Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, mars 30, 2004

Ég fór að skoða bloggið mitt undanfarnar vikur og áttaði mig á því að lífið mitt er með eindæmum einhæft. Ef ekki er talað um þrif eða annarsskonar heimilishald þá er talað um þakklætið yfir að vera edrú. Svakalega spennandi semsagt.

Þrátt fyrir afar forvitnilegan fréttaflutning af lífinu hér á austfjörðum rýkur teljarinn minn upp úr öllu valdi, eða svo gott sem. Ef ég kann að telja rétt þá eru um 50 manns að lesa á hverjum degi. Og ekki bara hver sem er því mér hefur borist tölvupóstur og símtal frá blaðamanni Séð&Heyrt, hvorki meira né minna. Hafa skrif mín hér virst vera bæði fréttnæm og uppbyggjandi í augum téðs blaðamanns. Ég geri mér grein fyrir að til að hafa samband við mig þarf talsverðan vilja og útsjónarsemi þar sem ég er ekki með skráðan heimasíma né er ég í raun skráð á það heimili sem það símanúmer er virkt. Þannig að ég viðurkenni hæfnina til rannsóknarblaðamennsku hjá þeirri manneskju sem við á hér.

Ég skil svosem alveg hvað blaðamanninum hjá S&H gekk til, það eru ekki margir sem ná sér upp úr eins miklu rugli og ég var í. Og að skrifa um það er bara til uppbyggingar þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í edrúmennsku. Einnig eru ekki margir sem finna sátt í að þrífa og halda heimili einhversstaðar lengst út í rassgati. En ég er ekki að sjá hvað S&H gæti skrifað um mig eða mína reynslu í tveimur dálkum með milljón myndum. Sérstaklega þar sem ég myndast eins og Chandler í Vinum, andlitið á mér festist í grettu um leið og myndavél er nálægt. And not in a funny way...

sunnudagur, mars 28, 2004

Ég sem hef verið að kvarta undan orkuleysi síðustu daga ákvað að sparka mig í rassinn í morgun og hefjast handa við að henda út skít. Galdurinn er að bara byrja.

Ég byrjaði í forstofunni þar sem ég hélt að mesta draslið væri og var í heila tvo klukkutíma að skrúbba og skúra (að vísu skúraði ég ekki, né ryksugaði, Jónsi gerði það). Svo tók ég baðherbergið, ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að baðkarið hafi verið loðið að innan eða klósettið loðið að utan, en það var ekki mjög langt frá því. Á meðan ég var að þessu skipaði ég karlinum fram og til baka með sína tusku, ryksugu og skúringarmoppuna. Hann tók því bara nokkuð vel og ég áttaði mig á því að þó ekki sé lengra en eitt og hálft ár frá því að við byrjuðum saman, þá er drengurinn assgoti vel upp alinn hjá mér. Ég þurfti ekki oft að reka hann af stað aftur með tuskuna þar sem hann gleymdi eiginlega engum stöðum. Þetta tókst mér (og Jónsa) án þess að skipuleggja eða planleggja með neinum fyrirvara. Ekki er samt allt húsið hreint ennþá, þ.e. kjallarinn og búrið eru eftir. Og ef ég fæ vítamínsprautu í rassinn hjá Hannesi lækni þá er aldrei að vita nema ég taki bílskúrinn í gegn líka.

Sú yngsta hefur verið hás alla helgina, en hitalaus og því ákvað ég að leyfa henni að vera úti í dag með barnapíunni. Þegar hún kom inn aftur var allur heimurinn á móti henni og hún röflaði og kvartaði og kveinaði. Við hlustuðum ekkert á þetta nöldur heldur héldum áfram að þrífa og þegar leið að kveldmat skelltum við súpu á hlóðirnar. Þá tók ég eftir að hún er komin með hita... Ég er samt að spá að mæta með hana á leikskólann í fyrramálið því hitinn er alltaf hærri á kvöldin og hún er hvort eð er ekki með nema um 38 tæpar. Og ef ég þekki dóttur mína rétt þá nennir hún ekki að hanga með mér á morgun þar sem ekkert er eftir að gera nema að hanga. Þá á hún eftir að hrista þetta af sér, bara til að komast eitthvert út. Ég hallast að því að stundum finnist henni ég leiðinleg.

Verkefnið fyrir tvíburana þegar þær komu heim var að taka til í herberginu sínu, með gráti og gnístran tanna var farið upp og eftir smástund var farið að leika, löngu búið að gleyma ömurlega verkefninu. Þannig að þær munu þurfa að taka til fyrir kvöldmat á morgun. Og þrífa veggina, því þær hafa krotað og skrifað upp um alla veggi og á hurðina og reynt að kenna Sesselju um. En það komst upp um þær ráðagerðir þar sem sú stutta kann ekki að skrifa, né heldur gera litla hringi í þeirri hæð sem sönnunargögnin liggja.

Ég get ekki kvartað undan orkuleysi í dag, því mér tókst næstum að klára allt sem ég ætlaði að gera. Nú vantar mig bara iðnaðarmann, húsasmið nánar tiltekið, til að koma og samþykkja allar breytingar sem ég vil koma á í sambandi við húsið. Það er tvennt í stöðunni; að kaupa hús sem er nógu stórt og nógu aðlaðandi fyrir mig til að kaupa, eða stækka og breyta þessu húsi þannig að við komumst öll fyrir. Og straxveikin gagntekur mig... Hvernig ætli mér gangi að sofna í kvöld?

föstudagur, mars 26, 2004

Það var haldin vorskemmtun hjá skólanum í gær og flykktust allflestir bæjarbúar í félagsheimilið til að fylgjast með afkvæmum stíga á svið. Það hefur verið hefð að fyrstubekkingar kynni sig og fjölskyldumeðlimi sína og segi frá framtíðaráformum sínum.

Þar sem ég á nú tvö börn í fyrsta bekk var ég að sjálfsögðu mætt á svæðið með nettan kvíðahnút í maganum og vott af tilhlökkun að sjá hvernig afkvæmum mínum reiddi af á sviði. Ég hef heyrt til þeirra undanfarna daga vera að æfa sig inni í herberginu sínu og skiptast á að vera "leikstjóri" meðan hin stóð í rúminu og fór með sína rullu og var ég því búin að heyra þeirra línur aftur og aftur. Meðan önnur stóð í rúminu og talaði kom alltaf uppbyggjandi gagnrýni frá "leikstjóranum". Að standa bein og tala skýrt, muna að hneigja sig fallega og brosa. Ég hef haft lúmskt gaman af þessum leik minnug þess er ég sjálf var að stíga á þetta sama svið í hinum ýmsustu hlutverkum, sem voru oftast ekki nema ein lína ef það náði því.
Nema hvað, tjöldin drógust frá og mátti líta á alla fyrstubekkinga í fallegri stafrófsröð. Það stóðu sig allir rosalega vel, ég ætla ekki að fara gagnrýna 6 ára börn fyrir að ruglast á því hvort það var pabbi eða mamma sem heitir Anna. Mér á annan bóginn fannst þetta afskaplega sætt og þau öll voða sæt og prúð. Hverjum þykir sinn fugl fagur og ég er engin undantekning þar. Mér fannst mínar stelpur vera sætastar og skýrmælastar og dúllulegastar og allt.
En mér fannst alveg rosalega leiðinlegt að vera ekki með stafrænu myndavélina sem ég á eftir að kaupa og videovélina sem ég mun ekki hafa efni á að kaupa. Það er eitthvað tilboð hjá Kodak og býður stafræna vél á 1 krónu en það hlýtur að vera eitthvað gruggugt við það tilboð. Og ekki liggur 30 þúsundkall á lausu á þessu heimili til að kaupa góða vél og því vil ég segja, án þess að kvarta, að mér finnst svindl að geta ekki beðið um aðra fermingargjöf frá fjölskyldunni. Ég sé ekkert að því að rukka þá um góða gjöf núna sem gáfu mér ekki neitt þá. Það hljóta að vera vanskilavextir á því eins og öðru.
En sem betur fer var Helgi Garðars á svæðinu og ég er viss um að hann tók einhverjar myndir af þessum viðburði. Ef þið farið inn á síðuna hans þá eru fullt af myndum af börnunum mínum þar og það verður að duga í bili...Ef fjölskyldan skyldi bugast af samviskubiti vegna lélegra fermingargjafa á sínum tíma er aldrei að vita hvað fylgir páskaegginu mínu í ár.

sunnudagur, mars 21, 2004

Síðustu tólf dagar hafa ekki verið auðveldir fyrir mig. Ég fékk sorglegar fréttir á miðvikudaginn 10.mars, barnsfaðir minn er látinn. Það eru mjög blendnar tilfinningar sem bærast innra með mér. Léttir hans vegna því nú þarf hann ekki að berjast lengur við Bakkus og tregi yfir að hafa aldrei náð að klára okkar mál. Við vorum samferða um undirheima Reykjavíkur um langt skeið og hann var minn nánasti vinur í gegnum mín erfiðustu ár. Við gerðum heiðarlega tilraun til að skapa okkur heimili eftir að tvíburarnir komu undir. Það tókst með ágætum um tíma en svo náði Bakkus taki á honum á ný. Við vorum alltaf sammála um að börnin myndu ekki þurfa að upplifa skelfingar neyslunnar og því fór hann út af heimilinu. Hann reyndi nokkrum sinnum að koma aftur en þar sem hann var svo fastur í neti neyslunnar vissum við að það gengi ekki barnanna vegna.
Við skildum ekki sátt og það var margt sem ég vildi óska að hefði farið öðruvísi en það fór. Hann kynntist tvíburunum eilítið en þeirri yngstu kynntist hann aldrei. Hann mun aldrei geta séð hversu góður Guð var með að gefa okkur þessar perlur. Geta aldrei séð hversu lík honum önnur tvíburanna er með sitt uppbretta nef og pínulitlu eyru. Eða heyrt hversu yndislega falskar þær eru þegar þær hefja upp raust sína með græjunum.
Á sínum tíma hafði ég ekki um annað að velja en að fara í burt til að ná fótfestu í lífinu sjálf. Ég vildi bara að honum hefði hlotnast það einnig, kannski er hann loksins núna búinn að eignast sína sátt og sinn frið. Það er bara sárt að hann skuli hafa þurft að deyja til þess að verða frjáls.
Þau glymja í kollinum á mér orðin hans þegar ég var að efast um hæfni mína í móðurhlutverkinu; "Ég hefði ekki getað fundið betri konu til að verða móðir barnanna minna." Mér þótti vænt um þessi orð þegar þau voru töluð en núna eru þau með mínum kærustu minningum um manninn sem gaf mér það sem ég elska mest.

mánudagur, mars 15, 2004

Stundum verð ég alveg gífurlega þakklát Guði mínum að hafa hjálpað mér að hætta ruglinu á sínum tíma. Þó var ég búin að finna minn botn nokkrum sinnum áður en mér loksins tókst að snúa blaðinu við. Það sem ég á í dag var svo fjarlægur draumur fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Ég veit ekki hvort þið virkilega vitið hvað það er gott að leggjast í sitt eigið rúm, hreinn og saddur. Eða hversu yndislegt þar er að vakna og muna eftir gærdeginum. Eða finna fyrir því hversu vænt manni getur þótt um aðra manneskju.

Ég er ekkert að segja að þetta sé bara einhver dans á rósum hjá mér og ég vakni á hverjum degi gjörsamlega að springa úr hamingju. En sama hversu illa mér líður þá minni ég sjálfa mig á að þetta er ekki nálægt þeirri vanlíðan sem ég upplifði í neyslunni. Ég geri mér grein fyrir því að þó það hafi gerst að manni leið skítsæmilega á stundum og skemmti sér bara nokkuð vel þá er það ekki nema lítill partur af þeim tíma sem ég var í neyslu. Það var bara gaman allra fyrst. En svo náðu góðu stundirnar jafnvel ekki einu sinni heilli viku á ári samanlagt. Ég get ekki gleymt niðurtúrunum eða hungrinu þegar maður var búinn með allan aurinn, hvar maður lagðist niður til að sofa þegar maður gat ekki meira, hversu langt maður var tilbúinn að ganga til að redda sér næsta skammti.

En í dag er ég bara 3ja barna móðir með karl og hús og bíl en engan hund og bý lengst úti í rassgati. Ég er meira að segja bara sátt við það hvað það gerist sjaldan eitthvað spennandi hér í afdölum siðmenningarinnar. Því ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að ég á í fullu fangi með þetta hlutverk sem ég hef ákveðið fyrir mig. Og það er að sinna móðurhlutverkinu eins vel og ég get og reyna að finna hamingjuna í hverjum degi fyrir sig. Það hefur virkað hingað til, framar öllum vonum, og því sé ég enga ástæðu til að ögra þeirri stöðu sem ég er í með meiri streitu eða spennu.

Eða er ég bara orðin gömul og lúin?

sunnudagur, mars 07, 2004

Helgin hjá mér hefur verið með afburðum notaleg. Ég fór snemma á fætur og pakkaði okkur niður á mettíma og skipulagði að brottför yrði á slaginu 3 og eigi seinna en það. Ég fékk að fara snemma úr vinnunni, skipaði fjölskyldumeðlimum til og frá og svo var brunað norður í Mývatn.
Þar var tekið á móti okkur með veislumat alá mamma eins og venja er og ég át á mig gat. Furðulegt hvernig maturinn hennar mömmu er alltaf bestur. Meira að segja brauðið heima hjá mömmu er betra samt kaupir hún Bónusbrauð eins og ég. Hún gerði pizzu handa okkur á laugardagskvöldið og ég er með uppskriftina á hreinu, svona nokkurn veginn en ég get lofað því að botninn verður samt ekki eins góður og hjá henni. Og lyktin af þvottinum er betri hjá mömmu þó ég noti alveg sama þvottefni og mýkingarefni. Sængurnar heima hjá henni eru mýkri og hlýrri. Mér finnst þetta svindl.

þriðjudagur, mars 02, 2004

Það lítur allt út fyrir að þetta skammdegisþunglyndi sé á undanhaldi því ég er að fá alls konar hugmyndir um alla skapaða hluti. Mig langar að breyta húsinu mínu og mig langar að flísaleggja eldhúsið og baðið hjá vinkonu minni og innrétta bílskúrinn og...

Ég er með svo margar hugmyndir um breytingarnar á húsinu að ég get ekki alveg ákveðið hverju ég vil breyta eða hvar ég vil byrja. Leiðinlegasti kennari minn líkti stærðfræðinni við byggingu á húsi og að maður skyldi alltaf byrja á grunninum, semsagt kjallaranum. Mig langar að nýta hann betur, okkur vantar tvö herbergi handa tvíburunum. En vandamálið er að í miðjum kjallaranum er miðstöð hússins og þar af leiðandi fullt af rörum og leiðslum og rafmagni þar í kring. Og þar koma allar breytingar niður... sama hvað verður reynt að gera. Ef ég ætla að skella stiganum á þann stað sem mér finnst hann koma best út þá er miðstöðin fyrir. Og ef ég skelli líka niður baðherbergi þá er hitakúturinn fyrir, auk þess sem mig grunar að ef það verður gruflað í kjallaranum komi í ljós að við þyrftum að taka allt húsið í gegn. Það er líka lágt til lofts í kjallaranum þannig að ég þyrfti að hamast á múrbrjót í 12 eilífðir til að lækka gólfið um nokkra sentimetra og það kæmi örugglega í ljós að undir húsinu er risastórt, óbrjótanlegt grjót. Sem myndi þýða að ég þyrfti bara að gleyma öllum draumum mínum um stærra hús í þá áttina og kjallarinn yrði áfram bara þvottahús og geymsla og fylla upp í aftur.

En pælingin með að fá baðið niður er til að stækka eldhúsið. Við erum fimm stykki núna en verðum bráðlega SEX. Eins og er get ég ekki skipt um skoðun í eldhúsinu ef ofninn er opinn og við komum ekki fleirum fyrir við matarborðið. Og ég er ekki hrifin af þeirri hugmynd að hætta að kvarta og borða sjálf þegar hinir fjölskyldumeðlimirnir eru orðnir saddir og hættir að borða. Það myndi að vísu hafa þau jákvæðu áhrif að ég yrði ekki lengi að ná af mér fæðingarspikinu. Mér finnst frekar að við ættum að breyta því ég er þyngdar minnar virði í gulli.