Þrítug þreytt húsmóðir

Pælingar mínar meika lítinn sens fyrir þá sem eiga ekki börn...en þeir geta bara ekki látið það vera að reyna að skilja mig.


hjá mér

sunnudagur, mars 28, 2004

Ég sem hef verið að kvarta undan orkuleysi síðustu daga ákvað að sparka mig í rassinn í morgun og hefjast handa við að henda út skít. Galdurinn er að bara byrja.

Ég byrjaði í forstofunni þar sem ég hélt að mesta draslið væri og var í heila tvo klukkutíma að skrúbba og skúra (að vísu skúraði ég ekki, né ryksugaði, Jónsi gerði það). Svo tók ég baðherbergið, ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að baðkarið hafi verið loðið að innan eða klósettið loðið að utan, en það var ekki mjög langt frá því. Á meðan ég var að þessu skipaði ég karlinum fram og til baka með sína tusku, ryksugu og skúringarmoppuna. Hann tók því bara nokkuð vel og ég áttaði mig á því að þó ekki sé lengra en eitt og hálft ár frá því að við byrjuðum saman, þá er drengurinn assgoti vel upp alinn hjá mér. Ég þurfti ekki oft að reka hann af stað aftur með tuskuna þar sem hann gleymdi eiginlega engum stöðum. Þetta tókst mér (og Jónsa) án þess að skipuleggja eða planleggja með neinum fyrirvara. Ekki er samt allt húsið hreint ennþá, þ.e. kjallarinn og búrið eru eftir. Og ef ég fæ vítamínsprautu í rassinn hjá Hannesi lækni þá er aldrei að vita nema ég taki bílskúrinn í gegn líka.

Sú yngsta hefur verið hás alla helgina, en hitalaus og því ákvað ég að leyfa henni að vera úti í dag með barnapíunni. Þegar hún kom inn aftur var allur heimurinn á móti henni og hún röflaði og kvartaði og kveinaði. Við hlustuðum ekkert á þetta nöldur heldur héldum áfram að þrífa og þegar leið að kveldmat skelltum við súpu á hlóðirnar. Þá tók ég eftir að hún er komin með hita... Ég er samt að spá að mæta með hana á leikskólann í fyrramálið því hitinn er alltaf hærri á kvöldin og hún er hvort eð er ekki með nema um 38 tæpar. Og ef ég þekki dóttur mína rétt þá nennir hún ekki að hanga með mér á morgun þar sem ekkert er eftir að gera nema að hanga. Þá á hún eftir að hrista þetta af sér, bara til að komast eitthvert út. Ég hallast að því að stundum finnist henni ég leiðinleg.

Verkefnið fyrir tvíburana þegar þær komu heim var að taka til í herberginu sínu, með gráti og gnístran tanna var farið upp og eftir smástund var farið að leika, löngu búið að gleyma ömurlega verkefninu. Þannig að þær munu þurfa að taka til fyrir kvöldmat á morgun. Og þrífa veggina, því þær hafa krotað og skrifað upp um alla veggi og á hurðina og reynt að kenna Sesselju um. En það komst upp um þær ráðagerðir þar sem sú stutta kann ekki að skrifa, né heldur gera litla hringi í þeirri hæð sem sönnunargögnin liggja.

Ég get ekki kvartað undan orkuleysi í dag, því mér tókst næstum að klára allt sem ég ætlaði að gera. Nú vantar mig bara iðnaðarmann, húsasmið nánar tiltekið, til að koma og samþykkja allar breytingar sem ég vil koma á í sambandi við húsið. Það er tvennt í stöðunni; að kaupa hús sem er nógu stórt og nógu aðlaðandi fyrir mig til að kaupa, eða stækka og breyta þessu húsi þannig að við komumst öll fyrir. Og straxveikin gagntekur mig... Hvernig ætli mér gangi að sofna í kvöld?