Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

þriðjudagur, mars 02, 2004

Það lítur allt út fyrir að þetta skammdegisþunglyndi sé á undanhaldi því ég er að fá alls konar hugmyndir um alla skapaða hluti. Mig langar að breyta húsinu mínu og mig langar að flísaleggja eldhúsið og baðið hjá vinkonu minni og innrétta bílskúrinn og...

Ég er með svo margar hugmyndir um breytingarnar á húsinu að ég get ekki alveg ákveðið hverju ég vil breyta eða hvar ég vil byrja. Leiðinlegasti kennari minn líkti stærðfræðinni við byggingu á húsi og að maður skyldi alltaf byrja á grunninum, semsagt kjallaranum. Mig langar að nýta hann betur, okkur vantar tvö herbergi handa tvíburunum. En vandamálið er að í miðjum kjallaranum er miðstöð hússins og þar af leiðandi fullt af rörum og leiðslum og rafmagni þar í kring. Og þar koma allar breytingar niður... sama hvað verður reynt að gera. Ef ég ætla að skella stiganum á þann stað sem mér finnst hann koma best út þá er miðstöðin fyrir. Og ef ég skelli líka niður baðherbergi þá er hitakúturinn fyrir, auk þess sem mig grunar að ef það verður gruflað í kjallaranum komi í ljós að við þyrftum að taka allt húsið í gegn. Það er líka lágt til lofts í kjallaranum þannig að ég þyrfti að hamast á múrbrjót í 12 eilífðir til að lækka gólfið um nokkra sentimetra og það kæmi örugglega í ljós að undir húsinu er risastórt, óbrjótanlegt grjót. Sem myndi þýða að ég þyrfti bara að gleyma öllum draumum mínum um stærra hús í þá áttina og kjallarinn yrði áfram bara þvottahús og geymsla og fylla upp í aftur.

En pælingin með að fá baðið niður er til að stækka eldhúsið. Við erum fimm stykki núna en verðum bráðlega SEX. Eins og er get ég ekki skipt um skoðun í eldhúsinu ef ofninn er opinn og við komum ekki fleirum fyrir við matarborðið. Og ég er ekki hrifin af þeirri hugmynd að hætta að kvarta og borða sjálf þegar hinir fjölskyldumeðlimirnir eru orðnir saddir og hættir að borða. Það myndi að vísu hafa þau jákvæðu áhrif að ég yrði ekki lengi að ná af mér fæðingarspikinu. Mér finnst frekar að við ættum að breyta því ég er þyngdar minnar virði í gulli.