég stefni á að vinna fram á sumarið.

En þessi snilldarhugmynd mín er nú aldeilis að snúast í höndunum á mér. Húsið er alveg skínandi hreint eftir að mamma kom í heimsókn og "hjálpaði" mér að þrífa. Það er ekki einu sinni fatapjatla á röngum stað. Ég er búin að leggja mig fimm sinnum síðan þau fóru þannig að ég er úthvíld og mér er farið að leiðast. Ég get verið í tölvunni eins og mig lystir, horft á það sem mig langar til án þess að ég sé trufluð, sofið út seinustu tvo morgna og lagt mig þegar ég hef ekkert annað að gera án þess að þurfa að taka tillit til barna eða manns. Og Guði sé lof að það sé mánudagur á morgun því annars myndi ég fara taka upp á einhverri vitleysu eins og rífa allt úr eldhúsinu og mála eða eitthvað álíka mikið rugl. Ég ráðlegg engri móður að taka svona ákvörðun án ítarlegrar umhugsunar.