Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

föstudagur, mars 26, 2004

Það var haldin vorskemmtun hjá skólanum í gær og flykktust allflestir bæjarbúar í félagsheimilið til að fylgjast með afkvæmum stíga á svið. Það hefur verið hefð að fyrstubekkingar kynni sig og fjölskyldumeðlimi sína og segi frá framtíðaráformum sínum.

Þar sem ég á nú tvö börn í fyrsta bekk var ég að sjálfsögðu mætt á svæðið með nettan kvíðahnút í maganum og vott af tilhlökkun að sjá hvernig afkvæmum mínum reiddi af á sviði. Ég hef heyrt til þeirra undanfarna daga vera að æfa sig inni í herberginu sínu og skiptast á að vera "leikstjóri" meðan hin stóð í rúminu og fór með sína rullu og var ég því búin að heyra þeirra línur aftur og aftur. Meðan önnur stóð í rúminu og talaði kom alltaf uppbyggjandi gagnrýni frá "leikstjóranum". Að standa bein og tala skýrt, muna að hneigja sig fallega og brosa. Ég hef haft lúmskt gaman af þessum leik minnug þess er ég sjálf var að stíga á þetta sama svið í hinum ýmsustu hlutverkum, sem voru oftast ekki nema ein lína ef það náði því.
Nema hvað, tjöldin drógust frá og mátti líta á alla fyrstubekkinga í fallegri stafrófsröð. Það stóðu sig allir rosalega vel, ég ætla ekki að fara gagnrýna 6 ára börn fyrir að ruglast á því hvort það var pabbi eða mamma sem heitir Anna. Mér á annan bóginn fannst þetta afskaplega sætt og þau öll voða sæt og prúð. Hverjum þykir sinn fugl fagur og ég er engin undantekning þar. Mér fannst mínar stelpur vera sætastar og skýrmælastar og dúllulegastar og allt.
En mér fannst alveg rosalega leiðinlegt að vera ekki með stafrænu myndavélina sem ég á eftir að kaupa og videovélina sem ég mun ekki hafa efni á að kaupa. Það er eitthvað tilboð hjá Kodak og býður stafræna vél á 1 krónu en það hlýtur að vera eitthvað gruggugt við það tilboð. Og ekki liggur 30 þúsundkall á lausu á þessu heimili til að kaupa góða vél og því vil ég segja, án þess að kvarta, að mér finnst svindl að geta ekki beðið um aðra fermingargjöf frá fjölskyldunni. Ég sé ekkert að því að rukka þá um góða gjöf núna sem gáfu mér ekki neitt þá. Það hljóta að vera vanskilavextir á því eins og öðru.
En sem betur fer var Helgi Garðars á svæðinu og ég er viss um að hann tók einhverjar myndir af þessum viðburði. Ef þið farið inn á síðuna hans þá eru fullt af myndum af börnunum mínum þar og það verður að duga í bili...Ef fjölskyldan skyldi bugast af samviskubiti vegna lélegra fermingargjafa á sínum tíma er aldrei að vita hvað fylgir páskaegginu mínu í ár.